Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 25/2011

Miðvikudaginn 25. maí 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 25/2011:

A

gegn

Íbúðalánasjóði

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dagsettri 4. apríl 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Íbúðalánasjóðs frá
18. mars 2011 vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærandi kærði synjun um endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni B, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila. Sú íbúð er ekki notuð til heimilishalds kæranda en hann á einnig íbúð í C þar sem hann býr og hefur lögheimili.

Íbúðin að B er að fasteignamati 2.490.000 kr. og íbúðin að C er að fasteignamati 13.300.000 kr. Samkvæmt gögnum málsins voru áhvílandi lán á íbúðinni að B um síðastliðin áramót 6.807.004 kr., en á C, 4.623.804 kr. Íbúðin að B er yfirveðsett miðað við 110% af fasteignamati um 4.068.004 kr., en veðrými er til staðar á C fyrir 8.676.196 kr.

 

II. Sjónarmið kæranda

Fram kemur af hálfu kæranda að Íbúðalánasjóður hafi hafnað beiðni hans um endurútreikning á lánum á eign hans að B, meðal annars vegna þess að hann eigi ekki lögheimili þar. Hann kveðst hafa bent á að hann gæti auðveldlega flutt lögheimili sitt þangað enda skipti ekki máli hvar hann sé skráður atvinnulaus.

Kærandi kveðst ekki ráða við afborganir af íbúðum sínum. Sjóðurinn sem hann hafi átt fyrir hrun sé nú uppurinn, en hann sé atvinnulaus og telur ekki raunsætt að hann fái starf við iðn sína á næstunni. Hann stefni nú að því að komast hjá gjaldþroti, en það muni varla takast fallist kærði ekki á beiðni hans. Hann sjálfur muni tapa á gjaldþroti og það muni Íbúðalánasjóður einnig gera. Kærandi bendir á að komi til endurútreiknings lána gæti hann staðið undir þeirri greiðslubyrði sem á honum hvílir, en það geri hann ekki nú. Auk þess sé það ekki raunsær kostur að selja fasteignina B þar sem markaðsverð hennar sé mun lægra en skráð fasteignamat. Auk þess sé fasteignin skráð 77 fm að stærð, en af því sé gólfflötur 49 fm, en þar af sé kjallari að hálfu með 1,8 m lofthæð.

 

III. Sjónarmið kærða

Íbúðalánasjóður bendir á að skilyrði fyrir afgreiðslu erindis kæranda séu ekki uppfyllt að fullu þar sem B sé ekki notuð til heimilishalds lántakanda og falli því ekki undir úrræði um lánalækkun (110%). Að auki eigi kærandi eignir samkvæmt skattframtali sem ekki séu yfirveðsettar.

Í bréfi kærða kemur fram að kærandi eigi tvær íbúðir, B að fasteignamati 2.490.000 kr. og að C að fasteignamati 13.300.000 kr. Áhvílandi lán á íbúðinni að B hafi verið um síðastliðin áramót 6.807.004 kr. en á C 4.623.804 kr. B sé yfirveðsett miðað við 110% af fasteignamati um 4.068.004 kr. en veðrými sé hins vegar til staðar á C fyrir 8.676.196 kr.

Það sé ljóst að veðrými á aðfararhæfri eign fyrir hugsanlegri niðurfærslu lána á B sé til staðar í eigninni að C og þar með séu ekki forsendur í samræmi við reglur til að færa lán niður á B, sbr. samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði og lög nr. 29/2011 um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998.

Sú leið að færa niður lán í 110% taki einvörðungu til þeirra tilvika sem falli að skilyrðum sem sett séu í reglum en annars gætu önnur greiðsluvandaúrræði eftir atvikum komið til álita.

 

IV. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Kærandi sótti um fyrirgreiðslu til Íbúðalánasjóðs á grundvelli samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila til þess að færa niður lán á að B. Samkomulagið er dagsett 15. janúar 2011. Samkvæmt ákvæði 2.1 í samkomulaginu sem fjallar um hina veðsettu eign sem beiðni lýtur að, er það meðal annars gert að skilyrði fyrir niðurfellingu skulda samkvæmt reglunum að lántaki og/eða maki hans, eftir því sem við á, noti eignina til heimilishalds. Þá skal samkvæmt ákvæði 2.2 í samkomulaginu skal lántaki upplýsa kröfuhafa um aðrar aðfararhæfar eignir samkvæmt lögum um aðför, nr. 90/1989. Ef veðrými er á aðfararhæfum eignum lækkar niðurfærsla veðskulda sem því nemur. Ekki er að finna undantekningar frá þessum skilyrðum í samkomulaginu.

Við mat á því hvort kærandi eigi rétt til þeirrar fyrirgreiðslu sem hann hefur sótt um, verður að líta til þess sem fram kemur í gögnum málsins. Kærandi á tvær fasteignir og hann óskar þess að lán á þeirri íbúð sem hann býr ekki í verði fært niður. Þá eru eignir kæranda umfram yfirveðsetningu. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt ákvæðum 2.1 og 2.2 í samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila er hin kærða ákvörðun Íbúðalánasjóðs staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, varðandi synjun um endurútreikning á lánum A, áhvílandi á íbúðinni að B, er staðfest.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                   Gunnar Eydal

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta