Mál nr. 117/2017
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 117/2017
Fimmtudaginn 8. júní 2017
A
gegn
Íbúðalánasjóði
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, móttekinni 17. mars 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 14. desember 2016, um synjun á beiðni kæranda um niðurfellingu uppgreiðsluþóknunar.
I. Málavextir og málsmeðferð
Kærandi var skuldari að ÍLS-veðbréfi sem útgefið var þann X 2008 að fjárhæð 20.000.000 kr. með veði í fasteigninni að B. Á forsíðu veðbréfsins kemur fram að um sé að ræða ÍLS-veðbréf án heimildar til uppgreiðslu eða aukaafborgana nema gegn sérstakri þóknun. Í 5. tölul. skilmála bréfsins kemur fram að skuldari afsali sér með undirritun ÍLS-veðbréfsins heimild til að greiða aukaafborganir af skuldabréfum sínum eða endurgreiða skuldina að fullu fyrir gjalddaga nema gegn sérstakri þóknun. Samkvæmt gögnum málsins greiddi kærandi upp veðbréfið vegna sölu fasteignarinnar og var þá gert að greiða uppgreiðsluþóknun. Kærandi fór fram á að uppgreiðsluþóknunin yrði felld niður en því var hafnað með ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 14. desember 2016.
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 17. mars 2017. Með bréfi, dags. 20. mars 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Íbúðalánasjóðs vegna kærunnar og gögnum málsins. Greinargerð Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 4. apríl 2017. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 10. apríl 2017, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi kærir ákvörðun Íbúðalánasjóðs um að verða ekki við beiðni hans um að fella niður uppgreiðsluþóknun á fasteignaláni hans. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun Íbúðalánasjóðs verði felld úr gildi.
Kærandi greinir frá því að hann hafi ekki haft vitneskju um uppgreiðsluákvæði fasteignaláns Íbúðalánasjóðs en hann hafi verið krafinn um rúmlega 1.600.000 kr. í uppgreiðsluþóknun við sölu á fasteign sinni. Kærandi tekur fram að á yfirtökuskjali, sem hann hafi undirritað við kaup á fasteigninni, hafi ekki verið greint frá uppgreiðslugjaldinu. Kærandi kveðst hvorki minnast þess að hafa fengið afrit af skuldabréfinu né að hafa verið greint frá lið 5 á bakhlið skuldabréfsins þar sem greint hafi verið frá uppgreiðslugjaldinu.
III. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs
Í greinargerð Íbúðalánasjóðs kemur fram að lánveitingar sjóðsins, þar með talin þau kjör sem sjóðurinn geti boðið upp á, grundvallist á lögum nr. 44/1998 um húsnæðismál og þeim reglugerðum sem settar hafi verið á grundvelli laganna. Í 2. og 3. mgr. 23. gr. laganna sé fjallað um heimildir Íbúðalánasjóðs til útlána með lægra vaxtaálagi gegn því að lántaki afsali sér rétti til að greiða upp lán eða greiða aukaafborganir lána nema gegn sérstakri þóknun. Í ákvæðunum komi fram að félagsmálaráðherra geti með reglugerð heimilað sjóðnum að veita lán með slíkum kjörum og skilmálum. Samkvæmt ákvæði 4. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 522/2004 sé Íbúðalánasjóði skylt að innheimta uppgreiðsluþóknun þegar skuldabréf eru greidd upp að fullu fyrir lok lánstíma. Enga heimild sé að finna til að lækka eða fella niður uppgreiðsluþóknun. Reiknireglu uppgreiðsluþóknunar sé að finna í 7. gr. reglugerðar nr. 1016/2005 um gjaldskrá Íbúðalánasjóðs en þar komi fram að þóknun reiknist af mismun á vaxtastigi láns sem greitt sé og markaðsvaxta sambærilegra nýrra lána hjá sjóðnum ef þeir séu lægri, miðað við uppreiknaðar eftirstöðvar lánsins, núvirt frá uppgreiðsludegi til lokagjalddaga eða miðað við innborgaða fjárhæð ef um aukaafborgun sé að ræða.
Íbúðalánasjóður tekur fram að kæranda hafi ekki getað dulist að skuldabréfið sjálft væri með uppgreiðsluþóknun, enda komi það bæði fram í haus þess sem og 5. tölul. skilmála bréfsins. Þá verði að gera þá kröfu til þeirra sem taki á sig fjárhagsskuldbindingar að þeir kynni sér efni þeirra. Það geti ekki verið á ábyrgð Íbúðalánasjóðs hvort kærandi seldi fasteign sína eða hvaða tilboði hann hafi tekið í eignina, enda hafi sjóðurinn ekki átt neina aðild að sölunni. Íbúðalánasjóður fer því fram á að staðfest verði ákvörðun sjóðsins frá 14. desember 2016 þar sem kröfu kæranda um að uppgreiðsluþóknun á láni hans yrði felld niður hafi verið synjað.
IV. Niðurstaða
Í máli þessu er ágreiningur um synjun Íbúðalánasjóðs á beiðni kæranda um að fella niður uppgreiðsluþóknun á fasteignaláni hans.
Í 1. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál kemur meðal annars fram að skuldurum Íbúðalánasjóðsveðbréfa sé heimilt að greiða aukaafborganir af skuldabréfum sínum eða að endurgreiða skuldina að fullu fyrir gjalddaga. Í 2. mgr. 23. gr. laganna segir að við sérstakar aðstæður og að fenginni umsögn stjórnar Íbúðalánasjóðs sé ráðherra heimilt að ákveða að aukaafborganir og uppgreiðsla ÍLS-veðbréfa verði aðeins heimilar gegn greiðslu þóknunar sem jafni út að hluta eða að öllu leyti muninn á uppgreiðsluverði ÍLS-veðbréfs og markaðskjörum sambærilegs íbúðabréfs. Geta skuli um þessa heimild í skilmálum ÍLS-veðbréfa. Þá kemur fram í 3. mgr. 23. gr. laganna að þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. geti ráðherra heimilað Íbúðalánasjóði með reglugerð, í samræmi við almennar lagaheimildir á hverjum tíma, að bjóða skuldurum ÍLS-veðbréfa að afsala sér rétti til þess að greiða án þóknunar upp lán eða greiða aukaafborganir, gegn lægra vaxtaálagi. Jafnframt skuli í reglugerðinni kveðið á um hlutfall þóknunar sem Íbúðalánasjóður getur áskilið sér ef lántaki, sem afsalar sér umræddum rétti, hyggst greiða upp lán fyrir lok lánstíma. Slík þóknun skuli aldrei nema hærri fjárhæð en nemur kostnaði Íbúðalánasjóðs vegna uppgreiðslu viðkomandi láns.
Ráðherra hefur nýtt heimild 1. málsl. 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998 með setningu reglugerðar nr. 1017/2005, um breytingu á reglugerð um ÍLS-veðbréf og íbúðabréf, nr. 522/2004. Á grundvelli 3. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 522/2004, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1017/2005, er Íbúðalánasjóði því heimilt að bjóða þeim, sem undirrita yfirlýsingu um að þeir afsali sér heimild til að greiða aukaafborganir af skuldabréfum sínum eða endurgreiða skuldina að fullu fyrir gjalddaga, lán með lægra vaxtaálagi sem nemur þeim hluta álagsins sem er ætlað að mæta vaxtaáhættu sjóðsins. Í fyrirliggjandi afriti af Íbúðalánasjóðsveðbréfi vegna þess láns sem kærandi tók hjá Íbúðalánasjóði kemur fram í 5. lið skilmála bréfsins að kærandi hafi með undirritun sinni afsalað sér heimild til að greiða aukaafborganir af skuldabréfum sínum eða að endurgreiða skuldina að fullu fyrir gjalddaga án þóknunar. Verður að telja að um sé að ræða yfirlýsingu samkvæmt 3. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 522/2004. Aukaafborgun kæranda eða endurgreiðsla að fullu fyrir gjalddaga er því óheimil nema gegn greiðslu uppgreiðsluþóknunar. Að því virtu var Íbúðalánasjóði rétt að synja beiðni kæranda um að fella niður uppgreiðsluþóknun á fasteignaláni hans. Hin kærða ákvörðun er staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 14. desember 2016, um synjun á beiðni A, um niðurfellingu uppgreiðsluþóknunar er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson