Mál nr. 436/2017
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 436/2017
Fimmtudaginn 15. mars 2018
A
gegn
Íbúðalánasjóði
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 22. nóvember 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 16. nóvember 2017, um synjun á umsókn hans um greiðsluerfiðleikaaðstoð.
I. Málavextir og málsmeðferð
Kærandi sótti um greiðsluerfiðleikaaðstoð hjá Íbúðalánasjóði með umsókn, dags. 6. október 2017, og óskaði eftir skuldbreytingu á vanskilum. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 16. nóvember 2017, á þeirri forsendu að ekki væri um óvænta tímabundna erfiðleika að ræða.
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 22. nóvember 2017. Með bréfi, dags. 24. nóvember 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Íbúðalánasjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 22. desember 2017, og var send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. janúar 2018. Athugasemdir bárust frá kæranda 29. janúar 2018 og voru þær sendar Íbúðalánasjóði til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. febrúar 2018. Athugasemdir bárust frá Íbúðalánasjóði 21. febrúar 2018 og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. febrúar 2018. Þá bárust frekari athugasemdir frá kæranda með tölvupósti 9. mars 2018.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að hann hafi leitað eftir upplýsingum hjá Íbúðalánasjóði í ágúst 2017 vegna vanskila. Starfsmaður sjóðsins hafi þá bent honum á að sækja um nýtt lán til að greiða vanskilin og óskað eftir upplýsingum um tekjur hans. Það hafi verið það eina sem starfsmaðurinn hafði áhuga á, sem og verðmæti fasteignarinnar. Kærandi hafi skilað inn gögnum í september 2017 vegna greiðslumats og verið beðinn um frekari gögn í október og nóvember. Kærandi bendir á að hann hafi aldrei verið beðinn um útskýringu á tilkomu vanskilanna en fengið höfnun þar sem hann uppfyllti ekki það skilyrði. Kærandi gerir athugasemd við meðferð Íbúðalánasjóðs vegna umsóknar hans og telur að sjóðurinn hefði átt að kanna í upphafi hvort hann uppfyllti þetta tiltekna skilyrði áður en óskað væri eftir gögnum vegna greiðslumats.
Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Íbúðalánasjóðs kemur meðal annars fram að kæran lúti að því að hann hafi verið teymdur í óþarfa ferli í ljósi synjunar sjóðsins. Kærandi vísar til þess að hvorki ráðgjafar Íbúðalánasjóðs né lánafulltrúi hafi greint honum frá því skilyrði sem hin kærða ákvörðun byggi á. Kærandi telur það ekki eðlilega málsmeðferð að hann hafi verið settur í langt greiðslumat þegar það liggi fyrir að grundvallarskilyrði væri ekki uppfyllt. Kærandi tekur fram að hann hafi einungis vísað til þess í kæru til nefndarinnar en Íbúðalánasjóður fari um víðan völl í greinargerð sinni og dragi inn ótal önnur atriði um umsókn hans til að réttlæta ákvörðun sína. Hvað varðar orsök greiðsluerfiðleikanna tekur kærandi fram að hann hafi farið í dýrt nám, fjárfest í [...] og dvalið erlendis á námskeiði í þrjá mánuði. Þá hafi hann notað alla sína fjármuni og laun frá september 2017 til að greiða niður aðrar skuldir.
III. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs
Í greinargerð Íbúðalánasjóðs kemur fram að kærandi hafi sótt um aðstoð vegna greiðsluvanda og umsókn hans hafi í framhaldinu verið til meðferðar hjá viðskiptasviði sjóðsins. Erindi kæranda hafi verið lagt fyrir greiðsluerfiðleikanefnd sjóðsins til afgreiðslu en á fundi nefndarinnar 6. nóvember 2017 hafi afgreiðslu verið frestað og óskað eftir frekari gögnum frá kæranda. Kærandi hafi svarað 13. nóvember og erindi hans lagt aftur fyrir greiðsluerfiðleikanefnd 15. nóvember þar sem tekin hafi verið ákvörðun um að synja umsókninni. Nefndin hafi talið að greiðsluvandi kæranda stafaði ekki af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu eða atvinnuleysis eða af öðrum ófyrirséðum atvikum. Lagt hafi verið til að kærandi myndi selja eignina og greiða upp vanskil. Þá hafi verið litið til þess að kærandi hafði áður fengið skuldbreytingu og nær ekkert greitt síðan og hann upplýst að hann hygðist ekki búa í eigninni, enda hefði hann leigt út fasteignina.
Íbúðalánasjóður vísar til þess að um aðstoð við greiðsluvanda fari eftir reglum um meðferð greiðsluerfiðleikaúrræða sem stjórn sjóðsins hafi samþykkt. Reglurnar fjalli meðal annars um greiðsluerfiðleikaúrræði, skipulag við vinnslu þeirra mála innan sjóðsins og viðmið við mat á umsóknum. Meðal úrræða sjóðsins sé skuldbreyting vanskila, sbr. 5. gr. reglnanna, en við afgreiðslu erinda skuli greiðsluerfiðleikanefnd gæta að ábyrgri nálgun þar sem leitast skuli við að beita tiltækum aðgerðum til að leysa greiðsluvanda til frambúðar með raunhæfum hætti. Greiðsluerfiðleikaúrræði sjóðsins séu byggð á 48. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál en þar komi meðal annars fram að skilyrði fyrir skuldbreytingarláni sé að greiðsluvandi stafi af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu eða atvinnuleysis eða af öðrum ófyrirséðum atvikum. Þá sé í 8. gr. reglna Íbúðalánasjóðs um meðferð greiðsluerfiðleikaúrræða kveðið á um fjögur grunnskilyrði sem uppfylla þurfi.
Íbúðalánasjóður tekur fram að við meðferð málsins hafi verið farið yfir þær forsendur sem hafi legið fyrir við mat á því hvort kærandi uppfyllti skilyrði fyrir skuldbreytingu vanskila. Það hafi verið mat greiðsluerfiðleikanefndar að ekkert hefði komið fram í fyrirliggjandi gögnum um að rekja mætti greiðsluvanda kæranda til óvæntra tímabundinna erfiðleika og af þeirri ástæðu hefðu grunnskilyrði fyrir veitingu skuldbreytingarláns ekki verið uppfyllt. Við meðferð málsins hafi einnig verið litið til fyrri greiðsluerfiðleikaúrræða sem kæranda hafði verið veitt vegna greiðsluvanda. Hann hafi fengið skuldbreytingarlán á árinu 2015, en með því hafi vanskilum sem myndast höfðu á árunum 2013 til 2015 verið skuldbreytt. Auk þess hafi kærandi fengið frestun afborgana í þrjú ár. Flest bendi því til að vandi kæranda sé viðvarandi sem leysa mætti með sölu á eigninni. Þá hafi verið litið til þess að kærandi hafi upplýst um að hann hygðist ekki nýta eignina til eigin nota, heldur leigja hana út. Íbúðalánasjóður fer fram á að ákvörðun sjóðsins verði staðfest og hafnar öllum fullyrðingum kæranda um meðferð málsins.
Í athugasemdum Íbúðalánasjóðs er áréttað að við meðferð máls kæranda hafi sjóðurinn viðhaft það verklag sem komi fram í reglum stjórnar um meðferð greiðsluerfiðleikaúrræða. Skuldbreyting standi öllum viðskiptavinum sjóðsins til boða sem á annað borð uppfylli hin lögbundnu skilyrði fyrir því úrræði. Hið sama gildi um öll önnur greiðsluvandaúrræði sjóðsins og honum sem stjórnvaldi beri að fara eftir þeim lögum og reglum sem um hann gildi.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Íbúðalánasjóðs um synjun á umsókn kæranda um aðstoð vegna greiðsluvanda, nánar tiltekið skuldbreytingu á vanskilum.
Kærandi hefur gert athugasemdir við málsmeðferð Íbúðalánasjóðs vegna umsóknar hans, þá sérstaklega að hann hafi ekki verið upplýstur um það grundvallarskilyrði sem þurfi að vera uppfyllt til að eiga rétt á skuldbreytingu vanskila. Úrskurðarnefndin hefur yfirfarið gögn málsins og telur ekki ástæðu til að gera athugasemdir við málsmeðferð sjóðsins.
Í 48. gr. laga nr. 44/1998 er kveðið á um úrræði vegna greiðsluvanda lánþega Íbúðalánasjóðs. Samkvæmt 1. mgr. 48. gr. laga um húsnæðismál er stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt að veita skuldbreytingarlán til allt að 30 ára í því skyni að leysa úr tímabundnum greiðsluerfiðleikum hjá lánþegum vegna almennra lána, viðbótarlána og lána sem sjóðurinn hefur yfirtekið. Er þar gert að skilyrði að greiðsluvandi stafi af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu eða atvinnuleysis eða af öðrum ófyrirséðum atvikum. Samkvæmt 8. mgr. 48. gr. laganna setur ráðherra nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins að fengnum tillögum stjórnar Íbúðalánasjóðs.
Í 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001, um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, er að finna skilyrði fyrir greiðsluerfiðleikaaðstoð en þau eru eftirfarandi:
1. Að greiðsluerfiðleikar stafi af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu, atvinnuleysi eða af öðrum ófyrirséðum atvikum.
2. Að aðrir lánardrottnar umsækjanda samþykki einnig að veita aðstoð vegna greiðsluerfiðleika ef þörf er talin á því.
3. Að greiðslubyrði umsækjanda samkvæmt greiðslumati sé umfram greiðslugetu eða fyrirséð er að svo verði.
4. Að greiðslubyrði umsækjanda eftir skuldbreytingu og/eða frestun á greiðslum og/eða lengingu lánstíma rúmist innan greiðslugetu.
Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar segir að sé ástæða greiðsluerfiðleika tímabundin tekjulækkun skuli í mati á greiðslugetu miða við tekjur umsækjanda áður en til tekjulækkunar kom eða meðaltekjur miðað við starfsstétt og menntun.
Í greiðsluerfiðleikamati, sem lá til grundvallar afgreiðslu Íbúðalánasjóðs, eru ástæður greiðsluerfiðleika sagðar vera tekjulækkun vegna námsloka. Kærandi tekur fram að hann hafi ekki haft miklar tekjur á meðan hann hafi verið í námi, ekki há námslán og ekki getað unnið með skóla. Greiðsluerfiðleikar hans ættu því að vera að baki. Í tölvupósti frá kæranda 13. nóvember 2017 kemur aftur á móti fram að hann hafi fjárfest í [...], en það hafi verið tækifæri sem hann þurfti að taka strax og borga upp á skömmum tíma. Sú tímasetning og námið ásamt öðru hafi gert það að verkum að fasteign hans hafi setið á hakanum.Í reglum stjórnar Íbúðalánasjóðs um meðferð greiðsluerfiðleikaúrræða, sem samþykktar voru á fundi stjórnar þann 16. október 2015 og breytt á fundi stjórnar þann 1. desember 2016, er meðal annars kveðið á um skilyrði fyrir skuldbreytingu vanskila en þau eru efnislega samhljóða þeim skilyrðum sem rakin eru að framan. Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að ekki væri um óvænta tímabundna erfiðleika að ræða.
Samkvæmt framangreindum skýringum kæranda um tilurð vanskila hans hjá Íbúðalánasjóði er ljóst að greiðsluvandi hans stafaði ekki af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu, atvinnuleysis eða af öðrum ófyrirséðum atvikum. Að því virtu tekur úrskurðarnefndin undir þá afstöðu Íbúðalánasjóðs að kærandi eigi ekki rétt á skuldbreytingarláni, en um er að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir því úrræði, sbr. 1. mgr. 48. gr. laga nr. 44/1998. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Synjun Íbúðalánasjóðs, dags. 16. nóvember 2017, um synjun á umsókn A, um greiðsluerfiðleikaaðstoð er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson