Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 21/2011

Miðvikudaginn 25. maí 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 21/2011:

A

gegn

Íbúðalánasjóði

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dagsettri 28. mars 2011, skotið til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála synjun um áframhaldandi frystingu hjá Íbúðalánasjóði. Kæran á ekki undir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála heldur undir úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála og var hún framsend samdægurs til þeirrar nefndar. Hefur kæran hlotið efnislega meðferð hjá úrskurðarnefndinni.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærandi hefur kært synjun um framlengingu á greiðsluerfiðleikaaðstoð til úrskurðarnefndarinnar. Hann er öryrki og einstæður faðir. Kærandi kveður lán sitt hjá Íbúðalánasjóði hafa hækkað um tíu milljónir króna frá því að það var tekið árið 2006 en fasteignamat á húseigninni hafi lækkað frá sama tíma. Kærandi kveður heitustu ósk sína vera þá að komast í greiðslustöðvun vegna hárrar greiðslubyrði sinnar.

 

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dagsettu 31. mars 2011, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dagsettu 15. apríl 2011. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dagsettu 27. apríl 2011, var bréf Íbúðalánasjóðs, ásamt meðfylgjandi gögnum, sent kæranda til kynningar. Ekki bárust frekari athugasemdir frá honum.

 

III. Sjónarmið kæranda

Kærandi segir að sett hafi verið út á það að hann ætti tvær bifreiðar. Þannig sé þó mál með vexti að um tvo gamla bíla sé að ræða og að þeir bili til skiptis. Hann búi úti á landi og þurfi að komast til læknis. Hann ætli sér þó að losa sig við aðra bifreiðina og áætli að hún fari á sölu næstu daga eða verði seld beint. Þá hafi hann sett hina bifreiðina á sölu árið 2007, en hún hafi ekki selst.

Kærandi er einstæður faðir og þegar hann hafi farið í greiðslustöðvun árið 2009 hafi hann séð um skólagjöld fyrir son sinn og uppihald. Honum hafi síðan verið meinað að vinna frá
15. mars 2010 vegna sjúkdóms og hafi það sett stórt strik í fjárhaginn og framfærslugetuna.

Kærandi segist einnig hafa sótt um 110% leiðina en hann þurfi að greiða af láninu þangað til af því geti orðið. Sparifé kæranda muni fara í afborganir þar sem hann sé þegar í mínus þegar kemur að framfærslu hans og sonar hans. Þá hafi tennurnar í honum verið metnar ónýtar og muni það kosta sitt að gera við þær. Kærandi kveður það vera sína heitustu ósk að komast í greiðslustöðvun þar sem hann þurfi einnig að greiða fasteignagjöld og rafmagn auk annars.

 

IV. Sjónarmið kærða

Af hálfu kærða kemur fram að greiðsluerfiðleikanefnd Íbúðalánasjóðs hafi metið umsókn kæranda um aðstoð vegna greiðsluerfiðleika og reiknað greiðslubyrði og greiðslugetu hans. Kærði bendir á að kærandi hafi þegar fengið „frystingu“ lána í um tvö ár og sæki um framlengingu en hámarkstími sé að jafnaði um þrjú ár samtals. Eins og greiðslumat Landsbankans beri með sér hafi verið gert ráð fyrir að kærandi ræki einungis eina bifreið enda hafi kærandi ekki haft greiðslugetu til annars. Þá sé áætluð staða hans eftir lok úrræða þannig að eftir greiðslur sé einungis rúmar tvö þúsund krónur á mánuði. Þá sé miðað við hækkun tekna hans þótt hann hafi verið metinn öryrki. Sé það að mati Íbúðalánasjóðs óraunhæft mat af hálfu kæranda. Eins og fram komi í synjunarbréfi sé það mat sjóðsins að frekari frystingar lána stuðli ekki að lausn á greiðsluvanda kæranda en hann hafi hins vegar sótt um niðurfærslu lána niður í 110% af verðmæti eignar sem gæti stuðlað að slíkri lausn, en kærandi hafi einnig óskað eftir því úrræði.

 

V. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Kærandi sótti um framlengingu greiðsluerfiðleikafyrirgreiðslu vegna erfiðleika hans við að greiða af lánum sínum. Í 4. tölul. 4. gr. reglugerðar um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, nr. 584/2001, kemur fram að skilyrði greiðsluerfiðleikaaðstoðar sé að greiðslubyrði umsækjanda eftir skuldbreytingu og/eða frestun á greiðslum og/eða lengingu lánstíma rúmist innan greiðslugetu. Eins og fram kemur í gögnum málsins og samkvæmt greiðsluerfiðleikamati frá Landsbankanum er afgangur um hver mánaðamót 2.333 kr. á meðan úrræði er beitt, en 2.208 kr. eftir að úrræði er beitt. Hefur kærði haldið því fram að mat kæranda sé ekki raunsætt, þar sem kærandi byggi á því að tekjur hans muni aukast þrátt fyrir að hann sé öryrki. Þá hafi kærandi rekið tvær bifreiðir í stað einnar, og eigi það að leiða til þess að ekki verði fallist á umsókn kæranda um áframhaldandi frystingu lána.

Í fyrrgreindum 4. tölul. 4. gr. reglugerðar um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, nr. 584/2001, kemur fram að skilyrði greiðsluerfiðleikaaðstoðar sé að greiðslubyrði umsækjanda eftir skuldbreytingu og/eða frestun á greiðslum og/eða lengingu lánstíma rúmist innan greiðslugetu.

Eins og fram kemur í gögnum málsins uppfyllir greiðslumat Landsbanka það skilyrði, þar sem gert er ráð fyrir að kærandi hafi 2.208 kr. eftir að úrræðum sé lokið. Þótt þar sé miðað við að tekjur kæranda muni hækka, kemur fram í gögnum málsins að kærandi hafi haft 296.000 kr. í árslaun samkvæmt upplýsingum í skattframtali vegna ársins 2009. Í gögnum málsins kemur einnig fram að þann 15. mars 2010 hafi kærandi þurft að hætta vinnu vegna brjóskloss í hálsi, en hins vegar hefur ekki verið upplýst um hvort það ástand sé varanlegt eða tímabundið. Að auki verður ekki séð hvort sá kostnaður sem tilgreindur er sem bifreiðakostnaður í tekjuyfirliti sé kostnaður við eina bifreið eða tvær.

Fyrrgreindar upplýsingar stafa frá viðskiptabanka kæranda og voru þær útgefnar í tengslum við umsókn hans hjá kærða. Ekki hafa önnur gögn verið lögð fram hjá nefndinni, og ekkert kemur fram um að skilyrði fyrir greiðslufrystingu í upphafi hafi verið að kærandi ætti og ræki eina bifreið eða tvær. Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að við mat þess hvort kærandi eigi rétt til þess greiðsluerfiðleikaúrræðis sem hann hefur farið fram á, verði að fylgja þeim reglum sem um það gilda. Eins og málið hefur verið kynnt fyrir úrskurðarnefndinni verður ekki séð annað en að kærandi uppfylli skilyrði 4. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001, jafnvel þótt ekki sé um háa fjárhæð að ræða. Verður því hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Hin kærða ákvörðun Íbúðalánasjóðs í máli A er felld úr gildi.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                   Gunnar Eydal

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta