Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál 148/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 148/2016

Fimmtudaginn 26. maí 2016

A

gegn

Reykjavíkurborg


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 10. apríl 2016, kærir A til úrskurðarnefndar velferðarmála, meðferð Reykjavíkurborgar á umsókn hans um sértæk húsnæðisúrræði.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti ítrekað um sértækt húsnæðisúrræði hjá Reykjavíkurborg á árunum 2010 til 2013 en þá var hann var búsettur í Reykjavík. Kærandi er nú búsettur í öðru sveitarfélagi en kveðst enn eiga gilda umsókn hjá Reykjavíkurborg og óski þess að fá viðeigandi húsnæði í Reykjavík.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að hann þurfi töluverða þjónustu við daglegar þarfir vegna fötlunar sinnar. Sveitarfélagið hafi í raun ekki neitað honum um þjónustu en hann fái ekki viðeigandi húsnæði sökum þess að ekkert slíkt húsnæði sé laust. Því líti kærandi svo á, vegna þess tíma sem liðinn sé frá því að umsókn hafi verið send, að umsókn hans hafi verið hafnað. Kærandi hafi brýna hagsmuni af því að ákvörðun verði tekin í máli hans og því fari hann fram á að úrskurðarnefndin taki ákvörðun í málinu og geri sveitarfélaginu að veita þá þjónustu sem hann þurfi og eigi rétt á lögum samkvæmt.

III. Niðurstaða

Samkvæmt 5. gr. a laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks er fötluðum einstaklingi heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir um þjónustu sem teknar eru á grundvelli laganna til úrskurðarnefndar velferðarmála. Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Til þess að úrskurðarnefndin geti tekið kæru til efnislegrar meðferðar þarf því að liggja fyrir stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er einungis að ræða hafi stjórnvald tekið ákvörðun um rétt eða skyldu tiltekins aðila í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga segir að ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verði ekki kærð til æðra stjórnvalds fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Ákvarðanir sem teknar eru um meðferð stjórnsýslumáls og fela ekki í sér endalok málsins, svokallaðar formákvarðanir, verða því ekki kærðar til úrskurðarnefndarinnar.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi ítrekað frá árinu 2010 um húsnæði á vegum sveitarfélagsins sem hentar hans þjónustuþörf. Kærandi er ósáttur við að hafa ekki enn fengið húsnæði og hefur óskað eftir að úrskurðarnefndin taki ákvörðun í málinu og geri sveitarfélaginu að veita þá þjónustu sem hann þurfi og eigi rétt á lögum samkvæmt. Tekið skal fram að það er ekki á valdsviði úrskurðarnefndar velferðarmála að taka ákvarðanir um úthlutun húsnæðis fyrir fatlað fólk heldur einskorðast endurskoðun úrskurðarnefndarinnar við að skera úr um lögmæti stjórnvaldsákvarðana. Ekki er að sjá að tekin hafi verið kæranleg stjórnvaldsákvörðun í tilviki kæranda. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að málið sé ekki tækt til efnismeðferðar. Kærunni er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Úrskurðarnefndin bendir á að félags- og húsnæðismálaráðherra fer með yfirstjórn málefna fatlaðs fólks. Ráðherra hefur eftirlit með framkvæmd laga nr. 59/1992, þar á meðal að þjónusta, starfsemi og rekstur sveitarfélaga og annarra aðila samkvæmt lögum þessum sé í samræmi við markmið laganna, reglugerða og reglna settra samkvæmt þeim og að réttindi fatlaðs fólks séu virt, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna. Með vísan til þessa er kæranda unnt að leita til velferðarráðuneytisins telji hann þjónustu sveitarfélagsins ábótavant.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta