Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 51/2013

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

 

Miðvikudaginn 12. mars 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 51/2013:

Kæra A

á ákvörðun

Reykjavíkurborgar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 9. október 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 18. september 2013, á umsókn hennar um styrk vegna sérstakra erfiðleika vegna fjárhagsvanda að fjárhæð 96.490 kr.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um styrk vegna sérstakra erfiðleika vegna fjárhagsvanda að fjárhæð 96.490 kr. hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 14. ágúst 2013. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 16. ágúst 2013, með þeim rökum að umsóknin samræmdist ekki reglum Reykjavíkurborgar. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs með bréfi, dags. 30. ágúst 2013. Velferðarráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 18. september 2013 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um styrk að upphæð kr. 96.490.- þar sem eigi verður talið að aðstæður umsækjanda falli að skilyrðum þeim sem sett eru í 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð varðandi aðstoð vegna sérstakra erfiðleika.

Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 18. september 2013. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 9. október 2013. Með bréfi, dags. 10. október 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 30. október 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 31. október 2013, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 28. janúar 2014, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. janúar 2014, óskaði nefndin að Reykjavíkurborg legði fram gögn um tekjur kæranda og bárust þau með bréfi, dags. 5. mars 2014.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi bendir á að fjárhagsstaða hennar sé mjög slæm og endar nái ekki saman. Mjög illa hafi gengið að fá minna og ódýrara húsnæði hjá Reykjavíkurborg en hún sé í þriggja herbergja íbúð frá þeim tíma er yngsta dóttir hennar hafi búið hjá henni.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé öryrki, hún hafi átt við fjárhagslega erfiðleika að stríða og hafi leigt hjá Félagsbústöðum frá árinu 2002. Hún hafi flutt í núverandi leiguhúsnæði ásamt yngstu dóttur sinni og barnabarni árið 2009. Fljótlega eftir flutningana hafi dóttir hennar flutt með barnið. Fyrir rúmu ári hafi kærandi sótt um flutning í minna og ódýrara húsnæði vegna fjárhagserfiðleika. Kærandi greiði 142.690 kr. í húsaleigu. Rakin eru ákvæði 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Kæranda hafi verið synjað um styrk vegna sérstakra erfiðleika þar sem ekki hafi verið uppfyllt öll skilyrði 24. gr. reglnanna. Kærandi uppfylli ekki skilyrði a-liðar þar sem hún hafi ekki verið með fjárhagsaðstoð sér til framfærslu undanfarna sex mánuði eða lengur en kærandi fái greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. Þá liggi ekki fyrir staðfesting á að umsækjandi hafi ekki aðgang að lánafyrirgreiðslu banka, sparisjóða eða annarra lánastofnana, sbr. b-lið 24. gr. reglnanna, en fyrir liggi að kærandi sé með skuldabréf að fjárhæð rúmlega 1.000.000 kr. í viðskiptabanka sínum og njóti ekki frekari lánafyrirgreiðslu þar. Kærandi hafi ekki leitað til umboðsmanns skuldara en fyrir liggi yfirlit starfsmanns þjónustumiðstöðvar um fjárhagsstöðu kæranda skv. c-lið 24. gr. Fyrir liggi að styrkurinn myndi hjálpa kæranda til að eiga meira aflögu í hverjum mánuði í stuttan tíma og geta þá greitt inn á aðrar skuldir og skilyrði d-liðar sé því ekki uppfyllt. Ljóst sé að ódýrara húsnæði myndi breyta mestu fyrir kæranda þegar til langs tíma sé litið. Þá liggi ekki fyrir samkomulag um félagslega ráðgjöf og/eða fjármálaráðgjöf, sbr. e-lið 24. gr.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg frá 1. janúar 2011, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um styrk vegna sérstakra erfiðleika vegna fjárhagsvanda að fjárhæð 96.490 kr.

Úrskurðarnefndin tekur fram að með bréfi nefndarinnar, dags. 10. október 2013, var óskað allra gagna málsins frá Reykjavíkurborg. Hin kærða ákvörðun byggði meðal annars á upplýsingum um tekjur kæranda. Í gögnum sem bárust frá Reykjavíkurborg með bréfi, dags. 30. október 2013, var hins vegar ekki að finna gögn þar að lútandi. Úrskurðarnefndin bendir á að afar brýnt er að við meðferð kærumála liggi fyrir öll þau gögn og upplýsingar sem hin kærða ákvörðun byggir á. Reykjavíkurborg hefði því verið rétt að leggja fram slík gögn, svo sem skattframtal. Verður í þeim efnum ekki talið nægjanlegt að leggja fram greinargerð fyrir áfrýjunarnefnd þar sem upplýsingar um tekjur kæranda voru skráðar. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Reykjavíkurborgar að framangreint verði haft í huga við afhendingu gagna í tilefni af stjórnsýslukæru til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Kærandi sótti um styrk vegna sérstakra erfiðleika vegna fjárhagsvanda að fjárhæð 96.490 kr. Umsókn hennar var synjað þar sem ekki hafi verið uppfyllt öll skilyrði 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Kærandi uppfylli ekki skilyrði a-liðar þar sem hún hafi ekki notið fjárhagsaðstoðar sér til framfærslu undanfarna sex mánuði eða lengur en kærandi fái greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. Þá liggi ekki fyrir staðfesting á að umsækjandi hafi ekki aðgang að lánafyrirgreiðslu banka, sparisjóða eða annarra lánastofnana, sbr. b-lið 24. gr. reglnanna, en fyrir liggi að kærandi sé með skuldabréf að fjárhæð rúmlega 1.000.000 kr. í viðskiptabanka sínum og njóti ekki frekari lánafyrirgreiðslu þar. Kærandi hafi ekki leitað til umboðsmanns skuldara en fyrir liggi yfirlit starfsmanns þjónustumiðstöðvar um fjárhagsstöðu kæranda skv. c-lið. Fyrir liggi að styrkurinn myndi hjálpa kæranda til að eiga meira aflögu í hverjum mánuði í stuttan tíma og geta þá greitt inn á aðrar skuldir og skilyrði d-liðar sé því ekki uppfyllt. Ljóst sé að ódýrara húsnæði myndi breyta mestu fyrir kæranda þegar til langs tíma sé litið. Þá liggi ekki fyrir samkomulag um félagslega ráðgjöf og/eða fjármálaráðgjöf, sbr. e-lið 24. gr.

Í 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er kveðið á um aðstoð vegna sérstakra erfiðleika. Samkvæmt því er heimilt að veita einstaklingum, hjónum eða sambúðarfólki lán eða styrk vegna mikilla fjárhagslegra og félagslegra erfiðleika, að uppfylltum öllum neðangreindum skilyrðum:

a) umsækjandi hafi fengið fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum undanfarna sex mánuði eða lengur,

b) staðfest sé að umsækjandi hafi ekki aðgang að lánafyrirgreiðslu banka, sparisjóða eða annarra lánastofnana,

c) fyrir liggi yfirlit starfsmanns þjónustumiðstöðvar eða Umboðsmanns skuldara um fjárhagsstöðu umsækjanda og tillögur að úrbótum þegar við á,

d) fyrir liggi á hvern hátt lán eða styrkur muni breyta skuldastöðu umsækjanda til  hins betra þegar til lengri tíma er litið,

e) fyrir liggi samkomulag um félagslega ráðgjöf og/eða fjármálaráðgjöf þegar það á  við.

Við afgreiðslu umsóknar kæranda var miðað við að tekjur kæranda hafi verið 281.007 kr. Kærandi sótti um styrk vegna sérstakra erfiðleika í ágúst 2013. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum voru tekjur kæranda 232.685 kr. í febrúar 2013, 232.932 kr. í mars 2013, 234.478 kr. í apríl 2013, 234.667 kr. í maí 2013, 234.854 kr. í júní 2013 og 250.245 kr. í júlí 2013. Meðalmánaðartekjur kæranda undanfarna sex mánuði fyrir umsókn hennar voru því 236.643 kr. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings, 18 ára eða eldri, sem rekur eigið heimili getur numið allt að 163.635 kr. á mánuði, sbr. 1. mgr. 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Tekjur kæranda voru því hærri en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar og var því skilyrði a-liðar 1. mgr. 24. gr. reglnanna ekki fullnægt í málinu. Þegar af þeirri ástæðu átti kærandi ekki rétt á styrk vegna sérstakra erfiðleika á grundvelli 24. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 18. september 2013, um synjun á umsókn A um styrk vegna sérstakra erfiðleika vegna fjárhagsvanda að fjárhæð kr. 96.490 er staðfest.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir

Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta