Mál nr. 513/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 513/2024
Fimmtudaginn 21. nóvember 2024
A
gegn
Reykjavíkurborg
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 16. október 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 18. september 2024, um að synja umsókn hans um styrk til greiðslu sérfræðiaðstoðar.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsókn, dags. 22. ágúst 2024, sótti kærandi um styrk að fjárhæð 125.000 kr. til greiðslu sérfræðikostnaðar. Umsókn kæranda var synjað og staðfesti áfrýjunarnefnd velferðarráðs þá niðurstöðu með ákvörðun, dags. 18. september 2024. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 15. október 2024.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. október 2024. Með bréfi, dags. 17. október 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst 31. október 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að hafa sótt um styrk til sérfræðiaðstoðar á þeim grundvelli að hann hefði verið hjá sálfræðingi eftir að hafa útskrifast af DAM-teyminu hjá Kleppi árið 2023 til að halda utan um bataferli sitt sem hann hafi öðlast síðustu ár. Batferlið hafi gengið vel og það vel að kærandi hafi sótt um nám í B hjá C. Það hafi verið stórt skerf fyrir kæranda og hann hafi sótt um áframhaldandi aðstoð til að styðja sig áfram með fjárhagsaðstoð til sérfræðiaðstoðar sem forvörn til þess að hann myndi ekki fara aftur á bak í bata sínum til að verða sterkur sjálfstæður einstaklingur. Kærandi hafi gert sér grein fyrir því að hafa fengið styrkinn áður en hann hafi þá sagt við félagsráðgjafa sinn, sem beri umsóknina undir nefnd, að hann væri nú að fá skuld upp á rúmlega 119.000 kr. vegna mistaka hjá Tryggingastofnun ríkisins, sem kærandi ráði varla við. Félagsráðgjafinn hafi ætlað að hjálpa kæranda að finna út úr því en aldrei hafi nein niðurstaða komið úr því frá henni. Því hafi kærandi sótt um fjárhagsaðstoðina, til að halda áfram bataferli sínu og vegna nýrra skulda frá Skattinum.
Kærandi tekur fram að hann hafi orðið fyrir alvarlegum áföllum en enginn önnur úræði hafi verið í boði fyrir hann. Hann hafi ekki getað sótt sálfræðiaðstoð hjá heilsugæslunni né fengið samþykkt hjá Sjúkratryggingum niðurgreiðslu sálfræðings. Kærandi sé fastur í biðferli og eina aðstoðin sem hann hafi nú sé fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar. Kæranda hafi verið fleygt inn og út aftur af ýmsum meðferðum bæði hjá Landspítalanum og heilsugæslunni. Síðasta dæmið um það hafi verið þegar kærandi hafi útskrifast af DAM-meðferðinni af Kleppi en þá hafi geðheilsuteymi heilsugæslunnar átt að taka við honum og halda utan um eftirfylgni næstu mánuði. Þar hafi kæranda hins vegar verið synjað og hann hafi þann eina kost eftir að halda sér hjá sálfræðingi með fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar.
Í synjun velferðasvið Reykjavíkurborgar sé vísað til þess að mögulegt sé að veita þjónustuna innan miðstöðvar Reykjavíkurborgar eða á vegum heilbrigðisstofnana. Það telji kærandi vera alrangt því ekki sé sálfræðiaðstoð í boði hjá miðstöðum Reykjavíkurborgar og ekki hafi hann fengið samþykkta sálfræðiaðstoð hjá Sjúkratryggingum. Hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli b. liðs 20. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Þar segi: „b) Einstaklingum eða fjölskyldum sem hafa orðið fyrir alvarlegum áföllum, svo sem skyndilegum ástvinamissi eða alvarlegu ofbeldi.“ Kærandi hafi orðið fyrir nauðgun, foreldrar hans hafi látist úr krabbameini, fjölskyldutengsl hafi rofnað og hann standi einn á fæti, fatlaður einstaklingur á örorkubótum sem hafi ekki efni á sálfræðiaðstoð vegna fjárhags. Ef tekið sé mið af framfærsluviðmiði í reiknivél hjá umboðsmanni skuldara sé greiðslubyrgði kæranda 443.841 kr. og þá hafi ekki verið tekið inn þær skuldir sem hann sé að greiða af eins og skuld til Skattsins eftir mistök Tryggingastofnunar.
Kærandi hafi fengið greiningar eins og kvíðaröskun, þunglyndi, áfallastreituröskun og persónuröskun með óstöðum geðbrigðum. Samt sé verið að neita honum um aðstoð, þrátt fyrir viðvaranir að þetta hafi gerst áður. Kærandi sé of duglegur í bataferli sínu að hann fái synjanir. Batinn dragist aftur á bak og áður en hann viti af sé hann kominn aftur á byrjunarreit hjá bráðabirgðadeild geðdeildar. Sálfræðiaðstoðin hafi hjálpað kæranda gífurlega mikið að takast á við þann vanda að halda áfram batferlinu. Velferðarsvið noti það að „ekki er um að ræða sérfræðiaðstoð sem er liður í umfangsmeiri félagslegri aðstoð“ og kæranda hafi oft verið sagt að þessi aðstoð sé bara fyrir þá sem séu nú þegar að fá fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Það sé ekki í boði fyrir kæranda vegna þess að hann sé á örorkubótum.
Kærandi vísi til vanhæfni í þjónustu hjá Reykjavíkurborg þar sem þetta sé ekki í fyrsta skipti sem velferðsvið sýni honum slæm vinnubrögð. Árið 2022 hafi kærandi einnig sótt um sálfæðiaðstoð sem hafi verið synjað og áfrýjunarnefnd hafi staðfest synjunina. Bréfið hafi aldrei borist kæranda í pósti, þrátt fyrir ótal spurningar til félagsráðgjafa og þjónustufólks póstsins um hvenær bréfið myndi berast og hvar það væri. Pósturinn hafi svo staðfest að ekkert bréf hafi borist til hans sem hugsanlega hefði týnst og líklegt væri að Reykjavíkurborg hefði ekki póstlagt bréfið. Kærandi hafi því óskað eftir að fá bréfið sent aftur og þá í tölvupósti. Eftir að frestur til að kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála hafi verið liðinn hafi kærandi loks fengið bréfið í tölvupósti. Félagsráðgjafi hafi ætlað að kanna fyrir kæranda hvað hann gæti gert þar sem bréfið hafi ekki borist. Í bréfinu komi fram að kærandi hefði þrjá mánuði til að skjóta ákvörðun áfrýjunarnefnd velferðasvið Reykjavíkurborgar til úrskurðarnefndar velferðarmála. Félagsráðgjafi kæranda hafi sent honum póst 2. september 2022 með þeim upplýsingum að fresturinn væri liðinn. Þegar kærandi hafi loks séð bréfið hafi hann séð að það hafi ekki átt að vera fyrr en 15. september 2022. Vinnubrögð velferðarsviðs hafi valdið kæranda enn meiri kvíða og að hans mati sé ekki hugað að velferð veikra einstaklinga í vinnubrögðum velferðarsviðs.
Kærandi óski eftir að umsókn hans sé skoðuð sem forvörn um geðheilsu svo að hann þurfi ekki að leita aftur og aftur á þriðju línu bráðamóttöku geðdeildar. Kærandi óski eftir því að kæran gangi eftir og að honum verði veitt umbeðin fjárhagsaðstoð til þess að hann fái tækifæri til að halda áfram að endurbættu lífi.
III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar
Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé X ára gamall karlmaður. Hann eigi langa sögu um félagslega erfiðleika og hafi glímt við alvarleg veikindi frá því á unglingsárum, auk þess sem hann sé með fötlun. Þá sé hann einnig greindur með kvíða, þunglyndi og jaðarpersónuleikaröskun. Hann eigi að baki innlagnir á geðdeild auk meðferðar, meðal annars á Kleppi, DAM meðferð á Landspítalanum og á Hvítabandinu. Með umsókns, dags. 22. ágúst 2024, hafi kærandi sótt um fjárhagsaðstoð til greiðslu sérfræðikostnaðar samkvæmt b. lið 20. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborgar, að upphæð 125.000 kr. Framangreindri umsókn hafi verið synjað með bréfi, dags. 30. ágúst 2024. Kærandi hafi skotið framangreindri synjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs sem hafi tekið málið fyrir á fundi sínum þann 18. september 2024 og afgreitt það með eftirfarandi bókun:
„Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti synjun starfsmanna á Austurmiðstöð Reykjavíkurborgar um styrk að upphæð kr. 125.000.- til greiðslu á sérfræðiaðstoð skv. b. lið 20. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.“
Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi vegna framangreindrar ákvörðunar áfrýjunarnefndar velferðarráðs með beiðni, dags. 24. september 2024, og hafi rökstuðningur verið sendur með bréfi, dags. 15. október 2024. Þann 16. október 2024 hafi kærandi kært ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar, dags. 18. september 2024, til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Núgildandi reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg með áorðnum breytingum hafi tekið gildi þann 1. apríl 2021 og verið samþykktar á fundi velferðarráðs Reykjavíkurborgar þann 24. febrúar 2021, á fundi borgarráðs þann 4. mars 2021 og á fundi borgarstjórnar þann 16. mars 2021. Umræddar reglur séu settar á grundvelli 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Litið sé svo á að fjárhagsaðstoð til framfærslu frá sveitarfélagi sé neyðaraðstoð sem ekki beri að veita nema engar aðrar bjargir séu fyrir hendi.
Í IV. kafla reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sé að finna heimildarákvæði vegna sérstakra aðstæðna sem Reykjavíkurborg sé heimilt að veita en ekki skylt. Í b. lið 20. gr. reglnanna segi:
„Heimilt er að veita einstaklingum í eftirtöldum aðstæðum fjárhagsaðstoð til greiðslu viðtala hjá viðurkenndum meðferðaraðilum sem hafa starfsleyfi frá Embætti landlæknis, s.s. félagsráðgjöfum, sálfræðingum, geðlæknum og áfengis- og vímuefnaráðgjöfum. Sérfræðiaðstoðin skal vera liður í umfangsmeiri félagslegri aðstoð og fyrirsjáanlegt að eigi sé hægt að veita þjónustuna innan miðstöðva Reykjavíkurborgar eða á vegum heilbrigðisstofnana.
a) Einstaklingum sem búa við mikla og langvarandi félagslega erfiðleika.
b) Einstaklingum eða fjölskyldum sem hafa orðið fyrir alvarlegum áföllum, svo sem skyndilegum ástvinamissi eða alvarlegu ofbeldi.
Að jafnaði skal veita aðstoð að hámarki fimm tíma í senn og að hámarki tíu tíma á 12 mánaða tímabili.“
Áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi talið að aðstæður kæranda féllu ekki að þeim skilyrðum sem fram komi í b. lið 20. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg og að ekki væru til staðar sérstakar málefnalegar ástæður sem leiddu til undanþágu frá reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Kærandi hafi fengið samþykktan styrk vegna greiðslu sérfræðiaðstoðar fjórum sinnum, þ.e. í október 2003, október 2022, júní 2023 og október 2023, samtals 20 viðtöl. Samkvæmt framangreindu ákvæði skuli aðstoð að jafnaði veitt að hámarki í fimm tíma í seinn og að hámarki tíu tíma á 12 mánaða tímabili.
Þá sé einnig tekið fram í ákvæðinu að sérfræðiaðstoð skuli vera liður í umfangsmeiri félagslegri aðstoð og fyrirsjáanlegt sé að ekki verði hægt að veita þjónustu innan miðstöðva Reykjavíkurborgar eða á vegum heilbrigðisstofnana. Ljóst sé að kærandi fái reglulega stuðningsviðtöl hjá félagsráðgjafa í deild virkni og ráðgjafar ásamt því að vera með félagsráðgjafa í deild fatlaðs fólks. Að lokum hafi það verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs að kærandi hefði greiðslugetu til að greiða sjálfur fyrir áframhaldandi sálfræðiviðtöl.
Með hliðsjón af því að um sé að ræða heimildarákvæði til greiðslu sérfræðiaðstoðar en ekki skyldu sem og af öllu framansögðu hafi áfrýjunarnefnd velferðarráðs Reykjavíkurborgar talið að staðfesta bæri synjun Austurmiðstöðvar á umsókn um styrk að upphæð 125.000 kr. til greiðslu sérfræðiaðstoðar á grundvelli b. liðar 20. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.
Með vísan til alls framangreinds verði að telja að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, né ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar um að synja umsókn kæranda um styrk til greiðslu sérfræðiaðstoðar.
Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr.
Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Sveitarfélög skuli tryggja að stuðningur við íbúa sem hafi barn á framfæri sé í samræmi við það sem sé barninu fyrir bestu. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.
Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til útfærslu á fjárhagsaðstoð til einstaklinga. Í samræmi við það og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur hverrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, svo fremi það byggi á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.
Í 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er kveðið á um lagagrundvöll fjárhagsaðstoðar. Þar kemur fram í 1. mgr. að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Í 2. gr. reglnanna kemur einnig fram sama grundvallarregla og í 19. gr. laga nr. 40/1991 að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára.
Í IV. kafla reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er kveðið á um heimildir vegna sérstakra aðstæðna. Þar segir í b. lið 20. gr. um greiðslu sérfræðiaðstoðar:
„Heimilt er að veita einstaklingum í eftirtöldum aðstæðum fjárhagsaðstoð til greiðslu viðtala hjá viðurkenndum meðferðaraðilum sem hafa starfsleyfi frá Embætti landlæknis, s.s. félagsráðgjöfum, sálfræðingum, geðlæknum og áfengis- og vímuefnaráðgjöfum. Sérfræðiaðstoðin skal vera liður í umfangsmeiri félagslegri aðstoð og fyrirsjáanlegt að eigi sé hægt að veita þjónustuna innan miðstöðva Reykjavíkurborgar eða á vegum heilbrigðisstofnana.
a) Einstaklingum sem búa við mikla og langvarandi félagslega erfiðleika.
b) Einstaklingum eða fjölskyldum sem hafa orðið fyrir alvarlegum áföllum, svo sem skyndilegum ástvinamissi eða alvarlegu ofbeldi.
Að jafnaði skal veita aðstoð að hámarki fimm tíma í senn og að hámarki tíu tíma á 12 mánaða tímabili.“
Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að ekki væri um að ræða sérfræðiaðstoð sem væri liður í umfangsmeiri félagslegri aðstoð og að mögulegt væri að veita þjónustuna innan miðstöðvar Reykjavíkurborgar eða á vegum heilbrigðisstofnana. Í rökstuðningi Reykjavíkurborgar var einnig vísað til þess að kærandi hefði fengið samþykktan styrk vegna greiðslu sérfræðiaðstoðar fjórum sinnum, þ.e. í október 2003, október 2022, júní 2023 og október 2023, samtals 20 klukkustundir sem væri umfram hámarkið sem kveðið væri á um í b. lið 20. gr. Einnig að kærandi væri talinn hafa greiðslugetu til að geta greitt sjálfur fyrir áframhaldandi sálfræðiviðtöl. Í greinargerð Reykjavíkurborgar til úrskurðarnefndar var tekið fram að kærandi fengi reglulega stuðningsviðtöl hjá félagsráðgjafa í deild virkni og ráðgjafar, ásamt því að vera með félagsráðgjafa í deild fatlaðs fólks.
Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið gögn málsins og telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við framangreint mat Reykjavíkurborgar. Ekki verður annað ráðið en að sveitarfélagið hafi lagt fullnægjandi mat á aðstæður kæranda og er niðurstaða þess mats í samræmi við reglur sveitarfélagsins. Í því samhengi er horft til þess að ákvæði 20. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð er heimildarákvæði og ekki bein lagaskylda á sveirafélaginu að veita fjárhagsaðstoð til greiðslu sérfræðiaðstoðar.
Með vísan til framangreinds er synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um styrk til greiðslu sérfræðiaðstoðar staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 18. september 2024, um að synja umsókn A, um styrk til greiðslu sérfræðiaðstoðar, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir