Mál nr. 45/2012
Miðvikudaginn 30. janúar 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 45/2012:
Kæra A
á ákvörðun
Hafnarfjarðarbæjar
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R:
A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 14. mars 2012, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 15. desember 2011, á beiðni hans um sérstakar húsaleigubætur.
I. Málavextir og málsmeðferð
Kærandi flutti frá Fjarðabyggð til Hafnarfjarðarbæjar í nóvember 2011. Hann er haldinn alvarlegum taugasjúkdómi og kveður það ástæðu þess að hann hafi flutt af landsbyggðinni. Þann 1. nóvember 2011 gerði kærandi tímabundinn húsaleigusamning til sex mánaða við Brynju, hússjóð Öryrkjabandalags Íslands. Kærandi leigði 82,2 m2 íbúð og var fjárhæð leigunnar 88.600 kr. á mánuði. Samkvæmt upplýsingum frá Brynju hússjóði er framkvæmdin sú við útleigu húsnæðis að fyrst er gerður tímabundinn samningur til sex mánaða. Standi leigutaki skil á leigu og fái ekki kvartanir er almennt gerður ótímabundinn samningur. Í málinu liggur fyrir að kærandi gerði ótímabundinn húsaleigusamning við Brynju hússjóð þann 1. maí 2012.
Kærandi sótti um félagslegt húsnæði og sérstakar húsaleigubætur hjá Hafnarfjarðarbæ með umsókn, dags. 14. nóvember 2011. Umsókn kæranda var synjað með bréfi Félagsþjónustu Hafnarfjarðar, dags. 22. nóvember 2011, með þeim rökum að húsnæðisteymi Félagsþjónustunnar hafi metið hann með fjögur stig, þar af tvö vegna tekna, engin vegna húsnæðisaðstæðna og tvö vegna félagslegra aðstæðna, en reglur Hafnarfjarðarbæjar geri kröfu um sex stig að lágmarki og/eða fimm stig vegna fjárhags. Kærandi áfrýjaði synjuninni til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar með bréfi, dags. 5. desember 2011. Fjölskylduráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 14. desember 2011 og samþykkti svohljóðandi bókun:
„Skv. 15. gr. reglna um úthlutun á almennu leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ og sérstakar húsaleigubætur er heimilt að greiða sérstakar húsaleigubætur til þeirra sem metnir eru með 6-10 stig á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ skv. matslista Félagsþjónustunnar. Skv. 5. gr. sömu reglna skal til viðmiðunar matinu hafa tekjur, húsnæðisaðstæður og félagslegar aðstæður. Þar sem húsnæðisaðstæður umsækjanda eru taldar öruggar fékk hann aðeins 4 stig eftir matskerfi Félagsþjónustunnar. Af þessu[sic] sökum verður fjölskylduráð Hafnarfjarðar að staðfesta niðurstöðu Félagsþjónustunnar um að synja beiðni umsækjanda um sérstakar húsaleigubætur með vísan til 15. gr. áðurgreindra reglna.“
Niðurstaða fjölskylduráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 15. desember 2011. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 14. mars 2012. Með bréfi, dags. 19. mars 2012, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Hafnarfjarðarbæjar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun um sérstakar húsaleigubætur. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Hafnarfjarðarbæjar barst með bréfi, dags. 14. maí 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 18. júní 2012, var bréf Hafnarfjarðarbæjar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 26. júlí 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 5. desember 2012, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst. Úrskurðarnefndin óskaði frekari gagna frá Hafnarfjarðarbæ með tölvupóstum þann 21., 24., 25., 28. og 29. janúar 2013 og bárust þau með tölvupóstum þann 22., 25., 28. og 29. janúar 2013. Þá aflaði úrskurðarnefndin upplýsinga frá Brynju, hússjóði Öryrkjabandalags Íslands, með símtali þann 29. janúar 2013.
II. Málsástæður kæranda
Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun fjölskylduráðs Hafnarfjarðar verði snúið við og viðurkennd verði greiðsluskylda frá þeim tíma er hann sótti um sérstakar húsaleigubætur í nóvember 2011. Kærandi telur húsnæðisaðstæður sínar ekki vera öruggari en annarra leigjenda á markaði og það geti varla verið ástæða til synjunar enda greiði hann fullt verð fyrir leigu á íbúðinni og sé sem leigjandi háður leigusala um leigutíma og afnot að öðru leyti. Til að mynda sé leigutíminn tímabundinn til sex mánaða. Kærandi tekur fram að hann hafi fyrst séð matsblað vegna sérstakra húsaleigubóta við meðferð málsins hjá úrskurðarnefndinni. Hann hafi því fyrst þá getað kynnt sér hvað legið hafi til grundvallar mati sveitarfélagsins. Kærandi telur það afar matskennt hvort umsækjandi um sérstakar húsaleigubætur geti talist búa í öruggu húsnæði eða ekki og á matsblaðinu sé ekki að finna skilgreiningu á því hvað sé öruggt húsnæði.
III. Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar
Í athugasemdum Hafnarfjarðarbæjar við kæruna kemur fram að reglur sveitarfélaga um sérstakar húsaleigubætur séu misjafnar enda komið undir hverri sveitarstjórn að ákvarða hvort og hvernig þær skuli greiddar. Hafnarfjarðarbær hafi sett sér reglur um úthlutun á almennu leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur frá 1. nóvember 2009. Í 15. gr. reglnanna komi eftirfarandi fram: „Heimilt er að greiða sérstakar húsaleigubætur til þeirra sem metnir eru með 6-10 stig á biðlista (og/eða 5 stig vegna fjárhags) eftir félagslegu leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ skv. matslista Félagsþjónustunnar og sannanlega eru leigjendur á hinum almenna leigumarkaði.“ Umsókn kæranda hafi verið lögð fyrir fund húsnæðisteymis Félagsþjónustunnar þann 17. nóvember 2011 þar sem hann hafi verið metinn með fjögur stig samkvæmt matslista Félagsþjónustunnar en þar séu gefin stig vegna tekna, húsnæðisaðstæðna og félagslegra aðstæðna. Mánaðartekjur hans hafi verið 286.737 kr. að meðaltali en samkvæmt matslistanum 2011 hafi einstaklingum sem höfðu tekjur milli 231.188 kr. og 308.249 kr. á mánuði verið gefin tvö stig. Þar að auki hafi kæranda verið gefin tvö stig þar sem hann sé öryrki í umönnunarþörf. Ekkert stig hafi verið gefið vegna húsnæðisaðstæðna þar sem hann hafi verið talinn í öruggri leiguíbúð. Kæranda hafi því verið reiknuð fjögur stig samtals og þar sem sérstakar húsaleigubætur séu aðeins greiddar þeim sem hafi 6–10 stig hafi beiðni hans verið synjað.
IV. Niðurstaða
Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um úthlutun á almennu leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ og sérstakar húsaleigubætur sem samþykktar voru í bæjarstjórn þann 3. maí 2005 með breytingum sem tóku gildi þann 1. nóvember 2009. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Hafnarfjarðarbæ hafi borið að samþykkja umsókn kæranda, dags. 14. nóvember 2011, um sérstakar húsaleigubætur.
Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála tekur fram að kærufrestur til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála vegna ákvarðana sveitarfélaga um sérstakar húsaleigubætur er þrír mánuðir frá því aðila máls barst vitneskja um ákvörðun, sbr. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 40/1991. Í 22. gr. reglna um úthlutun á almennu leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ og sérstakar húsaleigubætur er hins vegar kveðið á um fjögurra vikna kærufrest. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Hafnarfjarðarbæjar að gera breytingar á nefndum reglum svo þær samræmist ákvæði 1. mgr. 63. gr. laga nr. 40/1991. Í hinni kærðu ákvörðun er kæranda þó réttilega leiðbeint um þriggja mánaða kærufrest.
Um sérstakar húsaleigubætur er fjallað í VI. kafla framangreindra reglna Hafnarfjarðarbæjar og kemur þar fram í 15. gr. að heimilt er að greiða sérstakar húsaleigubætur til þeirra sem metnir eru með 6–10 stig á biðlista (og/eða fimm stig vegna fjárhags) eftir félagslegu leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ samkvæmt matslista Félagsþjónustunnar og sannanlega eru leigjendur á hinum almenna leigumarkaði. Þá segir í 2. mgr. 16. gr. reglnanna að umsækjandi um félagslegt leiguhúsnæði falli ekki af biðlista þrátt fyrir greiðslu sérstakra húsaleigubóta. Að öðru leyti gilda sömu viðmið og við úthlutun leiguíbúða. Um úthlutun leiguíbúða er fjallað í IV. kafla reglnanna og segir í 6. gr. að starfsmenn Félagsþjónustunnar meta umsóknir á afgreiðslufundi í húsnæðisteymi og taki ákvörðun um úthlutun í umboði fjölskylduráðs. Skuli úthlutun taka mið af því húsnæði sem í boði er, þörfum umsækjenda og stigagjöf. Þá segir í 5. gr. reglnanna að við mat á umsóknum sé farið eftir ákveðnu matskerfi og hverjum umsækjanda um leiguíbúð reiknuð stig á tíu stiga kvarða. Við forgangsröðun skal hafa eftirfarandi til viðmiðunar: Tekjur umsækjanda, húsnæðisaðstæður og félagslegar aðstæður. Félagsþjónustan skal gera matsblað með nákvæmri útlistun stigagjafar til leiðbeiningar og skýringar. Meðal gagna málsins er matsblað Félagsþjónustunnar vegna sérstakra húsaleigubóta janúar 2011. Kemur þar fram að miðað sé við tekjuupplýsingar 2010 eða meðaltal síðustu þriggja mánaða. Samkvæmt matsblaðinu eru veitt stig fyrir tekjur, húsnæðisaðstæður og félagslegar aðstæður.
Umsókn kæranda var synjað þar sem aðstæður hans voru einungis metnar til fjögurra stiga. Kærandi fékk tvö stig vegna tekna, tvö vegna félagslegra aðstæðna en ekkert vegna húsnæðisaðstæðna. Kærandi hefur fyrst og fremst gert athugasemd við stigagjöf vegna húsnæðisaðstæðna. Samkvæmt matsblaði vegna sérstakra húsaleigubóta fær einstaklingur fimm stig ef mánaðartekjur eru á bilinu
0–191.115 kr. eða árstekjur 2.293.380 kr. Einstaklingur fær þrjú stig ef mánaðartekjur eru á bilinu 191.116–231.187 kr. eða árstekjur 2.737.260 kr. Einstaklingur fær tvö stig ef mánaðartekjur eru á bilinu 231.188–308.249 kr. eða árstekjur 3.698.999 kr. Einstaklingur fær engin stig ef mánaðartekjur eru 308.250 kr. eða meira eða árstekjur 3.699.000 kr. Í athugasemdum Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að meðalmánaðartekjur kæranda hafi verið 286.737 kr. og kemur það heim og saman við skattframtal kæranda 2011 er fyrir liggur í málinu. Samkvæmt því voru tekjur kæranda árið 2010 samtals 3.440.844 kr. Ekkert hefur fram komið í málinu sem leiðir til þess að rétt hefði verið að miða við meðaltal síðustu þriggja mánaða í stað tekna ársins 2010. Úrskurðarnefndin gerir því ekki athugasemd við að kærandi hafi hlotið tvö stig vegna tekna. Samkvæmt matsblaðinu eru veitt að hámarki tvö stig vegna félagslegra aðstæðna og hlaut kærandi tvö stig. Verður því ekki sérstaklega vikið að þeim þætti.
Í matsblaðinu kemur fram að veitt eru þrjú stig fyrir húsnæðisaðstæður þegar eftirfarandi aðstæður eru fyrir hendi: Á götunni, gistiheimili, neyðarúrræði, býr inni á öðrum við íþyngjandi aðstæður, heilsuspillandi húsnæði samkvæmt vottorði heilbrigðisfulltrúa. Veitt eru tvö stig ef eftirfarandi aðstæður eru fyrir hendi: Á áfangastað, meðferðarheimili eða stofnun, yfirvofandi missir húsnæðis og að engu að hverfa, óöruggt húsnæði. Engin stig eru veitt ef eftirfarandi aðstæður eru fyrir hendi: Býr í öruggri leiguíbúð, á húseign, íbúð eða búseturétt. Kærandi hlaut engin stig fyrir húsnæðisaðstæður þar sem hann var talinn í öruggri leiguíbúð. Kærandi hefur gert athugasemdir við stigagjöf vegna húsnæðisaðstæðna og telur óljóst hvenær umsækjandi teljist vera í öruggu húsnæði. Í málinu liggur fyrir þinglýstur húsaleigusamningur kæranda fyrir tímabilið 1. nóvember 2011 til 1. maí 2012. Líkt og að framan greinir eru almennt gerðir ótímabundnir húsaleigusamningar hjá Brynju hússjóði eftir að tímabundnum sex mánaða samningi er lokið, standi leigutaki skil á leigu og fái ekki kvartanir. Þegar kærandi sótti um sérstakar húsaleigubætur hjá Hafnarfjarðarbæ var hann með þinglýstan leigusamning til sex mánaða við Brynju hússjóð og líkur á því að hann fengi ótímabundinn samning að þeim tíma liðnum. Fyrir liggur að kærandi er nú með ótímabundinn húsaleigusamning við Brynju hússjóð. Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála telur því ekki ástæðu til að gera athugasemdir við mat Hafnarfjarðarbæjar á húsnæðisaðstæðum kæranda.
Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat Hafnarfjarðarbæjar á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar.
Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 15. desember 2011, um synjun á umsókn A, um sérstakar húsaleigubætur er staðfest.
Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður
Margrét Gunnlaugsdóttir
Gunnar Eydal