Mál nr. 154/2011
Hinn 11. janúar 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 154/2011:
A
gegn
velferðarráði Reykjavíkurborgar
og kveðinn upp svohljóðandi
ÚRSKURÐUR
Með bréfi, dags. 28. september 2011, skaut A, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 20. september 2011 á beiðni kæranda um undanþágu frá skilyrði c-liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur. Skilyrðið varðar undanþágu frá eigna- og tekjumörkum. Krefst kærandi þess að sér verði veitt umrædd undanþága.
I. Málavextir og málsmeðferð.
Kærandi sótti um félagslega leiguíbúð og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík með umsókn, dags. 23. ágúst 2011. Í bréfi þjónustumiðstöðvar B til kæranda, dags. 31. ágúst 2011, kemur fram að skv. b-lið 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakar húsaleigubætur og félagslegt húsnæði þurfi umsækjandi að eiga lögheimili í Reykjavík þegar sótt sé um og a.m.k. síðustu þrjú árin samfleytt áður en umsókn berist. Þá kemur einnig fram í bréfinu að skv. c-lið 4. gr. reglnanna séu tekjumörk 2.863.585 kr. fyrir einstakling og 4.010.032 kr. fyrir hjón og sambúðarfólk og auk þess 479.378 kr. fyrir hvert barn á framfæri innan 20 ára. Tekjumörk séu miðuð við meðaltal tekna síðastliðin þrjú ár. Í bréfinu segir að það sé því ljóst að umsækjandi uppfylli ekki ákvæði b- og c-liðar 4. gr.
Kærandi kærði ákvarðanir þjónustumiðstöðvarinnar til velferðarráðs Reykjavíkur með bréfi, dags. 1. september 2011. Í bréfi velferðarráðs, dags. 21. september 2011, til kæranda kemur fram að ráðið samþykkti umsókn kæranda um undanþágu frá þriggja ára búsetureglu vegna umsóknar um félagslega leiguíbúð. Sú ákvörðun er því ekki til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Í öðru bréfi velferðarráðs til kæranda, dags. 21. september 2011, kemur svo fram að ráðið staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um undanþágu frá skilyrði c-liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur, þ.e. varðandi skilyrði um eigna- og tekjumörk umsækjanda.
Í greinargerð þjónustumiðstöðvar B, dags. 16. september 2011, kemur meðal annars fram að kærandi eigi við mikil andleg veikindi að stríða. Hún þiggi þjónustu frá geðteymi heimahjúkrunar sem hafi stutt hana vel og hún hafi verið í C. Fram kemur að kærandi hafi verið starfsmaður hjá D, þar sem hún hafi starfað sem skrifstofustjóri. Nú sé hún á biðlaunum fram til 1. febrúar 2012. Tekjur hennar komi því til með að fara lækkandi, en sótt hafi verið um 75% örorku fyrir kæranda. Allir ættingjar kæranda búi á höfuðborgarsvæðinu og sé mjög mikilvægt að hún geti einnig búið þar og sótt þjónustu. Loks kemur fram í greinargerðinni að eindregið sé mælt með undanþágu frá búsetureglu og frá tekjuviðmiði.
II. Málsástæður kæranda.
Í bréfi móðursystur kæranda, E, dags. 14. september 2011, kemur fram að hún og aðrir í fjölskyldu kæranda telji afar mikilvægt að hún flytji til höfuðborgarinnar þar sem flestir ættingjar hennar búi og hún geti fundið atvinnumöguleika við hæfi og getu. Einnig sé það mikilvægt að kærandi geti verið í umhverfi sem bjóði upp á úrræði sem hjálpi henni að byggja upp líf sitt að nýju, andlega og líkamlega heilsu, eftir erfiðan hjónaskilnað og veikindi. Áhyggjur fjölskyldunnar af framtíð og afkomu kæranda séu miklar. Móðir hennar sé mikill sjúklingur og meðal systkina séu alvarlegir sjúkdómar. Þrátt fyrir viðleitni fjölskyldunnar að hjálpa, viti þau að meiri stuðningur þurfi til að koma. Þau séu þó öll þakklát fyrir þá hjálp sem Geðteymi heimahjúkrunar Reykjavíkurborgar og samtökin C hafi þegar veitt henni. Í dag sé kærandi í meðferð á sjúkrahúsi gegn þunglyndi og ekki sé vitað hvernær hún verði vinnufær. Því skipti meginmáli að styðja við hana til að tryggja öryggi hennar og jafnframt að hún geti unnið að því með hjálp að verða aftur nýtur þjóðfélagsþegn sem hún þrái mjög mikið. Það muni taka tíma og á meðan sé mikilvægt að hún hafi eigið húsnæði sem hún ráði við að borga af og örugga innkomu.
Fram kemur í tilvitnuðu bréfi að kynni bréfritara af kæranda séu þannig að hún telji hana einstaklega góða og hæfileikaríka manneskju og taki hún þar meðal annars mið af þeirri sérstöku natni og elsku sem hún hafi sýnt í uppeldi sona sinna, til dæmis aðstoð við nám. Synir hennar séu báðir dugandi og ábyrgir menn. Á löngum starfsferli sínum á D hafi hún lagt mikinn metnað í að vinna störf sín vel og kynna sér og fylgjast með málefnum fatlaðra. Hún hafi látið sér annt um þroskahamlaða einstaklinga og umgengist þá með nærgætni og virðingu. Annað starf hennar sem unnið hafi verið í tómstundum hafi verið ferðaleiðsögn. Einnig þar hafi hún gætt þess að auka stöðugt við þekkingu sína og færni og borið úr býtum mikið hrós og þakklæti erlendra og innlendra ferðamanna.
Með því að veita kæranda starfslaun í eitt ár hafi hún fengið ákveðna viðurkenningu fyrir starf sitt. Áfallið að verða atvinnulaus hafi hins vegar orðið henni þung byrði. Kvíði fyrir framtíð og þunglyndið sem hún hafi átt við að stríða hafi margfaldast. Þó hafi hún haft kjark til að hefja nám fyrir G í F og hafi fjárfest í bókum og tölvu. Bréfritari kveðst hafa fulla trú á að henni takist að auka menntun sína og einnig fái hún aðstoð við að stofna nýtt heimili geti hún orðið ábyrgðarfullur og ötull starfsmaður á ný.
III. Málsástæður kærða.
Velferðarráð Reykjavíkurborgar vísar til reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík með áorðnum breytingum, upphaflega samþykktar í félagsmálaráði 18. febrúar 2004 en síðustu breytingar hafi verið samþykktar í velferðarráði 3. febrúar 2011 og í borgarráði 10. febrúar 2011.
Af hálfu velferðarráðs Reykjavíkurborgar kemur fram að í 4. gr. reglnanna séu sett fram tiltekin skilyrði í a–e-liðum sem umsækjandi þurfi að uppfylla til að umsóknin taki gildi. Í b-lið 4. gr. reglnanna sé fjallað um að umsækjandi þurfi að eiga lögheimili í Reykjavík þegar lögð er inn umsókn og a.m.k. síðustu þrjú árin samfleytt áður en umsókn berst. Hafi kæranda verið veitt undanþága frá b-lið 4. gr. reglnanna og varði kæran því ekki þann þátt.
Í c-lið 4. gr. reglnanna sé tilgreint það skilyrði að eignir og tekjur umsækjanda skuli miðast við eftirfarandi hámarksfjárhæðir: Eignamörk séu 3.993.000 kr. Tekjumörk séu 2.863.585 kr. fyrir einhleyping en 4.010.032 kr. fyrir hjón og sambúðarfólks, auk þess 479.378 kr. fyrir hvert barn á framfæri innan 20 ára. Tekjumörk séu miðuð við meðaltal tekna síðastliðin þrjú ár, en við ákvörðun sé heimilt að taka tillit til skuldastöðu/greiðslubyrði umsækjanda.
Enn fremur kemur fram hjá velferðarráði að í 5. gr. reglnanna séu undanþáguákvæði frá settum skilyrðum í 4. gr. en heimilt sé skv. a-lið að veita undanþágu frá lögheimili en skv. b-lið 5. gr. sé heimilt að veita undanþágu frá lögheimili og/eða tekjuviðmiði. Undanþága skv. b- lið 5. gr. byggi á því að umsækjandi sé samkvæmt faglegu mati ráðgjafa í mjög miklum félagslegum erfiðleikum, sbr. lið 5 c í matsviðmiði. Framangreind undanþáguákvæði séu heimildarákvæði og því sé ekki skylt að veita slíkar undanþágur.
Samkvæmt gögnum sem legið hafi fyrir velferðarráði hafi meðaltal tekna kæranda síðastliðin þrjú ár verið 4.362.263 kr. og tekjur síðastliðið ár hafi verið 4.078.682 kr. Samkvæmt c-lið 4. gr. framangreindra reglna séu tekjumörk 2.863.585 kr. og séu tekjumörkin miðuð við meðaltal síðastliðinna þriggja ára. Það hafi því verið ljóst að tekjur kærandi hafi verið alls 1.498.678 kr. hærri en þau hámörk sem reglurnar kveði á um. Þá hafi einnig legið fyrir að kærandi njóti biðlauna fram til 1. febrúar 2012. Það sé óljóst hver staða hennar verði þegar rétti hennar til biðlauna ljúki. Sótt hafi verið um örorku fyrir kæranda en óljóst sé hver afgreiðsla þess erindis verði. Kærandi hafi verið á vinnumarkaði í 25 ár áður en henni var sagt upp og fram komi í bréfi frá móðursystur hennar að vonast sé til þess að kærandi geti orðið vinnufær á ný. Í verklagsreglum um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur sé kveðið á um það að heimilt sé í sérstökum tilfellum að taka tillit til tekjulækkunar umsækjanda þegar komið er fram yfir mitt ár og tekjuskerðing virðist varanleg. Ekkert liggi fyrir um það í máli þessu hvort af tekjuskerðingu verði og ef til hennar komi þá liggi ekki fyrir upplýsingar um hver tekjuskerðingin verði.
Það hafi því verið mat velferðarráðs að ekki væri unnt að veita kæranda undanþágu frá tekju- og eignarmörkum, þar sem óljóst sé hver staða kæranda verði þegar rétti hennar til biðlauna ljúki og hverjar tekjur hennar verði þá. Þá er tekið fram að ef til þess komi að kærandi verði fyrir varanlegri tekjuskerðingu sé henni unnt að sækja um undanþágu frá tekjur og eignamörkum að nýju. Það hafi hins vegar verið mat velferðarráðs að þrátt fyrir veikinda kæranda væri ekki unnt að veita undanþágu á grundvelli b-liðar 5. gr. reglnanna, sbr. 5 c í matsviðmiði.
IV. Niðurstaða.
Málskotsheimild kæranda er reist á 27. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík, sem tóku gildi 1. mars 2004. Samkvæmt VII. kafla reglnanna fer málsmeðferð eftir ákvæðum XVI. og XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, og ákvæðum laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997.
Í máli þessu hefur kærandi óskað eftir búsetu í félagslegri íbúð, en ágreiningur er um það hvort velferðarráði Reykjavíkurborgar beri að veita kæranda undanþágu frá skilyrðum í c-lið 4. gr. framangreindra reglna, sbr. b-lið 5. gr. um tekjuviðmið.
Í 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur er fjallað um skilyrði fyrir því að umsókn verði metin gild. Umsækjandi þarf að uppfylla öll þar tilgreind skilyrði a–e-liða til þess að umsókn öðlist gildi. Í c-lið 4. gr. er gerð krafa um að eignir og tekjur umsækjanda miðist við þar til greindar hámarksfjárhæðir. Í 5. gr. reglnanna er greint frá undanþágum frá skilyrðunum og í b-lið greinarinnar kemur fram að heimilt sé að veita undanþágu frá skilyrðum 4. gr. um lögheimili og tekjuviðmið þegar umsækjandi er samkvæmt faglegu mati ráðgjafa í mjög miklum félagslegum erfiðleikum, sbr. lið 5 c í matsviðmiði sem fylgir reglunum. Af hálfu velferðarráðs Reykjavíkurborgar er tekið fram að kærandi hafi verið hærri en þau hámörk sem reglurnar kveði á um. Þá njóti kærandi biðlauna og óljóst sé hver staða hennar verði að þeim tíma loknum. Í ljósi þeirrar óvissu hafi ekki verið unnt að veita kæranda undanþágu frá tekju- og eignarmörkum.
Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að af gögnum málsins megi ráða að kærandi uppfylli ekki skilyrði b-liðar 5. gr. framangreindra reglna. Þá verður, samkvæmt þeim gögnum sem lögð hafa verið fram í málinu, ráðið að kærandi uppfylli ekki hið matskennda viðmið b-liðar 5. gr. reglnanna eins og hér stendur á. Er þá litið til þess að óvíst er hversu mikil og varanleg tekjuskerðing kæranda verður þegar biðlaunagreiðslum er lokið, auk þess sem fram hefur komið í umsögn kærða að verði kærandi fyrir varanlegri tekjuskerðingu verði henni unnt að sækja um undanþágu frá tekju- og eignamörkum að nýju. Það er því álit úrskurðarnefndarinnar hefur ekkert komið fram um að mat velferðarráðs Reykjavíkurborgar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda.
Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar.
Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 21. september 2011 í máli A er staðfest.
Ása Ólafsdóttir,
formaður
Margrét Gunnlaugsdóttir Gunnar Eydal