Mál nr. 39/2012
Fimmtudaginn 30. ágúst 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 39/2012:
Kæra A
á ákvörðun
Íbúðalánasjóðs
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R:
A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 13. febrúar 2012, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 2. desember 2011, þar sem kæranda var synjað um greiðsluerfiðleikaaðstoð.
I. Helstu málsatvik og kæruefni
Kærandi hefur kært synjun um greiðsluerfiðleikaaðstoð til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 13. febrúar 2012. Í ákvörðunarbréfi Íbúðalánasjóðs kemur fram að greiðsluerfiðleikanefnd Íbúðalánasjóðs hafi metið umsókn kæranda um aðstoð vegna greiðsluerfiðleika og reiknað greiðslubyrði og greiðslugetu hans. Niðurstaða nefndarinnar hafi verið sú að Íbúðalánasjóður gæti ekki orðið við beiðni hans um greiðsluerfiðleikaaðstoð, sbr. 4. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001, um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs. Lausn finnist ekki í umsókninni og greiðslubyrði sé umfram greiðslugetu.
II. Málsmeðferð
Með bréfi, dags. 23. febrúar 2012, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða Íbúðalánasjóðs ásamt frekari gögnum barst með bréfi, dags. 22. mars 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 28. mars 2012, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 17. apríl 2012, var kæranda tilkynnt um töf við afgreiðslu málsins. Í símtali kæranda óskaði hann eftir og fékk frest til andmæla til 27. apríl 2012. Bréf kæranda er dagsett 25. apríl 2012 og bárust ásamt því frekari gögn. Þann 26. júní 2012 sendi úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála Íbúðalánasjóði frekari fyrirspurn og óskaði eftir upplýsingum um hvort tekið hafi verið tillit til ákvæðis 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001 þar sem fram komi að ef ástæða greiðsluerfiðleika umsækjenda um aðstoð sé tímabundin tekjulækkun skuli í mati á greiðslugetu miða við tekjur umsækjenda áður en til tekjulækkunarinnar kom. Hafi ekki verið tekið tillit til ákvæðisins við afgreiðslu á erindi kæranda var þess óskað að Íbúðalánasjóður upplýsti um ástæður þess. Svar Íbúðalánasjóðs barst nefndinni með bréfi, dags. 2. ágúst 2012, og verður efni þess reifað í IV. kafla hér á eftir.
III. Sjónarmið kæranda
Kærandi tekur fram að umsókn hans um greiðsluerfiðleikaaðstoð hafi verið hafnað með vísan í 4. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001, á þeirri forsendu að lausn finnist ekki í umsókninni og að greiðslubyrði sé umfram greiðslugetu. Samkvæmt 10. gr. nefndrar reglugerðar sé heimilt að fresta greiðslum af lánum í allt að þrjú ár. Miðað við að greiðslum sé frestað samkvæmt umsókn kæranda geti hann ekki séð annað en að hann uppfylli skilyrði 4. tölul. 4. gr. áðurnefndrar reglugerðar.
Samkvæmt greiðsluerfiðleikamati Byrs hafi ákvörðun tekna í framtíðinni verið reiknuð miðað við þátttöku í atvinnulífinu og hafi tekjur samkvæmt skattframtali 2011 verið notaðar sem viðmið. Hluta ársins 2010 hafi kærandi verið á atvinnuleysisbótum og verið launalaus í fimm og hálfan mánuð og fái hann ekki séð að tekið hafi verið tillit til þess við meðferð umsóknar hans, auk þess sem ekki hafi verið gert ráð fyrir vaxtabótum. Eðlilegt hljóti að vera að reikna með þeim þar sem þegar hann byrji að greiða aftur af lánunum muni hann fá greiddar vaxtabætur. Honum er spurn að þegar stofnun taki að sér að ákveða tekjur einstaklings í ókominni framtíð, hvaða tekjuár sé eðlilegt að miða við. Slíka ákvörðun ætti þá að miða við eitthvert eitt einstaka ár frekar en meðaltalstekjur fleiri ára. Þá finnist honum líka óeðlilegt að fara í þannig viðmið þar til komið sé að lokum þess tímabils sem möguleiki sé að fá frystingu lána, þar sem fólki hafi verið gefinn sá möguleiki til þriggja ára.
Kærandi sendir máli sínu til stuðnings launaseðla ársins 2010, skattframtal vegna tekjuáranna 2008–2010 og lauslegan útreikning af sinni hálfu. Auk þess lagði kærandi fram með kærunni afrit skattframtala ársins 2010 vegna tekjuársins 2009 og ársins 2011 vegna tekjuársins 2010. Þá fylgdu kærunni vottorð Atvinnuleysistryggingasjóðs þar sem fram kom að hann hefði verið atvinnulaus hluta ársins 2010, auk launaseðla fyrir fyrstu mánuði ársins 2010.
Hefur kærandi farið fram á að tekjuútreikningar hans sem unnir voru af Byr verði endurskoðaðir út frá þeim upplýsingum og gögnum sem hann hefur lagt fram í málinu.
IV. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs
Í bréfi Íbúðalánasjóðs til úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. mars 2012, kemur fram að skv. 4. tölul. 4. gr. reglugerðar um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs nr. 584/2001, með síðari breytingum, sé áskilið að greiðslubyrði rúmist innan greiðslugetu eftir frystingu lána. Greiðsluerfiðleikamat frá Byr beri með sér að svo sé ekki og því hafi Íbúðalánasjóði borið að hafna umsókn kæranda. Í kjölfar fyrirspurnar úrskurðarnefndar, þar sem óskað var eftir upplýsingum hvort umsókn kæranda hefði verið metin á grundelli 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001, kom fram í svari Íbúðalánasjóðs, dags. 2. ágúst 2012, að samkvæmt greiðsluerfiðleikamati hafi verið tekið tillit til hækkunar tekna eftir lok úrræða. Þannig hafi verið gert ráð fyrir að áætlaðar nettótekjur myndu hækka úr 140.000 kr. í 178.000 kr. Þrátt fyrir áætlaða hækkun mánaðarlegra tekna myndi úrræðið þó ekki duga og skorti verulega á að greiðslugeta stæði undir greiðslubyrði eins og áskilið væri í 4. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001.
V. Niðurstaða
Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.
Kærandi sótti um greiðsluerfiðleikaaðstoð vegna erfiðleika hans við að greiða af lánum sínum og var synjað á þeim grundvelli að greiðslubyrði hans rúmaðist ekki innan greiðslugetu.
Í 4. tölul. 4. gr. reglugerðar um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, nr. 584/2001, kemur fram að skilyrði greiðsluerfiðleikaaðstoðar sé að greiðslubyrði umsækjanda eftir skuldbreytingu og/eða frestun á greiðslum og/eða lengingu lánstíma rúmist innan greiðslugetu. Um er að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir úrræðinu sem sótt er um. Eins og fram kemur í gögnum málsins myndi samþykki um greiðsluerfiðleikaúrræði verða til þess að greiðslubyrði kæranda yrði umfram getu hans og uppfyllir hann því ekki skilyrði 4. tölul. 4. gr. reglugerðarinnar.
Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001 segir hins vegar að ef ástæða greiðsluerfiðleika er tímabundin tekjulækkun, skuli í mati á greiðslugetu miða við tekjur umsækjanda áður en til tekjulækkunar kom. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að svo hátti til um kæranda. Af framlögðum skattframtölum má ráða að hann var í starfi hjá B árið 2009 og hluta árs 2010, allt þar hann missti starfið um mitt ár 2010. Í umsókn kæranda um greiðsluerfiðleikamat eru ástæður greiðsluerfiðleika sagðar vera atvinnuleysi.
Í fyrirspurn úrskurðarnefndar til Íbúðalánasjóðs, dags. 26. júní 2012, var þess óskað að upplýst yrði hvort mál kæranda hefði verið kannað út frá 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001. Af svörum Íbúðalánasjóðs má ráða að svo virðist ekki hafa verið gert. Verður heldur ekki ráðið af öðrum gögnum málsins að við afgreiðslu umsóknar kæranda hafi verið litið til framangreindra athugasemda kæranda og því hvort aðstæður hans féllu undir framangreinda undantekningarreglu. Við svo búið verður því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og fela Íbúðalánasjóði að taka málið til úrskurðar að nýju, enda er hér um annmarka að ræða sem ekki verður bætt úr á vettvangi úrskurðarnefndarinnar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Íbúðalánasjóðs um að synja A um greiðsluerfiðleikaaðstoð er felld úr gildi og málinu vísað heim til nýrrar meðferðar.
Ása Ólafsdóttir, formaður
Margrét Gunnlaugsdóttir
Gunnar Eydal