Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 317/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 317/2024

Fimmtudaginn 10. október 2024

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R 

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 11. júlí 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 25. júní 2024, um innheimtu ofgreiddra húsnæðisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi þáði húsnæðisbætur á árinu 2023. Með bréfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 25. júní 2024, var kæranda birt lokauppgjör vegna ársins 2023 þar sem fram kom að hún hefði fengið ofgreiddar húsnæðisbætur að fjárhæð 252.104 kr.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 11. júlí 2024. Með bréfi, dags. 15. júlí 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ásamt gögnum málsins. Svar barst frá stofnuninni 12. ágúst 2024 þar sem fram kom að ranglega hefði verið staðið að hinni kærðu ákvörðun og því hefði hún verið afturkölluð, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ný ívilnandi ákvörðun hefði verið tekin í máli kæranda. Óskað var eftir afstöðu kæranda til svars Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. ágúst 2024. Sú beiðni var ítrekuð með tölvupósti 11. september 2024. Svar barst ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi þegið húsnæðisbætur undanfarin ár sem einstæð móðir, fyrst á almennum leigumarkaði og síðar vegna leiguhúsnæðis á vegum B (með búseturétti). Í ágúst 2023 hafi kærandi gert tilboð í eign ásamt elsta barni sínu, sem hafi verið tekið. Þau hafi skrifað undir kaupsamning í ágúst, eignin hafi verið afhent um áramót og lán hafi verið gefin út í byrjun janúar 2024. Á tímabilinu frá ágúst 2023 og fram til áramóta hafi þau ekki haft aðgengi, afnot eða neinar tekjur af eigninni né hafi þau borgað af henni lán eða þau gjöld sem eigendur taki á sig við fasteignakaup. Skattskýrsla kæranda fyrir árið 2023 hafi sýnt dálítið skakka tölu hvað þetta varði þar sem hennar eign í fasteigninni hafi verið tilgreind þar en engin lán á móti, enda hafi þau ekki verið frágengin á þeim tíma. Kærandi sé mjög ósátt við það að fá þau svör að hún eigi ekki rétt á húsnæðisbótum á sama tíma og hún eigi rétt á vaxtabótum. Það eigi ekki við nein rök að styðjast. Kærandi eigi ekki rétt á vaxtabótum þegar hún hafi ekki greitt neina vexti þar sem lánið hafi ekki verið afgreitt. Kærandi vilji að þetta verði tekið til skoðunar þar sem henni þyki þetta mjög ósanngjörn málsmeðferð. Kærandi hafi haft mikið fyrir því að komast þangað sem hún sé núna. Hún hafi verið í leiguhúsnæðinu eins lengi og hún hafi þurft þar sem hún hafi ekki fengið eign sína afhenta.

III.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 25. júní 2024, um innheimtu ofgreiddra húsnæðisbóta vegna ársins 2023, að fjárhæð 252.104 kr. Sú fjárhæð var aðallega tilkomin vegna eignaskerðingar, eða 225.630 kr., en fyrir liggur að kærandi keypti fasteign í ágúst 2023. Í kæru lýsti kærandi óánægju sinni með endurkröfuna þar sem hún hafi ekki fengið fasteignina afhenta fyrr en um áramótin 2023/2024. Í kjölfar kærunnar fór Húsnæðis- og mannvirkjastofnun yfir mál kæranda og tilkynnti úrskurðarnefnd velferðarmál að ranglega hefði verið staðið að hinni kærðu ákvörðun. Stofnunin hefði því afturkallað ákvörðunina, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og tekið nýja ívilnandi ákvörðun í máli kæranda. Sú ákvörðun er dagsett 12. ágúst 2024 og þar kemur fram að ofgreiddar húsnæðisbætur vegna ársins 2023 næmu 26.484 kr. Skerðing vegna eigna var þar skráð 0 kr. Óskað var eftir afstöðu kæranda til þeirrar ákvörðunar en svar barst ekki.

Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur er heimilt að kæra ákvarðanir Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem teknar eru á grundvelli laganna til úrskurðarnefndar innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.

Af kæru til úrskurðarnefndar er ljóst að ágreiningur málsins sneri að þeim hluta lokauppgjörsins er varðar skerðingu vegna eignastöðu. Í ljósi þess að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur afturkallað þá skerðingu og framangreinds hlutverks úrskurðarnefndarinnar er það mat nefndarinnar að lögvarðir hagsmunir kæranda af efnislegri úrlausn málsins séu ekki lengur til staðar. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála. 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta