Mál nr. 20/2011
Miðvikudaginn 25. maí 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 20/2011:
A
gegn
velferðarráði Reykjavíkurborgar
og kveðinn upp svohljóðandi
ÚRSKURÐUR :
Með bréfi, dags. 21. mars 2011, skaut A, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 15. mars 2011 um lán að fjárhæð 150.000 kr.
I. Málavextir.
Kærandi sótti þann 7. febrúar 2011 um styrk vegna sérstakra erfiðleika að fjárhæð 150.000 kr. Fjárhæðin er ætluð til kaupa á húsgögnum og húsbúnaði í félagslega íbúð kæranda að B. Í bréfi Þjónustumiðstöðvar C, dags. 10. febrúar 2011, var umsókn kæranda um styrk synjað með þeim rökum að hann uppfyllti ekki skilyrði reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, en áður hafði félagsráðgjafi kæranda mælt með því að hann fengi þennan styrk. Kærandi skaut málinu til velferðarráðs Reykjavíkurborgar sem staðfesti ákvörðun starfsmannanna þann 15. mars 2011 með þeim rökum að eigi verði talið að aðstæður umsækjanda falli að skilyrðum þeim sem sett eru í 25. gr. reglna um fjárhagsaðstoð varðandi aðstoð sem veitt er í formi styrks.
Kærandi er 75% öryrki og hann á átta börn en þrjú þeirra eru uppkomin. Hann flutti til Íslands frá D árið 2002. Þrjú barna hans eru búsett í D og er móðir þeirra krabbameinssjúklingur, og hafa veikindi hennar nýlega tekið sig upp. Kærandi býr í félagslegu leiguhúsnæði sem hann fékk úthlutað í júlí 2010, en hann telur sig þurfa innbú í íbúðina.
Meðal gagna málsins er læknisvottorð E, dagsett 16. febrúar 2011. Þar kemur fram að kærandi er með örorku vegna stoðkerfissjúkdóma, þunglyndis og alkóhólvanda. Hann hafi staðið sig að mestu í bindindi. Félagslegar aðstæður kæranda séu slæmar. Hann sé óvinnufær til almennrar vinnu. Fjárhagur hans sé mjög bágur og hann hafi áður þurft á félagslegri aðstoð að halda. Kærandi hafi nú fengið félagslega leiguíbúð en hann hafi ekki efni á að kaupa í hana húsgögn. Er þess óskað að hann fái styrk til húsgagnakaupa.
II. Málsástæður kæranda.
Af hálfu kæranda kemur fram að hann sé mjög ánægður með íbúðina sem hann hafi fengið, en hann eigi ekkert inn í hana. Hann kveðst hafa kynnt sér Góða hirðinn en hafi ekki litist á útlitið á húsgögnum þar. Þau séu ósamstæð og þarfnist viðgerðar.
Kærandi á átta börn og fimm barnabörn. Þrjú barna hans búi úti á landi og gangi þeim vel. Hann eigi þrjú börn í D á aldrinum 14–19 ára og vegni þeim einnig mjög vel. Þau börn segir hann að muni heimsækja hann í sumar. Loks eigi hann tvö börn í Reykjavík á aldrinum 5–7 ára en þau séu í fóstri vegna erfiðleika móður þeirra. Kærandi kveður það vera sína stefnu að vinna með Barnavernd Reykjavíkur varðandi þau börn til þess að fá að hafa þau eitthvað hjá sér, en vandinn sé að hann eigi ekkert inn í íbúðina. Kærandi telur að sig vanti ísskáp, þvottavél, húsgögn og ýmsan annan húsbúnað.
III. Sjónarmið velferðarráðs.
Velferðarsvið Reykjavíkurborgar vísar til reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg með áorðnum breytingum sem tóku gildi 1. janúar 2011 og voru samþykktar í velferðarráði Reykjavíkurborgar þann 17. nóvember 2010 og í borgarráði þann 25. nóvember 2010.
Í 25. gr. reglnanna sé vikið að fjárhagsaðstoð í formi láns. Þar komi fram að til þess að unnt sé að veita fjárhagsaðstoð í formi láns þurfi öll skilyrði 24. gr. reglnanna að vera uppfyllt sem og þau skilyrði er fram komi í 25. gr. Þau skilyrði er komi fram í 25. gr. séu:
„Skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð í formi láns er að fyrir liggi mat á endurgreiðslugetu umsækjanda. Aðeins skal veita lán þegar ljóst er að umsækjandi muni geta staðið í skilum með afborganir af því.
Eigi er heimilt að veita lán ef umsækjandi er með lán frá Reykjavíkurborg fyrir.
Hámark láns sem hægt er að samþykkja á þjónustumiðstöð er 300.000 kr. Hámarkslánstími sem hægt er að samþykkja á þjónustumiðstöð er sex ár. Umsóknum um hærra lán og lengri lánstíma skal vísa til velferðarráðs.
Skilyrði er að umsækjandi veit skriflegt samþykki fyrir reglulegri skuldfærslu fyrir afborgunum lánsins af reikningi sínum.
Að öllu jöfnu skal ekki veita umsækjanda lán, ef hann hefur fengið afskrifað lán frá Reykjavíkurborga á síðustu 12 mánuðum.
Gildistími umsóknar er tveir mánuðir frá samþykkisdegi.“
Í 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð komi fram að heimilt sé að veita einstaklingum, hjónum eða sambúðarfólki lán eða styrk vegna mikilla fjárhagslegra og félagslegra erfiðleika, að uppfylltum öllum neðangreindum skilyrðum:
- umsækjandi hafi fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum undanfarna sex mánuði eða lengur,
- staðfest sé að umsækjandi hafi ekki aðgang að lánafyrirgreiðslu banka, sparisjóða eða annarra lánastofnana,
- fyrir liggi yfirlit starfsmanns þjónustumiðstöðvar eða Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna um fjárhagsstöðu umsækjanda og tillögur að úrbótum þegar við á,
- fyrir liggi á hvern hátt lán eða styrkur mun breyta skuldastöðu umsækjanda til hins betra þegar til lengri tíma er litið,
- fyrir liggi samkomulag um félagslega ráðgjöf og/eða fjármálaráðgjöf.
Þegar um lán sé að ræða skuli greiðsluáætlun fylgja með umsókn. Ekki sé heimilt að veita styrk eða lán til greiðslu skulda við banka, sparisjóði og aðrar lánastofnanir, svo sem greiðslukortafyrirtæki. Þá sé hvorki heimilt að veita styrk eða lán til greiðslu skattaskulda og sekta, né heldur til greiðslu skulda við einkaaðila.
Kæranda hafi verið synjað um lán vegna sérstakra erfiðleika þar sem hann uppfylli ekki öll skilyrði 24. gr. reglnanna. Kærandi hafi ekki verið með fjárhagsaðstoð sér til framfærslu undanfarna sex mánuði eða lengur, sbr. a-lið 24. gr. reglnanna. Þá liggi ekki fyrir á hvern hátt lánið muni breyta skuldastöðu umsækjanda til hins betra þegar til lengri tíma sé litið, sbr. d-lið 24. gr. Auk þess sé kærandi með fyrir lán hjá Reykjavíkurborg og sé umrætt lán í vanskilum en í 25. gr. sé kveðið á um að eigi sé heimilt að veita lán ef umsækjandi sé með lán fyrir hjá Reykjavíkurborg.
Það hafi verið mat velferðarráðs að skilyrði 24. og 25. gr. væru ekki uppfyllt og því bæri með hliðsjón af öllu framansögðu að staðfesta synjun þjónustumiðstöðvar um lán að upphæð 150.000 kr.
IV. Niðurstaða.
Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.
Í máli þessu er ágreiningur um það hvort velferðarráði beri að veita kæranda styrk eða lán að fjárhæð 150.000 kr. vegna kaupa á húsgögnum og húsbúnaði í félagslega leiguíbúð sína að B sem hann fékk til umráða síðastliðið sumar.
Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.
Í 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, kemur fram að skylt sé hverjum manni að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Reykjavík hefur sett sér reglur um fjárhagsaðstoð, sem tóku gildi þann 1. janúar 2011. Er í þeim reglum að finna almenn skilyrði styrks og lána, sem að áliti úrskurðarnefndarinnar eru almenn og fyrirsjáanleg.
Samkvæmt þeim gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu verður ekki séð að kærandi uppfylli, annars vegar skilyrði fyrir greiðslu styrks og hins vegar fyrir lánafyrirgreiðslu, þar á meðal því skilyrði 25. gr. reglnanna um að eigi sé heimilt að veita lán ef umsækjandi er með lán fyrir frá Reykjavíkurborg. Þá hefur ekkert komið fram um að mat velferðarráðs Reykjavíkurborgar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda.
Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun staðfest.
Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir, formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkur frá 15. mars 2011, í máli A, er staðfest.
Ása Ólafsdóttur,
formaður
Margrét Gunnlaugsdóttir Gunnar Eydal