Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 127/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 127/2021

Fimmtudaginn 27. maí 2021

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 6. mars 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 3. febrúar 2021, á umsókn hans um húsbúnaðarstyrk að fjárhæð 100.000 kr.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 10. desember 2020, sótti kærandi um húsbúnaðarstyrk hjá Reykjavíkurborg að fjárhæð 100.000 kr. á grundvelli 19. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 8. janúar 2021. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi þann 3. febrúar 2021 og staðfesti synjunina.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 6. mars 2021. Með bréfi, dags. 11. mars 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 31. mars 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. apríl 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann sé einhleypur, X ára gamall karlmaður með þrjú börn í umgengni aðra hvora viku. Hann hafi verið í endurhæfingu í Grettistaki um nokkurt skeið og hyggist halda þeirri endurhæfingu áfram. Á endurhæfingartíma hafi kærandi þegið endurhæfingarlífeyri en fjárhagsstaða hans muni ekki breytast um fyrirsjáanlega framtíð og því hafi hann ekki fjárhagslega burði til að verða sér út um nauðsynleg húsgögn inn á heimili sitt. Kærandi sé þegar í skuld með leigu, aðrar skuldir í innheimtu og að greiða meðlög. Ofan á þau útgjöld bætist við útgjöld við uppihald, samgöngur og annað er viðkomi endurhæfingunni. Kærandi hafi verið að glíma við bakmeiðsli í gegnum tíðina og þurfi að fá sér almennilega dýnu til að vinna betur með þau meiðsli. Auk þess hafi ísskápur hans bilað og því þurfi hann að verða sér úti um nýjan ísskáp. Að því sögðu óski kærandi eftir að niðurstöðu umsóknar hans verði breytt og að honum verði veittur fjárhagslegur stuðningur í formi húsbúnaðarstyrks að fjárhæð 100.000 kr.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé X ára og eigi þrjú börn. Kærandi eigi sögu um langvarandi og mikla félagslega erfiðleika og hafi mál hans verið til vinnslu hjá Reykjavíkurborg til lengri tíma. Móðir kæranda hafi glímt við geðræna erfiðleika á uppeldisárum hans og faðir hans hafi átt við áfengis- og fíkniefnavanda að stríða en hann sé nú látinn. Kærandi hafi byrjað í Grettistaki árið 2018 og útskrifast þaðan vorið 2020 en sé ennþá í eftirfylgd og sinni sjálfboðavinnu þar. Kærandi fái greiddan endurhæfingarlífeyri sér til framfærslu. Hann hafi náð miklum árangri í sinni endurhæfingu og verið sé að tengja hann við IPS atvinnustuðning Reykjavíkurborgar. Kærandi hafi flutt í félagslega leiguíbúð í janúar 2019 og fengið 100.000 kr. í húsbúnaðarstyrk í febrúar sama ár. Þann 10. desember 2020 hafi kærandi sótt um húsbúnaðarstyrk að upphæð 100.000 kr. á grundvelli 19. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð til kaupa á þvottavél.

Samkvæmt 19. gr. reglnanna er fjárhagsaðstoð til kaupa á húsbúnaði heimil í eftirfarandi tilvikum:

  1. Til einstaklings sem fær fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum er eignalaus og er að stofna heimili eftir a.m.k. tveggja ára dvöl á stofnun.
  2. Til ungs fólks á aldrinum 18–24 ára, sem er eignalaus, fær fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum, hefur átt í miklum félagslegum erfiðleikum og er að stofna heimili í fyrsta sinn.
  3. Þegar rýma þarf íbúð af heilbrigðisástæðum.
  4. Þegar um er að ræða einstaklinga/hjón/sambúðarfólk sem eiga í félagslegum erfiðleikum og þurfa aðstoð vegna kaupa á nauðsynlegum heimilistækjum. Skilyrði er að viðkomandi hafi fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum

    síðastliðna þrjá mánuði.

  5. Til einstaklings sem er eignalaus, er að stofna heimili í fyrsta sinn eða að nýju og hefur átt í miklum og langvarandi félagslegum erfiðleikum, auk þess að vera í eða hafa nýlokið endurhæfingu.
  6. Til einstaklings sem er að stofna heimili, er með miklar og flóknar þjónustuþarfir og hefur verið heimilislaus.

Viðmiðunarmörk aðstoðar séu allt að 100.000 kr. Greitt sé gegn framvísun sundurliðaðra greiðslukvittana. Þá greiðist húsbúnaðarstyrkir einu sinni og gildistími umsóknar sé þrír mánuðir frá samþykkisdegi.

Ljóst sé að kærandi uppfyllir ekki framangreind skilyrði hvað varði greiðslu styrks til kaupa á húsbúnaði. Kærandi uppfyllir ekki skilyrði a-, b- og d-liða reglnanna um að hafa fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu en kærandi fái greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun. Kærandi uppfylli því ekki skilyrði d-liðar 19. gr. um að hafa fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglunum síðastliðna þrjá mánuði.

Þá liggi fyrir að kærandi hafi frá því í janúar 2019 búið í félagslegu leiguhúsnæði. Ekki sé því unnt að líta svo á að skilyrði a-liðar 19. gr. um að minnsta kosti tveggja ára dvöl á stofnun sé uppfyllt. Þá eigi c-liður reglnanna á ekki við um tilvik kæranda. Þá sé litið til þess að samkvæmt 19. gr. sé húsbúnaðarstyrkur einungis greiddur einu sinni en fyrir liggi að kærandi hafi fengið greiddan fullan húsbúnaðarstyrk í febrúar 2019.

Af framangreindum ástæðum hafi velferðarráð talið að ekki kæmi til álita að veita umbeðinn styrk og því staðfest synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar. Samkvæmt framansögðu sé ljóst að ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð, sbr. 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, né öðrum ákvæðum laganna.

IV.  Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um húsbúnaðarstyrk að fjárhæð 100.000 kr.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 19. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er kveðið á um styrk vegna húsbúnaðar. Þar segir að fjárhagsaðstoð til kaupa á húsbúnaði sé heimil í eftirfarandi tilvikum:

a) Til einstaklings sem fær fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum er eignalaus og er að stofna heimili eftir a.m.k. tveggja ára dvöl á stofnun.

b) Til ungs fólks á aldrinum 18–24 ára, sem er eignalaus, fær fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum, hefur átt í miklum félagslegum erfiðleikum og er að stofna heimili í fyrsta sinn.

c) Þegar rýma þarf íbúð af heilbrigðisástæðum.

d) Þegar um er að ræða einstaklinga/hjón/sambúðarfólk sem eiga í félagslegum erfiðleikum og þurfa aðstoð vegna kaupa á nauðsynlegum heimilistækjum. Skilyrði er að viðkomandi hafi fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum síðastliðna þrjá mánuði.

e) Til einstaklings sem er eignalaus, er að stofna heimili í fyrsta sinn eða að nýju og hefur átt í miklum og langvarandi félagslegum erfiðleikum, auk þess að vera í eða hafa nýlokið endurhæfingu.

f) Til einstaklings sem er að stofna heimili, er með miklar og flóknar þjónustuþarfir og hefur verið heimilislaus.

Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. eru viðmiðunarmörk aðstoðar allt að 100.000 kr. og greitt er gegn framvísun sundurliðaðra greiðslukvittana. Þá segir í 3. mgr. ákvæðisins að húsbúnaðarstyrkir greiðist einu sinni.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greiddan húsbúnaðarstyrk frá Reykjavíkurborg árið 2019 á grundvelli 19. gr. reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð. Að því virtu er ljóst að kærandi uppfyllti ekki skilyrði til greiðslu húsbúnaðarstyrks. Þá er ljóst að kærandi uppfyllir ekki ákvæði a-f liða reglnanna, en hann þiggur ekki fjárhagsaðstoð til framfærslu, er ekki að stofna heimili eða að rýma íbúð af heilsufarsástæðum. Ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsókn kæranda um húsbúnaðarstyrk er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 3. febrúar 2021, um synjun á umsókn A, um húsbúnaðarstyrk að fjárhæð 100.000 kr., er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta