Mál nr. 43/2013
Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík
Miðvikudaginn 12. mars 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 43/2013:
Kæra A
á ákvörðun
Borgarbyggðar
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R:
A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 11. september 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Borgarbyggðar, dags. 9. september 2013, á umsókn hennar um fjárhagsaðstoð í formi láns fyrir 1. september 2013-1. janúar 2014.
I. Málavextir og málsmeðferð
Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð í formi láns fyrir 1. september 2013-1. janúar 2014 hjá Borgarbyggð með umsókn, dags. 6. september 2013. Velferðarnefnd Borgarbyggðar tók málið fyrir á fundi sínum þann 9. september 2013 og var umsókn kæranda synjað þar sem hún var talin utan heimilda nefndarinnar. Niðurstaða velferðarnefndar Borgarbyggðar var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 10. september 2013. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 11. september 2013. Með bréfi, dags. 12. september 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Borgarbyggðar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Borgarbyggðar barst með bréfi, dags. 20. september 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 24. september 2013, var bréf Borgarbyggðar sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 28. janúar 2014, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst. Með tölvupósti þann 12. febrúar 2014 óskaði starfsmaður úrskurðarnefndarinnar eftir upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna og bárust þær með tölvupósti sama dag.
II. Málsástæður kæranda
Kærandi kveðst hafa flutt á B um miðjan ágúst 2013 ásamt börnum sínum. Hún hafi ákveðið að hefja nám í Háskólanum B og hafi verið með ábyrgðarmann fyrir námslánunum. Hún hafi óskað eftir yfirdrætti hjá bankanum sem greiddur yrði til baka með námslánunum en þeirri beiðni hafi verið synjað þar sem hún hafi verið á vanskilaskrá. Kærandi óskaði því eftir því að sveitarfélagið lánaði henni þar til Lánasjóður íslenskra námsmanna greiddi út um áramótin 2013-2014.
III. Sjónarmið Borgarbyggðar
Í athugasemdum Borgarbyggðar vegna kærunnar kemur fram að kærandi hafi lagt fram tvær umsóknir hjá sveitarfélaginu. Annars vegar umsókn, dags. 6. september 2013, um lán til framfærslu frá
1. september 2013 til 1. janúar 2014. Umsókninni hafi verið synjað þar sem velferðarnefnd hafi talið erindið falla utan heimilda nefndarinnar. Í 5. lið 7. gr. reglna Borgarbyggðar um fjárhagsaðstoð sé kveðið á um að námsmenn eigi ekki rétt til fjárhagsaðstoðar. Þá sé í 11. gr. reglnanna kveðið á um heimild til fjárhagsaðstoðar vegna náms við ákveðnar aðstæður. Það hafi verið mat nefndarinnar að ekki væri unnt að heimfæra aðstæður umsækjanda undir 11. gr., meðal annars vegna þess að umsækjandi væri í lánshæfu námi og hafi fengið lánsloforð frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Afgreiðsla þessi hafi verið í samræmi við fyrri afgreiðslur nefndarinnar á sambærilegum erindum.
Hins vegar hafi kærandi lagt fram umsókn um húsaleigubætur, dags. 9. september 2013. Svar þar sem kallað hafi verið eftir upplýsingum vegna umsóknarinnar hafi verið sent með bréfi, dags 16. september 2013. Ekki hafi verið tekin ákvörðun um bótarétt en miðað við fyrirliggjandi upplýsingar sé líklegt að umsækjandi fái húsaleigubætur frá 1. september 2013, þó hún hafi fengið greiddar vaxtabætur í ágúst 2013.
IV. Niðurstaða
Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur Borgarbyggðar um fjárhagsaðstoð frá 12. október 2006, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Borgarbyggð hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð í formi láns fyrir 1. september 2013-1. janúar 2014. Í málinu liggur einnig fyrir umsókn kæranda um húsaleigubætur en þegar kæra var lögð fram í málinu með bréfi, dags. 11. september 2013, hafði umsókn kæranda ekki verið afgreidd hjá Borgarbyggð. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi óski endurskoðunar á synjun Borgarbyggðar á umsókn hennar um fjárhagsaðstoð í formi láns fyrir 1. september 2013-1. janúar 2014.
Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála tekur fram að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar vegna ákvarðana sveitarfélaga um fjárhagsaðstoð er þrír mánuðir frá því aðila máls barst vitneskja um ákvörðun, sbr. 1. mgr. 63. gr. laga nr. 40/1991. Í bréfi Borgarbyggðar, dags. 10. september 2013, til kæranda þar sem tilkynnt er um synjun sveitarfélagsins á umsókn hennar um fjárhagsaðstoð í formi láns er hins vegar leiðbeint um fjögurra vikna kærufrest. Þá er ekki leiðbeint um við hvaða tímamark upphaf kærufrests er miðað. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Borgarbyggðar að gæta að því að leiðbeiningar um kæruheimild og kærufrest séu réttar.
Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.
Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð í formi láns fyrir 1. september 2013-1. janúar 2014. Umsókn kæranda var synjað á þeim grundvelli að hún hafi verið í námi, sbr. 5. lið 7. gr. reglna Borgarbyggðar um fjárhagsaðstoð. Þá taldi Borgarbyggð að kærandi hafi ekki átt rétt á fjárhagsaðstoð vegna sérstakra aðstæðna, sbr. 11. gr. reglnanna, þar sem hún hafi verið í lánshæfu námi og hafi fengið lánsloforð frá Lánasjóði íslenskra námsmanna.
Í 5. lið 7. gr. reglna Borgarbyggðar um fjárhagsaðstoð kemur fram að einstaklingar í námi eigi að jafnaði ekki rétt á fjárhagsaðstoð. Sama eigi við um maka eða sambýlismann námsmanns. Kærandi var skráð í nám við Háskólann B þegar hún sótti um fjárhagsaðstoð frá Borgarbyggð og var áætlað að hún hæfi nám haustið 2013.
Í máli þessu liggur fyrir að kærandi mun ekki geta nýtt sér lánafyrirgreiðslur bankastofnana eins og þær eru fyrir námsmenn í lánshæfu námi hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, þar sem hún er á vanskilaskrá samkvæmt útprentun frá Creditinfo, Voginni, og girðir slíkt almennt fyrir rétt einstaklinga til lánafyrirgreiðslna hjá fjármálastofnunum samkvæmt verklagsreglum þeirra. Með vísan til þess sem hér að framan greinir um að kærandi hafi óskað eftir láni til framfærslu fyrir umrætt tímabil verður hér fyrst og fremst að horfa til möguleika kæranda á því að framfæra sig sjálf. Að því virtu er ljóst að 5. liður 7. gr. reglna Borgarbyggðar um fjárhagsaðstoð tekur ekki til aðstæðna í máli kæranda og verður því að líta til 1. mgr. 12. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, sem kveður á um að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum.
Úrskurðarnefndin telur að hér hátti svo til að ákvæði 5. liðar 7. gr. reglna Borgarbyggðar um fjárhagsaðstoð leiði í reynd til þess að ekki fari fram eiginlegt mat á aðstæðum kæranda og því hvort hún geti séð fyrir sér og sínum eða ekki. Þar sem löggjafinn hefur eftirlátið stjórnvöldum mat til þess að geta tekið ákvörðun sem best hentar hag hvers aðila, með tilliti til allra aðstæðna, er stjórnvöldum óheimilt að afnema matið með því að setja til dæmis verklagsreglu sem tekur til allra mála, sambærilegra sem ósambærilegra. Þrátt fyrir að stjórnvald hafi ákveðið að byggja mat sitt á nánar tilgreindum sjónarmiðum sem teljast málefnaleg verður mat stjórnvalds á þessum sjónarmiðum einnig að vera forsvaranlegt.
Í 1. mgr. 12. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. reglna Borgarbyggðar um fjárhagsaðstoð að fjárhagsaðstoð skuli veita til einstaklinga og fjölskyldna sem hafa ónógar tekjur sér til framfærslu og geta ekki séð fyrir sér og sínum, sbr. 12. gr. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga veita sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað hvers konar þjónustu þau vilja veita. Þrátt fyrir það verða reglur um mat þess að vera málefnalegar.
Við mat á því hvort kærandi hafi ónógar tekjur sér til framfærslu og geti ekki séð fyrir sér og sínum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. reglna Borgarbyggðar um fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, telur úrskurðarnefndin að líta verði til þess hvort kæranda standi önnur úrræði til boða. Úrskurðarnefndin bendir á að svo lánþegar teljist lánshæfir sem lántakendur hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna þurfi þeir meðal annars að uppfylla það skilyrði að vera hvorki á vanskilaskrá né í vanskilum við sjóðinn þegar sótt er um nýtt lán og bú þeirra sé ekki til gjaldþrotameðferðar, sbr. 5.1.8 gr. úthlutunarreglna sjóðsins. Af hálfu kæranda hefur komið fram að hún sé á vanskilaskrá og fái því ekki fyrirgreiðslu frá banka þó hún gæti fengið námslán frá Lánasjóði. Samkvæmt upplýsingum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna eru námsmenn á námsárinu 2013-2014 á vöktunarskrá hjá Creditinfo hvað varðar vanskilaskrá. Komi nafn námsmanns fram á vanskilaskrá fái hann bréf um að honum gefist kostur á að leggja fram ábyrgð fyrir lánunum, annaðhvort ábyrgðarmann eða veð í fasteign. Lánsáætlun sem gefin hafi verið út sé staðfesting á því að viðkomandi geti fengið fjárhæðina í lán ef allar forsendur sem námsmaðurinn hafi gefið upp í umsókninni standist. Eigi það meðal annars við um tekjur á árinu, fjölskyldustærð, námsárangur og ábyrgð á láninu ef með þurfi. Í málinu liggur fyrir lánsáætlun fyrir kæranda, dags. 15. ágúst 2013, þar kemur fram að áætlað sé að kærandi fái námslán að fjárhæð 1.322.340 kr. fyrir haustið 2013. Verður því að telja ljóst að kærandi hafi fengið lánsloforð frá Lánasjóði. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna skal námslán aldrei veitt fyrr en námsmaður hefur skilað vottorði um tilskilda skólasókn og námsárangur. Námslán eru því greidd eftir að námsmaður hefur sýnt fram á fullnægjandi námsárangur. Kærandi hefur bent á að hún hafi ekki átt kost á því að fá framfærslulán í formi yfirdráttar hjá banka þar sem hún hafi verið á vanskilaskrá. Í málinu liggja þó ekki fyrir gögn sem staðfesta það. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að Borgarbyggð hafi borið að afla gagna þar að lútandi og leggja í framhaldinu mat á hvort kærandi hafi haft nógar tekjur sér til framfærslu á tímabilinu 1. september 2013-1. janúar 2014. Hin kærða ákvörðun verður því felld úr gildi og lagt fyrir Borgarbyggð að taka málið til löglegrar meðferðar.
Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Borgarbyggðar, dags. 9. september 2013, um synjun á umsókn A um fjárhagsaðstoð í formi láns fyrir 1. september 2013-1. janúar 2014, er felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka málið til löglegrar meðferðar.
Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir
Gunnar Eydal