Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 372/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 372/2017

Fimmtudaginn 22. febrúar 2018

A

gegn

Seltjarnarnesbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. október 2017, kærir B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, ákvörðun fjölskyldunefndar Seltjarnarnesbæjar, dags. 12. júlí 2017, um að synja honum um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. september 2016 til 31. maí 2017.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi hefur þegið fjárhagsaðstoð frá Seltjarnarnesbæ nær samfellt frá árinu 2013. Frá janúar 2015 fékk kærandi greidda skerta fjárhagsaðstoð með vísan til 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Seltjarnarnesbæ þar sem kveðið er á um lækkun grunnfjárhæðar hafi umsækjandi hafnað atvinnu eða sagt starfi sínu lausu án viðhlítandi skýringa eða hafnað starfsleitaráætlun. Frá september 2016 var kæranda synjað um frekari fjárhagsaðstoð vegna meintra villandi upplýsinga sem hann hafði gefið varðandi tekjumöguleika sína, sbr. 33. gr. reglnanna. Kærandi bar þær ákvarðanir undir úrskurðarnefnd velferðarmála sem kvað upp úrskurð þann 30. mars 2017. Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að ákvörðun Seltjarnarnesbæjar að greiða kæranda skerta fjárhagsaðstoð á tímabilinu júlí 2015 til ágúst 2016 og að synja honum um frekari fjárhagsaðstoð hafi ekki verið í samræmi við reglur um fjárhagsaðstoð frá Seltjarnarnesbæ. Ákvarðanirnar voru því felldar úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

Með bréfi Seltjarnarnesbæjar, dags. 17. maí 2017, var kæranda tilkynnt að mál hans hefði verið tekið til nýrrar meðferðar og ákveðið að veita honum viðbótarfjárhagsaðstoð vegna tímabilsins júlí 2015 til ágúst 2016. Þá var kæranda tilkynnt sú ákvörðun félagsmálastjóra, fyrir hönd sveitarfélagsins að synja honum um frekari fjárhagsaðstoð á þeirri forsendu að hann ætti hvorki rétt á slíkri aðstoð samkvæmt lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga né reglna bæjarins um fjárhagsaðstoð og vísað til tíu nánar tilgreindra atriða sem horft var til við ákvörðunina. Kærandi áfrýjaði þeirri ákvörðun til fjölskyldunefndar sveitarfélagsins með bréfi, dags. 19. júní 2017, og fór fram á að nefndin tæki sjálfstæða afstöðu til umsóknar hans um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. september 2016 til 31. maí 2017. Fjölskyldunefndin tók málið fyrir á fundi 22. júní 2017 og staðfesti niðurstöðuna og vísaði til þeirra tíu atriða sem félagsmálastóri hafði horft til við ákvörðun sína. Nefndin vísaði einnig til þess að umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð aftur í tímann gæti ekki gengið upp, sbr. 5. gr. reglna um fjárhagsaðstoð Seltjarnarnesbæjar. Ákvörðun fjölskyldunefndar var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 12. júlí 2017.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 12. október 2017. Með bréfi, dags. 16. október 2017, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Seltjarnarnesbæjar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð sveitarfélagsins barst með bréfi, dags. 14. nóvember 2017, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. nóvember 2017. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 5. desember 2017, og voru þær sendar sveitarfélaginu til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. desember 2017. Athugasemdir bárust frá sveitarfélaginu með bréfi, dags. 2. janúar 2018, og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. janúar 2018. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá aðdraganda þeirrar ákvörðunar sveitarfélagsins að synja honum alfarið um fjárhagsaðstoð. Kærandi telur afgreiðslu málsins hjá sveitarfélaginu ekki standast reglur sem það hafi sjálft sett um fjárhagsaðstoð og ganga gegn úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála frá 30. mars 2017. Óumdeilt sé að kærandi eigi rétt til fjárhagsaðstoðar úr hendi sveitarfélagsins, sbr. reglur um fjárhagsaðstoð. Hann sé búsettur á Seltjarnarnesi og hafi ekki nægar tekjur til að sjá sér farborða án aðstoðar, þegar litið sé til grunnfjárþarfa hans til framfærslu.

Kærandi tekur fram að í hinni kærðu ákvörðun séu talin upp tíu atriði sem sveitarfélagið hafi litið til við meðferð málsins. Hvað varði fyrstu tvö atriðin þá bendi kærandi á að hvergi í reglum sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð sé fjárstyrkur takmarkaður við tiltekið tímabil fjárþurftar. Hvergi í reglunum sé vikið að því hvað teljist eðlilegt tímabil án þess að umsækjandi fái vinnu né að umsóknir skuli afgreiddar með hliðsjón af því hversu líklegt þyki að umsækjandi muni sjá sjálfum sér farborða á næstu mánuðum. Kærandi mótmælir því að hafa veitt rangar eða villandi upplýsingar þegar hann hafi gefið upplýsingar um að verkefni hans væri að fara að afla honum tekna. Skiljanlega hafi hann ekki með nokkru móti getað staðfest hvað yrði um verkefnið. Þriðja atriðið sem sveitarfélagið taki til sé að kærandi hafi hvorki leitað sér að atvinnu né heldur tekið þeirri atvinnu sem honum hafi verið boðin og af þeirri ástæðu sé ekki hægt að veita honum fjárhagsaðstoð. Kærandi vísar til 11. gr. reglna sveitarfélagsins en þar sé sérstaklega fjallað um það hvernig skuli fara þegar umsækjandi um fjárhagsaðstoð sinni ekki kröfum um atvinnuleit og aðra virkni. Þar komi fram að grunnupphæð til framfærslu skuli greidd að hálfu þann mánuð sem viðkomandi hafni vinnu, svo og næstu tvo mánuði á eftir. Sveitarfélaginu sé ekki heimilt að grípa til annarra aðgerða, kæranda í óhag, en þeirra sem þar sé mælt fyrir um og vísar til lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Í fjórða lagi vísi sveitarfélagið til þess að kærandi hafi ekki sent upplýsingar um tekjur þegar eftir því hafi verið óskað. Kærandi bendir á að hann hafi aldrei verið beðinn um þær upplýsingar við meðferð málsins. Hins vegar hafi hann skilað félagsmálastjóra þeim upplýsingum áður en hann hafi skotið ákvörðun til fjölskyldunefndar. Ekki hafi verið fundið að þessu atriði í ákvörðun fjölskyldunefndar.

Í fimmta til áttunda lið rökstuðnings sveitarfélagsins sé vikið að því að kærandi hafi ekki tekið þátt í verkefnum til aðstoðar atvinnulausum, hafnað atvinnutilboðum þar sem hann hafi verið að vinna að eigin verkefni, hafi ekki mætt til viðtala hjá félagsráðgjöfum sveitarfélagsins og ekki þegið þau störf sem honum hafi verið boðin. Þá sé því haldið fram að kærandi hafi enga þörf fyrir viðbótarfjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu. Kærandi ítrekar að samkvæmt 11. gr. reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð sé heimilt að helminga greiddan styrk í þrjá mánuði í senn þegar umsækjandi sinni ekki kröfum um atvinnuleit og aðra virkni. Hins vegar sé ekki heimilt að synja alfarið um greiðslu styrks, enda uppfylli kærandi enn það skilyrði að hafa ónógar tekjur og geta ekki séð sjálfum sér farborða án aðstoðar. Þá bendir kærandi á að í 9. gr. reglnanna sé tekið fram hvernig mat á fjárþörf skuli fara fram. Í reglunum komi hvergi fram að litið skuli til þess hvort umsækjandi geti séð sér farborða með að sinna starfi sem honum sé boðið heldur aðeins að líta skuli til aðstæðna eins og þær eru hverju sinni. Í níunda lið rökstuðningsins sé vísað til þess að kærandi hafi ítrekað veist að starfsmönnum félagsþjónustu með meiðandi og ósiðlegum ummælum í ræðu og riti. Kærandi bendir á að engin gögn séu lögð fram til stuðnings þeirri fullyrðingu þannig að taka megi afstöðu til hennar. Að mati kæranda hafi persónulega óvild í hans garð ráðið ákvörðun sveitarfélagsins en það gangi alfarið gegn lögmætisreglunni líkt og að framan greini. Kærandi telur jafnframt að sveitarfélagið hafi brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar annars vegar og meðalhófsreglu hins vegar, sbr. 11. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með því að vísa til persónu kæranda til að rökstyðja niðurstöðu sína. Að lokum sé í rökstuðningi sveitarfélagsins vísað til þess að kærandi hafi greint frá því að hann þyrfti ekki á frekari fjárhagsaðstoð að halda. Kærandi hafnar því alfarið og tekur fram að það liggi fyrir að verkefnið hafi ekki skilað honum þeim tekjum að hann þurfi ekki á fjárstyrk frá sveitarfélaginu að halda. Hann hafi skilað inn gögnum til sveitarfélagsins sem sýni það. Á sveitarfélaginu hvíli rannsóknarskylda, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, til að ganga úr skugga um að kærandi sé svo vel staddur fjárhagslega að hann þurfi ekki á fjárhagsaðstoð að halda. Slíkt mat þurfi að fara fram samkvæmt þeim reglum sem sveitarfélagið hafi sjálft sett, sbr. 9. gr. reglna um fjárhagsaðstoð, en geti ekki byggt á óljósum ummælum í tölvupósti frá kæranda.

Kærandi vísar til 32. gr. reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð þar sem fram komi að ákvörðun um synjun umsóknar um fjárstyrk skuli tilkynnt með skriflegum og skýrum hætti þar sem vísað sé til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð. Atriðin í rökstuðningi sveitarfélagsins séu öll því marki brennd að byggja hvorki á ákvæðum laga né reglum þess. Með því sé brotið gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Í rökstuðningi sveitarfélagsins sé hins vegar í ítarlegu máli fundið að ýmsum atriðum í fari kæranda sem eigi þó ekkert skylt við tilkall hans til fjárhagslegrar aðstoðar samkvæmt reglum sveitarfélagsins. Afgreiðsla sveitarfélagsins á umsókn kæranda beri þess skýr merki að persóna hans sé dregin inn í málið og meginregla stjórnsýsluréttarins um jafnræði látin lönd og leið.

Með vísan til alls framangreinds telji kærandi að sveitarfélagið hafi með alvarlegum hætti brotið gegn meginreglum stjórnsýsluréttar við afgreiðslu málsins og að ákvörðun í málinu um að synja honum um greiðslu fjárhagsaðstoðar frá og með 1. september 2016 sé ólögmæt.

III. Sjónarmið Seltjarnarnesbæjar

Í greinargerð Seltjarnarnesbæjar er þess krafist að máli kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara að nefndin fallist ekki á athugasemdir kæranda við hina kærðu ákvörðun. Tekið er fram að mál kæranda eigi sér langan aðdraganda og ítarlega er greint frá forsögu þess og málsatvikum.

Sveitarfélagið tekur fram að aðalkrafa þess um frávísun byggist á því veigamikla atriði að í kærunni hafi algjörlega gleymst að setja inn kröfugerð og því sé ekki hægt að átta sig á því hvers sé krafist. Í kærunni komi einungis fram að tiltekin ákvörðun fjölskyldunefndar sé kærð en ekkert um hvort ógilda eigi hina kærðu ákvörðun, breyta henni að hluta eða í heild eða eitthvað annað. Ljóst sé að slík framsetning kæru uppfylli engan veginn þær kröfur sem gerðar séu til stjórnsýslukæra og því beri að vísa kærunni frá, enda sé ekki möguleiki fyrir úrskurðarnefndina að taka afstöðu í máli þegar ekki séu settar fram neinar kröfur.

Seltjarnarnesbær tekur fram að kærandi eigi ekki rétt á frekari aðstoð þar sem hann hafi hvorki leitað að vinnu né tekið þeirri vinnu sem honum hafi verið boðin, sbr. 1. gr. reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð. Einnig hafi kærandi neitað þeirri aðstoð sem honum hafi verið boðin til að leita sér að atvinnu, svo sem með því að taka þátt í átaksverkefnum á vegum Vinnumálastofnunar. Að mati sveitarfélagsins hafi kærandi ekki neinar gildar ástæður fyrir því að leita sér ekki að vinnu og það að hann neiti að taka þeirri vinnu sem honum hafi verið boðin útiloki frekari fjárhagsaðstoð. Kærandi geti séð sér farborða með því að taka þeim störfum sem honum séu boðin og hafi því enga þörf fyrir fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu. Hann uppfylli því ekki skilyrði 2. gr. reglna Seltjarnarnesbæjar um fjárhagsaðstoð en markmið þeirra sé að aðstoða þá sem ekki geti séð sér farborða. Miðað við lýsingar kæranda í kærunni virðist hann vera í sjálfstæðri atvinnustarfsemi og hann kalli sjálfan sig „frumkvöðul“. Sveitarfélagið bendir á að starfsmenn nýsköpunarfyrirtækja geti ekki þegið fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi á sama tíma og þeir sinni starfi sínu í nýsköpunarfyrirtækinu. Það að segjast vera „frumkvöðull“ geti ekki talist gild ástæða fyrir því að neita að taka þeirri vinnu sem bjóðist. Það sé ekki hlutverk sveitarfélagsins að fjármagna slíka tilraunastarfsemi.

Sveitarfélagið vísar til þess að kærandi hafi ekki hrakið þau atriði sem fram komi í hinni kærðu ákvörðun. Í fyrsta lagi hafi kærandi verið óslitið á styrk frá sveitarfélaginu allt frá árinu 2013 án þess að þiggja tilboð um vinnu eða leita sér að vinnu. Það sé mun lengri tími en eðlilegt geti talist og ekki um ómálefnaleg sjónarmið að ræða. Sveitarfélagið bendir á að eðli fjárhagsaðstoðar sé skammtímaúrræði á meðan sá sem aðstoðar njóti sé að leita sér að nýrri vinnu. Fjárhagsaðstoð sé ekki hugsuð sem langtímalífeyrir á meðan sá sem hennar njóti sé að sinna hugðarefnum sínum og sé ekki að leita sér að vinnu með það að markmiði að framfæra sjálfan sig, eins og honum sé skylt, sbr. 1. gr. fjárhagsaðstoðarreglnanna. Í 5. gr. reglnanna sé einnig gert ráð fyrir því að um skammtímaaðstoð sé að ræða en þar komi fram að ákvarðanir um fjárhagsaðstoð skuli að jafnaði ekki ná yfir lengra tímabil en þrjá mánuði.

Í öðru lagi hafi kærandi í upphafi sent inn upplýsingar um að hann þyrfti aðeins fjárhagsaðstoð í fáeina mánuði þar sem starfsemin myndi fljótlega skila tekjum en síðar hafi komið í ljós að það reyndust rangar upplýsingar. Sveitarfélagið bendir á að kærandi hafi fengið fjárhagsaðstoð á þeim forsendum að hann þyrfti aðeins aðstoð í fáeina mánuði. Síðar hafi komið í ljós að þær forsendur væru rangar.

Í þriðja lagi hafi kærandi ekki svarað tilvísun sveitarfélagsins til 1. gr. reglnanna, enda augljóst að hann uppfylli ekki það skilyrði. Kærandi hafi hvorki svarað tilvísun sveitarfélagsins til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar þar sem fram komi að hann hafi ekki komið með viðhlítandi rök fyrir því að hafna atvinnu í skilningi 1. mgr. 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð né leitast við að gefa ástæðu fyrir því að vera ekki skráður í atvinnuleit hjá Vinnumálastofnun. Því sé ljóst að tilvísun sveitarfélagsins til 1. gr. reglnanna nægi ein og sér til þess að hafna kröfum kæranda um fjárhagsaðstoð.

Í fjórða lagi hafi kærandi hvorki sent inn upplýsingar um tekjur né upplýsingar um veflykil hjá Ríkisskattstjóra vegna tekna (skattframtal og staðgreiðsluyfirlit) þegar eftir því hafi verið óskað.

Í fimmta lagi hafi kærandi ekki tekið boði um þátttöku í verkefninu Stígur á vegum Vinnumálastofnunar sem aðstoði þá sem hafi verið langvarandi atvinnulausir að finna vinnu við hæfi. Kærandi láti í ljós að hann þurfi ekkert að leita sér að vinnu og það að hann geri það ekki eigi aðeins að leiða til tímabundinnar lækkunar bóta en ekki niðurfellingar. Sveitarfélagið mótmælir því alfarið, enda sé það í öllum tilvikum skilyrði fyrir greiðslu bóta að umsækjandi sé að leita sér að vinnu til að geta uppfyllt framfærsluskyldu gagnvart sjálfum sér eins og krafist sé í 1. gr. reglnanna.

Í sjötta lagi hafi kærandi neitað að fara í vinnu og ávallt borið því við að allur hans tími fari í að vinna að nýsköpunarverkefni og að hann sé í sjálfstæðri atvinnustarfsemi.

Í sjöunda lagi hafi kærandi neitað að mæta í viðtöl við félagsráðgjafa bæjarins þrátt fyrir að óskað hafi verið eftir því.

Í áttunda lagi er vísað til þess að kærandi geti séð sér farborða með því að taka þeim störfum sem honum hafi verið boðin og því hafi hann enga þörf fyrir viðbótarfjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu. Þar af leiðandi uppfylli hann ekki skilyrði 2. gr. reglnanna en markmið þeirra sé að aðstoða aðeins þá sem geti ekki séð sér farborða.

Í níunda lagi hafi kærandi ítrekað veist að starfsmönnum félagsþjónustu með meiðandi og ósiðlegum ummælum í ræðu og riti. Til sé fjöldinn allur af tölvupóstum því til sönnunar.

Í tíunda og síðasta lagi hafi kærandi staðfest í tölvupósti til sveitarfélagsins að verkefni hans væri þegar farið að skila honum tekjum og því þyrfti hann ekki frekari fjárhagsaðstoð. Andsvör kæranda við því séu einkennileg en hann taki undir að hann sé farinn að hafa tekjur af verkeninu en gefi ekki upp hverjar þær séu. Í kærunni vísi kærandi til þess að sveitarfélagið eigi að komast að því hversu miklar tekjur það séu og hvort þær nægi honum til framfærslu. Sveitarfélagið bendir á að kærandi eigi sjálfur að upplýsa um tekjurnar, ekki síst í ljósi þess að hann hafi fyrr á þessu ári upplýst um að hann væri þegar farinn að hafa tekjur af verkefninu og þyrfti því ekki á frekari fjárhagsaðstoð að halda. Þá bendir sveitarfélagið á að það hafi fyrr á árinu 2017 innt kæranda eftir því hvort og þá hvaða tekjur hann hefði og þá hefði hann ekki upplýst um þessar tekjur.

Seltjarnarnesbær telji sig hafa sýnt fram á það að vísa beri máli kæranda frá úrskurðarnefndinni þar sem engin kröfugerð liggi fyrir í málinu af hálfu hans. Þá telur sveitarfélagið að það hafi sýnt fram á að kærandi eigi ekki rétt á frekari fjárhagsaðstoð frá því þar sem hann uppfylli ekki skilyrði laga og reglna fyrir því að fá slíka aðstoð. Hann hafi ekki leitað sér að vinnu eins og honum sé skylt og ekki viljað taka þeirri vinnu sem honum hafi verið boðin.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um ákvörðun Seltjarnarnesbæjar að synja kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. september 2016 til 31. maí 2017.

Seltjarnarnesbær hefur farið fram á að máli kæranda verði vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála á þeirri forsendu að í kærunni sé ekki að finna sérstaka kröfugerð. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Í athugasemdum með greinargerð í frumvarpi til laganna segir um efni kæru að almennt sé gengið út frá því að nægjanlegt sé að aðili tjái æðra stjórnvaldi að hann sé óánægður með ákvörðun. Þá kemur fram að kæra, sem borin er fram á formlega réttan hátt, hafi í för með sér skyldu fyrir æðra stjórnvald til þess að endurskoða hina kærðu ákvörðun. Úrskurðarnefndin tekur fram að hvorki í lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga né lögum nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála er að finna ákvæði er kveða á um sérstakt efni kæru. Að því virtu og með vísan til framangreinds verður ekki fallist á kröfu sveitarfélagsins um frávísun kæru.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Seltjarnarnesbæ er kveðið á um inntak fjárhagsaðstoðar. Þar kemur meðal annars fram í 1. mgr. að fjárhagsaðstoð sé veitt til framfærslu einstaklingum og fjölskyldum sem hafi ónógar tekjur og geti ekki séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Í 4. mgr. ákvæðisins segir að fjárhagsaðstoð skuli veitt í eðlilegum tengslum við önnur úrræði félagsþjónustu, svo sem ráðgjöf og leiðbeiningar, í samræmi við V. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. reglnanna skapast réttur til fjárhagsaðstoðar í þeim mánuði sem sótt er um aðstoð og greiðist mánaðarlega. Fjárhagsaðstoð skal að öðru jöfnu vera greidd einn mánuð í senn og ákvarðanir um aðstoð skulu að jafnaði ekki ná yfir lengra tímabil en þrjá mánuði. Í 4. mgr. 5. gr. reglnanna kemur fram að aðstæður þeirra sem fengið hafa fjárhagsaðstoð lengur en sex mánuði skuli kannaðar sérstaklega, félagsleg ráðgjöf veitt í samræmi við V. kafa laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og máli vísað til Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna ef við á.

Í málinu liggur fyrir að kærandi hefur þegið fjárhagsaðstoð frá Seltjarnarnesbæ á tímabilinu september 2013 til september 2016 eða þar til honum var synjað um frekari fjárhagsaðstoð, upphaflega með vísan til 33. gr. reglna sveitarfélagsins. Þar segir að fjárhagsaðstoð veitt á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga af hendi þess sem aðstoðina fái sé endurkræf og geti félagsþjónustan endurkrafið viðkomandi um fjárhæðina samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Ef sannreynt sé við vinnslu máls að upplýsingar sem umsækjandi hafi veitt séu rangar eða villandi stöðvast afgreiðsla umsóknarinnar. Í fyrra máli kæranda vísaði sveitarfélagið til þess að hann hafi við fyrstu umsókn um fjárhagsaðstoð tekið fram að hann þyrfti einungis aðstoð í fáeina mánuði þar sem starfsemi hans myndi fljótlega skila tekjum. Síðan hafi liðið þrjú ár og engar tekjur komið. Úrskurðarnefndin féllst ekki á að kærandi hafi með þeirri frásögn einni og sér verið að veita rangar eða villandi upplýsingar þannig að rétt væri að stöðva frekari fjárhagsaðstoð til hans. Úrskurðarnefndin komst því að þeirri niðurstöðu í máli nr. 388/2016 að ákvörðun Seltjarnarnesbæjar að greiða kæranda skerta fjárhagsaðstoð á tímabilinu júlí 2015 til ágúst 2016 og synja honum um frekari fjárhagsaðstoð frá og með október 2016 hafi ekki verið í samræmi við reglur þess um fjárhagsaðstoð og lagði fyrir sveitarfélagið að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar. Samkvæmt gögnum málsins var mál kæranda tekið til nýrrar meðferðar og ákveðið að veita honum viðbótarfjárhagsaðstoð vegna tímabilsins júlí 2015 til ágúst 2016. Sveitarfélagið ákvað hins vegar að synja kæranda á ný um frekari fjárhagsaðstoð og í hinni kærðu ákvörðun er vísað til tíu atriða sem horft var til við töku ákvörðunar. Í greinargerð sveitarfélagsins er jafnframt vísað til þess sem megin málsástæðu að í 1. gr. reglna þess um fjárhagsaðstoð komi fram að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig „og að þeir sem sækja um aðstoð sé skylt að leita sér að atvinnu og taka þeirri atvinnu sem býðst nema því aðeins að veikindi, örorka, hár aldur eða aðrar gildar ástæður hamli því.“ Úrskurðarnefndin tekur fram að síðari hluta setningarinnar er ekki að finna í reglum sveitarfélagsins. Þá er byggt á því að kærandi hafi engar gildar ástæður til að leita sér ekki að vinnu og það að hann neiti að taka þeirri vinnu sem honum hafi verið boðin útiloki hann frá frekari styrkveitingum. Hann uppfylli ekki skilyrði 2. gr. reglna sveitarfélagsins um að geta ekki séð sjálfum sér farborða.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga hvílir sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Að mati úrskurðarnefndarinnar liggur fyrir að aðstæður kæranda voru ekki rannsakaðar með fullnægjandi hætti, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, áður en hin kærða ákvörðun var tekin um að synja honum um fjárhagsaðstoð. Úrskurðarnefndin telur að sveitarfélaginu hafi borið að kanna sérstaklega hvort kærandi gæti séð sér farborða án aðstoðar, sbr. 2. gr. reglna Seltjarnarnesbæjar um fjárhagasaðstoð, og þá meðal annars með því að óska eftir tekjuupplýsingum frá honum. Af þessu tilefni tekur úrskurðarnefndin fram að samkvæmt 7. gr. og 8. gr. reglnanna ber umsækjanda um fjárhagsaðstoð að leggja fram skattframtal og gögn eða yfirlit um allar tekjur sínar fyrir mánuðina sem sótt er um fjárhagsaðstoð fyrir og mánuðina þar á undan. Hafi kærandi haft einhverjar tekjur af verkefni sínu bar honum jafnframt að upplýsa um þær og eftir atvikum leggja fram gögn. Kæranda bar jafnframt að leggja fram skráningarskírteini frá vinnumiðlun, sé hann atvinnulaus. Þá ber sveitarfélaginu einnig, sbr. 5. gr. reglna þess, að kanna aðstæður umsækjanda sérstaklega þar sem hann hafði þegið fjárhagsaðstoð í lengri tíma en sex mánuði og veita honum félagslega ráðgjöf, sbr. V. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Með ráðgjöf og gagnaöflun gat sveitarfélagið rannsakað aðstæður kæranda svo sem áskilið er í 28. gr. reglna sveitarfélagsins, í samráði við hann, sbr. 29. gr., og metið þörf hans á fjárhagsaðstoð, sbr. 2. mgr. 21. gr. laga um félagslega aðstoð. Þá hefur sveitarfélagið ekki rökstutt með fullnægjandi hætti hvers vegna kærandi geti nú séð sjálfum sér farborða þegar hann hafði áður verið talinn uppfylla skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð á árunum 2013 til 2016. Með því að synja kæranda um fjárhagsaðstoð án þess að meta aðstæður hans sérstaklega og kanna til hlítar hvort hann gæti framfært sjálfan sig er skilyrðum laga nr. 40/1991 ekki fullnægt. Þá liggur ekki fyrir í málinu fyrir hvaða mánuði á tímabilinu 1. september 2016 til 31. maí 2017 kærandi sótti um fjárhagsaðstoð eða hvaða form hafði verið haft á umsóknun hans um fjárhagsaðstoð fram til þess. Með vísan til framangreinds er óhjákvæmilegt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu til Seltjarnarnesbæjar til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Seltjarnarnesbæjar frá 12. júlí 2017 um að synja A, um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. september 2016 til 31. maí 2017 er felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta