Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 291/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 291/2016

Föstudaginn 9. september 2016

A

gegn

Mosfellsbæ


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 5. ágúst 2016, kærir A til úrskurðarnefndar velferðarmála, ákvörðun sveitarfélagsins frá 13. maí 2016 um uppsögn samnings um notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi hefur verið með samning við Mosfellsbæ um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) frá 1. janúar 2011. Með bréfi sveitarfélagsins, dags. 17. maí 2016, var kæranda tilkynnt um uppsögn samningsins á þeirri forsendu að hann væri hvorki fær um að annast sjálfur verkstjórn né hefði getu til að ráðstafa greiðslum, sbr. e-lið 2. gr. og d-lið 4. gr. reglna Mosfellsbæjar um NPA. Með bréfi, dags. 27. júní 2016, óskaði kærandi eftir endurskoðun á uppsögn samningsins en var synjað með bréfi sveitarfélagsins, dags. 22. júlí 2016.   

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 5. ágúst 2016 og fór fram á að úrskurðarnefndin myndi fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar eða að málinu yrði flýtt hjá nefndinni. Með bréfi, dags. 12. ágúst 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð sveitarfélagsins. Greinargerð sveitarfélagsins barst úrskurðarnefndinni þann 24. ágúst 2016 og var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 25. ágúst 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. ágúst 2016, var kæranda tilkynnt að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði ekki frestað en nefndin myndi flýta afgreiðslu málsins. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 2. september 2016 og voru þær sendar sveitarfélaginu til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. september 2016.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi fer fram á að ákvörðun um uppsögn NPA samningsins verði felld úr gildi og að fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar verði gert að endurvinna málið og veita kæranda andmælarétt áður en tekin verði ný ákvörðun.

Kærandi greinir frá því að sveitarfélagið hafi ekki haft neitt samráð við hann áður en ákvörðun um uppsögn hafi verið tekin og því hafi hann ekki fengið tækifæri til að andmæla, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi hafi ekki nein gögn um málið og hann hafi einungis getað sent inn skriflega greinargerð eftir að hafa fengið bréf um uppsögn samningsins. Því beri að fella ákvörðun sveitarfélagsins úr gildi.

Kærandi tekur fram að hann hafi sent bréf til sveitarfélagsins og óskað eftir endurskoðun á uppsögn samningsins, sbr. 15. gr. reglna sveitarfélagsins um NPA, en ekki fengið neitt svar við þeirri beiðni.

III. Sjónarmið Mosfellsbæjar

Í greinargerð Mosfellsbæjar kemur fram að fjölskyldunefnd hafi tekið ákvörðun um uppsögn NPA samningsins þann 13. maí 2016 og sú ákvörðun hafi verið kynnt kæranda á óformlegum fundi á heimili hans þann 23. maí 2016. Kærandi, eiginkona hans, faðir, vinur hans og tveir starfsmenn hefðu verið viðstaddir fundinn og þau hafi vottað afhendingu skriflegrar tilkynningar með undirskrift sinni. 

Tekið er fram að ákvörðun fjölskyldunefndar hefði ekki átt að koma kæranda í opna skjöldu því honum hafi margsinnis verið bent á ýmsa vankanta á þeirri reiðu sem honum hafi borið að hafa á starfsmannahaldi, verkstjórn, ákvörðunum um greiðslur og fleira. Þær ábendingar hefðu að jafnaði verið settar fram af hálfu starfsmanns fjölskyldusviðs í beinum samtölum við kæranda á heimili hans, í símtölum og tölvupóstum. Kærandi hafi einnig formlega verið varaður við uppsögn í tölvupósti þann 19. apríl 2016.

Sveitarfélagið bendir á að kærandi hafi óskað eftir endurskoðun á uppsögn samningsins og hafi því með þeim hætti komið á framfæri andmælum sínum við ákvörðun fjölskyldunefndarinnar. Nefndin hafi fjallað um beiðni kæranda um endurskoðun á fundi þann 22. júlí 2016 og ákveðið að uppsögn yrði ekki dregin til baka. Sú ákvörðun hafi verið tilkynnt kæranda með bréfi þá þegar með rökstuðningi. Ekki verði annað séð en að framangreind málsmeðferð sé í samræmi við almenna löggjöf, reglugerðir og reglur Mosfellsbæjar um NPA.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um ákvörðun Mosfellsbæjar um uppsögn samnings við kæranda um notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk.

Fjallað er um réttindi fatlaðs fólks í lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Markmið laganna er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Við framkvæmd laganna skal tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Í 4. gr. laganna kemur fram að sveitarfélög beri ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar sem og kostnaði vegna hennar samkvæmt lögum þessum, nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum.

Samkvæmt IV. kafla bráðabirgðaákvæða laga nr. 59/1992 hefur verið komið á sérstöku samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka fatlaðs fólks um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA). Markmið verkefnisins er að þróa leiðir til að taka upp notendastýrða persónulega aðstoð við fatlað fólk með markvissum og árangursríkum hætti, en miðað er við að þjónustan verði skipulögð á forsendum notandans og undir verkstjórn hans um leið og hún verði sem heildstæðust milli ólíkra þjónustukerfa. Í því skyni að móta ramma um fyrirkomulag NPA leitast sveitarfélög við að bjóða fötluðu fólki NPA til reynslu í tiltekinn tíma og þau skuli síðan gera notendasamninga um NPA við hvern notanda, eða aðila sem kemur fram fyrir hönd hans, þar sem fram kemur hvaða þjónustu hlutaðeigandi þurfi á að halda í daglegu lífi og verðmat þjónustunnar, sbr. 3. og 4. mgr. IV. kafla bráðabirgðaákvæða laganna.

Mosfellsbær hefur sett reglur um NPA sem samþykktar voru í bæjarstjórn þann 26. september 2012. Í 1. gr. reglnanna kemur fram að notandinn, eða aðili í umboði hans, fái í hendur mánaðarlegar greiðslur til að ráða til sín starfsfólk sem annast þá aðstoð sem viðkomandi þarfnist í stað þess að þjónustan sé í höndum sveitarfélagsins. Aðstoðin sé skipulögð á forsendum notandans og sé undir verkstjórn hans með það fyrir augum að auka sjálfstæði hans og virka þátttöku í samfélaginu. Samkvæmt gögnum málsins hefur kærandi verið með samning við Mosfellsbæ um NPA frá 1. janúar 2011 og var þeim samningi sagt upp af hálfu sveitarfélagsins vegna meintra vanefnda kæranda. Ágreiningur málsins lýtur meðal annars að því hvort sveitarfélagið hafi gætt andmælaréttar gagnvart kæranda áður en ákvörðun um uppsögn samningsins var tekin.

Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Framangreindar undantekningar frá andmælarétti ber almennt að skýra þröngt. Eigi aðili máls rétt á að tjá sig um efni þess samkvæmt 13. gr. skal stjórnvald, svo fljótt sem því verður við komið, vekja athygli aðila á því að mál hans sé til meðferðar, nema ljóst sé að hann hafi fengið vitneskju um það fyrir fram, sbr. 14. gr. sömu laga. Í athugasemdum við IV. kafla laganna í frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum segir að í reglunni felist að aðili máls skuli eiga þess kost að tryggja réttindi sín og hagsmuni með því að kynna sér gögn máls og málsástæður er ákvörðun mun byggjast á, leiðrétta framkomnar upplýsingar og koma að frekari upplýsingum um málsatvik áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli hans. Kemur þar enn fremur fram að andmælareglan eigi ekki aðeins að tryggja hagsmuni aðila máls heldur sé tilgangur hennar einnig að stuðla að því að mál verði betur upplýst. Andmælaréttinum er þannig ætlað að vera raunhæft úrræði fyrir aðila máls til að koma að athugasemdum sínum áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli. Af þessu leiðir að endanleg afstaða stjórnvaldsins má ekki vera afráðin áður en aðila er veitt færi á að koma andmælum á framfæri.

Af hálfu sveitarfélagsins hefur komið fram að kæranda hafi margsinnis verið bent á ýmsa vankanta á efndum NPA samningsins. Þær ábendingar hefðu að jafnaði verið settar fram af hálfu starfsmanns fjölskyldusviðs í beinum samtölum við kæranda á heimili hans, í símtölum og tölvupóstum. Þá hafi kærandi verið varaður við uppsögn í tölvupósti þann 19. apríl 2016. Að mati sveitarfélagsins var kæranda því veitt tækifæri til að koma á framfæri andmælum sínum.  

Í framangreindum tölvupósti er kæranda greint frá því að hann sé að nota fleiri tíma og meira fjármagn en hann hafi til að kaupa sér NPA aðstoð. Tekið er fram að það sé á ábyrgð kæranda að fara ekki yfir þá fjárhæð sem hann fái, sbr. 7. gr. reglna Mosfellsbæjar um NPA, ella sé hægt að rifta samningnum með mánaðar fyrirvara. Önnur gögn liggja ekki fyrir um aðfinnslur sveitarfélagins vegna framkvæmdar samningsins. Úrskurðarnefndin fellst ekki á að sveitarfélagið hafi með þessari tilkynningu veitt kæranda fullnægjandi andmælarétt. Að mati úrskurðarnefndarinnar bar sveitarfélaginu að gefa kæranda kost á að kynna sér þau gögn og málsástæður sem ákvörðun yrði byggð á. Þá bar sveitarfélaginu einnig að gefa kæranda kost á að gera athugasemdir við fram komnar upplýsingar og veita honum hæfilegan frest til þess, sbr. 18. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin bendir á, í ljósi aðstæðna kæranda, að um íþyngjandi ákvörðun var að ræða og því mikilvægt að kærandi ætti þess kost að tryggja réttindi sín og hagsmuni áður en endanleg ákvörðun yrði tekin.

Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Mosfellsbær hafi ekki gætt réttrar málsmeðferðar við uppsögn NPA samnings kæranda. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Mosfellsbæjar um uppsögn NPA samnings A er felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

                                                                    

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta