Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 9/2011

Fimmtudaginn 28. apríl 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 9/2011:

A

gegn

Íbúðalánasjóði

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, mótekinni 11. febrúar 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, hér eftir nefndur kærði, dagsettri 12. janúar 2011, þar sem kæranda var synjað um greiðsluerfiðleikaaðstoð.

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærandi hefur kært synjun um greiðsluerfiðleikaaðstoð til úrskurðarnefndarinnar. Samkvæmt greiðsluerfiðleikamati frá Íslandsbanka, dagsettu 11. janúar 2011, sem liggur fyrir í málinu, dugar greiðsluerfiðleikafyrirgreiðsla ekki til lausnar máls þessa þannig að greiðslubyrði rúmist innan greiðslugetu eftir aðgerðir eins og áskilið er samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001.

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dagsettu 11. febrúar 2011, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dagsettu 25. febrúar 2011. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dagsettu 1. mars 2011, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Bréf kæranda til úrskurðarnefndarinnar er dagsett 15. mars og barst þann 23. mars 2011 ásamt frekari gögnum.

III. Sjónarmið kæranda

Kærandi kveðst vera að vinna markvisst að því að fá yfirsýn yfir fjármál sín og koma fjárhagsstöðu sinni í lag. Fyrra frystingartímabilið hafi nýst mjög vel til þess að byrja að greiða niður skuldir og hafi það verið gott skref í þá átt að ná tökum á fjárhagslegri stöðu hennar. Hún segist hafa greitt töluvert niður af skuldum til áramóta 2010–2011 og hafi gengið vel að halda þeirri áætlun.

Kærandi kveður tilgang seinni frystingarinnar hafa átt að vera þann að halda áfram að greiða niður skuldir en því hafi verið synjað. Kærandi kveðst hafa þurft að fá svigrúm í nokkra mánuði til að greiða upp ákveðnar skuldir og vinna úr verkefni sem hún hafi verið byrjuð á. Henni standi til boða að vinna skýrslu sem liggi á að vinna.

Kærandi kveðst hafa þurft, síðastliðin ár, að fara út í mjög kostnaðarsamar aðgerðir af heilsufarsástæðum og meðal annars þurft að dvelja erlendis af þeim sökum. Einnig hafi farið kostnaður í að byggja upp atvinnugrundvöll sem síðan hafi tafist af heilsufarsástæðum. Muni það verða unnið áfram eftir umsóknina. Ætlunin sé að snúa dæminu við en það geti tekið 3–4 ár að koma á jafnvægi í fjármálum hennar.

IV. Sjónarmið kærða

Kærði bendir á að samkvæmt 4. tölulið 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001, um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, sé skilyrði greiðsluerfiðleikaaðstoðar að greiðslubyrði umsækjanda rúmist innan greiðslugetu. Samkvæmt greiðsluerfiðleikamati Íslandsbanka, dags. 11. janúar 2011, sem kærandi hafi lagt fram í tengslum við umsókn sína rúmist greiðslubyrði eftir aðgerð ekki innan greiðslugetu og þess vegna dugi úrræði sjóðsins ekki til að leysa vanda kæranda.

V. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Kærandi sótti um greiðsluerfiðleikafyrirgreiðslu vegna erfiðleika hennar við að greiða af lánum sínum. Í 4. tölul. 4. gr. reglugerðar um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, nr. 584/2001, kemur fram að skilyrði greiðsluerfiðleikaaðstoðar sé að greiðslubyrði umsækjanda eftir skuldbreytingu og/eða frestun á greiðslum og/eða lengingu lánstíma rúmist innan greiðslugetu. Um er að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir úrræðinu sem sótt er um. Eins og fram kemur í gögnum málsins og samkvæmt greiðsluerfiðleikamati frá Íslandsbanka yrði greiðslubyrði kæranda umfram getu kæranda og uppfyllir hún því ekki skilyrði 4. tölul. 4. gr. reglugerðarinnar. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, um að synjun Íbúðalánasjóðs um greiðsluerfiðleikaaðstoð verði felld úr gildi, er hafnað.

Ása Ólafsdóttir, formaður

Margrét Gunnlaugsdóttir Gunnar Eydal




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta