Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 10/2011

Föstudaginn 13. maí 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 10/2011:

A

gegn

Íbúðalánasjóði

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dagsettri 16. febrúar 2011, skotið til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála synjun vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði. Kæran á ekki undir kærunefnd greiðsluaðlögunarmála heldur undir úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála og var hún framsend samdægurs til þeirrar nefndar. Hefur kæran hlotið efnislega meðferð hjá úrskurðarnefndinni.

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærandi kærði synjun um endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði vegna kaupa hans á íbúð í B-götu nr. 3 í Reykjavík. Hann kveðst hafa keypt íbúðina af systur sinni í október 2008 en íbúðin hafi ekki verið skráð á hans nafn fyrr en í janúar 2009.

Með bréfi, dagsettu 21. febrúar 2011, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dagsettu 4. mars 2011. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dagsettu 8. mars 2011, var bréf Íbúðalánasjóðs ásamt meðfylgjandi gögnum sent kæranda til kynningar og honum gefinn kostur á að koma einhverju frekar á framfæri óskaði hann þess. Ekki hafa borist frekari athugasemdir frá kæranda.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kveðst hafa keypt íbúð sína af systur sinni í október 2008. Íbúðin hafi þó ekki verið skráð á nafn hans fyrr en í janúar 2009. Kærandi telur að hann eigi þar af leiðandi að falla undir samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.

III. Sjónarmið kærða

Kærði bendir á að kærandi hafi sótt um fyrirgreiðslu til Íbúðalánasjóðs á grundvelli samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila. Samkvæmt ákvæði 1.2 um skuldir sem falla undir samkomulagið taki fyrirgreiðsla samkvæmt samkomulaginu einungis til skulda sem stofnað hafi verið til vegna fasteignakaupa umsækjenda fyrir árið 2009. Umsókn kæranda um lán til kaupa á íbúðarhúsnæði sé dagsett 19. janúar 2009, yfirlýsing um yfirtöku lána sé innfærð til þinglýsingar 23. janúar 2009, afsal virðist dagsett 27. janúar 2009 og sé innfært til þinglýsingar 28. janúar 2009 og samkvæmt eigendasögu Fasteignaskrár Íslands sé kaupdagur íbúðarinnar 27. janúar 2009. Umsækjandi hafi ekki lagt fram gögn sem staðfesti annað.

IV. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Kærandi sótti um fyrirgreiðslu til Íbúðalánasjóðs á grundvelli samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila. Í framangreindu samkomulagi felst útfærsla á viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og tiltekinna fjármálastofnana, meðal annars Íbúðalánasjóðs, um aðgerðir í þágu yfirskuldsettra heimila og er það dagsett 15. janúar 2011. Samkvæmt ákvæði 1.2 í samkomulaginu sem fjallar um skuldir tekur fyrirgreiðsla samkvæmt samkomulaginu einungis til skulda sem stofnað var til vegna fasteignakaupa fyrir árið 2009. Engar undanþágur er að finna í samkomulaginu þess efnis að yngri fasteignaviðskipti gætu átt þar undir.

Við mat þess hvort kærandi eigi rétt til þeirrar fyrirgreiðslu sem hann hefur sótt um, verður að líta til þeirra gagna sem fram hafa verið lögð í málinu. Af gögnum málsins má ráða að umsókn kæranda um lán til kaupa á íbúðarhúsnæði er dagsett 19. janúar 2009, yfirlýsing um yfirtöku lána er innfærð til þinglýsingar 23. janúar 2009. Þá var afsal vegna fasteignarinnar móttekið til þinglýsingar 27. janúar 2009 og var innfært til þinglýsingar 28. janúar 2009. Í eigendasögu Fasteignaskrár Íslands kemur einnig fram að kaup kæranda séu dagsett 27. janúar 2009.

Samkvæmt framangreindum upplýsingum, sem eru opinberar, fóru kaupin fram á árinu 2009. Kærandi staðhæfir allt að einu að hann hafi í reynd keypt íbúð sína af systur sinni í október 2008 en íbúðin hafi fyrst verið skráð á nafn hans í janúar 2009. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn sem staðfesta þá staðhæfingu. Í ljósi þeirra gagna sem fram hafa verið lögð í málinu, þar á meðal þinglesin skjöl vegna fasteignarinnar, verður ekki talið að kæranda hafi tekist að sýna fram á að fasteignaviðskiptin hafi átt sér stað á árinu 2008.

Í ljósi framangreinds er hin kærða ákvörðun Íbúðalánasjóðs staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, varðandi synjun um endurútreikning á lánum A, er staðfest.

Ása Ólafsdóttir, formaður

Margrét Gunnlaugsdóttir Gunnar Eydal




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta