Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 205/2011

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                             

Miðvikudaginn 22. ágúst 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 205/2011:

A og B

gegn

Íbúðalánasjóði

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

A og B, hér eftir nefnd kærendur, hafa með kæru, dags. 27. desember 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs frá 28. september 2011 vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærendur kærðu endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni C, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.

Samkvæmt endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, dags. 28. september 2011, var skráð fasteignamat á íbúð kærenda að C 18.150.000 kr. og 110% fasteignamat var 19.965.000 kr. Við það var miðað við afgreiðslu erindis kærenda. Áhvílandi veðlán voru 24.281.728 kr. Í endurútreikningnum kemur fram að kærendur eru eigendur bifreiðarinnar O sem metin er á 523.062 kr., að teknu tilliti til áhvílandi láns að fjárhæð 717.326 kr. Til frádráttar niðurfærslu lána komu einnig bankainnstæður kærenda, alls 3.457.151 kr.

 

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 28. desember 2011, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dags. 10. janúar 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 13. janúar 2012, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kærendum til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kærendum. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 30. mars 2012, var kærendum tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst.

  

III. Sjónarmið kærendum

Í rökstuðningi með kæru sinni til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála segja kærendur að þau séu afar ósátt við niðurstöðu Íbúðalánasjóðs. Við afgreiðslu á kæru umsókn þeirra hafi verið dregin frá innstæða á bankabók, en þar hafi verið um að ræða fyrirframgreiddan arf sem hafi verið ráðstafað inn á bankareikning B frá aldraðri ömmu hennar. Hún hafi með engum hætti umráðarétt yfir þessum arfi. Hann standi inni á reikningi á nafni hennar og geti hún með engum hætti litið á þessa innstæðu sem sína eign. Með kærunni fylgir yfirlýsing D, ömmu B. Þar kemur fram að hún staðfesti að árið 2008 hafi hún greitt barnabarni sínu, B, fyrirfram greiddan arf að fjárhæð 3.000.000 kr. Þessum fyrirfram greidda arfi hafi verið ráðstafað til B með þeim skilyrðum að hann kæmi ekki til notkunar fyrr en hún væri fallin frá. Það sé því á engan hátt hægt að líta svo á að þetta sé hennar eign að svo stöddu.

 

IV. Sjónarmið kærða

Íbúðalánasjóður áréttar að sjóðurinn hafi við afgreiðslu málsins lagt til grundvallar fasteignamat íbúðar kærenda skv. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011. Sjóðurinn telji að innstæða á bankareikningi kæranda sé aðfararhæf eign þrátt fyrir skýringu um að fjárhæðin sé fyrirframgreiddur arfur. Gera þurfi grein fyrir fyrirfram greiddum arfi með erfðafjárskýrslu til sýslumanns og sjóðurinn telji að jafnvel þótt svo sé þá verði arfur til lögerfingja ekki bundinn kvöðum nema samkvæmt erfðaskrá. Slíkar kvaðir eigi ekki við um fyrirfram greiddan arf sem ekki sé formbundinn gerningur við erfðaskrá.

  

V. Niðurstaða

Málskot kærenda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Kærendur óska þess að mál þeirra verði endurskoðað. Við úrlausn málsins verður að byggja á lögum nr. 29/2011, en með þeim var Íbúðalánasjóði veitt heimild til þess að fella niður skuldir til samræmis við samkomulag lánveitenda á íbúðamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011. Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 þar sem kærða er veitt heimild til þess að færa niður veðkröfur kemur meðal annars fram að lækkun sé háð því skilyrði að lántaki eða maki hans eigi ekki aðrar aðfararhæfar eignir með veðrými sem svari að hluta eða öllu leyti til fyrirhugaðrar niðurfærslu veðkröfur. Sama regla kemur fram í lið 2.2 í 2. gr. fyrrgreinds samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði. Með aðfararhæfum eignum í skilningi 2. mgr. 1. gr. laganna er átt við allar eignir nema þær séu sérstaklega undanþegnar fjárnámi. Aðfararhæfar eignir eru til dæmis fasteignir, bifreiðar og bankainnstæður.

Í málinu liggur fyrir að auk fasteignar sinnar að C eru kærendur eigendur bifreiðar og bankainnstæðu, sem samtals nema 3.980.213 kr. eins og greint hefur verið frá. Upplýst hefur verið að bankainnstæða kæranda að fjárhæð 3.457.151 kr. telst vera fyrirfram greiddur arfur, en fyrir liggur vottorð arfleifanda þessa efnis. Við mat þess hvort innstæða kærenda telst vera aðfararhæf eign í skilningi 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 verður að líta til þess hvort gerðar hafi verið ráðstafanir til þess að undanskilja fjárhæðina innheimtu skuldheimtumanna, þannig að innstæðan standi þeim ekki til reiðu við aðför. Þegar um arf er að ræða þarf að uppfylla skilyrði 50.–52. gr. erfðalaga nr. 8/1962, um kvaðaarf. Þar sem slíkar ráðstafanir hafa ekki verið gerðar, verður að fallast á það með kærða að innstæðan teljist til aðfararhæfra eigna og sé ekki sérstaklega undanþegin fjárnámi.

Kærða ber að gæta jafnræðis og samræmis í úrlausn þeirra umsókna sem honum berast. Þá ber Íbúðalánasjóði að fylgja fyrrgreindum reglum og þar er ekki að finna undanþágur. Þar kemur skýrt fram að ef veðrými er á aðfararhæfum eignum lækkar niðurfærsla veðskulda sem því nemur. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 og lið 2.2. í 2. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila verður því að staðfesta hina kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs. 
 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð


Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, varðandi synjun um niðurfærslu lána A og B, áhvílandi á íbúðinni að C, er staðfest.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                   Gunnar Eydal

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta