Mál nr. 6/2012
Fimmtudaginn 30. ágúst 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 6/2012:
Kæra A
á ákvörðun
Íbúðalánasjóðs
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R:
A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dagsettri 4. janúar 2012, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Íbúðalánasjóðs, frá 6. október 2011, vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum.
I. Helstu málsatvik og kæruefni
Kærandi kærði endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni B, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.
Samkvæmt endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, dagsettum 6. október 2011, var skráð fasteignamat á íbúð kæranda að B 20.300.000 kr. og 110% af fasteignamati var því 22.330.000 kr. Áhvílandi veðlán Íbúðalánasjóðs voru 23.032.650 kr. Veðsetning umfram 110% var samkvæmt endurútreikningnum 702.650 kr. Í endurútreikningnum kemur fram að kærandi á bifreið, C sem metin er á 639.243 kr. Til frádráttar niðurfærslu lána komu einnig bankainnstæður kæranda að frádregnum launum til tveggja mánaða og innstæða á orlofsreikningi, alls 2.078.724 kr. Veðrými sem kom til frádráttar vegna annarra eigna nam því samtals 2.717.967 kr.
II. Málsmeðferð
Með bréfi, dagsettu 6. janúar 2012, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dagsettu 23. janúar 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dagsettu 25. janúar 2012, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi, dagsettu 29. febrúar 2012, óskaði úrskurðarnefndin eftir umboði frá lögmanni kæranda og barst það þann 28. ágúst 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dagsettu 16. apríl 2012, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst.
III. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir kröfu um að tekið verði tillit til greiðslubyrði lána í samræmi við samkomulag lánveitenda um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila og að lánamál kæranda verði skoðuð heildstætt, en hluti lána vegna öflunar íbúðarhúsnæðis sé tryggður með lánsveði. Er aðstæðum kæranda lýst í bréfi lögmanns hennar þar sem fram kemur að hún hafi fengið lán hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og hafi hún fengið leyfi föður síns og móður (sem nú er látin) til að veðsetja eign þeirra til tryggingar láninu. Alltaf hafi staðið til að greiða upp þetta lán þegar hún hefði fengið fullnægjandi lánafyrirgreiðslu hjá Íbúðalánasjóði. Til þess hafi þó ekki komið. Kærandi hafi talið fram lánið sem skuld sína og lagði fram með kæru sinni skattframtöl því til staðfestingar.
IV. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs
Íbúðalánasjóður tekur fram að útreikningar miðist við fasteignamat íbúðar uppfært í 110% og vísar í niðurstöður útreikninga sem fyrir liggi í málinu. Niðurfærsla lækki vegna veðrýmis í aðfararhæfri eign sem sé bankainnistæða, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011. Íbúðalánasjóður telur því aðstæður kæranda ekki falla að 110% úrræðinu.
V. Niðurstaða
Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.
Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 þar sem Íbúðalánasjóði er veitt heimild til þess að færa niður veðkröfur kemur meðal annars fram að lækkun sé háð því skilyrði að lántaki eða maki hans eigi ekki aðrar aðfararhæfar eignir með veðrými sem svari að hluta eða öllu leyti til fyrirhugaðrar niðurfærslu veðkröfu. Sama regla kemur fram í lið 2.2 í 2. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011. Með aðfararhæfum eignum er átt við allar eignir nema þær séu sérstaklega undanþegnar fjárnámi. Aðfararhæfar eignir eru til dæmis fasteignir, bifreiðir og bankainnstæður. Í málinu liggur fyrir að auk fasteignar að B er kærandi eigandi bifreiðar og bankainnstæðu, sem samtals nema 2.717.697 kr. eins og greint hefur verið frá. Í fyrrgreindum reglum kemur skýrt að ef veðrými er á aðfararhæfum eignum lækkar niðurfærsla veðskulda sem því nemur.
Kærandi hefur gert þá kröfu að við endurútreikning lána hennar hjá Íbúðalánasjóði eigi að skoða lánamál hennar heildstætt. Í kæru er ekki vikið nánar að þessu atriði en í umsókn kæranda um endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði, sem fyrir liggur í málinu, kemur fram athugasemd um lánsveð hjá föður kæranda vegna lífeyrissjóðsláns hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins eins og að framan er rakið. Staða lánsins þann 31. desember 2010 hafi verið 10.192.822 kr. og fær það einnig stoð í framlögðu skattframtali kæranda fyrir árið 2010. Verður að telja að kærandi óski eftir því að umrætt lán verði tekið inn í endurútreikninginn.
Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 þar sem Íbúðalánasjóði var veitt heimild til þess að taka við afgreiðslum eftir hinni svokölluðu 110% leið, kemur fram að Íbúðalánasjóði sé heimilt að færa niður veðkröfur í eigu sjóðsins. Þessi regla er enn fremur áréttuð í lið 1.1 í 1. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011, þar sem fram kemur að heimild til niðurfærslu taka eingöngu til áhvílandi veðskulda. Er því ljóst að Íbúðalánasjóði var ekki heimilt að líta til láns kæranda hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins við útreikning á veðsetningarhlutfalli af verðmæti fasteignar hennar heldur eingöngu veðlána Íbúðalánasjóðs.
Íbúðalánasjóði ber að gæta jafnræðis og samræmis í úrlausn þeirra umsókna sem sjóðnum berast. Þá ber Íbúðalánasjóði að fylgja fyrrgreindum reglum og þar er ekki að finna undanþágur. Þar kemur skýrt fram að ef veðrými er á aðfararhæfum eignum lækkar niðurfærsla veðskulda sem því nemur. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 og ákvæðum 2.2 í 2. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila verður því að staðfesta hina kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, varðandi synjun um niðurfærslu lána A, áhvílandi á íbúðinni að B í Fljótsdalshéraði, er staðfest.
Ása Ólafsdóttir,formaður
Margrét Gunnlaugsdóttir
Gunnar Eydal