Mál nr. 488/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 488/2024
Fimmtudaginn 21. nóvember 2024
A
gegn
Reykjavíkurborg
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 2. október 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Reykjavíkurborgar á umsókn hans um félagslegt leiguhúsnæði.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsókn, dags. 18. júlí 2022, sótti kærandi um félagslegt leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg. Umsókn kæranda var samþykkt á biðlista með ákvörðun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 17. ágúst 2022.
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 2. október 2024. Með bréfi, dags. 3. október 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst úrskurðarnefndinni 23. október 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. október 2024. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála greinir kærandi frá því að hafa þann 18. júlí árið 2022 lagt inn umsókn um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis í samræmi við reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Kærandi hafi því verið á biðlista eftir húsnæði í rúmlega 26 mánuði. Á þessum tíma hafi kærandi átt ófá samtöl um stöðuna við húsnæðisfulltrúa Austurmiðstöðvar. Kærandi hafi ýmist fengið þær upplýsingar að hann sé í miklum forgangi, á svokölluðum forgangslista, eða að aðilum hafi verið forgangsraðað ofar en honum samkvæmt mati fulltrúans sem honum skiljist að sé óháð stigagjöf, sbr. matslista í fylgiskjali með reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði.
Kærandi hafi í fyrstu beint kvörtun sinni til umboðsmanns Alþingis þann 9. september 2024. Umboðsmaður hafi óskað eftir upplýsingum frá Reykjavíkurborg um umsókn kæranda og hvað henni liði. Í svari umboðsmanns til kæranda, dags. 30. september 2024, komi fram að hann telji rétt að kærandi freisti þess að kæra drátt málsins til úrskurðarnefndar velferðamála.
Þar komi fram að umsókn kæranda sé metin til 15 stiga sem samkvæmt fulltrúum félagsþjónustunnar sé í hærra lagi. Það komi ekki á óvart, enda sé lögheimili eins barna kæranda hjá honum og þrjú önnur séu í umgengni. Þau séu skráð óstaðsett í hús og hafi verið eins og fyrr segi húsnæðislaus í rúmlega 26 mánuði.
Í svari Reykjavíkurborgar til umboðsmanns komi einnig fram að meðalbiðtími eftir íbúð í þeirri stærð sem sótt hafi verið um séu 13 mánuðir. Það sé því ljóst að sá biðtími sem kærandi hafi þurft að sitja undir sé orðin helmingi lengri en sá biðtími sem borgin sjálf segir vera meðalbiðtíma. Það kunni að vera að meðalbiðtími hafi lengst á þessu ári en þegar tölfræði velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um úthlutanir félagslegs húnsæðis á þessu ári sé borin saman við tölfræði síðasta árs megi sjá að ekki sé teljandi munur á milli þessara ára í úthlutunum hvers mánaðar.
Í svari borgarinnar komi einnig fram að það hefði áhrif á umsókn kæranda að hún væri bundin við ákveðna borgarhluta. Á því séu auðvitað mjög eðlilegar og góðar skýringar sem ekki verði reifaðar nú, enda varði þær ekki þessa kvörtun með beinum hætti.
Þegar allt sé dregið saman telji kærandi ljóst að dráttur málsins eigi sér ekki almenna skýringu. Reykjavíkurborg hafi sjálf í svari sínu til umboðsmanns staðfest að meðalbiðtími séu 13 mánuðir og kærandi hafi nú þegar beðið í rúmlega 26. Kærandi telji að hann hafi sýnt fram á sá meðalbiðtími hafi ekki lengst og það sé sönnun fyrir óhóflegum drætti málsins.
Einnig verði ekki annað skilið af samtölum kæranda við húsnæðisfulltrúa Austurmiðstöðvar en að úthlutað hafi verið húsnæði í þeirri stærð sem hann hafi sótt um og á því svæði sem hann hafi sótt um og að þar hafi stigagjöf matslista ekki ráðið úrslitum. Því telji kærandi sannað að krafa hans um úthlutun á tilteknu svæði sé ekki ástæða þess óhóflega dráttar sem hann hafi þurft að þola í málinu.
III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar
Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé X ára gamall einhleypur maður sem eigi tvö börn. Kærandi og barnsmóðir hans séu með sameiginlega forsjá og umgengni sé skipt jafnt á milli þeirra, þ.e. börnin dvelji hjá kæranda í viku og hjá móður sinni í viku í senn. Annað barnið sé með lögheimili hjá honum og hitt hjá móður. Þá taki kærandi einnig fyrrum stjúpdætur sínar í umgengni eins mikið og hann geti. Kærandi stundi X við B. Kærandi hafi byrjað ungur í neyslu fíkniefna, þ.e. um 11 ára aldur, en hafi verið án fíkniefna frá árinu 2016. Kærandi sé öryrki og þiggi örorkulífeyri sér til framfærslu. Kærandi hafi ásamt barnsmóður sinni búið í félagslegri leiguíbúð sem skráð sé á barnsmóður hans. Þau hafi hætt saman fyrir tveimur árum en þau hafi ekki verið skráð í sambúð. Barnsmóðir kæranda búi nú í framangreindri íbúð. Fyrstu mánuðina eftir að þau hafi hætt saman hafi verið samkomulag þeirra á milli að þau dveldu í íbúðinni til skiptis á meðan þau væru með börnin. Kærandi hafi verið heimilislaus síðan þau hafi hætt saman og gist á ýmsum stöðum, svo sem á gistiheimilum, sumarhúsum og vinum. Hann hafi verið skráður, ásamt dóttur sinni, óstaðsettur í hús síðan 10. desember 2022. Ástandið hafi tekið á kæranda og börn hans en hann hafi að eigin sögn ekki fjárhagslega getu til að leigja íbúð á almennum leigumarkaði. Þá sé kærandi búinn að sækja um íbúð hjá Brynju leigufélagi, húsfélagi Öryrkjabandalagsins. Kærandi óski eftir íbúð í C en einnig komi D til greina þar sem eldri börnin séu í E og yngsta barnið sé í leikskóla í C. Þá óski kærandi einungis eftir fjögurra eða fimm herbergja íbúð. Kærandi sé í reglulegum samskiptum við ráðgjafa á Austurmiðstöð.
Kærandi hafi fyrst sótt um félagslegt leiguhúsnæði með umsókn, dags. 18. júlí 2022. Með bréfi, dags. 17. ágúst 2022, hafi umsókn kæranda verið samþykkt og umsóknin hafi verið metin til 14 stiga. Endurmat á framangreindri umsókn kæranda hafi ekki leitt til breytinga á stigagjöf. Með bréfi, dags. 18. júní 2023, hafi kærandi verið minntur á að endurnýja framangreinda umsókn, sbr. 29. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði, eigi síðar en 18. júlí 2023. Endurmat á framangreindri umsókn kæranda hafi ekki leitt til breytinga á stigagjöf. Með bréfi, dags. 31. júlí 2024, hafi kærandi verið minntur á að endurnýja framangreinda umsókn sem hann hafi gert þann 20. ágúst 2024 inn á mínum síðum hjá Reykjavíkurborg. Með bréfi, dags. 23. ágúst 2024, hafi umsókn kæranda verið metin til 15 stiga. Í framangreindu bréfi hafi komið fram að stigagjöf væri óbreytt en það sé tilkomið vegna tekjustiga sem uppfærist sjálfkrafa í húsnæðiskerfi Reykjavíkurborgar. Stigagjöfinni hafi ekki verið breytt handvirkt og því hafi komið fram í framangreindu bréfi að stigagjöf væri óbreytt.
Kærandi hafi kvartað til umboðsmanns Alþingis vegna vinnslu umsóknar sinnar um félagslegt leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg. Umboðsmaður Alþingis hafi sent erindi, dags. 11. september 2024, til Reykjavíkurborgar vegna framangreindrar kvörtunar sem Reykjavíkurborg hafi svarað þann 20. september 2024. Með bréfi, dags. 30. september 2024, hafi umboðsmaður Alþingis tilkynnt að hann hefði lokið máli kæranda vegna framangreindrar kvörtunar. Með bréfi, dags. 2. október 2024, hafi kærandi kært vinnslu umsóknar sinnar hjá Reykjavíkurborg til úrskurðarnefndar velferðarmála vegna óhóflegs dráttar á málshraða, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Um félagslegt leiguhúsnæði gildi reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði sem hafi verið samþykktar á fundi velferðarráðs þann 13. mars 2019 og á fundi borgarráðs þann 2. maí 2019. Reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði hafi tekið gildi þann 1. júní 2019.
Í 2. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði komi fram skipting félagslegs leiguhúsnæðis í fjóra flokka, þ.e. almennt félagslegt leiguhúsnæði, húsnæði fyrir fatlað fólk, húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir og þjónustuíbúðir fyrir aldraða. Um framangreinda flokka húsnæðis sé fjallað í sérköflum reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði en mismunandi skilyrði eigi við um hvern flokk húsnæðis.
Frekari skilgreiningu á almennu félagslegu leiguhúsnæði sé að finna í 2. mgr. 2. gr. reglnanna en þar segi að almennt félagslegt leiguhúsnæði sé ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa. Með almennu félagslegu leiguhúsnæði sé átt við hverja þá íbúð í eigu Félagsbústaða hf. sem ekki sé sérstaklega skilgreind sem þjónustuíbúð aldraðra, húsnæði fyrir fatlað fólk eða húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Jafnframt falli undir skilgreininguna húsnæði sem Reykjavíkurborg leigi til einstaklinga þar sem umsýsla sé á vegum Félagsbústaða hf. Til almenns félagslegs leiguhúsnæðis teljist einnig áfangahúsnæði. Sérstaklega sé fjallað um almennt félagslegt leiguhúsnæði í II. kafla reglnanna.
Úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis fari fram á grundvelli reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði og fari fram á sérstökum fundum úthlutunarteyma. Í 19. gr. reglnanna komi fram að miðstöðvar Reykjavíkurborgar leggi faglegt mat á þær umsóknir sem metnar hafi verið samkvæmt matsviðmiðum með reglunum. Úthlutunarteymi félagslegs leiguhúsnæðis forgangsraði umsóknum frá miðstöðvum og úthluti húsnæði samkvæmt reglunum. Forgangsröðun taki mið af faglegu mati ráðgjafa og úthlutunarteymis ásamt stigagjöf samkvæmt matsviðmiðum reglnanna. Úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis byggi á gögnum sem liggi fyrir á úthlutunardegi og beri að uppfæra öll gögn miðað við stöðu umsækjanda á þeim tíma. Einnig beri eftir atvikum að framkvæma endurmat samkvæmt matsviðmiðum. Umsækjanda skuli tilkynnt skriflega ef endurmat leiði til breytinga á stigagjöf. Úthlutunarteymi almenns félagslegs leiguhúsnæðis fundi og úthluti húsnæði að jafnaði einu sinni í viku.
Í 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé vikið að málshraða og þar komi fram að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt sé. Þá komi fram í 3. mgr. 9. gr. að þegar fyrirsjáanlegt sé að afgreiðsla máls muni tefjast beri að skýra aðila máls frá því og skuli þá upplýst um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Í 4. mgr. 9. gr. laganna komi fram að dragist afgreiðsla máls óhæfilega sé heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verði kærð til.
Reykjavíkurborg taki fram að samþykki á umsókn kæranda um almennt félagslegt leiguhúsnæði sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sveitarfélagið hafi því þegar viðurkennt rétt kæranda til að fá úthlutað húsnæði, enda hafi hann verið settur á biðlista eftir því. Það að sveitarfélagið hafi ekki veitt kæranda húsnæði innan ákveðins tímafrests heldur forgangsraði umsækjendum með hliðsjón af aðstæðum þeirra og framboði húsnæðis feli ekki í sér stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga. Úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis feli hins vegar í sér stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 8. mgr. 19. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði og í þeim tilfellum sé því um að ræða að aftur verði tekin stjórnvaldsákvörðun í málinu.
Reykjavíkurborg bendi á að jafnvel þótt sveitarfélagið hafi viðurkennt rétt kæranda til að fá úthlutað almennu félagslegu leiguhúsnæði felist ekki í þeirri stjórnvaldsákvörðun að veita beri kæranda umrætt húsnæði með skilyrðislausum og tafarlausum hætti. Engin lagaákvæði mæli fyrir um slíka skyldu eða um viðmiðunartímafresti í þessu sambandi, enda verði að telja að slíkt fyrirkomulag væri með öllu óraunhæft. Umsókn kæranda hafi verið samþykkt á biðlista eftir húsnæði og ekki sé um að ræða fortakslausan rétt til að fá úthlutað húsnæði strax. Í þessu samhengi sé vakin athygli á því að kærandi hafi sótt um almennt félagslegt leiguhúsnæði með umsókn þann 18. júlí 2022. Umsókn kæranda hafi verið samþykkt og honum tilkynnt um það með bréfi þann 17. ágúst 2022. Að mati velferðarsviðs Reykjavíkurborgar sé ekki unnt að telja að afgreiðsla málsins hafi dregist óhæfilega, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.
Umsókn kæranda sé metin til 15 stiga samkvæmt matsviðmiðum varðandi almennt félagslegt leiguhúsnæði (fylgiskjal 1 með reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði). Kærandi óskar einungis eftir fjögurra eða fimm herbergja íbúð í C eða D. Í ágúst 2024 hafi fjöldi umsókna á biðlista eftir fjögurra herbergja íbúð eða stærri verið alls 104 og í lok árs 2023 hafi meðalbiðtími eftir úthlutun verið 13 mánuðir.
Í 1. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga komi fram að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur sé og þörf sé á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna.
Af orðalagi ákvæðisins leiði að einstaklingar sem uppfylli skilyrði sveitarfélags til að umsókn um almennt félagslegt leiguhúsnæði sé samþykkt, kunni að þurfa að bíða í nokkurn tíma eftir slíku húsnæði. Með hliðsjón af framangreindu sé því hafnað að biðtími kæranda eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði sé óásættanlegur eða gangi með einhverjum hætti í berhögg við 4. mgr. 9. gr. laga nr. 37/1993. Eins og rakið sé hér að framan sé meðalbiðtími eftir húsnæði eins og kærandi óski eftir 13 mánuðir, miðað við lok árs 2023, en fyrst óskir kæranda séu bundnar við ákveðin borgarhluta hafi það áhrif á biðtíma eftir úthlutun.
Lög nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga veiti sveitarfélögum ákveðið svigrúm til útfærslu á þeirri þjónustu sem sveitarfélögum sé falin samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laganna. Hver hinn efnislegi réttur íbúa sveitarfélags sé í þessum málum ráðist aðallega af ákvörðun hvers sveitarfélags.
Í samræmi við ákvæði 78. gr. stjórnarskrárinnar sé sveitarfélögum tryggður sjálfstjórnarréttur og í honum felst meðal annars það að sveitarfélög ráði hvernig útgjöldum sé forgangsraðað í samræmi við lagaskyldur og áherslur hverju sinni. Stjórnarskráin leggi ekki ríkari eða víðtækari skyldur á herðar sveitarfélögum í þessum efnum heldur en mælt sé fyrir um í fyrrnefndum sérlögum. Með hliðsjón af þeirri sjálfstjórn sem sveitarfélögum sé veitt, setji þau sér sínar eigin reglur um rétt íbúa á grundvelli laganna, þar á meðal um félagslegt leiguhúsnæði. Lögunum sé því einungis ætlað að tryggja rétt fólks en ekki skilgreina hann, enda sé það verkefni hvers sveitarfélags. Því geti einstaklingar ekki gert kröfu um ákveðna, skilyrðis- og tafarlausa þjónustu heldur helgist framboð hennar af því í hvaða mæli sveitarfélagi sé unnt að veita þjónustuna. Í samræmi við framangreint hafi Reykjavíkurborg sett reglur um félagslegt leiguhúsnæði.
Með hliðsjón af öllu framansögðu sé ekki unnt að fallast á að brotið hafi verið gegn 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga þar sem fyrir liggi að umsókn kæranda hafi verið samþykkt á biðlista eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði.
Það sé mat Reykjavíkurborgar að málsmeðferð í máli kæranda hafi verið í samræmi við 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ljóst að Reykjavíkurborg hafi ekki brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæðum laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga eða ákvæðum annarra laga.
IV. Niðurstaða
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála vegna afgreiðslu Reykjavíkurborgar á umsókn hans um félagslegt leiguhúsnæði. Umsókn kæranda er frá 18. júlí 2022 og var hún samþykkt á biðlista með ákvörðun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 17. ágúst 2022. Kærandi bíður úthlutunar húsnæðis og kærir því drátt á afgreiðslu málsins, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt ákvæðinu er heimilt að kæra til æðra stjórnvalds óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls.
Í XII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er kveðið á um húsnæðismál. Þar segir í 1. mgr. 45. gr. að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Samkvæmt 46. gr. laganna skulu félagsmálanefndir sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.
Í reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði er kveðið á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita, sbr. XII. kafla laga nr. 40/1991. Í 2. mgr. 2. gr. reglnanna kemur fram að almennt félagslegt leiguhúsnæði sé ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa. Í 4. gr. reglnanna kemur fram að umsækjandi þurfi að uppfylla öll skilyrði greinarinnar til að umsókn verði samþykkt á biðlista.
Í VI. kafla reglnanna er kveðið á um forgangsröðun og úthlutun. Þar segir í 1. mgr. 17. gr. að umsóknum sé raðað í forgangsröð með hliðsjón af faglegu mati ráðgjafa og úthlutunarteymis ásamt niðurstöðu stigagjafar samkvæmt matsviðmiðum. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. reglnanna fer úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis fram á sérstökum fundum úthlutunarteyma sem skipuð eru með sérstöku erindisbréfi. Þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar leggja faglegt mat á þær umsóknir sem metnar hafa verið samkvæmt matsviðmiðum með reglunum, sbr. 2. mgr. 19. gr. reglnanna. Í 4. mgr. 19. gr. kemur fram að úthlutunarteymi félagslegs leiguhúsnæðis forgangsraði umsóknum frá þjónustumiðstöðvum og úthluti húsnæði samkvæmt reglunum. Forgangsröðun taki mið af faglegu mati ráðgjafa og úthlutunarteymis ásamt stigagjöf samkvæmt matsviðmiðum reglnanna. Þá segir í 30. gr. reglnanna að ráðgjafi skuli endurmeta aðstæður umsækjanda á meðan beðið sé úthlutunar á húsnæði og veita félagslega ráðgjöf ef þurfa þyki.
Hvorki í lögum nr. 40/1991 né framangreindum reglum Reykjavíkurborgar er kveðið á um lögbundinn frest til að úthluta félagslegu leiguhúsnæði til þeirra sem uppfylla skilyrði til að vera á biðlista. Að mati úrskurðarnefndarinnar ber því að líta til málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við mat á því hvort afgreiðsla á máli kæranda hefur dregist. Þar kemur fram sú meginregla að ákvarðanir í málum innan stjórnsýslunnar skuli teknar eins fljótt og auðið er. Í ákvæðinu kemur ekki fram hvaða tímafrest stjórnvöld hafa til afgreiðslu mála en af því leiðir að aldrei má vera um ónauðsynlegan drátt á afgreiðslu máls að ræða. Með hliðsjón af þessari meginreglu verður að telja að stjórnvöldum sé skylt að haga afgreiðslu þeirra mála sem þau fjalla um í samræmi við þessa meginreglu og gera eðlilegar ráðstafanir til þess að þau séu til lykta leidd af þeirra hálfu eins fljótt og unnt er. Hvað talist getur eðlilegur afgreiðslutími verður að meta í hverju tilviki fyrir sig. Þannig verður að líta til umfangs máls og atvika hverju sinni, auk þess sem mikilvægi ákvörðunar fyrir aðila getur einnig haft þýðingu í þessu sambandi.
Líkt og að framan greinir er umsókn kæranda um félagslegt leiguhúsnæði frá 18. júlí 2022 og var hún samþykkt á biðlista 17. ágúst 2022. Reykjavíkurborg hefur vísað til þess að kærandi óski einungis eftir fjögurra eða fimm herbergja íbúð í C eða D. Í ágúst 2024 hafi fjöldi umsókna á biðlista eftir fjögurra herbergja íbúð eða stærri verið alls 104 og í lok árs 2023 hafi meðalbiðtími eftir úthlutun verið 13 mánuðir. Fyrst óskir kæranda séu bundnar við ákveðin borgarhluta hafi það áhrif á biðtíma eftir úthlutun.
Að virtum framangreindum upplýsingum um séróskir kæranda varðandi stærð húsnæðis og staðsetningu þess er það mat úrskurðarnefndarinnar að afgreiðsla máls kæranda hafi ekki dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin bendir þó á að ef fyrirséð er að á afgreiðslu málsins verði frekari tafir ber sveitarfélaginu að skýra kæranda með reglubundnum hætti frá því og upplýsa um ástæður tafanna og auk þess hvenær ákvörðunar um úthlutun húsnæðis sé að vænta, sbr. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Þá telur úrskurðarnefndin ástæðu til að árétta þá skyldu sem fram kemur í 46. gr. laga nr. 40/1991 um að félagsmálanefndir skuli sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki séu færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið sé að varanlegri lausn þar sem gögn málsins benda til þess að kærandi hafi verið húsnæðislaus frá samþykkt umsóknar á biðlista.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ekki er fallist á að afgreiðsla Reykjavíkurborgar í máli A, hafi dregist óhæfilega í skilningi 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir