Mál nr. 146/2011
Miðvikudaginn 14. desember 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 146/2011:
A
gegn
Íbúðalánasjóði
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R:
A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 6. október 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, hér eftir nefndur kærði, frá 6. september 2011 vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum.
I. Helstu málsatvik og kæruefni
Kærandi kærði ákvörðun um synjun um endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni að B, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.
Samkvæmt endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, dags. 6. september 2011, var skráð fasteignamat á íbúð kæranda að B 17.000.000 kr. Verðmat íbúðarinnar var 22.700.000 kr. samkvæmt mati löggilts fasteignasala frá fasteignasölunni Eignaborg, sem fram fór þann 23. ágúst 2011. Áhvílandi á íbúðinni voru 24.724.157 kr.
II. Málsmeðferð
Með bréfi, dags. 7. október 2011, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dags. 31. október 2011. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 2. nóvember 2011, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
III. Sjónarmið kæranda
Kærandi kærir synjun Íbúðalánasjóðs á leiðréttingu lána í 110% leiðinni samkvæmt rökstuðningi með kæru til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 6. október 2011. Óskar kærandi eftir því með almennum hætti að ákvörðunin verði tekin til endurskoðunar.
IV. Sjónarmið kærða
Íbúðalánasjóður áréttar að sjóðurinn hafi farið fram á verðmat fasteignasala skv. 1. gr. laga nr. 29/2011 og telur enga ástæðu til að bera brigður á það verðmat. Kærði vísar til þess að áhvílandi lán séu undir uppfærðu verðmati, sbr. synjunarbréf sjóðsins í málinu. Þar sem áhvílandi veðlán hafi verið undir verðmæti fasteignarinnar uppreiknuðu til samræmis við 110% leiðina, hafi ekki verið skilyrði til þess að endurreikna áhvílandi veðlán kæranda.
V. Niðurstaða
Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.
Kærandi kærir synjun Íbúðalánasjóðs á leiðréttingu lána í 110% leiðinni, en umsókn kæranda var synjað þar sem áhvílandi veðskuldir voru 109% af verðmæti fasteignarinnar samkvæmt mati fasteignar löggilts fasteignasala sem fram fór á vegum Íbúðalánasjóðs.
Í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 kemur fram að við verðmat fasteigna samkvæmt ákvæðinu skuli miða við fasteignamat eða markaðsverð þeirra, hvort sem er hærra. Telji Íbúðalánasjóður skráð fasteignamat fyrir 2011 ekki gefa rétta mynd af verðmæti eignar skuli hann á eigin kostnað afla verðmats löggilts fasteignasala. Sömu reglu er að finna í lið 1.3 í 1. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011.
Kærða ber að gæta jafnræðis og samræmis í úrlausn þeirra umsókna sem honum berast. Þá ber kærða að fylgja fyrrgreindum reglum og þar er ekki að finna undanþágur. Í lögum nr. 29/2011 kemur skýrt fram að miða skuli við skráð fasteignamat eða markaðsverð fasteigna, hvort sem er hærra. Eins og fram hefur komið hefur við verðmat fasteignar kæranda verið byggt á mati löggilts fasteignasala sem aflað var af hálfu kærða svo sem heimilt er samkvæmt framangreindum reglum, sbr. 4. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 um breytingu á lögum nr. 44/1998. Mat hins löggilta fasteignasala er byggt á skoðun fasteignarinnar, dags. 23. ágúst 2011, og kemur fram að fasteignin hafi verið verðmetin eftir bestu samvisku og þekkingu viðkomandi löggilts fasteignasala. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt 1. gr. laga nr. 29/2011 og ákvæðum 1.3 í 1. gr í samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila verður því að staðfesta hina kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, um synjum um endurútreikning á lánum A, áhvílandi á fasteigninni að B, er staðfest.
Ása Ólafsdóttir,
formaður
Margrét Gunnlaugsdóttir Gunnar Eydal