Mál nr. 71/2015
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 71/2015
Fimmtudaginn 28. apríl 2016
A
gegn
Reykjanesbæ
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 18. desember 2015, kærir B f.h. A til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjanesbæjar, dags. 23. september 2015, á beiðni kæranda um þátttöku sveitarfélagsins í kostnaði vegna búsetu kæranda á einkareknu vistheimili.
Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 5. gr. a laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks.
I. Málavextir og málsmeðferð
Kærandi hefur verið á biðlista eftir sértæku búsetuúrræði fyrir fatlaða hjá Reykjanesbæ frá árinu 2012. Í ágúst 2015 flutti kærandi á einkarekið vistheimili fyrir fatlað fólk og óskaði eftir að Reykjanesbær myndi greiða fyrir þá búsetu. Erindi kæranda var synjað með bréfi Reykjanesbæjar, dags. 23. september 2015, á þeirri forsendu að það samræmdist ekki reglum sveitarfélagsins.
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála þann 18. desember 2015. Með bréfi, dags. 30. desember 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjanesbæjar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjanesbæjar barst með bréfi, dags. 18. janúar 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 21. janúar 2016, var bréf Reykjanesbæjar sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 1. febrúar 2016, og voru þær sendar sveitarfélaginu til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. febrúar 2016. Athugasemdir bárust frá Reykjanesbæ með bréfi, dags. 17. febrúar 2016, og voru þær sendar kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. febrúar 2016. Þá bárust frekari athugasemdir frá kæranda þann 7. mars 2016.
II. Málsástæður kæranda
Í kæru til úrskurðarnefndar er greint frá aðstæðum kæranda. Fram kemur að kærandi hafi þurft að flytja af heimili fjölskyldu sinnar í ágúst 2015 á einkarekið vistheimili og greiði sjálf fyrir þá búsetu. Kærandi búi við óviðunandi aðstæður og líti á núverandi búsetu sína sem tímabundna. Þar sem Reykjanesbær hafi ekki útvegað kæranda viðeigandi búsetuúrræði óskar hún eftir því að sveitarfélagið greiði fyrir búsetu hennar á vistheimilinu þar til framtíðarbúseta sé tryggð.
Kærandi hafnar þeirri túlkun sveitarfélagins að hún hafi verið að sækja um fjárhagsaðstoð. Að mati kæranda beri sveitarfélaginu að greiða fyrir núverandi búsetu hennar þar til búið sé að útvega henni búsetuúrræði til frambúðar, líkt og sveitarfélaginu sé skylt að gera. Því hafi verið óskað eftir undanþágu frá sveitarfélaginu vegna greiðslu kostnaðar við dvöl kæranda á vistheimilinu.
III. Sjónarmið Reykjanesbæjar
Í greinargerð Reykjanesbæjar er greint frá fötlun og aðstæðum kæranda. Fram kemur að kærandi hafi verið á biðlista eftir búsetuúrræði frá ágúst 2012 en hún sé í þeim hópi umsækjenda sem njóti forgangs. Ekkert sértækt búsetuúrræði sé laust í sveitarfélaginu en sveitarfélagið sé að vinna að áætlun um byggingu sérhæfðs úrræðis fyrir fatlað fólk með miklar þjónustuþarfir.
Kærandi hafi óskað eftir fjárhagsstuðningi Reykjanesbæjar til að greiða fyrir dvöl hennar á einkareknu vistheimili. Í því felist ekki búsetuúrræði heldur hafi verið litið á umsóknina sem beiðni um fjárstuðning. Erindi kæranda hafi fengið sömu afgreiðslu og sambærileg erindi um fjárstuðning og hafi verið hafnað á þeim forsendum að beiðnin samræmdist ekki reglum sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð. Þá sé því hafnað að beiðni hafi borist frá kæranda um undanþágu varðandi búsetu hennar á vistheimilinu.
Í Reykjanesbæ þurfi einstaklingar sem dvelji á sértækum heimilum fyrir fatlað fólk að standa sjálfir straum af kostnaði vegna húsnæðis, fæðis og annars kostnaðar við sjálfstæða búsetu. Sá kostnaður sé breytilegur eftir einstaklingum en geti verið allt að 150.000 kr. Ráðstöfunartekjur kæranda séu um 190.000 kr. á mánuði og því hafi verið talið að kærandi gæti staðið undir kostnaði við dvölina á vistheimilinu, enda sé um tímabundna dvöl að ræða.
IV. Niðurstaða
Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Reykjanesbæ beri að taka þátt í kostnaði vegna búsetu kæranda á einkareknu vistheimili.
Kærandi í máli þessu er X ára gömul fötluð stúlka sem nýtur þjónustu á vegum Reykjanesbæjar á grundvelli laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Markmið laganna er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Við framkvæmd laganna skal tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Lög nr. 59/1992 veita sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita fötluðu fólki í samræmi við fyrrgreind markmið laganna og þær kröfur sem gerðar eru til aðgengis fatlaðra einstaklinga að þeirri þjónustu. Lögin gera ráð fyrir því að sveitarstjórnir setji sér reglur um framkvæmd aðstoðar við fatlað fólk.
Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 59/1992 er kveðið á um að fatlað fólk skuli eiga kost á félagslegri þjónustu sem geri því kleift að búa á eigin heimili og húsnæðisúrræðum í samræmi við þarfir þess og óskir eftir því sem kostur er. Í 2. mgr. 10. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag, eða sveitarfélög sem standa saman að þjónustusvæði, skuli tryggja að framboð á húsnæðisúrræðum samkvæmt 1. mgr. sé til staðar jafnframt því að veita slíka þjónustu. Eru það þær almennu kröfur sem lögin gera til þeirrar þjónustu sem krafist er af sveitarfélögum sem þeim hefur verið falið að útfæra nánar í þeim reglum sem settar eru um framkvæmd þjónustunnar. Reykjanesbær hefur ekki sett sérstakar reglur er varða búsetu fatlaðs fólks.
Af hálfu Reykjanesbæjar hefur komið fram að ekkert búsetuúrræði fyrir fatlað fólk sé laust í sveitarfélaginu en kærandi sé á biðlista og njóti þar forgangs. Af hálfu kæranda hefur komið fram að hún sé nú búsett á einkareknu vistheimili vegna húsnæðisvanda fjölskyldunnar en um óviðunandi aðstæður sé að ræða. Ekki sé fyrirséð hvenær húsnæðisvandi fjölskyldunnar verði leystur. Kærandi er ósátt við að Reykjanesbær hafi ekki útvegað henni viðunandi húsnæði og hefur því óskað eftir að sveitarfélagið geri undanþágu og greiði fyrir núverandi húsnæði þar til húsnæðisvandi hennar sé leystur.
Tekið skal fram að það er ekki á valdsviði úrskurðarnefndar velferðarmála að taka ákvarðanir um úthlutun húsnæðis fyrir fatlað fólk heldur einskorðast endurskoðun úrskurðarnefndarinnar við að skera úr um lögmæti stjórnvaldsákvarðana. Samkvæmt ákvæðum laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks er ekki gert ráð fyrir að umsækjandi um búsetuþjónustu eigi rétt á tilteknum greiðslum frá sveitarfélagi á meðan viðkomandi er á biðlista eftir viðeigandi húsnæði. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að ákvörðun Reykjanesbæjar um að synja beiðni kæranda um þátttöku í kostnaði vegna búsetu á einkareknu vistheimili sé í samræmi við lög. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
Úrskurðarnefndin bendir á að félags- og húsnæðismálaráðherra fer með yfirstjórn málefna fatlaðs fólks. Ráðherra hefur eftirlit með framkvæmd laga nr. 59/1992, þar á meðal að þjónusta, starfsemi og rekstur sveitarfélaga og annarra aðila samkvæmt lögum þessum sé í samræmi við markmið laganna, reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim og að réttindi fatlaðs fólks séu virt, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna. Með vísan til þessa er kæranda unnt að leita til velferðarráðuneytisins telji hann þjónustu sveitarfélagsins ábótavant.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Reykjanesbæjar um synjun á beiðni A um greiðslur vegna vistunar utan heimilis er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson