nR. 62/2019 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 62/2019
Fimmtudaginn 11. apríl 2019
A og
B
gegn
Íbúðalánasjóði
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 11. febrúar 2019, kærðu A og B, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Íbúðalánasjóðs um synjun á beiðni þeirra um að greiða 1% eða minna í uppgreiðsluþóknun og að greiða uppgreiðsluþóknun ekki samhliða uppgreiðslu lánanna.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærendur eru skuldarar að tveimur ÍLS-veðbréfum sem gefin voru út án heimildar til uppgreiðslu eða aukaafborgana nema gegn sérstakri þóknun. Með tölvupósti til Íbúðalánasjóðs 6. febrúar 2019 var greint frá því að kærendur hygðust greiða upp lánin og krefðust þess að greiða 1% eða minna í uppgreiðsluþóknun. Þeirri beiðni var hafnað með ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 8. febrúar 2019, og meðal annars vísað í fyrri höfnun sjóðsins frá 1. nóvember 2017, sem staðfest var með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 417/2017. Með tölvupósti 10. febrúar 2019 fóru kærendur fram á að greiða uppgreiðsluþóknun ekki samhliða uppgreiðslu lánanna en því var hafnað með tölvupósti Íbúðalánasjóðs 11. febrúar 2019.
Kærendur lögðu fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 11. febrúar 2019. Með bréfi, dags. 15. febrúar 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Íbúðalánasjóðs vegna kærunnar og gögnum málsins. Greinargerð Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 28. febrúar 2019. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. mars 2019, var greinargerðin send kærendum til kynningar. Athugasemdir bárust frá kærendum 17. mars 2019 og voru þær sendar Íbúðalánasjóði til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. mars 2019. Frekari athugasemdir bárust frá Íbúðalánasjóði samdægurs og voru þær sendar kærendum til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kærenda
Kærendur gera þríþætta kröfu í málinu vegna ágreinings við Íbúðalánasjóð um aðferð við útreikning á uppgreiðsluþóknun og hvernig greiða skuli þóknunina, ef til hennar komi. Í fyrsta lagi komi fram í 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál að þóknunin skuli aldrei nema hærri fjárhæð en nemi kostnaði sjóðsins við uppgreiðsluna. Í ákvæðinu komi einnig fram að reglugerðin þurfi að vera í samræmi við almennar lagaheimildir á hverjum tíma (í lögum nr. 121/1994 sé þetta orðað sem tjón en ekki kostnaður. Reglugerð nr. 1016/2005 hljóti að þurfa að vera í samræmi við lagaheimildir líka). Ekki megi setja reglugerð um hlut sem nú þegar sé lögákveðinn og því megi reglugerð nr. 1016/2005 ekki setja reiknireglu sem skilji eftir sig meiri kostnað en lögin heimili. Enginn vafi sé á því að almenn lög frá Alþingi séu rétthærri reglugerðinni. Þar sem sjóðurinn fái umtalsvert hærri tekjur vegna uppgreiðslu láns en hann hefði annars fengið ef ekki hefði komið til uppgreiðslu sé reglugerðin að ganga talsvert lengra en lögin gefi heimild til. Samkvæmt reiknireglu reglugerðar nr. 1016/2005 myndi uppgreiðsluþóknun af veðbréfum kærenda vera 1.950.000 kr. sem eigi að vera kostnaður sjóðsins vegna mismunandi vaxtakjara. Íbúðalánasjóður hafi svo heimild til að endurlána fjárhæðina og þá muni tekjur sjóðsins vegna vaxta vera 1.500.000 kr. út lánstímann. Það þýði að á þeim tíma sem lánasamningi hefði átt að ljúka sé sjóðurinn búinn að fá mun meira en sem nemi þeim vöxtum sem sjóðurinn hafi orðið af vegna uppgreiðslunnar. Það sé algjörlega andstætt því þaki sem lögin setji. Eðlilegast væri að þær vaxtatekjur sem Íbúðalánasjóður fái af því að endurlána uppgreiðsluþóknun væru reiknaðar til frádráttar.
Kærendur bendi á að það sé ekki í lagi að horfa bara til þeirra vaxtatekna sem sjóðurinn verði af vegna uppgreiðslu heldur verði að reikna með þeim tekjum sem sjóðurinn fái vegna uppgreiðslugjalds sem hann geti svo endurlánað og fengið tekjur af. Að þeirra mati sé grundvallaratriði að sýna fram á kostnaðinn sem Íbúðalánasjóður verði fyrir vegna uppgreiðslunnar ef útreikningar eigi að miðast við gjaldskrá sjóðsins og taka tillit til tekna við endurlán. Þrátt fyrir að Íbúðalánasjóður verði af vaxtatekjum sé ekki endilega hægt að skilgreina það sem kostnað/tjón. Annað sem verði að líta til sé raunverulegur kostnaður af skuldbindingum sjóðsins. Sem dæmi megi nefna að ef Íbúðalánasjóður fjármagni sig á til dæmis 4% vöxtum, láni kærendum á 4,9% vöxtum, lánið sé greitt upp og sjóðurinn láni aftur á 4,2% vöxtum, sem séu núverandi markaðsvextir, þá sé enginn kostnaður þar sem sjóðurinn sé enn að lána á hærri vöxtum en vextir á hans skuldbindingum. Reglugerð um gjaldskrá Íbúðalánasjóðs sé því ekki í takt við 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998. Til að átta sig á raunkostnaði skipti höfuðmáli að skoða kjör fjármögnunarlána Íbúðalánasjóðs varðandi vaxtakjör, hvort þau séu verðtryggð eða með uppgreiðsluákvæði. Kærendur krefjast þess að Íbúðalánasjóður sýni á sannarlegan hátt kostnað vegna uppgreiðslu lána þeirra. Ekki einhvern útreikning á glötuðum tekjum sem standist ekki skoðun.
Í öðru lagi megi halda því fram að þar sem reglugerð nr. 522/2004 hafi verið felld brott að ný reglugerð nr. 970/2016 þyrfti að vera í samræmi við almennar lagaheimildir á hverjum tíma eins og 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998 kveði á um. Því mætti hún ekki vísa í gjaldskrá Íbúðalánasjóðs sem sé ekki í samræmi við lög um neytendalán nr. 33/2013 sem hafi verið í gildi við gildistöku reglugerðar nr. 970/2016. Þar sem hvorki kemur fram í haus bréfanna né skilmálum þeirra hvernig uppgreiðsluþóknunin sé reiknuð út þá ákvarðist það af reglugerð sem þurfi að vera í samræmi við almennar lagaheimildir á hverjum tíma og því ætti uppgreiðsluþóknunin að vera 1% samkvæmt núverandi lögum um neytendalán nr. 33/2013.
Í þriðja lagi vísa kærendur til þess að þau hafi rétt á því að greiða meintan vaxtamun á þeim tíma sem þau hefðu greitt vextina ef ekki hefði komið til uppgreiðslu, komi til greiðslu uppgreiðsluþóknunar. Ekkert í lögum eða reglugerðum áskilji að uppgreiðsluþóknun sé innheimt í eingreiðslu þrátt fyrir að hefð sé fyrir því. Lánasamningarnir sé lögbundnir og samkvæmt þeim eigi að greiða vextina út lánstímann og það vilji kærendur gera. Ekki sé heimilt að hafna þeirri kröfu einungis til þess að endurlána alla þóknunina strax í stað þess að þurfa að gera það jafnóðum og greiðslur berist ef ekki hefði komið til uppgreiðslu.
Í athugasemdum kærenda vegna greinargerðar Íbúðalánasjóðs er vísað til þess að í reglugerð skuli kveðið á um hlutfall þóknunar sem sjóðurinn geti áskilið sér, sbr. 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998. Það hljóti því að vera á valdi Íbúðalánasjóðs hvort hann áskilji sér það eða ekki og því ætti sjóðurinn ekki að vera eins bundinn og hann haldi fram. Í framangreindu ákvæði komi fram það skilyrði að reglugerðin sé í samræmi við almennar lagaheimildir á hverjum tíma og þar af leiðandi hefðu skilmálar bréfanna átt að vera að öllu leyti í samræmi við neytendalög nr. 21/1994 þar sem þeir grundvallist á lögum nr. 44/1998 og reglugerðum settum á grundvelli þeirra. Það hefði augljóslega átt að koma fram í skilmálum bréfanna hvernig uppgreiðsluþóknun væri háttað. Að mati kærenda sé það brot á lögum um húsnæðismál að hunsa neytendalögin við gerð skilmála bréfanna, sbr. 3. mgr. 23. gr. laganna.
Kærendur benda á að vaxtagjöld Íbúðalánasjóðs virðist vera tæp 3,5% samkvæmt ársreikningi sjóðsins. Þegar Íbúðalánasjóður endurláni fái hann 4,2% vexti. Því sé skrýtið að telja fram kostnað við uppgreiðslu lána þegar vaxtatekjurnar séu hærri en vaxtagjöld skuldbindinga sjóðsins. Að mati kærenda eigi reglan sér hvorki stoð í lögum um húsnæðismál né sé hún innan þeirra marka sem ákvæði 3. mgr. 23. gr. laganna setji. Ekki sé tilgreint hvernig skuli framkvæma útreikning, aðeins að þóknunin skuli aldrei vera hærri en kostnaður Íbúðalánasjóðs vegna uppgreiðslunnar og þar með augljóst að sjóðurinn megi ekki hagnast á uppgreiðslu bréfanna. Hins vegar heimili lögin að reglugerð sé sett sem kveði á um hvernig þóknunin skuli reiknuð en samt sem áður megi ekki ganga lengra en lögin. Að mati kærenda hafi Íbúðalánasjóður hvorki sýnt fram á með sannarlegum hætti að hann verði fyrir tjóni vegna uppgreiðslu né lagt fram útreikninga máli sínu til stuðnings. Kærendur geti ekki samþykkt útreikninga Íbúðalánasjóðs þar sem sjóðurinn sé líklega eina fyrirtækið/stofnunin í heimi sem reikni tap með þessum hætti.
III. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs
Í greinargerð Íbúðalánasjóðs kemur fram að ÍLS-veðbréfin uppfylli þær formkröfur sem gerðar hafi verið í framkvæmd, bæði hjá úrskurðarnefndinni sjálfri, sbr. úrskurð í máli nr. 417/2017 og dómstólum, sjá dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-1440/2013. Þannig komi það fram í haus ÍLS-veðbréfanna að þau séu án heimildar til aukaafborgana og afsal lántaka á rétti sínum til aukaafborgana komi fram í 5. tölul. þeirra. Íbúðalánasjóður telji ljóst að reikniregla 7. gr. reglugerðar nr. 1016/2005 eigi sér stoð í lögum nr. 44/1998 um húsnæðismál og að hún sé innan þeirra marka sem ákvæði 3. mgr. 23. gr. laganna setji. Útreikningur uppgreiðsluþóknunar sé framkvæmdur sjálfvirkt í kerfum Íbúðalánasjóðs með þeim hætti sem kveðið sé á um í 7. gr. reglugerðarinnar. Byggt sé á nánar tiltekinni formúlu sem Íbúðalánasjóður telji að sé í fullu samræmi við ákvæði 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998 og ákvæði 7. gr. reglugerðar nr. 1016/2005. Ekki sé sjálfgefið að Íbúðalánasjóður geti endurlánað fjármuni, ekki síst í ljósi þess að lánaheimildir hafi verið takmarkaðar, einkum með lögum nr. 84/2012 er hafi breytt lögum nr. 44/1998. Nái Íbúðalánasjóður ekki að endurlána umrædda fjármuni sé kostnaður sjóðsins af uppgreiðslunni í reynd meiri þar sem afar erfitt, ef ekki ómögulegt, sé að fá ávöxtun á lausafé upp á 4,20% á markaði án þess að það sé í formi útlána. Loks taki uppgreiðsluþóknunin ekki tillit til endurfjármögnunaráhættu sjóðsins. Við uppgreiðslu lánanna feli umkrafðar þóknanir því í sér algjöran lágmarkskostnað fyrir sjóðinn. Í fyrrgreindum dómi héraðsdóms hafi að hluta til verið deilt um hvort sú reikniaðferð sem sé viðhöfð við uppgreiðsluþóknun hjá sjóðnum stæðist lög og væri heimil. Það hafi verið niðurstaða dómsins að svo væri og fallist á að sjóðnum væri heimilt að krefja lántakendur um þóknun til að bæta kostnað sem sjóðurinn hefði annars setið uppi með við uppgreiðslu lána.
Íbúðalánasjóður telur málflutning kærenda um samspil reglugerðar nr. 970/2016 og laga nr. 33/2013 um neytendalán rangan. Í fyrsta lagi hafi bæði ÍLS-veðbréf kærenda verið gefin út löngu fyrir gildistöku laga um neytendalán. Yfirtaka kærenda hafi einnig farið fram fyrir þann tíma. Þegar af þessum sökum beri að hafna rökstuðningi kærenda, enda geti síðar tilkomin löggjöf ekki breytt afturvirkt réttindum aðila að samningnum. Íbúðalánasjóður hafi ekki veitt ný lán með ákvæði um uppgreiðsluþóknun frá gildistöku laga nr. 33/2013 og þau lög taki ekki lengur til fasteignalána þar sem nú séu í gildi lög nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda. Reglugerð nr. 970/2016 kveði aðeins á um heimild Íbúðalánasjóðs til að veita lán með lægra vaxtaálagi gegn yfirlýsingu lántaka um afsal á réttinum til aukaafborgana eða uppgreiðslu, án greiðslu uppgreiðsluþóknunar. Efnislega séu ákvæði 13. gr. reglugerðar nr. 970/2016 að öllu leyti í samræmi við eldri 15. gr. reglugerðar nr. 522/2004, enda hafi reglugerðin verið endurútgefin í heild vegna breytinga á öðrum ákvæðum hennar. Kveðið sé á um uppgreiðsluþóknun í reglugerð nr. 1016/2005 og ákvæði 7. gr. reglugerðarinnar hafi staðið óbreytt frá setningu hennar 21. nóvember 2005. Telja verði að þetta atriði skipti engu máli í samhengi við rétt Íbúðalánasjóðs til að krefjast uppgreiðsluþóknunar. Þá bendir Íbúðalánasjóður á að samkvæmt gildandi ákvæðum laga og reglugerða beri sjóðnum að innheimta uppgreiðsluþóknun og hana beri að reikna með þeim hætti sem umrædd lög og reglugerðir kveði á um. Skipti engu að ekki sé tiltekið í bréfinu sjálfu hvernig því skuli hagað, sbr. fyrrnefndan dóm nr. E1440/2013, þar sem sambærilegu hafi verið borið við. Það hafi verið niðurstaða dómsins að þrátt fyrir að það hefði verið talið heppilegra að útreikniaðferð uppgreiðsluþóknunar kæmi fram í skilmálum bréfsins væri það ekki áskilið í ákvæði 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998.
Íbúðalánasjóður hafi hafnað kröfu kærenda um að greiða uppgreiðsluþóknunina á þeim gjalddögum sem eftir væru, enda liggi það í eðli uppgreiðsluþóknunar að hún fari fram samhliða uppgreiðslunni sjálfri. Þannig séu engar heimildir til þess í lögum nr. 44/1998 eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra til að dreifa þóknuninni með þeim hætti sem kærendur krefjist. Í ákvæði 4. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 970/2016 komi fram að lántaki skuli greiða sérstaka þóknun til Íbúðalánasjóðs við uppgreiðslu. Ákvæðið geti ekki verið túlkað með öðrum hætti en að það sé gert samhliða uppgreiðslunni sjálfri. Hið sama gildi í raun um ákvæði 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998. Í þessu samhengi verði að líta til tilgangs uppgreiðsluþóknunarinnar annars vegar, þ.e. að bæta Íbúðalánasjóði kostnað og tap af uppgreiðslunni og hins vegar einnig til þess að ef fallist væri á þá leið sem kærendur krefjist þá hefði sjóðurinn ekkert veð þar sem ÍLS-veðbréfinu væri aflýst af eign kærenda. Engar heimildir standi til slíks og því beri að hafna kröfu kærenda.
Í athugasemdum Íbúðalánasjóðs er því alfarið hafnað að það sé á valdi sjóðsins að ákveða hvort uppgreiðsluþóknun sé innheimt eða ekki. Lántaki hafi notið vaxtahagræðis þar sem lægri vextir hafi verið veittir á sínum tíma en annars hefðu verið í boði. Þá verði ekki litið fram hjá því að ráðherra hafi með setningu reglugerðar nr. 970/2016 tiltekið að lántaki skuli greiða sérstaka þóknun til sjóðsins, sjá 4. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar. Engar heimildir séu til staðar til að fella slíka þóknun niður í núgildandi lögum eða reglugerðum. Hvað varðar athugasemdir kærenda um samspil laga nr. 44/1998 og ákvæði eldri laga um neytendalán nr. 21/1994 bendir Íbúðalánasjóður á að úrskurðarnefnd velferðarmála hafi þegar úrskurðað um það atriði í máli nr. 417/2017. Þá hafi Héraðsdómur Reykjavíkur einnig tekið afstöðu til sambærilegrar málsástæðu, sjá mál nr. E-1440/2013. Íbúðalánasjóður ítreki að ákvörðun um útreikniaðferðina sé í höndum ráðherra og hafi verið ákveðin með reglugerð nr. 1016/2005 um gjaldskrá sjóðsins. Í framkvæmd hafi verið talið að sú reikniaðferð væri í samræmi við lög um húsnæðismál, sbr. fyrrnefndan dóm héraðsdóms og ýtarleg sjónarmið í greinargerð sjóðsins.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Íbúðalánasjóðs um synjun á kröfu kærenda um að greiða 1% eða minna í uppgreiðsluþóknun af tveimur ÍLS-veðbréfum sem þau eru skuldarar að og að heimila þeim ekki að greiða uppgreiðsluþóknun ekki við uppgreiðslu heldur á þeim lánstíma sem þeim hafði borið að greiða vexti lánsins á. Með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 417/2017 í máli annars kæranda var áður úrskurðað um lögmæti innheimtu Íbúðalánasjóðs á uppgreiðsluþóknun af fasteignalánum kærenda. Ekki virðist hafa orðið af uppgreiðslu á þeim tíma og hafa kærendur nú gert framangreindar kröfur á hendur sjóðnum. Að mati úrskurðarnefndarinnar lýtur ágreiningur máls þessa að annars vegar útreikningi Íbúðalánasjóðs vegna hlutfalls uppgreiðsluþóknunar sem sjóðurinn getur áskilið sér, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál. Kærendur telja að útreikningur Íbúðalánasjóðs samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 1016/2005 um gjaldskrá sjóðsins sé ekki í samræmi við framangreint lagaákvæði. Hins vegar lýtur ágreiningurinn að því hvenær uppgreiðsluþóknunin skuli greidd.
Í 1. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál kemur meðal annars fram að skuldurum Íbúðalánasjóðsveðbréfa sé heimilt að greiða aukaafborganir af skuldabréfum sínum eða að endurgreiða skuldina að fullu fyrir gjalddaga. Í 2. mgr. 23. gr. laganna segir að við sérstakar aðstæður og að fenginni umsögn stjórnar Íbúðalánasjóðs sé ráðherra heimilt að ákveða að aukaafborganir og uppgreiðsla ÍLS-veðbréfa verði aðeins heimilar gegn greiðslu þóknunar sem jafni út að hluta eða að öllu leyti muninn á uppgreiðsluverði ÍLS-veðbréfs og markaðskjörum sambærilegs íbúðabréfs. Geta skuli um þessa heimild í skilmálum ÍLS-veðbréfa.
Þá kemur fram í 3. mgr. 23. gr. laganna að þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. geti ráðherra heimilað Íbúðalánasjóði með reglugerð, í samræmi við almennar lagaheimildir á hverjum tíma, að bjóða skuldurum ÍLS-veðbréfa að afsala sér rétti til þess að greiða án þóknunar upp lán eða greiða aukaafborganir, gegn lægra vaxtaálagi. Jafnframt skuli í reglugerðinni kveðið á um hlutfall þóknunar sem Íbúðalánasjóður getur áskilið sér ef lántaki, sem afsalar sér umræddum rétti, hyggst greiða upp lán fyrir lok lánstíma. Slík þóknun skuli aldrei nema hærri fjárhæð en nemur kostnaði Íbúðalánasjóðs vegna uppgreiðslu viðkomandi láns.
Í 4. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 970/2016, áður reglugerð nr. 522/2004, kemur fram að ef lántaki, sem tekið hefur lán með lægra vaxtaálagi en ella býðst, óski eftir því að greiða af láni aukaafborganir eða greiða skuldabréfið upp að fullu fyrir lok lánstímans skuli hann greiða sérstaka þóknun til Íbúðalánasjóðs samkvæmt gjaldskrá sjóðsins.
Samkvæmt 7. gr. reglugerðar nr. 1016/2005 um gjaldskrá Íbúðalánasjóðs reiknast þóknun vegna uppgreiðslu lána og aukaafborgana af mismun á vaxtastigi láns sem greitt er og markaðsvaxta sambærilegra nýrra lána hjá Íbúðalánasjóði ef þeir eru lægri, miðað við uppreiknaðar eftirstöðvar lánsins, núvirt frá uppgreiðsludegi til lokagjalddaga eða miðað við innborgaða fjárhæð ef um aukaafborgun er að ræða.
Í framangreindum reglugerðum er ekki að finna beina tilgreiningu á hlutfalli uppgreiðsluþóknunar líkt og áskilið er í ákvæði 2. málsl. 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998, en aftur á móti er kveðið á um hvernig hlutfall uppgreiðsluþóknunar skuli reiknað út. Þá kemur fram í 3. málsl. 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998 að uppgreiðsluþóknun skuli aldrei nema hærri fjárhæð en nemur kostnaði Íbúðalánasjóðs vegna uppgreiðslu viðkomandi láns. Greiði skuldari ÍLS-veðbréfs lán sitt upp eða greiði aukaafborgun verður Íbúðalánasjóður af þeim vöxtum sem ella hefðu fengist af fjárhæðinni. Íbúðalánasjóður þarf þá að lána umrætt fjármagn á ný svo að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart þeim sem fjármagna starfsemi sjóðsins. Kostnaður Íbúðalánasjóðs vegna uppgreiðslu felst því í mismun þeirra vaxta sem ella hefðu fengist og þeim vöxtum sem munu fást vegna endurláns þess fjármagns sem greitt er inn á lán. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur framangreint ákvæði reglugerðar 1016/2005 um útreikning hlutfalls uppgreiðsluþóknunar í samræmi við 2. málsl. 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998. Varðandi kröfu kærenda um að greiða uppgreiðsluþóknun á þeim gjalddögum sem annars hefði staðið eftir á umræddum skuldabréfum verður að telja að Íbúðalánasjóður hafi engar heimildir til þess og eðli málsins samkvæmt greiðast þær við samhliða uppgjöri upphaflegu skuldarinnar, sbr. 2. málsl. 3. mgr. 23. gr. laganna.
Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Íbúðalánasjóðs um synjun á beiðni A og B, um að greiða 1% eða minni uppgreiðsluþóknun og að greiða uppgreiðsluþóknun ekki samhliða uppgreiðslu lánanna er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson