Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 207/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 207/2022

Fimmtudaginn 18. ágúst 2022

A

gegn

Kópavogsbæ

Ú R S K U R Ð U R 

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 13. apríl 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 25. janúar 2022, um að synja beiðni hans um endurupptöku máls.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Kópavogsbæjar, dags. 17. september 2021, var kæranda tilkynnt um uppsögn á húsaleigusamningi hans hjá Kópavogsbæ. Kærandi áfrýjaði þeirri ákvörðun til velferðarráðs Kópavogsbæjar. Velferðarráð Kópavogsbæjar tók málið fyrir á fundi þann 25. október 2021 og staðfesti uppsögn á húsaleigusamningi. Sú ákvörðun var kynnt kæranda með bréfi, dags. 26. október 2021. Kærandi fór fram á endurupptöku ákvörðunarinnar hjá velferðarráði Kópavogsbæjar sem synjaði þeirri beiðni 24. janúar 2022. Sú ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 25. janúar 2022.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 13. apríl 2022. Með bréfi, dags. 19. apríl 2022, var kæranda tilkynnt að kæra vegna ákvörðunar frá 26. október 2021 hefði borist að liðnum kærufresti og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hann að skilyrði sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gætu átt við í málinu. Skýringar bárust frá kæranda 21. apríl 2022 þess efnis að hann væri að kæra ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 25. janúar 2022. Með bréfi, dags. 25. apríl 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Kópavogsbæjar vegna ákvörðunar frá 25. janúar 2022 ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð þann 3. júní 2022. Greinargerð Kópavogsbæjar barst með bréfi, dags. 7. júní 2022, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. júní 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda 15. og 16. júní 2022 og voru þær kynntar Kópavogsbæ með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. júní 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi tekur fram að hann hafi síðan í september 2021 fengið aðstoð frá B, lögfræðingi Öryrkjabandalagsins, og kvartað yfir ákvörðun Kópavogsbæjar um uppsögn á húsaleigusamningi. Ástæðan fyrir því að kærandi sé að missa íbúðina sé sú að Kópavogsbær segi að kærandi hafi farið fram úr tekjumörkum sem sé ekki rétt. Samkvæmt reikningum Kópavogsbæjar séu áætlaðar fjölskyldutekjur kæranda 8.521.890 kr. sem sé ekki réttur útreikningur. Kærandi láti fylgja skattframtal 2022 því til stuðnings. Í skattframtalinu sjáist að árstekjur kæranda árið 2021 hafi verið 3.685.599 kr. Árstekjur dóttur kæranda hafi verið 3.329.163 kr. Samanlagt hafi kærandi og dóttir hans fengið 7.014.762 kr. Útreikningar Kópavogsbæjar hafi því ekki verið réttir.

Kærandi og lögfræðingurinn hans hafi ítrekað óskað eftir skýringum á þessum útreikningum en ekki fengið slíkar skýringar. Kærandi hafi síðan í september reynt að breyta þessari ákvörðun um uppsögn á húsaleigusamningi en fái alltaf neikvætt svar, án frekari útskýringa.

Kærandi sé öryrki með lágmarkslaun. Húsaleigusamningi kæranda hafi verið sagt upp út af röngum útreikningum sem sé ekki sanngjarnt. Dóttir kæranda hafi búið hjá honum frá því að hún hafi verið lítil en kærandi hafi farið með forsjá eftir skilnað.

Læknir kæranda hafi einnig sent gögn beint til Kópavogsbæjar og gert grein fyrir heilsufarsástandi hans. Læknirinn hafi útskýrt að kærandi hafi farið í nýrnaígræðslu árið 2010. Þar sem 12 ár séu liðin frá aðgerðunum sé kærandi aftur í heilsuhættu vegna nýrnabilunar. Þessi beiðni hafi ekki verið tekin til greina hjá Kópavogsbæ. Þar sem skjalið hafi verið sent beint frá lækni til Kópavogsbæjar sé kærandi ekki með skjalið en nefndin geti beðið um skjalið frá Kópavogsbæ.

Kæranda hafi verið sagt upp á versta tíma miðað við heilsufarsástand hans og hann sé beðinn um að fara á leigumarkað með lágmarkstekjur. Kærandi voni að gögnin hans frá Skattinum sanni að ákvörðun Kópavogsbæjar sé byggð á röngum útreikningum. Kærandi, sem sé öryrki og heilsulítill, verði sextugur í Xmánuði, hafi verið beðinn um að yfirgefa íbúð eftir 15 ára dvöl. Kæranda finnist ákvörðunin röng og ósanngjörn.

Í athugasemdum kæranda segir að rökstuðningur lögfræðings velferðarráðs Kópavogs hafi verið mjög einfaldur eins og kærandi væri að fást við að fara yfir leyfilegar tekjur. Þegar lögfræðingurinn sjái að tekjur ársins 2021 hafi verið misreiknaðar, án þess að viðurkenna mistökin, setji hún fram tekjur ársins 2020 eins og þær séu umfram leyfilega upphæð og rökstyðji ástæðuna fyrir því að kærandi þurfi að yfirgefa íbúðina. Lögfræðingur Kópavogs ræði einnig nýjar reglur frá árinu 2020 fyrir íbúa sem öðlist rétt til húsnæðis og fyrir þá sem búi til langs tíma í þessum íbúðum. Félagslegar leiguíbúðir séu ætlaðar þeim fjölskyldum og einstaklingum sem þurfi tímabundið aðstoð. Kærandi virði allar reglur en ef þær gildi, gildi þær jafnt um alla einstaklinga. Kærandi hafi búið í íbúð númer 404 í 15 ár, eða frá árinu 2007. Þá nefnir kærandi aðra íbúa sem hafi búið í meira en 15 ár.

Varðandi læknisvottorð fari lögfræðingurinn fram úr rökstuðningi læknisins um heilsu kæranda, umhyggju hennar fyrir heilsufarslegum afleiðingum kæranda, streitu og óöryggi.

Lögfræðingur velferðarráðs nefni aldur dóttur kæranda, eldri en 24 ára árið 2020, sem uppfylli ekki tilskilin skilyrði og taki í kjölfarið ákvörðun um uppsögn á fundi velferðarráðs Kópavogs 25. október 2021. Kæranda þyki þetta furðulegur rökstuðningur.

Kærandi segir sannleikann tengjast árinu 2018 þegar hann hafi átt samtal við yfirmann velferðarráðs. Þetta séu staðreyndir og rök er varði uppsögn frá 21. ágúst 2017 og ákvörðun velferðarráðs Kópavogs frá 21. júní 2018. Í byrjun júní 2018 hafi íbúi óvart bankað upp á íbúð kæranda. Hún hafi beðið kæranda um að lána sér tímabundið lykilinn að kjallaranum sem kærandi hafi ekki verið að nota á þeim tíma. Kærandi hafi sagt henni að hann væri í vandræðum og þyrfti að rýma íbúðina þó að hann hafi víða beðið um aðstoð, án árangurs. Hún hafi sagt þetta óréttlæti gagnvart kæranda þegar aðrir þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að þurfa að yfirgefa íbúð sína sem sé jafnframt eign Bæjarsjóðs Kópavogs. Annar íbúi njóti réttinda sem kæranda hafi verið neitað um. Kærandi hafi farið á skrifstofu velferðarráðs Kópavogs og beðið um að fá að búa áfram í sömu íbúð. Kærandi hafi spurt starfsmann velferðarráðs hvort hann væri sá eini í blokkinni sem þyrfti að yfirgefa íbúðina. Kæranda hafi verið svarað játandi. Kærandi hafi sagst hafa upplýsingar um íbúa sem væri í leiguíbúð Bæjarsjóðs Kópavogs og hafi aldrei verið beðinn um upplýsingar um árstekjur sem hafi verið heimilisfastur í meira en 12 ár. Þetta samtal hafi átt sér stað árið 2018. Yfirmaður velferðarráðs hafi verið hissa á spurningu kæranda og sagt að það væru engar upplýsingar um þessa manneskju. Hún hafi eytt öllum tímanum í að tala um þær tekjur sem kærandi og dóttir hans hafi haft árið 2017. Hún hafi spurt kæranda um nafn þess íbúa sem hann væri að tala um. Kærandi hafi sagt að ef hann myndi nefna einhvern sem hún væri að leita að þá væri það fyrir dómstólum eða fyrir mannréttindanefnd á Alþingi. Kæranda hafi verið lofað að þeir myndu berjast fyrir réttindum hans þar sem hann væri öryrki með mörg heilsufarsvandamál. Hún hafi orðið hissa á orðum kæranda og áður en hann hafi yfirgefið skrifstofu hennar hafi hann sagt henni að hann myndi ekki fara út úr íbúð sinni nema ofbeldi yrði beitt gegn honum. Nokkrum dögum síðar hafi verið hringt í kæranda og honum sagt að hann gæti búið áhyggjulaus, þrátt fyrir ákvörðun sem hafi verið tekin 21. ágúst 2017. Frá þessu og þangað til kærandi hafi fengið síðustu ákvörðun 17. september 2021 um uppsögn á húsaleigusamningi hafi ekki verið nein vandamál hjá kæranda og velferðarsviði Kópavogs.

III.  Sjónarmið Kópavogsbæjar

Í greinargerð Kópavogsbæjar kemur fram að þann 17. september 2021 hafi kæranda verið tilkynnt um uppsögn á húsaleigusamningi við Kópavogsbæ þar sem upplýsingar um tekju- og eignastöðu íbúa á heimili kæranda hafi sýnt að heimilið væri yfir settum viðmiðunarfjárhæðum til búseturéttar í félagslegu leiguhúsnæði. Kæranda hafi verið veittur tólf mánaða uppsagnarfrestur. Á heimili kæranda búi uppkomin dóttir hans.

Samkvæmt 1. gr. reglna um útleigu á félagslegum leiguíbúðum Bæjarsjóðs Kópavogs séu félagslegar leiguíbúðir ætlaðar þeim fjölskyldum og einstaklingum sem þurfi tímabundið sérstaka aðstoð til að sjá fyrir sér húsnæði sökum lágra tekna, þungrar framfærslu eða annarra félagslegra erfiðleika. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. reglnanna fari um tekju- og eignamörk leigjenda eftir ákvæði 6. gr. reglugerðar nr. 183/2020 um stofnframlög ríkis og sveitarfélaga, húsnæðissjálfseignarstofnanir og almennar íbúðir, með síðari breytingum. Í 12. gr. sé kveðið á um leigutíma, endurskoðun, uppsagnir og fleira. Þar sé kveðið á um að á 12 mánaða fresti sé leigutaka skylt að leggja fram gögn um tekjur og eignir og gangast undir mat á félagslegum aðstæðum. Uppfylli leigjandi ekki lengur viðmið um tekju- og eignamörk og félagslegar aðstæður sé leigusamningi sagt upp með þeim uppsagnarfresti sem eigi við hverju sinni samkvæmt XIV. kafla húsaleigulaga nr. 36/1994.

Samkvæmt staðfestum skattframtölum kæranda hafi heimilistekjur á heimili kæranda árið 2020 verið 7.971.271 kr. og árið 2021 7.014.762 kr.

Samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 183/2020 skuli árstekjur leigjanda almennra íbúða við upphaf leigu ekki nema hærri fjárhæð en 6.957.000 kr. fyrir hvern einstakling en 9.740.000 kr. fyrir hjón og sambúðarfólk. Við þá fjárhæð bætist 1.739.000 kr. fyrir hvert barn eða ungmenni að 20 ára aldri sem búi á heimilinu.

Samkvæmt framangreindu sé ljóst að heimilistekjur kæranda séu yfir samþykktum tekju- og eignaviðmiðum. Á fundi þann 13. september 2021 hafi velferðarráð Kópavogs samþykkt að segja ekki upp leigusamningum vegna tekna uppkominna barna þá og því aðeins að börn væru 24 ára og yngri. Dóttir kæranda sé yfir því aldursviðmiði. Uppsögn á húsaleigusamningi kæranda hafi verið staðfest á fundi velferðarráðs Kópavogs þann 25. október í kjölfar áfrýjunar kæranda. Á fundi velferðarráðs Kópavogs þann 24. janúar 2022 hafi verið tekin fyrir beiðni kæranda um endurskoðun ákvörðunar á uppsögn á húsaleigusamningi. Kærandi hafi lagt fram læknisvottorð sérfræðilæknis á nýrnadeild Landspítala, dags. 6. september 2021, sem hafi staðfest óvinnufærni kæranda. Engin önnur ný gögn hafi verið lögð fram. Á fundinum hafi eftirfarandi bókun verið gerð:

„Beiðni um endurupptöku er hafnað þar sem þær upplýsingar sem endurkröfubeiðni byggir á lágu fyrir við ákvörðun velferðarráðs og var ákvörðunin því ekki byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málið.“

Ljóst sé að uppsögn á húsaleigusamningi kæranda byggi á tekju- og eignaupplýsingum hans en ekki heilsufari eða óvinnufærni. Engar nýjar upplýsingar liggi fyrir sem styðji við endurupptöku á ákvörðun sem hafi verið áfrýjað og staðfest af velferðarráði Kópavogs í tvígang. Með vísan til ofangreinds sé það krafa velferðarráðs Kópavogs að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 25. janúar 2022, um að synja beiðni kæranda um endurupptöku máls.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku mála. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef atvik máls eru á þann veg að eitt af eftirfarandi skilyrðum sem fram koma í 1. og 2. tölul. geti átt við:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafaverulega frá því að ákvörðun var tekin.

Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun samkvæmt 1. tölulið 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum sem ákvörðun samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Við mat á því hvort ákvörðun hefur byggst á „ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik“, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, er horft til þess hvort fram séu komnar nýjar eða fyllri upplýsingar um málsatvik sem telja má að hefðu haft þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hafa ekki komið fram í málinu upplýsingar sem leiða eigi til þess að Kópavogsbær skuli taka ákvörðun sína frá 26. október 2021 til endurskoðunar, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, en fyrir liggur að árstekjur á heimili kæranda eru yfir samþykktum tekju- og eignaviðmiðum samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 183/2020 um stofnframlög ríkis og sveitarfélaga, húsnæðissjálfseignarstofnanir og almennar íbúðir. Þá verður ekki séð að 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga eigi við í máli kæranda.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Kópavogsbæjar frá 25. janúar 2022 um að synja beiðni kæranda um endurupptöku ákvörðunar frá 26. október 2021 staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Kópavogsbæjar, dags. 25. janúar 2022, um að synja beiðni A, um endurupptöku ákvörðunar frá 26. október 2021, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta