Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 371/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 371/2023

Miðvikudaginn 13. september 2023

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 28. júlí 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 14. júní 2023, um að synja umsókn hennar um akstursþjónustu fatlaðs fólks.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 23. maí 2023, sótti kærandi um endurnýjaða akstursþjónustu fatlaðs fólks fyrir tímabilið 1. júní 2023 til 31. maí 2024. Með bréfi miðstöðvar Reykjavíkurborgar, dags. 1. júní 2023, var umsókn kæranda synjað og var sú ákvörðun staðfest af áfrýjunarnefnd velferðarráðs 14. júní 2023. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi, dags. 3. júlí 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. júlí 2023. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. ágúst 2023, var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst úrskurðarnefndinni 21. ágúst 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála kemur fram að kærandi hafi óskaði eftir að fá aksturþjónustu fatlaðra þann 25. mars 2023. Kærandi hafi áður fengið slíka þjónustu, eða á tímabilinu 6. nóvember 2020 til 16. nóvember 2022 og 6. janúar 2023 til 5. júlí 2023. Kærandi hafi fengið heilablæðingu þann 25. apríl 2020 og hafi nýtt sér akstursþjónustuna meðal annars til að komast í endurhæfingu. Kærandi búi enn við skerta sjón og skynjun. Það geri kæranda ókleift að keyra við ákveðin skilyrði en það hafi meðal annars komið fram í bréfum frá lækni kæranda. Eftir heilablæðinguna hafi kærandi meðal annars haft verri skynjun og þá sérstaklega þegar snjói og í slæmu veðri. Því sé ljóst að kærandi falli undir skilgreiningu laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Mikilvægt sé fyrir kæranda að komast í endurhæfingu áfram og það hafi meðal annars komið fram í bréfum frá læknum kæranda. Þrátt fyrir að kærandi hafi fengið leyfi frá lækni til að keyra á ný við góð skilyrði hafi hún ekki getu til að keyra við slæm skilyrði eins og fram hafi komið. Þó sé mikilvægt fyrir kæranda að komast til endurhæfingar sem og að taka þátt í samfélaginu til jafns við aðra.

Kærandi bendi á að fullyrðing velferðarráðs Reykjavíkurborgar um að ekki sé slæm færð á tímabilinu 1. júní 2023 til 31. maí 2024 sé á engum rökum reist þar sem tímabilið nái einnig yfir nánast heilt ár og þar á meðal verstu vetrarmánuði. Þá bendi kærandi einnig á að umsókn hennar hafi borist í lok mars og enn hafi snjóað þar til í lok maí.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er vísað til þess að kærandi sé X ára gömul kona sem sé öryrki. Kærandi hafi starfað hjá Reykjavíkurborg til fjölda ára ýmist á leikskólum, sambýli og frístundaheimili ásamt fleiri stöðum. Kærandi hafi hlotið heilablæðingu þann 25. apríl 2020 sem hafi valdið verkstoli og sjónsviðsskerðingu. Hún hafi í kjölfarið farið í endurhæfingu á taugadeild Landspítala og síðar á endurhæfingardeild Grensás Landspítala. Samkvæmt læknisvottorði þann 27. október 2020 hafi kærandi glímt við skerðingu á hugrænni starfsemi, minnistruflanir, skerta athygli, hæga hugsun, skerta stýrifærni og sjónræna erfiðleika. Þá hafi kærandi einnig hlotið skerðingu á jafnvægi og úthaldi. Framangreint hafi gert það að verkum að kærandi hafi hvorki verið fær um að aka bifreið né nýta sér almenningssamgöngur. Kærandi hafi sótt um akstursþjónustu fatlaðs fólks þann 4. nóvember 2020 fyrir tímabilið 6. nóvember 2020 til 5. nóvember 2022 sem hafi verið samþykkt þann 6. nóvember 2020. Samkvæmt greinargerð félagsráðgjafa til áfrýjunarnefndar velferðarráðs, dags. 7. júní 2023, hafi framangreind samþykkt verið ætluð tímabundið til að styðja við endurhæfingu kæranda. Þá hafi kærandi sótt um endurnýjun á akstursþjónustu fatlaðs fólks þann 26. nóvember 2021 fyrir tímabilið 30. nóvember 2021 til 29. nóvember 2022. Framangreind umsókn hafi verið samþykkt þann 29. nóvember 2021 til að styðja við áframhaldandi endurhæfingu. Kærandi hafi farið í hreyfihömlunarmat þann 22. september 2022, þar sem meðal annars hafi komið fram að mikilvægt væri að aðstæður kæranda varðandi aðgang að bíl og aðkomu að þjónustu væru við bestu skilyrði á meðan kærandi væri að ná bata. Kærandi hafi sótt um endurnýjun á akstursþjónustu fatlaðs fólks þann 8. nóvember 2022 fyrir tímabilið 17. nóvember 2022 til 16. nóvember 2023 sem hafi verið synjað með bréfi þann 17. nóvember 2022. Kærandi hafi skotið þeirri synjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs sem hafi tekið málið fyrir á fundi þann 4. janúar 2023 og afgreitt með eftirfarandi bókun:

„Áfrýjunarnefnd velferðarráðs samþykkti að veita umsækjanda akstursþjónustu fatlaðs fólks í sex mánuði, sbr. 1. gr. reglna fyrir sameiginlega akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu.“

Samkvæmt læknisvottorði, dags. 21. desember 2022, hafi orðið miklar framfarir hjá kæranda varðandi sjón, fjarlægðarskyn og athygli. Þá hafi einnig komið fram í framangreindu læknisvottorði að kærandi hefði að loknu í ökuhæfnismati fengið leyfi til að aka bifreið á ný en vafi væri á að hún gæti ekið við erfiðar aðstæður, svo sem þegar skyggni sé slæmt eða færð erfið, sbr. einnig læknisvottorð, dags. 11. nóvember 2022. Samkvæmt upplýsingum úr greinargerð félagsráðgjafa fyrir áfrýjunarnefnd taki kærandi undir það sem fram komi í læknisvottorði, dags. 21. desember 2022, og treysti sér ekki að aka bifreið þegar færð sé erfið eða skyggnið sé slæmt. Þá komi einnig fram að kæranda finnist hún enn þá glíma við skert jafnvægi og úthald og geti þar af leiðandi ekki nýtt sér almenningssamgöngur. Kærandi hafi þó merkt við í umsókn um endurnýjun á akstursþjónustu fatlaðs fólks, dags. 23. maí 2023, að hún hefði möguleika á öðrum ferðamáta, t.d. strætó. Kærandi sé með P-merki í bílnum sínum sem geri henni kleift að leggja bílnum í merkt stæði fyrir fatlað fólk. Samkvæmt upplýsingum úr greinargerð félagsráðgjafa fyrir áfrýjunarnefnd sinni kærandi nú endurhæfingu hjá teymi í Sporthúsinu, fari í sjúkraþjálfun þrisvar sinnum í viku, sjúkranudd tvisvar sinnum í mánuði og fari einnig reglulega til kírópraktors. Þá hafi kærandi einnig tekið þátt í stuðningshópi fyrir fólk sem hafi fengið heilablæðingu á Grensás Landspítala. Hópurinn hittist tvisvar sinnum í viku.

Þann 23. maí 2023 hafi kærandi sótt um endurnýjun á framangreindri umsókn um akstursþjónustu fatlaðs fólks fyrir tímabilið 1. júní 2023 til 31. maí 2024 sem hafi verið synjað með bréfi þann 1. júní 2023. Kærandi hafi skotið framangreindri synjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar sem hafi tekið málið fyrir á fundi sínum þann 14. júní 2023 og afgreitt með eftirfarandi bókun:

„Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti synjun starfsmanna á miðstöð Reykjavíkurborgar um akstursþjónustu fatlaðs fólks skv. 1. gr. reglna um sameiginlega akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu.“

Með tölvupósti þann 15. júní 2023 hafi kærandi óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar og rökstuðningur hafi verið sendur kæranda með bréfi, dags. 3. júlí 2023. Kærandi hafi nú skotið ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Fram komi í 29. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga að fatlað fólk skuli eiga kost á akstursþjónustu sem miði að því að það geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kjósi, á þeim tíma sem það velji og gegn viðráðanlegu gjaldi. Markmið akstursþjónustu sé að gera þeim sem ekki geti nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Þá komi fram í 3. mgr. 29. gr. framangreindra laga að ráðherra setji nánari leiðbeiningar. Núgildandi reglur um sameiginlega akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu hafi tekið gildi 1. júlí 2020, verið samþykktar á fundi velferðarráðs Reykjavíkurborgar þann 12. febrúar 2020 og á fundi borgarráðs þann 20. febrúar 2020. Fyrrgreindar reglur séu settar með stoð í 29. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga og III. kafla laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Með umsókn, dags. 23. maí 2023, hafi kærandi sótt um endurnýjun á akstursþjónustu fatlaðs fólks. Með bréfi frá miðstöð Reykjavíkurborgar, dags. 1. júní 2023, hafi framangreindri umsókn verið synjað þar sem fötlun kæranda falli ekki að skilgreiningu 2. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sbr. 1. mgr. 1. gr. reglna um sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu.

Eftirfarandi komi fram í 1. mgr. 1. gr. reglna um sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu:

„Akstursþjónusta fatlaðs fólks er ætluð til afnota fyrir þá íbúa Reykjavíkur, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness sem uppfylla það skilyrði að fötlun þeirra falli að skilgreiningu 2. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018, og að þeir eigi ekki rétt á niðurgreiddri akstursþjónustu frá öðrum aðilum eða rétt á akstri samkvæmt öðrum lögum, reglugerðum eða reglum.“

Þá segi meðal annars í 2. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir:

„1. Fötlun: Afleiðing skerðinga og hindrana af ýmsum toga sem verða til í samspili fólks með skerðingar og umhverfis og viðhorfa sem hindra fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Skerðingar hlutaðeigandi einstaklings eru langvarandi og hindranirnar til þess fallnar að viðkomandi verði mismunað vegna líkamlegrar, geðrænnar eða vitsmunalegrar skerðingar eða skertrar skynjunar. 2. Fatlað fólk: Fólk með langvarandi líkamlega, geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun sem verður fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra ef aðstoðar nýtur ekki við.“

Ljóst sé að kærandi falli ekki að framangreindri skilgreiningu um fötlun né sé hún talin vera með langvarandi hreyfihömlun. Kærandi hafi fengið samþykktar umsóknir um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk vegna tímabilsins 6. nóvember 2020 til 16. nóvember 2022 til að styðja við endurhæfingu. Einnig hafi kærandi fengið samþykkta endurnýjun á umsókn um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk vegna tímabilsins 6. janúar 2023 til 5. júlí 2023 þar sem hún hafi átt erfitt með að keyra í slæmu færi og skyggni. Í læknisvottorði, dags. 21. desember 2022, komi fram að kærandi hafi farið í gegnum endurhæfingu og að hún hafi tekið miklum framförum varðandi sjón, fjarlægðarskyn, minni og athygli. Þá sé tekið fram að hún hafi fengið ökuréttindi sín á ný að loknu ökuhæfnismati en að æskilegt væri að henni byðist akstursþjónusta við erfiðar aðstæður, svo sem slæmt skyggni eða færð og þá fyrst og fremst yfir hávetur. Umsókn kæranda, dags. 23. maí 2023, hafi náð yfir tímabilið 1. júní 2023 til 31. maí 2024 en ekki einungis yfir hávetur. Í framangreindri umsókn hafi kærandi merkt við að hún hefði möguleika á öðrum ferðamáta, t.d. strætó. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs hafi því tekið undir mat starfsmanna miðstöðvar Reykjavíkurborgar að samþykkja ekki umsókn um endurnýjun á akstursþjónustu fyrir fatlað fólk, dags. 23. maí 2023, vegna tímabilsins 1. júní 2023 til 31. maí 2024. Fagfundur rafrænnar miðstöðvar hafi ekki mælt með samþykki á umsókn kæranda um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk þar sem hvorki væri slæm færð né slæmt skyggni yfir sumartímann og á haustmánuðum. Þá hafi, að þeirra mati, ekki verið hægt að samþykkja akstursþjónustu vegna tímabundinnar hreyfihömlunar. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi tekið undir framangreint mat. Telji kærandi aðstæður vera með þeim hætti síðar að nauðsynlegt sé að sækja um aftur sé slíkt heimilt.

Með hliðsjón af öllu framangreindu hafi það verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar að staðfesta bæri synjun Rafrænnar miðstöðvar, dags. 1. júní 2023, varðandi endurnýjun á umsókn kæranda um akstursþjónustu fatlaðs fólks þar sem fötlun kæranda falli ekki að skilgreiningu 2. gr. laga nr. 38/2028 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sbr. 1. mgr. 1. gr. reglna um sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu.

Með hliðsjón af öllu því sem að framan greini sé ljóst að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum Reykjavíkurborgar fyrir sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu, lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir eða ákvæðum annarra laga eða reglna. Þá beri að nefna að áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjavíkurborgar telji að málsmeðferð í máli kæranda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsókn um akstursþjónustu fatlaðs fólks.

Í 29. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er kveðið á um akstursþjónustu fatlaðs fólks. Þar segir í 1. mgr.:

„Fatlað fólk skal eiga kost á akstursþjónustu sem miðar að því að það geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kýs og á þeim tíma sem það velur gegn viðráðanlegu gjaldi. Markmið akstursþjónustu er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda.“

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 38/2018 er fötlun skilgreind sem:

„Afleiðing skerðinga og hindrana af ýmsum toga sem verða til í samspili fólks með skerðingar og umhverfis og viðhorfa sem hindra fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Skerðingar hlutaðeigandi einstaklings eru langvarandi og hindranirnar til þess fallnar að viðkomandi verði mismunað vegna líkamlegrar, geðrænnar eða vitsmunalegrar skerðingar eða skertrar skynjunar.“

Þá er í sömu grein að finna skilgreiningu á fötluðu fólki, en þar segir:

„Fólk með langvarandi líkamlega, geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun sem verður fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra ef aðstoðar nýtur ekki við.“

Reykjavíkurborg hefur útfært nánar framkvæmd akstursþjónustu fyrir fatlað fólk með reglum nr. 645/2020 fyrir sameiginlega akstursþjónustu við fatlað fólk á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. reglnanna er akstursþjónusta fatlaðs fólks ætluð til afnota fyrir þá íbúa Reykjavíkur, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness sem uppfylla það skilyrði að fötlun þeirra falli að skilgreiningu 2. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018 og að þeir eigi ekki rétt á niðurgreiddri akstursþjónustu frá öðrum aðilum eða rétt á akstri samkvæmt öðrum lögum, reglugerðum eða reglum.

Þá segir í 3. mgr. 1. gr. reglnanna að umsækjandi skuli uppfylla annað eða bæði eftirfarandi skilyrða:

  1. Er hreyfihamlaður og þarf að nota hjólastól. Skilyrði er að um sé að ræða varanlega hreyfihömlun eða hreyfihömlun sem hefur varað í þrjá mánuði eða lengur.
  2. Er ófær um að nota almenningssamgöngur vegna annarrar langvarandi fötlunar.“

Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur komið fram að það sé ljóst að kærandi hvorki falli að skilgreiningu 2. gr. laga nr. 38/2018 um fötlun né sé hún með langvarandi hreyfihömlun. Kærandi hafi fengið samþykktar umsóknir um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk vegna tímabilsins 6. nóvember 2020 til 16. nóvember 2022 til að styðja við endurhæfingu. Einnig hafi kærandi fengið samþykkta endurnýjun á umsókn um akstursþjónustu fyrir fatlað fólk vegna tímabilsins 6. janúar 2023 til 5. júlí 2023 þar sem hún hafi átt erfitt með að keyra í slæmu færi og skyggni. Í læknisvottorði, dags. 21. desember 2022, komi fram að kærandi hafi farið í gegnum endurhæfingu og að hún hafi tekið miklum framförum varðandi sjón, fjarlægðarskyn, minni og athygli. Þá sé tekið fram að hún hafi fengið ökuréttindi sín á ný að loknu ökuhæfnismati en að æskilegt væri að henni byðist akstursþjónusta við erfiðar aðstæður, svo sem slæmt skyggni eða færð og þá fyrst og fremst yfir hávetur. Umsókn kæranda, dags. 23. maí 2023, hafi náð yfir tímabilið 1. júní 2023 til 31. maí 2024 en ekki einungis yfir hávetur. Í framangreindri umsókn hafi kærandi merkt við að hún hefði möguleika á öðrum ferðamáta, t.d. strætó. Þá hefur Reykjavíkurborg vísað til þess að telji kærandi aðstæður vera með þeim hætti síðar að nauðsynlegt sé að sækja um aftur sé slíkt heimilt.

Líkt og fram kemur í 29. gr. laga nr. 40/1991 er markmið akstursþjónustu fatlaðs fólks að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Af gögnum málsins og afstöðu Reykjavíkurborgar verður ekki ráðið að kærandi sé fötluð í skilningi laga nr. 38/2018 en slíkt er skilyrði til að eiga rétt á akstursþjónustu á grundvelli 29. gr. laga nr. 40/1991. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 14. júní 2023, um að synja umsókn A, um akstursþjónustu fatlaðs fólks, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta