Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 234/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 234/2024

Fimmtudaginn 29. ágúst 2024

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 27. maí 2024, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 17. apríl 2024, um að synja beiðni hennar um aukningu á beingreiðslusamningi í formi næturþjónustu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er með þjónustu frá Reykjavíkurborg í formi beingreiðslusamnings sem nemur 336 klukkustundum á mánuði. Með erindi, dags. 22. janúar 2024, var óskað eftir aukningu á þeim samningi, eða upp í 576 klukkustundir á mánuði. Beiðni kæranda var synjað 25. janúar 2024 og var sú ákvörðun staðfest af áfrýjunarnefnd velferðarráðs 17. apríl 2024. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi, dags. 14. maí 2024.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 27. maí 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. júní 2024, var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst úrskurðarnefndinni 8. júlí 2024 og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. júlí 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir félagsráðgjafi kæranda frá því að kærandi sé fimm barna faðir og búi ásamt eiginkonu sinni og tveimur ungum dætrum þeirra, sem séu fæddar árin X og X, í eigin húsnæði í C. Kærandi hafi starfað sem verkstjóri hjá D en hafi verið óvinnufær (75% öryrki) síðan hann hafi slasast alvarlega í umferðarslysi árið 2018. Keyrt hafi verið á kæranda þegar hann hafi verið við störf. Kærandi hafi hlotið dreifðan heilaskaða í kjölfar slyssins og í kjölfarið ýmis taugaeinkenni sem hafi mikil áhrif á lífsgæði hans og athafnir dagslegs lífs. Þau einkenni sem hafi mest áhrif séu innsæisskerðing, dómgreindarskortur, langtíma- og skammtímaminnisskerðing og frumkvæðisskerðing. Kærandi þurfi stýringu og hvatningu við flestar athafnir daglegs lífs. Hann hafi til að mynda skerta færni í samskiptum við aðra, byrji ekki samræður að fyrra bragði og blandi ekki geði við fjölskyldu sína. Kærandi glími við mikla andlega vanlíðan og framtaksleysi.

Kærandi þoli mjög illa allt áreiti og hafi tekið skapofsaköst verði áreitið of mikið. Félagslegar aðstæður hafi því breyst umtalsvert vegna fötlunar og stuðningsþarfa kæranda. Kærandi mæti tvo daga í viku í virkni og stuðningsendurhæfingu í Sjálfsbjargarhúsinu, mánudaga og þriðjudaga frá klukkan 9:00 til 13:30. Á miðvikudögum og föstudögum frá klukkan 9:00 til 14:00 hafi kærandi fengið fyrir velviljan fyrrum vinnuveitanda að fara á gamla vinnustað sinn og sinna léttum verkum undir leiðsögn starfsfélaga. Hins vegar beri að hafa í huga að það komi tímabil þar sem kærandi hafi ekki heilsu til að mæta í virknina. Það geti verið allt upp í nokkrar vikur.

Mjög mikið álag sé á heimilinu vegna þungra umönnunarþarfa kæranda. Lítill stuðningur sé til staðar en foreldrar kæranda séu aldraðir sem og foreldrar eiginkonu hans sem séu komin á aldur og glími móðir hennar við alvarleg veikindi. Þegar starfsfólk sé ekki inni á heimilinu sinni eiginkona kæranda allri aðstoð við hann hvort sem það sé að degi til eða á næturnar. Eiginkona kæranda sé orðin aðframkomin af álagi og hafi farið í veikindaleyfi veturinn 2022 til 2023 en starfi í dag í 70% vinnu en óvíst þyki hvort hún valdi því áfram. Eiginkona kæranda hafi miklar áhyggjur af því að brenna aftur út og verða alveg óvinnufær til frambúðar.

Stuðningsþarfir kæranda séu þess eðlis að hann þurfi stýringu, eftirlit og stuðning allan sólarhringinn. Kærandi sé á biðlista eftir NPA-samningi og sé metinn í þörf fyrir sólarhringsþjónustu. Það sé alls ekki samþykkt næturvakt í NPA-samningi nema það liggi fyrir nægileg rök og innsýn í stuðningsþarfir á næturnar.

Kærandi hafi farið í SIS-mat og niðurstöður gefi stuðningsflokk 9 sem sé miðlungs til alvarleg stuðningsþörf. Hefðbundið heimili hafi ekki burði til að anna og sinna þessum stuðningsþörfum nema með fullnægjandi þjónustu á móti.

Félagsráðgjafi kæranda hafi miklar áhyggjur af stöðu mála hjá kæranda og fjölskyldu. Sem dæmi megi nefna að þann 27. nóvember 2023 hafi kærandi ekki sofið að ráði í sex nætur og átt tíma hjá innkirtlasérfræðingi nokkrum dögum seinna. Eiginkona kæranda hafi verið dauðþreytt því hún hafi ekki getað sofið og hafi ekki getað sofið almennilega síðan kærandi hafi lent í slysinu fyrir sex árum.

Eiginkona kæranda þurfi að stoppa hann af ef hann ætli út fyrir hússins dyr. Kærandi sé að ráfa um íbúðina og geti farið sér að voða. Hann bregðist misjafnlega við þegar verið sé að reyna að fá hann upp í rúm. Lyfjagjafir séu sömuleiðis á næturnar. Kærandi þurfi töluverðan stuðning vegna mikils innsæisleysis og vanlíðan. Sex ár séu síðan kærandi hafi slasast og núverandi beingreiðslusamningur dugi alls ekki til að kærandi fái viðeigandi þjónustu og stuðning til að lifa sjálfstæðu lífi, ásamt því að hann hafi ekki stuðning/eftirlit á næturnar. Eiginkona hans sé búin að veikjast alvarlega vegna álagsins og segist vera „á brúninni“, eins og hún orði það.

Þessi staða sé óviðunandi þar sem ekki sé verið að koma til móts við þjónustuþarfir kæranda en sem fatlaður maður eigi hann rétt á viðeigandi þjónustu og stuðningi. Kærandi þurfi viðeigandi stuðning og aðstoð til að vera virkari þátttakandi í heimilislífi, þátttöku í samfélaginu og sem faðir og eiginmaður.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé X árs gamall, sé giftur og eigi fimm börn. Hann búi með eiginkonu sinni og tveimur dætrum þeirra í eigin húsnæði í C. Kærandi hafi starfað sem verkstjóri hjá D þegar keyrt hafi verið á hann árið 2018 þegar hann hafi verið við störf. Kærandi hafi hlotið dreifðan heilaskaða í kjölfar slyssins og þjáist af taugaeinkennum sem hafi áhrif á lífsgæði hans og athafnir daglegs lífs. Þau taugaeinkenni sem hafi mest áhrif á daglegt líf hans séu innsæisskerðing, dómgreindarskortur, langtíma- og skammtímaminnisskerðing og frumkvæðisskerðing. Hann þurfi stýringu og hvatningu við allar athafnir daglegs lífs en hann byrji til að mynda ekki samræður að fyrra bragði og blandi ekki geði við fjölskyldu sína. Kærandi glími við mikla andlega vanlíðan og framtaksleysi í kjölfar slyssins. Þá þoli hann illa áreiti og geti tekið stór skapofsaköst verði áreitið of mikið. Kærandi mæti tvo daga í viku í virkni og stuðningsendurhæfingu í Sjálfsbjargarhúsinu, það er mánudaga og þriðjudaga frá klukkan 9:00 til 13:30. Þá hafi kærandi fengið að fara á gamla vinnustað sinn þegar hann hafi heilsu til, á miðvikudögum og föstudögum, frá klukkan 9:00 til 14:00, og sinnt léttum verkum undir leiðsögn fyrrum samstarfsfélaga. Mikið álag sé á heimilinu vegna þungra umönnunarþarfa kæranda. Samkvæmt upplýsingum félagsráðgjafa á Austurmiðstöð sem hafi ritað greinargerð til áfrýjunarnefndar, dags. 9. febrúar 2024, sé búið að sækja um hvíldarinnlögn hjá Sjálfsbjörg.

Með umsókn, dags. 27. ágúst 2018, hafi kærandi sótt um stuðning fyrir börn sín í formi stuðningsfjölskyldu, þrjá sólarhringa í mánuði. Með bréfi, dags. 29. ágúst 2018, hafi verið samþykkt að veita kæranda og fjölskyldu hans umbeðinn stuðning, tvo sólarhringa í mánuði.

Með bréfi, dags. 4. september 2019, hafi kærandi sótt um stoð- og stuðningsþjónustu, 20 klukkustundir á mánuði. Með bréfi, dags. 9. september 2019, hafi umsókn kæranda verið samþykkt.

Með umsókn, dags. 11. maí 2021, hafi kærandi sótt um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Með bréfi, dags. 2. júní 2021, hafi umsókn kæranda verið samþykkt á biðlista en ekki hafi komið til framkvæmda á þjónustu í formi NPA og sé umsóknin því enn á biðlista. Samþykkt umsóknar kæranda um NPA feli í sér 730 vinnustundir á mánuði.

Með umsókn, dags. 18. maí 2021, hafi kærandi sótt um stuðning í formi beingreiðslusamnings, samtals 390 klukkustundir. Með bréfi, dags. 2. júní 2021, hafi verið samþykkt að veita kæranda stuðning í formi beingreiðslusamnings, það er 196 klukkustundir vegna stuðningsþjónustu og 140 klukkustundir vegna stoðþjónustu, samtals 336 klukkustundir, og hafi sá tímafjöldi haldist óbreyttur frá þeim tíma. Samkvæmt eldri reglum hafi verið heimilt að samþykkja stuðning í formi beingreiðslusamnings að hámarki 392 klukkustundir á mánuði. Framangreindar reglur hafi verið felldar úr gildi með núgildandi reglum sem hafi öðlast gildi 1. febrúar 2022.

Með umsókn, dags. 22. janúar 2024, hafi verið sótt um 240 klukkustunda aukningu á núverandi beingreiðslusamningi í formi næturþjónustu. Núverandi beingreiðslusamningur hljóði upp á 336 klukkustundir sem samsvari greiðslum að upphæð 1.741.834 kr. Framangreind aukning um 240 klukkustundir samsvari greiðslum að upphæð 1.618.920 kr.

Með bréfi Austurmiðstöðvar Reykjavíkurborgar, dags. 25. janúar 2024, hafi umsókn kæranda um aukningu við beingreiðslusamning verið synjað þar sem stuðningsþarfir væru umfram hámarkstímafjölda og þar sem óskað hafi verið eftir næturþjónustu, sbr. 1. og 2. mgr. 4. gr., h. lið 3. mgr. 4. gr. og 4. tölul. 2. mgr. 8. gr. reglna Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga. Með bréfi þann 30. janúar 2024 hafi kærandi skotið framangreindri synjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar sem hafi tekið málið fyrir á fundi þann 17. apríl 2024 og afgreitt það með eftirfarandi bókun:

„Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti synjun miðstöðvar um 240 klst. aukningu á beingreiðslusamningi í formi næturþjónustu, samtals 576 klukkustundir á mánuði, skv. 1. og 2. mgr. 4. gr., h. lið 3. mgr. 4. gr. og 4. tl. 2. mgr. 8. gr. reglna Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga.“

Með tölvupósti þann 22. apríl 2024 hafi kærandi óskað eftir rökstuðningi á ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar og hafi rökstuðningur verið sendur kæranda með bréfi, dags. 14. maí 2024. Kærandi hafi nú skotið ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Núgildandi reglur Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga hafi verið samþykktar á fundi velferðarráðs þann 6. október 2021 og á fundi borgarráðs þann 14. október 2021. Reglurnar séu settar með stoð í 28. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga og 10. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og kveði á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum sé skylt að veita. Reglurnar hafi tekið gildi þann 1. febrúar 2022.

Markmið beingreiðslusamninga sé að auka val einstaklinga á formi og fyrirkomulagi aðstoðar að undangengnu faglegu mati, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglna Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga. Í 2. mgr. 2. gr. reglnanna komi fram að stuðningsþörf umsækjanda sé metin á grundvelli reglna Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga.

Í 1. og 2. mgr. 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga segi:

„Unnt er að gera beingreiðslusamning um eftirfarandi þjónustuþætti:

a) Stuðningsþjónustu, sbr. 25.- 27. gr. og XI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, að lágmarki 40 klst. á mánuði og að hámarki 60 klst. á mánuði.

b) Stoðþjónustu, sbr. 1.-3. tl. og 5. tl. 8. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018, að hámarki 188 klst. á mánuði.

Samanlagður fjöldi klukkustunda metins stuðnings sem veittur er sem stuðningsþjónusta annars vegar og stoðþjónusta hins vegar getur numið að hámarki 248 klst. á mánuði.“

Í 3. mgr. 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga séu taldir upp þeir þjónustuþættir sem eigi sé heimilt að gera beingreiðslusamninga um en í h. lið 3. mgr. 4. gr. segi:

„h) Næturþjónusta, sbr. 2. mgr. 10. gr. reglna Reykjavíkurborgar um stoð- og stuðningsþjónustu fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991.“

Þá sé í 8. gr. reglna Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga vikið að skilyrðum fyrir gerð beingreiðslusamnings en til þess að umsækjandi eigi rétt á stuðningi í formi beingreiðslusamnings verði hann að uppfylla öll skilyrði 8. gr. reglnanna. Eftirfarandi skilyrði sé tilgreint í 4. tölul. 2. mgr. 8. gr. reglnanna:

„Umsækjandi sem á rétt á stuðningi samkvæmt reglum Reykjavíkurborgar um stuðningsþjónustu skal þurfa daglega aðstoð sem nemur að lágmarki 40 klst. og að hámarki 60 klst. á mánuði, sbr. faglegt mat á stuðningsþörf umsækjanda samkvæmt 3. gr. í reglum þessum. Umsækjandi sem á rétt á aukinni þjónustu samkvæmt reglum Reykjavíkurborgar um stoð- og stuðningsþjónustu fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir skal þurfa daglegan stuðning að lágmarki 40 klst. á mánuði og að hámarki 248 klst. á mánuði, sbr. faglegt mat á stuðningsþörf umsækjanda samkvæmt 3. gr. í reglum þessum. Ekki er um að ræða næturþjónustu.“

Kæranda í máli þessu hafi verið veittur stuðningur í formi beingreiðslusamnings frá miðju ári 2021, það er 196 klukkustundir vegna stuðningsþjónustu og 140 klukkustundir vegna stoðþjónustu, samtals 336 klukkustundir, sem samþykkt hafi verið í gildistíð eldri reglna og hafi sá tímafjöldi haldist óbreyttur frá þeim tíma. Kærandi sé því með samþykktar 88 klukkustundir umfram hámarksfjölda klukkustunda sem kveðið sé á um í núgildandi reglum Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga. Eins og rakið sé hér að framan hafi núgildandi reglur Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga tekið gildi þann 1. febrúar 2022. Líkt og fram komi í 2. mgr. 4. gr. reglnanna geti fjöldi klukkustunda metins stuðnings sem veittur sé sem stuðningsþjónusta annars vegar og stoðþjónusta hins vegar samtals numið að hámarki 248 klukkustundum á mánuði. Einnig komi fram í 4. tölul. 2. mgr. 8. gr. framangreindra reglna að hámark daglegs stuðnings sé 248 klukkustundir á mánuði. Kærandi hafi sótt um stuðning í formi næturþjónustu en líkt og að ofan greini sé tilgreint í h. lið 3. mgr. 4. gr. framangreindra reglna að eigi sé heimilt að gera beingreiðslusamninga um næturþjónustu. Framangreint komi einnig fram í niðurlagi 4. tölul. 2. mgr. 8. gr. reglnanna.

Líkt og komið hafi fram eigi kærandi samþykkta umsókn um NPA en ekki hafi komið til framkvæmda á þjónustu í formi NPA og sé umsóknin því enn á biðlista. Umsókn kæranda um NPA feli í sér 730 vinnustundir á mánuði sem jafngildi sólarhringsþjónustu.

Með hliðsjón af öllu framangreindu hafi það verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar að synja bæri umsókn kæranda um aukningu á beingreiðslusamningi um 240 klukkustundir á mánuði í formi næturþjónustu, sbr. 1. og 2. mgr. 4. gr., h. lið 3. mgr. 4. gr. og 4. tölul. 2. mgr. 8. gr. reglna Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga.

Samkvæmt framangreindu sé ljóst að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi ekki brotið gegn fyrrgreindum reglum Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga, lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir eða lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja beiðni kæranda um aukningu á beingreiðslusamningi í formi næturþjónustu.

Markmið laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir er að fatlað fólk eigi kost á bestu þjónustu sem unnt er að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess. Þjónustan skal miða að því að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning til þess að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. Við framkvæmd þjónustu við fatlað fólk skal virðing borin fyrir mannlegri reisn þess, sjálfræði og sjálfstæði, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. skal þjónusta samkvæmt lögunum miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður viðkomandi, óskir og önnur atriði sem skipta máli, svo sem kyn, kynferði, aldur, þjóðernisuppruna, trúarbrögð og fleira.

Í 8. gr. laga nr. 38/2018 er fjallað um stoðþjónustu en þar segir í 1. mgr. að fötluðu fólki skuli standa til boða stoðþjónusta sem er nauðsynleg þátttöku þess í samfélaginu án aðgreiningar þannig að það standi til jafns við aðra og komið verði í veg fyrir félagslega einangrun þess. Stoðþjónustu skuli veita í hverju sveitarfélagi með þeim hætti sem best henti á hverjum stað og hún skuli miðast við eftirtaldar þarfir:

  1. Þarfir fatlaðra einstaklinga fyrir þjónustu sem felst í því að treysta möguleika þeirra til sjálfstæðs heimilishalds og samfélagslegrar þátttöku.
  2. Þarfir fatlaðra einstaklinga til hæfingar, endurhæfingar, menntunar og atvinnu, m.a. á grundvelli viðeigandi aðlögunar, svo að þeir geti séð sér farborða og tekið virkan þátt í samfélaginu til jafns við aðra.
  3. Þarfir fatlaðra einstaklinga fyrir sérhæfða ráðgjöf, félagslegan stuðning og félagslegt samneyti, þ.m.t. ástundun tómstunda og menningarlífs.
  4. Þarfir fatlaðra barna fyrir umönnun og þjálfun ásamt nauðsynlegri þjónustu við fjölskyldur þeirra svo að þær geti búið börnunum örugg og þroskavænleg uppeldisskilyrði.
  5. Þarfir fatlaðra foreldra vegna umönnunar og uppeldis barna sinna.

Í 10. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir er kveðið á um notendasamninga. Í 2. gr. laganna eru notendasamningar skilgreindir á eftirfarandi hátt:

„Samningur við sveitarfélag sem felur í sér að notandi stjórnar þeirri aðstoð sem hann fær þannig að hann skipuleggur hana, ákveður hvenær og hvar hún er veitt og velur aðstoðarfólk. Notendasamningar geta verið í formi beingreiðslusamnings, þar sem notandi sér alfarið um starfsmannahald sjálfur, notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar eða þjónustufyrirkomulags þar sem notandi stýrir sjálfur þjónustu við sig þó að þeir sem aðstoði hann séu starfsmenn sveitarfélags.“

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. er einstaklingi heimilt að sækja um samning við sveitarfélag eða sveitarfélög sem standa saman að þjónustusvæði um þjónustuform og fyrirkomulag stuðnings eða aðstoðar. Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. er markmið notendasamninga að auka val einstaklinga um þjónustuform og fyrirkomulag stuðnings eða aðstoðar, að undangengnu faglegu mati. Þá segir í 3. mgr. að einstaklingar eða barnafjölskyldur sem hafi verið metnar í þörf fyrir aðstoð eða stoðþjónustu geti sótt um að gera notendasamning þar sem fjallað sé um framkvæmd stoðþjónustunnar. Heimilt sé að samþætta þjónustu sem einstaklingur eigi rétt á samkvæmt öðrum lögum í slíkum samningi. Hlutaðeigandi sveitarfélag geri slíka samninga við notendur á grundvelli reglna sem það setji. Við gerð notendasamninga skulu uppfyllt skilyrði laga og reglugerða um réttindi starfsmanna, meðal annars hvað varðar aðbúnað þeirra á vinnustað, sbr. lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og aðrar meginreglur íslensks vinnuréttar og kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Sveitarfélag geti rift notendasamningi verði misbrestur þar á.

Í athugasemdum við ákvæði 10. gr. í frumvarpi til laga nr. 38/2018 segir svo:

„Ákvæðið fjallar um heimild sveitarfélags eða sveitarfélaga sem standa saman að þjónustusvæði til að gera notendasamninga um form og fyrirkomulag stuðnings og aðstoðar. Hugtakið er skilgreint í 2. gr. en gert er ráð fyrir að notendasamningar geti verið margs konar. Það sem er sammerkt með þeim öllum er að með þeim er hinum fatlaða fengin meiri stjórn yfir þeirri þjónustu sem hann fær.

Samkvæmt 2. mgr. er nauðsynlegt að notendur þjónustunnar hafi undirgengist faglegt mat áður en gerðir eru við þá notendasamningar. Tilgangur þess er að tryggja að ljóst sé frá upphafi samningsgerðar hverjar stuðningsþarfirnar eru og að þjónustan nái markmiði sínu.“

Í 30. gr. laga nr. 38/2018 er kveðið á um almennar reglur um málsmeðferð. Þar segir í 1. mgr. að farið skuli að almennum reglum stjórnsýsluréttar við alla málsmeðferð samkvæmt lögunum nema ríkari kröfur séu gerðar í þeim. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins skal ákvörðun um þjónustu byggð á heildarsýn og einstaklingsbundnu mati á þörfum þess sem um hana sækir og ákvörðun skal tekin í samráði við umsækjanda. Sveitarfélög skulu tryggja að verklag og leiðbeiningar til starfsfólks miði að því að tryggja jafnræði í þjónustunni og að þjónustan sem veitt er sé nægjanleg miðað við þarfir umsækjanda. Þá skal hún veitt á því formi sem hann óskar, sé þess kostur.

Í 2. mgr. 2. gr. reglna Reykjavíkurborgar um beingreiðslusamninga kemur fram að stuðningsþörf umsækjanda sé metin á grundvelli reglna Reykjavíkurborgar. Umsækjandi stýri fyrirkomulagi stuðnings og hvenær tíma dagsins hann fari fram í samræmi við undangengið mat á stuðningsþörf. Umsækjandi skuli gæta að lágmarksréttindum aðstoðarfólks í starfi þeirra. Í 3. gr. reglnanna segir að heildarfjöldi klukkustunda stuðnings sé ákvarðaður á grundvelli mats á stuðningsþörf. Fjárhæð sem greidd sé vegna beingreiðslusamninga sé reiknuð samkvæmt þeim kostnaðarforsendum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar sem liggi að baki þjónustu sem annars væri veitt af hálfu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Í 1. mgr. 4. gr. framangreindra reglna kemur fram að unnt sé að gera beingreiðslusamning um eftirfarandi þjónustuþætti:

  1. Stuðningsþjónustu, sbr. 25.- 27. gr. og XI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, að lágmarki 40 klst. á mánuði og að hámarki 60 klst. á mánuði.
  2. Stoðþjónustu, sbr. 1.-3. tl. og 5. tl. 8. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018, að hámarki 188 klst. á mánuði.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. reglnanna getur samanlagður fjöldi klukkustunda metins stuðnings sem veittur er sem stuðningsþjónusta annars vegar og stoðþjónusta hins vegar numið að hámarki 248 klst. á mánuði. Þá segir í 3. mgr. 4. gr. reglnanna að eigi sé heimilt að gera beingreiðslusamninga vegna meðal annars næturþjónustu, sbr. 2. mgr. 10. gr. reglna Reykjavíkurborgar um stoð- og stuðningsþjónustu fyrir fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og lög nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg hefur kærandi verið með beingreiðslusamning frá júní 2021 fyrir 336 klukkustundir á mánuði. Sá tímafjöldi hafi haldist óbreyttur frá þeim tíma. Það virðist óumdeilt að sá tímafjöldi fullnægir ekki þjónustuþörf kæranda.

Líkt og að framan greinir gera sveitarfélög notendasamninga við notendur á grundvelli reglna sem þau setja, sbr. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 38/2018. Sveitarfélögum er þannig falið að útfæra nánar framkvæmd vegna þess þjónustuforms. Í samræmi við það og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur hverrar sveitarstjórnar. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, svo fremi það byggi á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Reykjavíkurborg hefur ákveðið í sínum reglum að hámark veitts stuðnings í formi beingreiðslusamnings séu 248 klukkustundir á mánuði. Því verður að líta svo á að sé þjónustuþörf einstaklings meiri en sem því nemur geti henni ekki verið fullnægt með því þjónustuformi. Að mati úrskurðarnefndarinnar er framangreind útfærsla Reykjavíkurborgar ekki í andstöðu við lög nr. 38/2018, stjórnarskrá eða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en við það mat lítur nefndin til þess að einstaklingar hafa val um annað þjónustuform sé þjónustuþörf umfram það hámark sem sveitarfélagið hefur sett. Einnig að lög nr. 38/2018 gera ráð fyrir því að þjónusta sé veitt á því formi sem umsækjandi óskar, sé þess kostur, sbr. ákvæði 2. mgr. 30. gr. laganna. Fyrir liggur að beingreiðslusamningur kæranda er umfram hámarkstímafjölda, eða 336 klukkustundir á mánuði. Að því virtu og með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að synja kæranda um aukningu á beingreiðslusamningi í formi næturþjónustu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 17. apríl 2024, um að synja beiðni A, um aukningu á beingreiðslusamningi í formi næturþjónustu er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta