Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 205/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 205/2017

Þriðjudaginn 15. ágúst 2017

AgegnVinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 29. maí 2017, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. maí 2017, um útreikning á húsnæðisbótum.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um húsnæðisbætur hjá Vinnumálastofnun með umsókn, dags. 20. desember 2016. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 20. janúar 2017, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar hefði verið samþykkt og hefur kærandi fengið greiddar húsnæðisbætur frá 1. febrúar 2017. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 22. maí 2017, var kæranda tilkynnt að réttur hennar til húsnæðisbóta hefði verið endurskoðaður samkvæmt 25. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur og að greiðsla húsnæðisbóta næmi 30.138 kr. á mánuði að teknu tilliti til tekna og eigna heimilismanna í leiguhúsnæði.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 29. maí 2017. Með bréfi, dags. 30. maí 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 9. júní 2017. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. júní 2017, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir að mál hennar verði endurskoðað og tekur fram að hún sé eingöngu með greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Kærandi telur að henni sé mismunað og vísar í því samhengi til einstaklings sem hún telur að hafi fengið greiðslu aftur í tímann og fái hærri greiðslur á mánuði.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að stofnunin hafi endurskoðað rétt kæranda til húsnæðisbóta á grundvelli nýrra upplýsinga um tekjur hennar. Ákvörðun Vinnumálastofnunar sé byggð á 1. mgr. 25. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur en þar komi fram að rétt til húsnæðisbóta megi endurskoða hvenær sem er og endurreikna fjárhæð húsnæðisbóta þannig að þær verði í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa á aðstæðum umsækjanda eða annarra heimilismanna. Í athugasemdum við 25. gr. frumvarpsins sem varð að lögum nr. 75/2016 segi að komi til slíks endurreiknings einhvern tímann innan viðkomandi almanaksárs sé gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun jafni áætluðum heildargreiðslum ársins á alla mánuði almanaksársins, eða eftir atvikum þá mánuði eða hluta úr mánuði sem veiti rétt til húsnæðisbóta, og greiði húsnæðisbætur samkvæmt því þá mánuði sem eftir séu af almanaksárinu.

Vinnumálastofnun tekur fram að samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 75/2016 skuli stofnunin meðal annars byggja útreikning húsnæðisbóta á 1/12 af áætluðum tekjum kæranda en samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra sé kærandi með fastar tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð 279.996 kr. á mánuði. Við endurreikning á húsnæðisbótum kæranda hafi verið lagðar til grundvallar fyrirliggjandi upplýsingar frá Ríkisskattstjóra um tekjur samkvæmt 17. gr., og eignir samkvæmt 18. gr., sbr. 1. mgr. 8. gr. laganna, ásamt orlofs- og desemberuppbót frá Tryggingastofnun. Endurreikningurinn hafi leitt til breytinga á fjárhæð húsnæðisbóta og Vinnumálastofnun hafi því borið að leiðrétta húsnæðisbætur kæranda samkvæmt 26. gr., sbr. 3. mgr. 25. gr. laga nr. 75/2016. Engar upplýsingar liggi fyrir sem bendi til þess að reikna hefði átt húsnæðisbætur kæranda með öðrum hætti og því beri að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um endurreikning á húsnæðisbótum kæranda.

Í 8. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur kemur fram að húsnæðisbætur séu mánaðarlegar greiðslur sem greiðast til umsækjanda, sbr. þó 4. mgr. 21. gr., og skulu ákvarðaðar og reiknaðar út miðað við grunnfjárhæðir sem miðast við fjölda heimilismanna, sbr. 3. tölul. 3. gr., að teknu tilliti til tekna, sbr. 17. gr., eigna, sbr. 18. gr. og greiðsluþátttöku í húsnæðiskostnaði, sbr. 19. gr. Grunnfjárhæðir húsnæðisbóta taka mið af fjölda heimilismanna óháð aldri samkvæmt ákveðnum stuðlum sem tilgreindir eru í 16. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. getur grunnfjárhæð húsnæðisbóta, þar sem fjöldi heimilismanna er einn, að hámarki verið 372.000 kr. á ári eða 31.000 kr. á mánuði.

Í 17. gr. laga nr. 75/2016 segir að við útreikning húsnæðisbóta skuli lækka grunnfjárhæðir samkvæmt 2. mgr. 16. gr. um fjárhæð sem nemi 9% af samanlögðum árstekjum heimilismanna, 18 ára og eldri, umfram nánar skilgreind frítekjumörk. Samkvæmt 2. mgr. 17. gr., sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 359/2017 um breytingu á reglugerð nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur, er frítekjumark, þar sem fjöldi heimilismanna er einn, miðað við árstekjur að fjárhæð 3.373.000 kr. Þá segir í 3. mgr. 17. gr. laganna að með tekjum í lögunum sé átt við allar tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til frádráttar samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 30. gr. og frádráttar samkvæmt 31. gr. sömu laga.

Í 20. gr. laga nr. 75/2016 er kveðið á um útreikning húsnæðisbóta. Þar segir að til grundvallar útreikningi húsnæðisbóta hvers mánaðar skuli Vinnumálastofnun leggja 1/12 af áætluðum tekjum og eignum heimilismanna, 18 ára og eldri, á því almanaksári þegar húsnæðisbætur eru greiddar ásamt fjölda heimilismanna og húsnæðiskostnaði, sbr. einnig 16.–19. gr. Í 2. mgr. 20. gr. kemur fram að Vinnumálastofnun skuli byggja áætlanir sínar samkvæmt 1. mgr. á nýjustu upplýsingum á hverjum tíma, sbr. 14. og 15. gr. laganna. Þá segir í 25. gr. laganna að rétt til húsnæðisbóta megi endurskoða hvenær sem er og endurreikna fjárhæð húsnæðisbóta þannig að húsnæðisbætur verði í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa á aðstæðum umsækjanda eða annarra heimilismanna.

Samkvæmt gögnum málsins var við endurreikning á húsnæðisbótum kæranda lagðar til grundvallar upplýsingar frá Ríkisskattstjóra um tekjur hennar frá Tryggingastofnun ríkisins, að meðtöldum greiðslum fyrir orlofs- og desemberuppbót, sbr. reglugerð nr. 490/2017 um eingreiðslur til lífeyrisþega árið 2017. Samkvæmt því eru mánaðarlegar tekjur kæranda 290.665 kr. og því áætlaðar 3.487.980 kr. á ári. Skerðing vegna tekna kæranda er 862 kr. á mánuði og því voru kæranda ákvarðaðar húsnæðisbætur að fjárhæð 30.138 kr. á mánuði. Að því virtu og með vísan til framangreinds er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að útreikningur Vinnumálastofnunar á húsnæðisbótum kæranda sé reistur á réttum forsendum. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. maí 2017, um útreikning á húsnæðisbótum A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta