Mál nr. 321/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 321/2024
Fimmtudaginn 10. október 2024
A
gegn
Suðurnesjabæ
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 16. júlí 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun fjölskyldu- og velferðarráðs Suðurnesjabæjar, dags. 28. maí 2024, um að synja umsókn hans um akstursþjónustu fatlaðs fólks.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsókn, dags. 2. apríl 2024, sótti kærandi um akstursþjónustu fyrir fatlaðan son sinn, 12 ferðir á mánuði í 12 mánuði. Með bréfi Suðurnesjabæjar, dags. 28. maí 2024, var umsókn kæranda synjað með vísan til þess að notandi akstursþjónustu þyrfti að eiga lögheimili í sveitarfélaginu.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. júlí 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. júlí 2024, var óskað eftir greinargerð Suðurnesjabæjar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst úrskurðarnefndinni 7. ágúst 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. ágúst 2024. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála kemur fram að kærandi og barnsmóðir hans séu með fatlaðan son þeirra viku og viku og hann sé með skipta búsetu hjá þeim. Móðirin sé með lögheimili drengsins skráð hjá sér en kærandi sé með skráða búsetu. Kerfið vilji ekki sammþykkja þetta orðaval, viðurkenni bara lögheimili og neiti að þjónusta kæranda á nokkurn hátt. Sonur kæranda sé í Bskóla og dafni vel þar. Kærandi hafi sótt um að fá akstursþjónustu frá Suðurnesjabæ en hafi tvisvar sinnum verið hafnað. Það sé algjörlega óboðlegt og þetta hafi mikil áhrif á líf þeirra og stráksins. Einnig bendi kærandi á að þessi skipta búseta sé ekki heldur að gagnast honum vegna umsóknar um barnabætur og umönnunarbætur, því hafi einnig verið neitað. Kærandi vonist eftir aðstoð því þau séu komin að þolmörkum með þetta allt saman.
III. Sjónarmið Suðurnesjabæjar
Í greinargerð Suðurnesjabæjar kemur fram að velferðarsvið Suðurnesjabæjar byggi ákvarðanir sínar á reglum sveitarfélagsins um akstursþjónustu fatlaðs fólks, þar með að notandi þurfi að eiga lögheimili í sveitarfélaginu. Það beri að taka fram að á grundvelli þjónustusamnings sinni Suðurnesjabær félagsþjónustu fyrir Sveitarfélagið C.
Kærandi hafi tvívegis sótt um akstursþjónustu fyrir dreng sinn, fram og til baka í Bskóla. Drengurinn sé með lögheimili hjá móður í D en dvelji hjá föður aðra hvora viku í sveitarfélaginu C. Drengurinn sé með aksturþjónustu til og frá heimili sínu í D og í Bskóla en sá akstur sé samþykktur hjá velferðarþjónustu D. Sonur kæranda sé með greiningar frá Ráðgjafar- og greiningarstöð ríkisins og niðurstaða hafi legið fyrir árið 2021.
Umsókn um akstursþjónustu hafi fyrst verið móttekin og tekin fyrir á 419. afgreiðslufundi félagsmála hjá Suðurnesjabæ þann 12. október 2022 þar sem eftirfarandi hafi verið bókað:
„Umsókn synjað þar sem umsækjandi uppfyllir ekki forsendur úthlutunar skv. 2. gr. reglna um akstursþjónustu fatlaðs fólks.
2. gr. Notendur þjónustunnar
Forsendur úthlutunar akstursþjónustu skv. reglum þessum eru eftirfarandi:
- Að notandi eigi lögheimili í sveitarfélaginu
- Að notandi geti ekki nýtt sér almenningsfaratæki vegna fötlunar“
Umsókn um akstursþjónustu hafi aftur verið móttekin og tekin fyrir á 502. afgreiðslufundi félagsmála Suðurnesjabæjar þann 10. apríl 2024. Með umsókninni hafi fylgt niðurstöður athugana vegna greiningar á fötlun barns, staðfesting á samkomulagi um sameiginlega forsjá og staðfesting á samkomulagi um skipta búsetu barns. Eftirfarandi hafi verið bókað:
„Umsókn um akstursþjónustu skv. 29. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga synjað og umsækjanda leiðbeint um að beina umsókninni til lögheimili sveitarfélags barns. Í janúar 2022 voru gerðar breytingar á barnalögum nr. 76/2023 m.a. um skipta búsetu barna. Þrátt fyrir þessar breytingar þá er áfram miðað við þá meginreglu að skylda sveitarfélaga til að veita þjónustu miðast við lögheimili barna. Þess ber að taka fram að skv. reglum um akstursþjónustu fatlaðs fólks þarf notandi að eiga lögheimili í sveitarfélaginu og liggja þarf fyrir mat um að notandi geti ekki nýtt sér almenningsfaratæki vegna fötlunar.“
Þann 17. apríl 2024 hafi faðir drengsins áfrýjað framangreindri ákvörðun til fjölskyldu- og velferðarráðs Suðurnesjabæjar. Á 51. fundi fjölskyldu- og velferðarráðs þann 21. maí 2024 hafi eftirfarandi verið bókað:
„Fjölskyldu- og velferðarráð staðfestir bókun afgreiðslufundar félagsmála dags. 10. apríl 2024. Samkvæmt reglum Suðurnesjabæjar um akstursþjónustu fatlaðs fólks þarf notandi að eiga lögheimili í sveitarfélaginu.“
Í byrjun júní 2024 hafi starfsmaður D haft samband vegna málsins þar sem meðal annars hafi verið orðað hvort sveitarfélögin gætu átt samvinnu varðandi útfærslu á akstursþjónustunni. Starfsmaður D hafi ætla að kanna málið sín megin en engin niðurstaða liggi fyrir að svo stöddu.
Með vísan til framangreinds og gagna málsins telji sveitarfélagið að drengurinn sé í þörf fyrir akstursþjónustu fatlaðs fólks samkvæmt 29. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, enda fái hann slíka þjónustu frá lögheimilis sveitarfélagi. Suðurnesjabær hafni umsókn um akstursþjónustu þar sem að barnið sé með lögheimili í öðru sveitarfélagi.
Þann 1. júní 2022 hafi tekið gildi breytingar á barnalögum þar sem skipt búseta barna hafi verið lögfest. Forsendur þess að hægt sé að semja um skipta búsetu séu meðal annars að búsetu foreldra sé þannig háttað að barnið sæki einn leik- eða grunnskóla. Í skýringum með lögunum segi meðal annars:
„Með tilliti til hagsmuna og þarfa barns er enn fremur gerð krafa um nálægð heimila. Gera verður ráð fyrir að foreldrar búi oftast í sama sveitarfélagi og eftir atvikum í sama skólahverfi. Með hliðsjón af því hvað mörk liggja oft þétt er þó ekki gerð skilyrðislaus krafa um búsetu foreldra í sama sveitarfélagi heldur gert ráð fyrir að í einhverjum tilvikum geti verið um nærliggjandi sveitarfélög að ræða. Tekið er skýrt fram að búsetu foreldra verði að vera þannig háttað að barnið sæki einn skóla eða leikskóla frá báðum heimilum. Þá er lögð áhersla á að barnið eigi frjálsan og greiðan aðgang að samfelldu tómstundastarfi og öðrum frístundum frá báðum heimilum. Mikilvægt er að tryggja sem besta samfellu í lífi barns og stefna að því að skipt búseta raski ekki skólagöngu, reglubundnum tómstundum, vinatengslum og frjálsum leik í nærumhverfi barnsins. Við skilnað eða sambúðarslit kann að dragast að búseta foreldra komist í varanlegt horf. Sú staða kemur ekki í veg fyrir samning foreldra um skipta búsetu barns en samningur foreldra um skipta búsetu verður þó að bera með sér að þau skuldbindi sig til að tryggja nálægð heimila.“
Hvað varði skyldur sveitarfélaga segi jafnframt:
„Þær breytingar sem lagðar eru fram í þessu frumvarpi gera að meginstefnu til ekki ráð fyrir breytingum á skyldu sveitarfélaga til að veita þjónustu í því sveitarfélagi þar sem barn á lögheimili. Miðað er áfram við þá meginreglu að skylda til að veita þjónustu eins og grunn- og leikskólavist miðist við lögheimili barns.“
Ef gera eigi ráð fyrir því að jafna aðstöðumun búsetuforeldra og lögheimilisforeldra þurfi löggjafinn að gera það með tilheyrandi lagaheimildum þannig að búsetuforeldrið eigi rétt á að sækja um þjónustu í sínu sveitarfélagi, rétt til umönnunargreiðslna, barnabóta, hjálpartækjastuðnings og fleira.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Suðurnesjabæjar um að synja umsókn kæranda um akstursþjónustu fyrir fatlaðan son hans. Umsókninni var synjað með vísan til þess að notandi akstursþjónustu þyrfti að eiga lögheimili í sveitarfélaginu.
Í IV. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er að finna almenn ákvæði um rétt til félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga. Þar segir í 1. mgr. 12. gr. að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá er tekið fram í 1. mgr. 13. gr. laganna að með íbúa sveitarfélags sé átt við hvern þann sem eigi lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi.
Í 29. gr. laga nr. 40/1991 er kveðið á um akstursþjónustu fatlaðs fólks. Þar segir í 1. mgr.:
„Fatlað fólk skal eiga kost á akstursþjónustu sem miðar að því að það geti farið allra sinna ferða með þeim hætti sem það kýs og á þeim tíma sem það velur gegn viðráðanlegu gjaldi. Markmið akstursþjónustu er að gera þeim sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda.“
Suðurnesjabær hefur útfært nánar framkvæmt akstursþjónustu fyrir fatlað fólk með reglum þar um frá árinu 2021. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglnanna eru forsendur úthlutunar akstursþjónustu að notandi eigi lögheimili í sveitarfélaginu og að notandi geti ekki nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar. Óumdeilt er að sonur kæranda á lögheimili hjá móður sinni í D og því er fyrra skilyrðið ekki uppfyllt.
Þann 1. júní 2022 tóku gildi lög nr. 28/2021, er breyttu barnalögum nr. 76/2003. Í 3. mgr. 33. gr. barnalaga kemur nú fram að foreldrar sem fara sameiginlega með forsjá barns án þess að búa saman geti einnig samið um skipta búsetu barns þannig að barnið eigi fasta búsetu hjá þeim báðum. Forsendur þess að semja um skipta búsetu barns eru þær að foreldrar geti komið sér saman um atriði er snúa að umönnun og uppeldi barnsins og að búsetu foreldra sé þannig háttað að barnið sæki einn skóla eða leikskóla og eigi frjálsan og greiðan aðgang að samfelldu tómstundastarfi og öðrum frístundum frá báðum heimilum. Ef samið er um skipta búsetu barns skulu foreldrar ákveða hjá hvoru þeirra barnið skuli eiga lögheimili og hjá hvoru þeirra barnið skuli eiga búsetuheimili hér á landi. Í greinargerð með frumvarpi að breytingarlögunum kemur fram að þær breytingar sem lagðar séu fram geri að meginstefnu til ekki ráð fyrir breytingum á skyldu sveitarfélaga til að veita þjónustu í því sveitarfélagi þar sem barn á lögheimili. Miðað sé áfram við þá meginreglu að skylda til að veita þjónustu eins og grunn- og leikskólavist miðist við lögheimili barns.
Þrátt fyrir framangreinda breytingu á barnalögum um skipta búsetu verður ekki hjá því litið að ákvæði 12. og 13. gr. laga nr. 40/1991 eru skýr hvað varðar skyldu sveitarfélaga til að veita íbúum sínum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. er með íbúa sveitarfélags í lögunum átt við hvern þann sem lögheimili á í viðkomandi sveitarfélagi. Að því virtu og með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesti beri synjun Suðurnesjabæjar á umsókn kæranda um akstursþjónustu fyrir son hans.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun fjölskyldu- og velferðarráðs Suðurnesjabæjar, dags. 28. maí 2024, um að synja umsókn A, um akstursþjónustu fatlaðs fólks, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir