Mál nr. 62/2012
Fimmtudaginn 30. ágúst 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 62/2012:
Kæra A
á ákvörðun
Íbúðalánasjóðs
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R:
A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 20. júní 2012, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, frá 20. mars 2012, vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum.
I. Helstu málsatvik og kæruefni
Kærandi kærði endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni B, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.
Samkvæmt endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, dags. 20. mars 2012, var skráð fasteignamat á einbýlishúsi kæranda að B 15.500.000 kr. og 110% af skráðu fasteignamati voru því 17.050.000 kr. Við afgreiðslu á umsókn kæranda var aflað verðmats frá löggiltum fasteignasala, og var íbúðin metin á 11.500.000 kr. og 110% verðmat nam því 12.650.000 kr. Þar sem fasteignamat einbýlishússins var hærra en verðmat fasteignasala var miðað við það við afgreiðslu á erindi kæranda. Staða áhvílandi íbúðalána kæranda á lánum Íbúðalánasjóðs þann 1. janúar 2011 var 26.284.436 kr. Veðsetning umfram 110% var samkvæmt endurútreikningnum 9.234.436 kr. Í endurútreikningnum kemur fram að kærandi á ekki aðrar eignir sem koma til frádráttar niðurfærslu lána. Fjárhæð til lækkunar íbúðalána hjá Íbúðalánasjóði var 7.000.000 kr.
II. Málsmeðferð
Með bréfi, dags. 27. júní 2012, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dags. 11. júlí 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 17. júlí 2012, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
III. Sjónarmið kæranda
Kærandi bendir á að ekki hafi verið farið niður í 110% af verðmati fasteignar. Um sé að ræða byggingarlóð sem hafi verið metin á 11.500.000 kr. af fasteignasala. Farið hafi verið eftir Fasteignamati ríkisins sem metið hafi húsnæðið íbúðarhæft og hafi verðlagt það sem einbýli. Kærandi heldur því fram að húsið sé ónýtt og óíbúðarhæft. Af þeim sökum hafi Íbúðalánasjóði borið að miða við verðmat fasteignasala.
IV. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs
Íbúðalánasjóður tekur fram að skv. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 skuli við verðmat fasteigna miða við fasteignamat eða markaðsverð hvort sem sé hærra. Í tilfelli kæranda sé fasteignamat hærra en verðmatið og við það skuli miðað.
V. Niðurstaða
Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er m.a. að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.
Kærandi telur fasteignamat fasteignar sinnar vera allt of hátt og heldur því fram að við framkvæmd endurútreiknings á lánum hennar hafi Íbúðalánasjóði borið að miða við verðmat fasteignasala, en það er lægra en skráð fasteignamat fasteignarinnar.
Í 4. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 kemur fram að við verðmat fasteigna samkvæmt ákvæðinu skuli miða við fasteignamat eða markaðsverð þeirra, hvort sem er hærra. Telji Íbúðalánasjóður skráð fasteignamat fyrir 2011 ekki gefa rétta mynd af verðmæti eignar skuli hann á eigin kostnað afla verðmats löggilts fasteignasala. Sömu reglu er að finna í lið 1.3 í 1. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011, þar sem fram kemur að við mat á verðmæti fasteigna skuli miðað við fasteignamat eða markaðsverð þeirra, hvort sem sé hærra. Ef kröfuhafi telji skráð fasteignamat fyrir 2011 ekki gefa rétta mynd af verðmæti eignarinnar kalli hann eftir verðmati löggilts fasteignasala á sinn kostnað. Fyrir liggur að Íbúðalánasjóður nýtti sér þessa heimild og leitaði til löggilts fasteignasala sem gaf slíkt vottorð um verðmæti fasteignarinnar.
Eins og fram hefur komið var fasteignamat fasteignar kæranda hærra en verðmat fasteignasala. Við afgreiðslu málsins var því miðað við fasteignamat enda er í 4. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 kveðið skýrt á um að miða skuli við það sem er hærra. Í framangreindum lögum er ekki að finna undantekningar frá framangreindu skilyrði fyrir niðurfærslu veðlána Íbúðalánasjóðs. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og 2. og 3. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011, sbr. ákvæði 1.3 í 1. gr. í samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila, verður því að staðfesta hina kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, varðandi endurútreikning á lánum A, áhvílandi á fasteigninni að B í Reykjavík, er staðfest.
Ása Ólafsdóttir, formaður
Margrét Gunnlaugsdóttir
Gunnar Eydal