Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 524/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 524/2022

Fimmtudaginn 8. desember 2022

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 2. nóvember 2022, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 19. október 2022, á umsókn um styrk að fjárhæð 160.000 kr. vegna flutningskostnaðar og kaupa á þvottavél.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 31. ágúst 2022, sótti kærandi um styrk hjá Reykjavíkurborg að fjárhæð 160.000 kr. vegna flutningskostnaðar og kaupa á þvottavél. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 8. september 2022, með þeim rökum að hún samræmdist ekki 24. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti þá synjun með ákvörðun, dags. 19. október 2022.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 2. nóvember 2022. Með bréfi, dags. 3. nóvember 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 15. nóvember 2022, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. nóvember 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi sótt um styrk vegna flutnings frá B. Þar sem B hafi átt að vera síðasta heimili hennar fyrir elliheimili hafi flutningur ekki verið í myndinni. Ekki hafi verið búandi í B vegna ýmissa vandamála. Flutningnum hafi fylgt mikill kostnaður og hann fari hækkandi þar sem eitt og annað sem kærandi eigi passi ekki í nýja húsnæðið.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé ellilífeyrisþegi sem búi á hjúkrunarheimili C. Kærandi hafi sótt um styrk til að greiða fyrir flutningskostnað og kaup á þvottavél samkvæmt 24. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð sem fjalli um aðstoð vegna sérstakra erfiðleika. Umsókninni hafi verið synjað með bréfi þann 8. september 2022 þar sem kærandi hafi ekki verið á fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg undanfarna sex mánuði, sbr. a-lið 1. mgr. 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar, en kærandi sé ellilífeyrisþegi, ásamt því að uppfylla ekki skilyrði um einstaklingsáætlun og/eða fjármálaráðgjöf, sbr. e-lið 24. gr. framangreindra reglna. Uppfylla þurfi öll skilyrði 1. mgr. 24. gr. til að veitt verði aðstoð vegna sérstakra erfiðleika. Með bréfi, dags. 16. september 2022, hafi þeirri ákvörðun verið skotið til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar sem hafi staðfest synjun þjónustumiðstöðvar á fundi þann 19. október 2022.

Núgildandi reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg hafi tekið gildi 1. apríl 2021 og verið samþykktar á fundi velferðarráðs þann 24. febrúar 2021, á fundi borgarráðs þann 4. mars 2021 og á fundi borgarstjórnar þann 16. mars 2021. Reglurnar séu settar á grundvelli laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Ákvæði 1. mgr. 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar sé svohljóðandi:

  1. „Heimilt er að veita einstaklingum, hjónum eða sambúðarfólki lán eða styrk vegna mikilla fjárhagslegra og félagslegra erfiðleika, að uppfylltum öllum neðangreindum skilyrðum:
  2. Umsækjandi hafi fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum undanfarna sex mánuði eða lengur.
  3. Staðfest sé að umsækjandi hafi ekki aðgang að lánafyrirgreiðslu banka, sparisjóða eða annarra lánastofnana.
  4. Fyrir liggi yfirlit starfsmanns velferðarsviðs eða umboðsmanns skuldara um fjárhagsstöðu umsækjanda og tillögur að úrbótum þegar við á.
  5. Fyrir liggi á hvern hátt lán eða styrkur muni styrkja félagslega stöðu umsækjanda til hins betra þegar til lengri tíma er litið.
  6. Fyrir liggi einstaklingsáætlun og/eða fjármálaráðgjöf þegar það á við.

Samkvæmt framangreindu ákvæði þurfi öll skilyrði 1. mgr. 24. gr. að vera uppfyllt til þess að umsækjandi eigi rétt á aðstoð vegna sérstakra erfiðleika. Skilyrði a-liðar 1. mgr. 24. gr. sé ekki uppfyllt þar sem kærandi hafi ekki þegið fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjavíkurborg undanfarna sex mánuði eða lengur. Þá liggi ekki fyrir einstaklingsáætlun og/eða fjármálaráðgjöf, sbr. e-lið 1. mgr. 24. gr. reglnanna.

Með hliðsjón af framansögðu hafi það verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar að skilyrði 1. mgr. 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar væru ekki uppfyllt og því hafi synjun Norðurmiðstöðvar um styrk til að greiða fyrir flutningskostnað og kaup á þvottavél að upphæð 160.000 kr. verið staðfest.

Með hliðsjón af öllu framangreindu sé ljóst að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð, sbr. 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, né öðrum ákvæðum laganna, með síðari breytingum.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsókn kæranda um styrk að fjárhæð 160.000 kr. vegna flutningskostnaðar og kaupa á þvottavél.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til útfærslu á fjárhagsaðstoð til einstaklinga. Í samræmi við það og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur hverrar sveitarstjórnar. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er kveðið á um aðstoð vegna sérstakra erfiðleika. Samkvæmt því ákvæði er heimilt að veita einstaklingum, hjónum eða sambúðarfólki lán eða styrk að hámarki 300.000 kr. vegna mikilla fjárhagslegra og félagslegra erfiðleika, að uppfylltum öllum neðangreindum skilyrðum:

a. Umsækjandi hafi fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum undanfarna sex mánuði eða lengur.

b. Staðfest sé að umsækjandi hafi ekki aðgang að lánafyrirgreiðslu banka, sparisjóða eða annarra lánastofnana.

c. Fyrir liggi yfirlit starfsmanns velferðarsviðs eða umboðsmanns skuldara um fjárhagsstöðu umsækjanda og tillögur að úrbótum þegar við á.

d. Fyrir liggi á hvern hátt lán eða styrkur muni styrkja félagslega stöðu umsækjanda til hins betra þegar til lengri tíma er litið.

e. Fyrir liggi einstaklingsáætlun og/eða fjármálaráðgjöf þegar það á við.

Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi ekki notið fjárhagsaðstoðar sér til framfærslu frá Reykjavíkurborg síðastliðna sex mánuði eða lengur þegar umsókn um styrk vegna sérstakra erfiðleika barst Reykjavíkurborg. Þegar af þeirri ástæðu uppfyllti kærandi ekki skilyrði 24. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð en líkt og að framan greinir þurfa öll skilyrði ákvæðisins að vera uppfyllt til að eiga rétt á styrk vegna sérstakra erfiðleika.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 19. október 2022, um synjun á umsókn A, um styrk að fjárhæð 160.000 kr. vegna flutningskostnaðar og kaupa á þvottavél, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta