Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 53/2013

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík


Fimmtudaginn 27. mars 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 53/2013:


Kæra A

á ákvörðun

Reykjanesbæjar

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 9. október 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjanesbæjar, dags. 27. september 2013, á umsókn hans um fjárhagsaðstoð.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð fyrir sig og konu sína hjá Reykjanesbæ með umsókn, dags. 25. júní 2013. Ekki kemur fram á umsókninni fyrir hvaða tímabil óskað er fjárhagsaðstoðar. Af gögnum málsins má þó ráða að kærandi hafi óskað eftir fjárhagsaðstoð fyrir júní til september 2013. Fyrir liggur að kærandi fékk greidda fulla fjárhagsaðstoð til hjóna fyrir júní 2013, hálfa fjárhagsaðstoð til hjóna fyrir júlí 2013 og fulla fjárhagsaðstoð til hjóna fyrir ágúst 2013. Ekki liggur fyrir að kæranda hafi verið tilkynnt skriflega um framangreindar ákvarðanir. Með bréfi Reykjanesbæjar, dags. 27. september 2013, var synjað um greiðslu fjárhagsaðstoðar fyrir september 2013 í ljósi þess að eignir kæranda hafi verið yfir viðmiðunarmörkum grunnfjárhæðar skv. 4.3.4. gr. reglna um félagsþjónustu í Reykjanesbæ.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 9. október 2013. Með bréfi, dags. 10. október 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Reykjanesbæjar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Með bréfi, dags. 15. október 2013, bárust viðbótargögn frá kæranda. Greinargerð Reykjanesbæjar barst með bréfi, dags. 2. janúar 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 9. janúar 2014, var bréf Reykjanesbæjar sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 28. janúar 2014, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst. Úrskurðarnefndin óskaði eftir frekari útskýringum og gögnum frá sveitarfélaginu með tölvupósti þann 5. mars 2014 og bárust þau þann 10. mars 2014.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi bendir á að Reykjanesbær hafi synjað beiðni hans um fjárhagsaðstoð á þeim grundvelli að kona hans hafi átt uppsafnaðan séreignarsparnað. Kærandi heldur því fram að séreignarsparnaður sé ekki talinn til tekna og því hafi ekki verið rétt að synja umsókn hans. Kærandi kveðst hafa sótt um fjárhagsaðstoð fyrir júní 2013 sem hafi verið samþykkt en ekki greidd. Hann hafi fengið greidda fulla fjárhagsaðstoð fyrir júlí 2013, hálfa fjárhagsaðstoð fyrir ágúst 2013 án nokkurra útskýringa, engar greiðslur fyrir september 2013 og í október 2013 hafi umsókninni verið synjað á grundvelli séreignarsparnaðar konu hans. Kærandi segir framkvæmd Reykjanesbæjar hafa haft neikvæð áhrif á hann og konu hans, þau hafi þurft að segja upp leiguhúsnæði og flytja inn á fjölskylduna. Húsaleigan hafi farið í vanskil auk þess sem þau hafi ekki átt fyrir mat.

III. Sjónarmið Reykjanesbæjar

Í greinargerð Reykjanesbæjar vegna kærunnar kemur fram að kærandi og kona hans hafi fyrst sótt um fjárhagsaðstoð í janúar 2013 þegar kærandi hafi verið að ljúka bótarétti sínum hjá Vinnumálastofnun. Kona hans hafi þá verið í námi við Háskóla Íslands og á námslánum. Fjárhagsaðstoð hjá Reykjanesbæ sé almennt greidd eftir á og nemar í lánshæfu námi eigi ekki rétt á fjárhagsaðstoð. Þau hafi fengið greidda fjárhagsaðstoð í febrúar vegna janúar 2013 að fjárhæð 129.766 krónur sem sé full fjárhagsaðstoð einstaklings. Kærandi hafi fengið tímabundna vinnu frá 12. febrúar til 12. júní 2013 og að þeim tíma liðnum hafi kærandi og kona hans sótt um fjárhagsaðstoð að nýju. Þau hafi lagt fram umsókn um fjárhagsaðstoð í viðtali þann 25. júní 2013 og lagt fram með umsókninni afrit af skattframtali 2013 og yfirlit úr staðgreiðsluskrá konu kæranda. Þau hafi bæði verið atvinnulaus, kærandi frá 12. júní 2013 en kona kæranda hafi hætt námi á vorönn 2013. Kona kæranda hafi talið sig óvinnufæra og því hafi Reykjanesbær óskað eftir því að hún skilaði inn læknisvottorði því til staðfestingar. Auk þess hafi verið óskað eftir því að kærandi skilaði inn launaseðli fyrir júní. Þann 17. júlí 2013 hafi þau fengið greidda fulla fjárhagsaðstoð hjóna að fjárhæð 207.625 krónur vegna júnímánaðar án þess að fullnaðargögn hafi borist. Enn hafi vantað síðasta launaseðil kæranda og læknisvottorð fyrir konu hans. Þessi gögn hafi borist um mánaðamótin júlí/ágúst. Í ljósi þess hafi þau fengið greiddan hálfan hjónakvarða fyrir júlímánuð þann 2. ágúst 2013 meðan beðið hafi verið fullnægjandi gagna með umsókn um fjárhagsaðstoð. Þegar launaseðill kæranda vegna júnímánaðar hafi skilað sér hafi komið í ljós að fjárhagsaðstoð vegna júnímánaðar hafi verið ofgreidd um 161.121 krónu. Læknisvottorð hafi borist þann 12. ágúst 2013 um að kona kæranda hafi þurft að hætta í skóla á vorönn 2013 af heilsufarsástæðum en í læknisvottorðinu hafi ekki komið fram að hún væri óvinnufær þegar læknisvottorðið hafi verið ritað. Konu kæranda hafi því verið ráðlagt að sækja um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þar sem hún væri hætt námi og vinnufær samkvæmt fyrirliggjandi gögnum.

Samkvæmt reglum um fjárhagsaðstoð hjá Reykjanesbæ eigi umsækjandi sem sé atvinnulaus að framvísa vottorði frá Vinnumálastofnun er staðfesti atvinnuleysi hans. Njóti umsækjandi réttar til atvinnuleysisbóta skuli hann framvísa greiðsluseðli. Hafi umsækjandi ekki fengið atvinnuleysisbætur vegna veikinda skuli hann framvísa læknisvottorði. Hafi hann ekki skráð sig hjá Vinnumálastofnun, án viðhlítandi skýringa, hafi það áhrif á fjárhæð, sbr. 4.1.3. gr. reglnanna. Í ákvæðinu sé vísað til þess að hafi umsækjandi hafnað atvinnu eða sagt starfi sínu lausu án viðhlítandi skýringa eða eigi sjálfur sök á uppsögn, skerðist réttur hans til framfærslu um helming þann mánuðinn svo og mánuðinn þar á eftir. Sama eigi við um atvinnulausan umsækjanda sem ekki framvísi vottorði eða greiðsluseðli frá Vinnumálastofnun án viðhlítandi skýringa.

Ofgreiðsla fjárhagsaðstoðar í júní 2013 hafi verið látin koma á móti skerðingu í júlí, jöfnun sem hafi verið umsækjendum hagstæð og ákveðið að skerða ekki ágústmánuð. Fyrir liggi að kærandi sé enn í atvinnuleit og kona hans að hefja nám að nýju. Þann 3. september 2013 hafi þeim verið greiddur fullur hjónakvarði að fjárhæð 207.625 krónur vegna ágústmánaðar. Í september 2013 hafi ráðgjafi skoðað gögn þeirra að nýju og hafi þá komið í ljós að samkvæmt skattframtali eigi þau yfir 1.000.000 króna í fimm mismunandi sjóðum hjá B. Í reglum sveitarfélagsins komi skýrt fram að eignir umsækjanda skuli koma til frádráttar áður en réttur myndist til fjárhagsaðstoðar. Í 4.3.4. gr. komi fram að litið sé á peningalegar eignir og aðra fjármuni sem umsækjandi, maki hans eða sambýlingur séu skráðir fyrir, sem tekjur og skuli þær koma til frádráttar áður en réttur myndist til fjárhagsaðstoðar. Í ljósi þessa hafi verið ákveðið á afgreiðslufundi þann 16. september 2013 að synja kæranda og konu hans um frekari fjárhagsaðstoð. Ekki hafi verið farið fram á endurgreiðslu veittrar fjárhagsaðstoðar þar sem þau gögn sem sýnt hafi eignir þeirra hafi verið lagðar fram með umsókn um fjárhagsaðstoð þann 25. júní 2013 þótt ekki hafi verið eftir þeim tekið af starfsmönnum fyrr en í september 2013. Rökstuðningur Reykjanesbæjar fyrir hinni kærðu ákvörðun sé því sá að kærandi og kona hans hafi átt peningalegar eignir í séreignarsjóðum B sem samkvæmt reglum sveitarfélagsins hafi borið að koma til frádráttar áður en réttur myndaðist til fjárhagsaðstoðar. Það sé ekki val einstaklings að vera á framfærslu sveitarfélaga hafi hann möguleika á að framfleyta sér og sínum af eigin rammleik, sbr. 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991.

Úrskurðarnefndin óskaði frekari skýringa frá Reykjanesbæ um hvers vegna kærandi hafi fengið greidda hálfa fjárhagsaðstoð til hjóna fyrir júlí 2013. Reykjanesbær hefur upplýst að gögn frá kæranda og konu hans hafi skilað sér inn á nokkurra vikna tímabili sem hafi gert mánaðarlega afgreiðslu umsóknar um fjárhagsaðstoð erfiðari fyrir vikið og umrædda afgreiðslu óljósari. Skerðingin í júlí 2013 hafi verið vegna tekna kæranda í júní sem hann hafi ekki skilað upplýsingum um fyrr en í lok júlí. Þar af leiðandi hafi hann og kona hans fengið greidda fulla fjárhagsaðstoð hjóna vegna júnímánaðar. Að sögn þeirra hafi umbeðin gögn, þ.e. launaseðill kæranda og læknisvottorð konu hans, átt að vera á leiðinni þegar umsókn um fjárhagsaðstoð fyrir júní 2013 hafi verið afgreidd. Launaseðillinn hafi þó ekki borist fyrr en í lok júlí og þá hafi komið í ljós ofgreiðsla að fjárhæð 161.121 króna vegna júnímánaðar sem hafi þurft að leiðrétta þótt enn hafi verið beðið gagna varðandi heilsufar konu kæranda og þeirra hafi verið beðið áfram. Sú bið hafi ekki haft áhrif á leiðréttinguna vegna ofgreiðslunnar. Þá óskaði úrskurðarnefndin eftir gögnum um séreignarsparnað kæranda og konu hans. Reykjanesbær tekur fram að varðandi séreignarsparnað hafi verið vísað í lið 3.3. í skattframtali kæranda um innlend og erlend verðbréf og kröfur, stofnsjóðsinneign. Um sé að ræða peningalegar eignir og aðra fjármuni kæranda sem samkvæmt reglum sveitarfélagsins skuli líta á sem tekjur og skuli koma til frádráttar áður en réttur myndist til fjárhagsaðstoðar.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um félagsþjónustu í Reykjanesbæ frá 15. apríl 2005, með síðari breytingum. Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð fyrir sig og konu sína hjá Reykjanesbæ með umsókn, dags. 25. júní 2013. Ekki kemur fram á umsókninni fyrir hvaða tímabil óskað er fjárhagsaðstoðar. Af gögnum málsins má þó ráða að um sé að ræða fjárhagsaðstoð fyrir júní til september 2013. Reykjanesbær samþykkti að greiða fulla fjárhagsaðstoð til hjóna fyrir júní 2013, hálfa fjárhagsaðstoð til hjóna fyrir júlí 2013 og fulla fjárhagsaðstoð til hjóna fyrir ágúst 2013. Synjað var um greiðslu fjárhagsaðstoðar fyrir september 2013. Í málinu liggur þannig fyrir að umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð var synjað að hluta fyrir júlí 2013 og í heild fyrir september 2013. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að í máli þessu sé ágreiningur um hvort Reykjanesbæ hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um fulla fjárhagsaðstoð til hjóna fyrir júlí og september 2013.

Úrskurðarnefndin bendir á að ekki liggur fyrir að kæranda hafi verið tilkynnt skriflega um ákvörðun Reykjanesbæjar um að synja umsókn hans um fjárhagsaðstoð fyrir júlí 2013 að hluta en samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi og kona hans einungis greidda hálfa fjárhagsaðstoð til hjóna fyrir júlí 2013. Ákvörðun sveitarfélags um að synja umsókn um fjárhagsaðstoð telst til stjórnvaldsákvarðana og ber að birta í samræmi við 1. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, en þar kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun skal hún tilkynnt aðila máls nema það sé augljóslega óþarft. Þá segir í 2. málsl. 4.5.5. gr. reglna um félagsþjónustu í Reykjanesbæ að sé umsókn hafnað í heild eða að hluta skuli umsækjandi fá skriflegt svar þar sem ákvörðun er rökstudd með skýrum hætti með vísan til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð. Úrskurðarnefndin leggur áherslu á að vitneskja málsaðila um efni stjórnvaldsákvörðunar er forsenda þess að hann hafi möguleika á því að taka afstöðu til hennar og haga ráðstöfunum sínum í samræmi við hana. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Reykjanesbæjar að gætt sé að framangreindum ákvæðum stjórnsýslulaga og reglna um félagsþjónustu í Reykjanesbæ þegar teknar eru stjórnvaldsákvarðanir hjá sveitarfélaginu.

Úrskurðarnefndin vekur sérstaklega athygli á ákvæði 1. mgr. 27. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, er tóku gildi þann 1. janúar 2013, en þar segir að við meðferð mála þar sem taka á ákvörðun um rétt eða skyldu manna beri stjórnvöldum, og öðrum sem lögin taka til, að skrá upplýsingar um málsatvik sem veittar eru munnlega eða viðkomandi fær vitneskju um með öðrum hætti ef þær hafa þýðingu fyrir úrlausn máls og er ekki að finna í öðrum gögnum þess. Sama á við um helstu ákvarðanir um meðferð máls og helstu forsendur ákvarðana, enda komi þær ekki fram í öðrum gögnum málsins.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir júlí 2013 var synjað að hluta en hann og kona hans fengu greidda hálfa fjárhagsaðstoð til hjóna fyrir þann mánuð. Af hálfu Reykjanesbæjar hefur komið fram að kærandi og kona hans hafi ekki fengið fulla fjárhagsaðstoð í júlí 2013 vegna tekna kæranda í júní 2013. Í 1. mgr. 4.3.1. gr. reglna um félagsþjónustu í Reykjanesbæ segir að við ákvörðun á fjárhagsaðstoð skuli grunnfjárþörf til framfærslu lögð til grundvallar og frá henni dregnar heildartekjur. Grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar tekur mið af neysluvísitölu og endurskoðast af fjölskyldu- og félagsmálaráði árlega í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar, sbr. lokamálsl. 4.3.2. gr. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Reykjanesbæjar getur fjárhagsaðstoð til hjóna eða fólks í sambúð verið allt að 207.625 krónur. Við mat á fjárþörf eru taldar með allar tekjur umsækjanda og maka ef við á, í þeim mánuði er sótt er um og tvo mánuði á undan, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 4.3.3. gr. reglnanna. Með tekjum er hér átt við allar tekjur og greiðslur til umsækjanda og maka, þ.e. atvinnutekjur, allar greiðslur frá almannatryggingum (nema greiðslur með börnum), greiðslur úr lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga, atvinnuleysisbætur, leigutekjur o.s.frv. og koma þær til frádráttar. Miða skal við heildartekjur áður en skattar hafa verið dregnir frá, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 4.3.3. gr. reglnanna. Þá segir í 2. mgr. 4.3.3. gr. reglnanna að eigi umsækjandi rétt á atvinnuleysisbótum skal reikna atvinnuleysisbætur honum til tekna hvort sem hann hefur stimplað sig eða ekki, nema framvísað sé læknisvottorði.

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð í júní 2013. Við mat á fjárþörf bar því að miða við tekjur kæranda og konu hans í apríl, maí og júní 2013. Í málinu liggur hins vegar fyrir að Reykjanesbær byggði ákvörðun um fjárhagstoð í júlí 2013 á tekjum kæranda í júní 2013 en upplýsingar um tekjur hans í apríl og maí 2013 liggja ekki fyrir í málinu. Í gögnum málsins kemur fram að Reykjanesbær hafi ráðlagt konu kæranda að sækja um atvinnuleysisbætur. Hins vegar kemur ekki fram með skýrum hætti hvort Reykjanesbær hafi gengið úr skugga um hvort kona kæranda ætti rétt á atvinnuleysisbótum og þannig reiknað atvinnuleysisbætur henni til tekna, sbr. 2. mgr. 4.3.3. gr. reglnanna. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að aðstæður kæranda og konu hans hafi ekki verið rannsakaðar nægjanlega, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, áður en umsókn um fjárhagsaðstoð fyrir júlí 2013 var synjað að hluta. Ákvörðun Reykjanesbæjar um synjun að hluta á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir júlí 2013 verður því felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka málið til löglegrar meðferðar.

Umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir september 2013 var synjað á þeim grundvelli að hann og kona hans hafi átt peningalegar eignir í séreignarsjóðum B að fjárhæð rúmlega 1.000.000 króna sem komið hafi til frádráttar áður en réttur hafi myndast til fjárhagsaðstoðar, sbr. 4.3.4. gr. reglna um félagsþjónustu í Reykjanesbæ. Í 1. mgr. 4.3.4. gr. reglna um félagsþjónustu í Reykjanesbæ kemur fram að eigi umsækjandi, maki hans eða sambýlingur, eignir umfram íbúðarhúsnæði sem umsækjandi eða fjölskylda hans búi í eða hafi hann nýlega selt eignir sínar skuli umsækjanda að jafnaði vísað á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða, þótt tekjur viðkomandi séu undir viðmiðunarmörkum. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að litið sé á peningalegar eignir og aðra fjármuni sem umsækjandi, maki hans eða sambýlingur séu skráðir fyrir, sem tekjur og skuli þær koma til frádráttar áður en réttur myndast til fjárhagsaðstoðar. Í gögnum málsins liggur fyrir skattframtal 2013 vegna tekna kæranda og konu hans árið 2012. Undir fjármagnstekjum ársins 2012 kemur fram að kærandi og kona hans hafi átt [...] samtals 1.378.694 krónur í sjóðum B. Úrskurðarnefndin tekur undir með Reykjanesbæ og telur að líta verði á framangreindar eignir sem peningalegar eignir sem koma skuli til frádráttar áður en réttur myndast til fjárhagsaðstoðar, sbr. 2. mgr. 4.3.4. gr. reglna um félagsþjónustu í Reykjanesbæ. Synjun Reykjanesbæjar á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir september 2013 verður því staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjanesbæjar, dags. 27. september 2013, um synjun á umsókn A um fjárhagsaðstoð fyrir september 2013 er staðfest.

Ákvörðun Reykjanesbæjar um synjun að hluta á umsókn A um fjárhagsaðstoð fyrir júlí 2013 er felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka málið til löglegrar meðferðar.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir

 Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta