Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 65/2013

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                            

Á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála þann 9. apríl 2014 var tekið fyrir mál nr. 65/2013:

Kæra A

á ákvörðun

Hafnarfjarðarbæjar

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

B lögfræðingur hefur fyrir hönd A, hér eftir nefnd kærandi, með kæru, dags. 20. nóvember 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 28. ágúst 2013, á umsókn hennar um húsaleigubætur.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um húsaleigubætur hjá Hafnarfjarðarbæ í nóvember 2012. Kærandi taldi að ekki væri þörf á að sækja á ný um húsaleigubætur í byrjun árs 2013 þar sem aðstæður hennar höfðu ekki breyst. Kærandi varð síðar meðvituð um að hún hafi ekki fengið greiddar húsaleigubætur fyrir janúar-mars 2013 og óskaði eftir að fá þær greiddar. Kærandi kveðst hafa sent bréf þar að lútandi í lok mars 2013 en það hafi ekki komist til skila. Í málinu liggur fyrir bréf kæranda, dags. 15. apríl 2013, þar sem hún óskar eftir húsaleigubótum fyrir janúar-mars 2013.

Umsókn kæranda var synjað með bréfi fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar, dags. 19. apríl 2013, með þeim rökum að umsóknin hafi ekki borist á tilsettum tíma, sbr. 2. og 3. mgr. 10. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Kærandi áfrýjaði synjuninni til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar með bréfi, dags. 5. júlí 2013. Fjölskylduráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 28. ágúst 2013 og samþykkti svohljóðandi bókun:

Fjölskylduráð Hafnarfjarðar staðfestir ákvörðun Fjölskylduþjónustunnar um að synja beiðni umsækjanda um greiðslu húsaleigubóta fyrir janúar, febrúar og mars 2013 með vísan til 2. og 3. mgr. 10. gr. laga nr. 138/1997 um húsaleigubætur, en þar segir að umsókn um húsaleigubætur skuli berast eigi síðar en 16. dag fyrsta greiðslumánaðar og berist umsókn seinna verði bætur ekki greiddar vegna þess mánaðar. Fyrir liggur að umsókn umsækjanda um húsaleigubætur barst ekki fyrr en 15. apríl 2013 og verður því að synja umsækjanda um húsaleigubætur fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins.

Niðurstaða fjölskylduráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 4. september 2013. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 20. nóvember 2013. Með bréfi, dags. 28. nóvember 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Hafnarfjarðarbæjar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun um húsaleigubætur. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Hafnarfjarðarbæjar barst með bréfi, dags. 19. desember 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 20. desember 2013, var bréf Hafnarfjarðarbæjar sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 28. janúar 2014, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi kveðst hafa sótt um húsaleigubætur í nóvember 2012. Hún hafi þó ekki fengið greiddar húsaleigubætur fyrir janúar-mars 2013. Kærandi hafi fengið þær upplýsingar frá Hafnarfjarðarbæ að þar sem hún hafi ekki sótt um húsaleigubætur um áramótin 2012-2013 fengi hún ekki húsaleigubætur en sveitarfélagið hafi sent henni bréf þar að lútandi. Kærandi kveðst hafa sent inn umsókn strax í lok mars en í ljós hafi komið að hún hafi stílað bréfið á rangan aðila. Umsóknin hafi því ekki verið móttekin og afgreidd. Kæranda hafi þá verið ráðlagt að skrifa nýtt bréf og í það skipti hafi umsókn hennar komist í réttar hendur. Kærandi kveðst ekki hafa fengið tilkynningu um að hún þyrfti að sækja um húsaleigubætur á nýjan leik. Á fundi kæranda hjá sveitarfélaginu þann 4. janúar 2013 þar sem kærandi óskaði upplýsinga um rétt sinn til fjárhagsaðstoðar, hafi ekki verið minnst á það. Kærandi hafi ekki með neinu móti getað vitað að hún þyrfti að sækja um að nýju þar sem engar breytingar hafi átt sér stað á hennar högum. Hún hafi því verið í góðri trú um að umsókn hennar frá nóvember 2013 væri enn í gildi. Kærandi telur ljóst að hún uppfylli skilyrði um tekjumörk sem sveitarfélagið geri til umsækjenda um húsaleigubætur. Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun sveitarfélagsins verði ógild og að umsókn hennar verði samþykkt og henni greiddar húsaleigubætur vegna janúar, febrúar og mars 2013.

III. Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar

Í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að kærandi hafi sótt um húsaleigubætur í byrjun nóvember 2012 og hafi umsóknin gilt til ársloka, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997 og 1. mgr. reglugerðar um húsaleigubætur nr. 118/2003. Kærandi hafi óskað eftir leiðréttingu á greiðslu húsaleigubóta fyrir janúar-mars 2013 með bréfi, dags. 15. apríl 2013. Beiðninni hafi verið synjað með bréfi, dags. 19. apríl 2013 með vísan til 2. og 3. mgr. 10. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, þar sem umsókn hennar hafi ekki borist á tilsettum tíma. Umsókn hefði þurft að berast fyrir 16. janúar 2013 og því hefði erindi í marslok 2013 um leiðréttingu fengið sömu afgreiðslu. Kærandi hafi skilað umsókn um húsaleigubætur í apríl 2013 og hafi fengið greiddar bætur frá þeim tíma.

Hafnarfjarðarbær bendir á að í viðtali við kæranda þann 4. janúar 2013 hafi verið rædd málefni er varði fjárhagsaðstoð frá sveitarfélaginu. Félagsráðgjafi sá er tekið hafi viðtalið, hafi ekki á hendi verkefni tengd húsaleigubótum og ekki sé til þess ætlast af félagsráðgjöfum að minna leigjendur almennt á slíkt þar sem sú áminning fari fram með öðrum hætti. Öllum leigjendum í Hafnarfirði sem fengið hafi greiddar húsaleigubætur í árslok 2012 hafi verið sent bréf, dags. 11. desember 2012, þar sem minnt hafi verið á að umsóknir yrðu að berast fyrir hvert almanaksár auk þess sem auglýst hafi verið í bæjarblöðum sem borin hafi verið í hvert hús og á vef sveitarfélagsins. Hafnarfjarðarbær telji að þeim leigjendum í Hafnarfirði sem fengið hafi húsaleigubætur á umræddum tíma hafi verið rækilega kynnt að endurnýja þyrfti umsóknir um áramót 2012-2013 og að húsaleigubætur yrðu ekki greiddar bærist umsókn ekki innan tiltekins tíma. Sveitarfélagið geti því ekki borið ábyrgð á því að kærandi hafi ekki sótt um húsaleigubætur á réttum tíma.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Hafnarfjarðarbæ hafi borið að samþykkja umsókn kæranda, dags. 15. apríl 2013, um húsaleigubætur fyrir janúar-mars 2013.

Í 2. mgr. 10. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, segir að sækja skuli um húsaleigubætur fyrir hvert almanaksár og gildi umsóknin til ársloka. Í 3. mgr. sömu lagagreinar segir að umsókn um húsaleigubætur skuli hafa borist eigi síðar en 16. dag fyrsta greiðslumánaðar. Berist umsókn seinna verði húsaleigubætur ekki greiddar vegna þess mánaðar. Kærandi kveðst ekki hafa fengið leiðbeiningar frá Hafnarfjarðarbæ um að sækja þyrfti um húsaleigubætur fyrir hvert almanaksár. Í málinu liggur þó fyrir bréf Hafnarfjarðarbæjar til kæranda, dags. 11. desember 2012, þar sem leiðbeint er um framangreint ákvæði. Þá hefur komið fram af hálfu Hafnarfjarðarbæjar að auglýst hafi verið á vef Hafnarfjarðarbæjar og í bæjarblöðum sem borin hafi verið í hvert hús að endurnýja þyrfti umsóknir um áramót 2012-2013 og að húsaleigubætur yrðu ekki greiddar ef umsókn bærist ekki innan tiltekins tíma. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að Hafnarfjarðarbær hafi sinnt leiðbeiningarskyldu sinni með fullnægjandi hætti, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með vísan til 2. og 3. mgr. 10. gr. laga um húsaleigubætur er ekki lagaheimild fyrir því að víkja frá skýrum ákvæðum laganna um að sækja skuli um húsaleigubætur fyrir hvert almanaksár fyrir sig og að umsókn um húsaleigubætur skuli hafa borist eigi síðar en 16. dag fyrsta greiðslumánaðar. Kærandi sótti um húsaleigubætur fyrir janúar-mars 2013 með umsókn, dags. 15. apríl 2013. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki átt rétt á greiðslu húsaleigubóta fyrir janúar-mars 2013. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar, dags.  28. ágúst 2013, um synjun á umsókn A um húsaleigubætur fyrir janúar-mars 2013 er staðfest.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Ingibjörg Ólöf Vilhjálmsdóttir

Gunnar Eydal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta