Mál nr. 336/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 336/2024
Fimmtudaginn 10. október 2024
A
gegn
Reykjavíkurborg
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 24. júlí 2024, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 26. júní 2024, um að synja umsóknum hans um fjárhagsaðstoð.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsóknum, dags. 26. mars., 21. maí og 29. maí 2024, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilin 1. mars til 31. mars 2024, 1. apríl til 30. apríl 2024 og 1. maí til 31. maí 2024. Umsóknum kæranda var synjað og staðfesti áfrýjunarnefnd velferðarráðs þá niðurstöðu með ákvörðun, dags. 26. júní 2024. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 9. júlí 2024.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 24. júlí 2024. Með bréfi, dags. 25. júlí 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst 15. ágúst 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. ágúst 2024. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að hann hafi komið til landsins á grundvelli fjölskyldusameiningar við son sinn í febrúar 2024. Kæranda hafi upphaflega verið tilkynnt með bréfi frá Útlendingastofnun að honum hefði verið veitt dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar en það hafi reynst vera mistök af hálfu stofnunarinnar. Sonur kæranda hafi beðið um frí úr vinnu við komu kæranda til landsins og fengið vilyrði fyrir því. Þegar á hafi reynt hafi fyrirtækið sagt syni kæranda upp vegna fjarveru hans en kærandi sé mikill sjúklingur og hafi sonur hans þurft að vera hjá kæranda og keyra hann á milli spítala og lækna oft í viku. Fyrir vikið geti hann ekki framfært kæranda líkt og til hafi staðið.
Í kjölfarið hafi sonur kæranda óskað eftir því við félagsráðgjafa sinn að sækja um fjárhagsaðstoð fyrir hönd kæranda, enda hafi sonurinn orðið atvinnulaus og átt erfitt með að finna nýja vinnu. Sonur kæranda sé mikið hjá honum utan þess sem hann keyri hann á milli lækna. Syni kæranda hafi fyrst verið tjáð að hann gæti ekki sótt um þar sem það hafi ekki samræmst dvalarleyfi kæranda. Kærandi bendi á að með því hafi honum í reynd verið synjað um að tekin yrði stjórnvaldsákvörðun í máli hans sem hann gæti þá kært til að láta reyna á rétt sinn í málinu. Sonur kæranda hafi þó fundið viðeigandi eyðublöð og sótt sjálfur um fyrir kæranda án aðkomu félagsráðgjafa.
Umsókn kæranda hafi svo verið synjað á grundvelli 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Ekki hafi verið óskað eftir frekari gögnum og kæranda sé ekki fyllilega ljóst á hvaða grundvelli synjunin byggi. Þegar óskað hafi verið eftir skýringum hafi félagsráðgjafi tjáð syni kæranda að synjað hefði verið vegna þess að þegar sótt hafi verið um dvalarleyfi fyrir kæranda hafi sonur hans lofað að framfæra hann. Samkvæmt íslenskum lögum sé hins vegar ljóst að sonur kæranda sé ekki framfærsluskyldur gagnvart honum, sbr. 19. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.
Synjunin hafi verið kærð til áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar sem hafi staðfest ákvörðun um synjun, dags. 26. júní 2024. Óskað hafi verið eftir rökstuðningi sem hafi borist þann 9. júlí 2024. Þar komi fram að ákvörðunin byggi í reynd á 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg en þar sé fjallað um framfærsluskyldu. Ákvæðið sé svohljóðandi:
„Hverjum manni er skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára, sbr. hjúskaparlög nr. 31/1993 og 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991. Fólk sem er í skráðri sambúð í þjóðskrá á sama rétt til fjárhagsaðstoðar og hjón.“
Ljóst sé að framangreint ákvæði eigi ekki að neinu leyti við í málinu, enda sé kjarni rökstuðningsins sá að sonur kæranda sé [ekki] framfærsluskyldur gagnvart honum. Hann sé augljóslega hvorki maki kæranda né barn yngra en 18 ára. Ljóst sé að engin lagaskylda hvíli á syni kæranda til að framfæra hann. Dvalarleyfi kæranda hafi vissulega verið háð því skilyrði að framfærsla kæranda hafi verið trygg en það sé allt annað mál. Reykjavíkurborg hafi ekki nokkra heimild til að víkja frá lagaskyldu samkvæmt 12. gr. laga nr. 40/1991 til að veita aðstoð á grundvelli skilyrða samkvæmt útlendingalögum. Beiðni um fjárhagsaðstoð setji endurnýjun dvalarleyfis vissulega í hættu en það sé ekki vandamál Reykjavíkurborgar og ætti þvert á móti að varpa ljósi á þá neyð sem um ræði í málinu. Auk þess sé ljóst að í tilfelli kæranda hafi forsendur einfaldlega breyst. Sonur kæranda hafi verið fullfær um að framfæra hann og hafi ætlað að gera það en veikindi kæranda hafi gert þeim afar erfitt fyrir.
Kærandi telji að Reykjavíkurborg hafi verið með öllu óheimilt að synja umsókn hans á þessum grundvelli, enda sé skylda borgarinnar skýr, sbr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og 12. gr. laga nr. 40/1991.
Þá telji kærandi það ámælisvert að hann hafi hvorki verið upplýstur um kæruheimild né kærufrest þegar honum hafi upphaflega verið synjað. Reykjavíkurborg hafi jafnframt ekki gert nokkra tilraun til að uppfylla rannsóknarskyldu sína í málinu og hvorki spurst fyrir um fjárhag eða aðstæður.
Kærandi fari fram á að úrskurðarnefndin felli hina kærðu ákvörðun úr gildi og gefi Reykjavíkurborg fyrirmæli um að veita kæranda fjárhagsaðstoð vegna allra þeirra mánaða sem sótt hafi verið um líkt og borginni beri að gera í samræmi við lög.
III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar
Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé X ára gamall maður frá C. Kærandi hafi komið til Íslands í þeim tilgangi að sameinast syni sínum sem hafi fengið alþjóðlega vernd hér á landi þann 7. nóvember 2022. Kærandi búi hjá tveimur sonum sínum í íbúð á almennum leigumarkaði að D. Kærandi hafi fengið samþykkt dvalarleyfi vegna tímabundinnar fjölskyldusameiningar þar sem atvinnuþátttaka sé ekki heimil. Dvalarleyfi kæranda gildi frá 18. mars 2024 til 28. september 2024. Annar sonur hans hafi sótt um fjölskyldusameiningu við kæranda og talið sig geta séð honum farborða. Hann hafi verið í vinnu en misst vinnuna fljótlega eftir komu kæranda til landsins vegna þess hve tímafrek umönnun við kæranda sé en kærandi sé mikill sjúklingur og njóti þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Kærandi hafi lagst inn á Landspítala strax eftir komu sína til landsins og hafi verið inniliggjandi þar um tíma. Í dag fái sonur kæranda atvinnuleysisbætur og eigi samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum einhvern varasjóð. Hann sinni kæranda að mestu leyti, keyri hann til og frá Landspítalanum, þar sem kærandi fari meðal annars í skilun tvisvar í viku. Kærandi sé með sykursýki, of háan blóðþrýsting, krabbamein og sjóntruflanir. Kærandi eigi ekki rétt á greiðslum frá Tryggingastofnun þar sem hann uppfylli ekki búsetuskilyrði. Kærandi hafi nú sótt um dvalarleyfi sem byggi ekki á fjölskyldusameiningu. Fái kærandi dvalarleyfi sjái hann fyrir sér að sækja um dvalarleyfi fyrir eiginkonu sína sem sé föst í E.
Kærandi hafi sótt um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. mars 2024 til 31. mars 2024 með umsókn, dags. 26. mars 2024. Eftir skoðun á dvalarleyfi kæranda hafi framangreindri umsókn verið synjað rafrænt þann 9. apríl 2024. Kærandi hafi sótt um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. apríl 2024 til 30. apríl 2024 með umsókn, dags. 29. maí 2024. Framangreindri umsókn hafi verið synjað með bréfi þann 29. maí 2024. Kærandi hafi sótt um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. maí 2024 til 31. maí 2024 með umsókn, dags. 21. maí 2024. Framangreindri umsókn hafi verið synjað með bréfi þann 29. maí 2024.
Kærandi hafi skotið framangreindum synjunum til áfrýjunarnefndar velferðarráðs sem hafi tekið málið fyrir á fundi sínum þann 26. júní 2024 og afgreitt það með eftirfarandi bókun:
„Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti synjun starfsmanna á Suðurmiðstöð Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð tímabilið 1. mars 2024 til 31. maí 2024, skv. 2. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, sbr. útlendingalög nr. 80/2016.“
Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi þann 27. júní 2024 vegna ákvörðunar áfrýjunarnefndar velferðarráðs, dags. 26. júní 2024, og hafi honum verið sendur rökstuðningur með bréfi þann 9. júlí 2024. Kærandi hafi nú skotið ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Núgildandi reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg með áorðnum breytingum hafi tekið gildi þann 1. apríl 2021 og verið samþykktar á fundi velferðarráðs Reykjavíkurborgar þann 24. febrúar 2021 og á fundi borgarráðs þann 4. mars 2021. Umræddar reglur séu settar á grundvelli 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Litið sé svo á að fjárhagsaðstoð til framfærslu frá sveitarfélagi sé neyðaraðstoð sem ekki beri að veita nema engar aðrar bjargir séu fyrir hendi. Í 1. gr. reglnanna komi fram að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geti séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, sbr. og III. kafla reglnanna. Um fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjavíkurborg gildi sú meginregla að umsækjandi fái einungis greidda fjárhagsaðstoð til framfærslu ef hann geti ekki framfleytt sér. Umrædd meginregla eigi sér stoð í 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, sbr. 19. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga sem kveði meðal annars á um skyldu hvers og eins að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára.
Núgildandi ákvæði 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg fjalli um framfærsluskyldu og sé svohljóðandi:
„Hverjum manni er skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára, sbr. hjúskaparlög nr. 31/1993 og 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991. Fólk sem er í skráðri sambúð í þjóðskrá á sama rétt til fjárhagsaðstoðar og hjón.“
Þá komi meðal annars fram í 2. mgr. 8. gr. framangreindra reglna að umsækjanda beri að leggja fram dvalarleyfi í þeim tilfellum sem það eigi við. Í tilfelli kæranda sé um að ræða dvalarleyfi vegna tímabundinnar fjölskyldusameiningar samkvæmt 72. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga og það gildi frá 18. mars 2024 til 28. september 2024. Í 1. mgr. 72. gr. komi fram að heimilt sé að veita útlendingi sem eigi barn hér á landi dvalarleyfi í þeim tilvikum sem greini í 2.-4. mgr. 72. gr. Þá komi einnig fram að skilyrði 1. og 2. mgr. 55. gr. skuli ávallt vera uppfyllt þegar dvalarleyfi sé veitt á þessum grundvelli.
Ákvæði 55. gr. laga um útlendinga sé svohljóðandi:
„55. gr. Grunnskilyrði dvalarleyfis.
Heimilt er að veita útlendingi dvalarleyfi í samræmi við ákvæði VI.–IX. kafla samkvæmt umsókn uppfylli hann eftirtalin grunnskilyrði:
- framfærsla hans skv. 56. gr. og sjúkratrygging sé örugg,
- skilyrði fyrir dvalarleyfi sem fram koma í lögum þessum,
- hann samþykki að gangast undir læknisskoðun innan tveggja vikna frá komu til landsins í samræmi við gildandi lög og fyrirmæli heilbrigðisyfirvalda,
- ekki liggi fyrir atvik sem valdið geta því að honum verði meinuð landganga hér á landi eða dvöl samkvæmt öðrum ákvæðum laga þessara.
Tilgangur umsækjanda með dvöl hér á landi skal vera í samræmi við það dvalarleyfi sem sótt er um.
Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari fyrirmæli um skilyrði skv. a–d-lið 1. mgr.“
Í 1. mgr. 55. gr. laga um útlendinga séu talin upp þau skilyrði sem þurfi að vera uppfyllt þegar dvalarleyfi sé veitt meðal annars á grundvelli fjölskyldusameiningar, sbr. 72. gr. laga um útlendinga. Í a. lið 1. mgr. 55. gr. sé tekið fram að framfærsla útlendings sem sæki um dvalarleyfi samkvæmt 56. gr. og sjúkratrygging þurfi að vera örugg. Ákvæði 56. gr. laga um útlendinga sé svohljóðandi:
„56. gr. Trygg framfærsla útlendings sem sækir um dvalarleyfi.
Útlendingur sem er eldri en 18 ára og sækir um dvalarleyfi skal sýna fram á að framfærsla hans sé trygg þann tíma sem hann sækir um að fá að dveljast hér á landi.
[Sýna þarf fram á framfærslu í gjaldmiðli sem er alþjóðlega viðurkenndur og unnt er að umbreyta í mynt sem er skráð hjá Seðlabanka Íslands.] 1)
Greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar ríkis eða sveitarfélags teljast ekki til tryggrar framfærslu samkvæmt þessu ákvæði.
Ráðherra er heimilt, í samráði við ráðherra sem fer með félagsmál, að setja í reglugerð nánari ákvæði um kröfu um trygga framfærslu, þ.m.t. um hvað telst trygg framfærsla, hvernig framfærslu skuli háttað og í hvaða tilvikum heimilt er að víkja frá þeim kröfum.“
Í 1. mgr. 56. gr. komi fram að útlendingur sem sé eldri en 18 ára og sæki um dvalarleyfi skuli sýna fram á að framfærsla hans sé trygg þann tíma sem hann sæki um að dveljast hér á landi. Þá sé tekið fram í 3. mgr. 56. gr. að greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar sveitarfélags teljist ekki til tryggrar framfærslu. Tekið sé fram í 2. mgr. 72. gr. laga um útlendinga að þegar útlendingi sem sé 67 ára eða eldri sé veitt dvalarleyfi eigi hann uppkomið barn hér á landi sé heimilt að veita útlendingi undanþágu frá skilyrði um að geta framfleytt sér sjálfur ef barn hans sýni fram á að það geti tryggt framfærslu viðkomandi. Kærandi hafi fengið dvalarleyfi vegna tímabundinnar fjölskyldusameiningar fyrir tímabilið 18. mars 2024 til 28. september 2024 og hafi, á þeim tíma sem hann hafi sótt um framangreint dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun, sýnt fram á að framfærsla sín væri trygg allan þann tíma sem hann hafi sótt um að dveljast hér á landi hvort sem það væri með eigin framfærslu eða framfærslu af hálfu sonar hans. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun hafi kæranda ekki verið veitt undanþága frá framfærsluviðmiðum. Þrátt fyrir breyttar aðstæður sonar kæranda hafi áfrýjunarnefnd velferðarráðs metið mál hans þannig að sýnt hafi verið fram á trygga framfærslu hjá Útlendingastofnun fyrir umrætt tímabil. Í því samhengi hafi meðal annars verið horft til þess að umsókn um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. mars 2024 til 31. mars 2024 hafi borist þann 26. mars 2024, einungis nokkrum dögum eftir að kærandi hafi komið til landsins eða eftir útskrift hans af Landspítala. Þess megi einnig geta að ekki hafi verið sótt um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. apríl 2024 til 30. apríl 2024 fyrr en 29. maí 2024.
Með hliðsjón af framansögðu hafi áfrýjunarnefnd velferðarráðs því talið að synja bæri kæranda um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. mars 2024 til 31. maí 2024 á grundvelli 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, sbr. lög nr. 80/2016 um útlendinga og staðfest synjun starfsmanna suðurmiðstöðvar Reykjavíkurborgar á fjárhagsaðstoð fyrir áðurgreint tímabil.
Með vísan til alls framangreinds verði að telja að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð, sbr. IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, sbr. og III. kafla reglnanna, né öðrum ákvæðum laga nr. 40/1991 eða ákvæðum útlendingalaga nr. 80/2016.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsóknum kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. mars 2024 til 31. maí 2024.
Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr.
Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Sveitarfélög skuli tryggja að stuðningur við íbúa sem hafi barn á framfæri sé í samræmi við það sem sé barninu fyrir bestu. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.
Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til útfærslu á fjárhagsaðstoð til einstaklinga. Í samræmi við það og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur hverrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, svo fremi það byggi á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.
Í 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er kveðið á um lagagrundvöll fjárhagsaðstoðar. Þar kemur fram í 1. mgr. að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Í 2. gr. reglnanna kemur einnig fram sama grundvallarregla og í 19. gr. laga nr. 40/1991 að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára.
Fyrir liggur að kæranda var synjað um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. mars 2024 til 31. maí 2024 á grundvelli framangreindrar 2. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð og laga nr. 80/2016 um útlendinga eftir nánari skoðun á dvalarleyfi hans sem er tímabundið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Reykjavíkurborg hefur vísað til þess að eitt af skilyrðum slíks dvalarleyfis sé að vera með örugga framfærslu, sbr. 55. gr. laga nr. 80/2016. Greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar sveitarfélags teljist ekki til tryggrar framfærslu, sbr. 3. mgr. 56. gr. laganna, en heimilt sé að veita útlendingi sem sé 67 ára eða eldri og eigi uppkomið barn hér á landi undanþágu frá skilyrði um að geta framfleytt sér sjálfur ef barn hans sýni fram á að það geti tryggt framfærslu viðkomandi. Kærandi hafi því sýnt fram á að framfærsla hans væri trygg á þeim tíma sem hann hafi sótt um að dveljast hér á landi, eða tímabilið 18. mars 2024 til 28. september 2024, hvort sem það væri með eigin framfærslu eða framfærslu af hálfu sonar hans.
Í 8. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð er fjallað um umsóknir um fjárhagsaðstoð og fylgigögn. Þar segir í 2. mgr. að umsækjanda um fjárhagsaðstoð beri að leggja fram dvalarleyfi í þeim tilfellum sem það eigi við en í reglunum er ekki að finna ákvæði um hvaða áhrif tímabundið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar getur haft á mat sveitarfélagsins á framfærslumöguleikum viðkomandi. Af gögnum málsins má ráða að Reykjavíkurborg hafi synjað kæranda um áframhaldandi fjárhagsaðstoð eingöngu á grundvelli dvalarleyfis hans. Verður því ekki annað séð en að kæranda hafi verið synjað um fjárhagsaðstoð án þess að lagt hafi verið fullnægjandi mat á aðstæður hans og möguleika til framfærslu. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að mál kæranda hafi ekki verið upplýst nægjanlega, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, áður en ákvörðun um synjun var tekin. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir Reykjavíkurborg að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 26. júní 2024, um að synja umsóknum A, um fjárhagsaðstoð, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir