Mál nr. 1/2012
Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík
Miðvikudaginn 27. júní 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 1/2012:
A
gegn
velferðarráði Reykjavíkurborgar
og kveðinn upp svohljóðandi
ÚRSKURÐUR
Með bréfi A, dags. 30. desember 2011, skaut hún til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun velferðarráðs Reykjavíkurborgar um námsstyrk til framfærslu á vorönn 2012.
I. Málavextir og málsmeðferð.
Kærandi er einstæð móðir drengs sem fæddur er 19. ágúst 2011. Hún var í fæðingarorlofi út febrúar síðastliðinn og fékk auk þess fjárhagsaðstoð sem uppbót á greiðslur Fæðingarorlofssjóðs að viðmiðunarmörkum fjárhagsaðstoðar frá Reykjavíkurborg. Kærandi lenti í bílslysi fyrir fjórum árum og fékk greiddar slysabætur. Hún ráðstafaði þeim til kaupa á íbúð og bíl.
Kærandi hafði lagt stund á sjúkraliðanám í B, en námið er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hún sótti um námsstyrk fyrir vorönn 2012 þann 15. september 2011. Þegar henni var tjáð að námið væri lánshæft, ákvað hún að skipta um námsbraut og ljúka stúdentsprófi en slíkt nám er ekki lánshæft. Umsókninni var synjað af Þjónustumiðstöð C með bréfi, dags. 19. september 2011, þar sem hún var ekki talin samrýmast 18. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Kærandi skaut þeirri ákvörðun til velferðarráðs sem staðfesti synjun starfsmanna á fundi sínum 25. október 2011. Kærandi skaut þeirri synjun til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 30. desember 2011.
II. Málsástæður kæranda.
Í kæru kæranda, dags. 30. desember 2011, kveðst hún eiga tvær annir eftir til stúdentspróf og falli hún því undir skilyrðin um námsstyrk. Það sé henni hjartans mál að ljúka stúdentsprófi svo hún geti veitt barninu sínu eins gott líf og hún geti. Hún sé ein með ungt barn á framfæri og sé í fæðingarorlofi til loka febrúarmánaðar 2012 en hafi engar tekjur eftir það. Kærandi kveðst ekki vera í miklu sambandi við foreldra sína en hafi þeir ekki tök á að veita henni aðstoð og eigi hún í ekkert skjól að leita með fjárhagsaðstoð. Hún hafi lent í alvarlegu bílslysi árið 2007 og hrjái það hana mjög mikið í dag bæði andlega og líkamlega. Hún hafi litla einbeitingu og henni líði ekki mjög vel andlega. Kærandi kveðst ekki sjá fram á að hún fari í skólann síðar ef hún hætti núna þar sem hún telur að aðstæður hennar muni ekki leyfa það.
III. Málsástæður kærða.
Velferðarráð Reykjavíkurborgar vísar til reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sem tóku gildi 1. janúar 2011 og samþykktar voru í velferðarráði þann 17. nóvember 2010 og í borgarráði 25. nóvember 2010. Í 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð komi fram að námsstyrki sé heimilt að veita í þar tilgreindum tilvikum og að aðstoðin miðist við grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar skv. 11. gr. ásamt almennum skólagjöldum og bókakostnaði. Þá komi einnig fram í 18. gr. að miða skuli við að námið leiði til þess að nemandi geti síðar hafið nám sem sé lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.
Ákvæði 18. gr. um styrk til náms sé heimildarákvæði og því sé ekki skylt að veita námsstyrk þótt skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt. Samkvæmt þeim upplýsingum sem legið hafi fyrir velferðarráði hafi kærandi lagt stund á sjúkraliðanám og eigi stutt eftir í námslok. Sjúkraliðanám kæranda sé nú orðið lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN). Kærandi hyggist hins vegar fara á bóknámsbraut og ljúka stúdentsprófi en slíkt nám sé ekki lánshæft hjá LÍN.
Í 18. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð komi fram að miða eigi við að nám sem námsstyrkur sé veittur fyrir leiði til þess að nemandi geti síðar hafið nám sem sé lánshæft hjá LÍN. Velferðarráð hafi talið í þessu samhengi að líta yrði til þess að kærandi hefði lokið tilteknu námi á sjúkraliðabraut sem hafi veitt henni rétt á því að njóta námslána hjá LÍN á meðan kærandi lyki sjúkraliðanámi sínu. Þá yrði einnig að líta til þess að umrætt sjúkraliðanám myndi veita kæranda ákveðin starfsréttindi sem mögulega myndu auka atvinnumöguleika hennar.
Í 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, komi fram að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Kærandi sé nú í fæðingarorlofi og fái uppbót á þær greiðslur frá þjónustumiðstöð. Líta verði svo á að kærandi hefði getað tryggt framfærslu sína með því að ljúka því námi sem hún hafði hafið með því að taka námslán hjá LÍN meðan á náminu stæði. Kærandi hafi tekið þá ákvörðun að færa sig yfir á bóknámsbraut og leggja stund á stúdentspróf og virðist í því samhengi ekki hafa hugað að framfærslu sinni á annan hátt en með því að sækja um námsstyrk hjá þjónustumiðstöð. Í þessu samhengi beri að líta til þess sem fram komi í frumvarpi til laga sem síðar hafi orðið að lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 en þar segi um 1. gr. að opinber félagsþjónusta megi ekki verða til þess að deyfa tilfinninguna fyrir ábyrgð einstaklingsins á sjálfum sér og öðrum. Gera verði þá kröfu að einstaklingur hugi að framfærslu sinni og þeirra sem þeim beri lögum samkvæmt skylda til að framfæra. Fjárhagsaðstoð (og þar með talinn námsstyrkur) sé ekki framfærslukerfi sem sé hliðsett öðrum opinberum framfærslukerfum heldur sé fjárhagsaðstoð öryggisnet til þrautavara, þ.e. tímabundið úrræði og neyðarráðstöfun til þess að forða þeim einstaklingum og fjölskyldum frá örbirgð sem ekki eigi neinna annarra kosta völ til þess að eiga í sig og á.
Hvað varði umsókn kæranda um námsstyrk samkvæmt heimildarákvæði 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg þá hafi verið talið að kærandi uppfyllti ekki a-lið þar sem ekki væri um að ræða mikla félagslega erfiðleika. Kærandi hafi ekki leitað á þjónustumiðstöð síðan 2005 og samkvæmt könnun á aðstæðum kæranda hafi ekki verið talið að hún hafi átt við mikla félagslega erfiðleika að stríða. Þá uppfylli kærandi ekki b-lið ákvæðisins þar sem könnun á aðstæðum hennar hafi leitt í ljós að hún hafi ekki átt í félagslegum erfiðleikum. Kærandi uppfylli ekki c-lið þar sem ekkert liggi fyrir um að hún hafi ekki tök á að vinna með skóla og að hún muni flosna upp úr námi komi ekki til aðstoðar. Kærandi gæti í raun fyrirbyggt að til slíks myndi koma með því að ljúka sjúkraliðanámi sem hún sé langt komin með og nýta til þess námslán hjá LÍN. Þá eigi d- og e-liðir ekki við í tilfelli kæranda.
IV. Niðurstaða.
Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sem tóku gildi 1. janúar 2011. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort velferðarráði Reykjavíkurborgar beri að veita kæranda námsstyrk á vorönn 2012.
Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.
Í 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg kemur fram að námsstyrki sé heimilt að veita í eftirfarandi tilvikum og aðstoðin miðist við grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar skv. 11. gr. ásamt almennum skólagjöldum og bókakostnaði:
- Til einstaklinga 18–24 ára, sem ekki hafa lokið grunnskóla eða framhaldsskóla og hafa átt við mikla félagslega erfiðleika að stríða.
- Til einstæðra foreldra á aldrinum 18–24 ára, sem ekki hafa lokið grunnskóla eða framhaldsskóla og hafa haft atvinnutekjur sem eru lægri en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar, sbr. 1. mgr. 11. gr. reglna þessara, undanfarna tólf mánuði. Skilyrði er að umsækjandi hafi átt í félagslegum erfiðleikum.
- Til einstaklinga á aldrinum 18–24 ára sem ekki hafa lokið framhaldsskóla og eiga eftir óloknum að hámarki tveimur önnum. Um sé að ræða einstakling sem ekki hefur tök á að vinna með skóla og fyrir liggur mat á því að ef ekki komi til aðstoðar sé ljóst að viðkomandi flosni upp úr námi.
- Til einstaklinga sem hafa verið atvinnulausir án bótaréttar eða þegið fjárhagsaðstoð í sex mánuði eða lengur og hafa ekki lokið grunnnámi sem gefur rétt á námsláni.
- Heimilt er að veita tekjulágum foreldrum fjárstyrk vegna náms 16 og 17 ára barna. Hér er átt við tekjulága foreldra sem átt hafa í langvarandi félagslegum erfiðleikum.
Af hálfu velferðarráðs Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi uppfylli ekki a- og b-liði 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg þar sem ekki hafi verið talið að hún ætti við mikla félagslega erfiðleika að stríða, og var það meðal annars stutt mati félagsráðgjafa sem lagt hefur verið fram í málinu. Hún uppfylli ekki heldur c-lið greinarinnar þar sem ekkert liggi fyrir um að hún hafi ekki tök á að vinna með skóla og að hún muni flosna upp úr námi komi ekki til aðstoðar. Þá eigi d- og e-liðir ekki við í tilfelli kæranda.
Kærandi er einstæð móðir barns á fyrsta ári. Hún fékk greitt úr fæðingarorlofssjóði þar til í lok febrúar á þessu ári og fékk fjárhagsaðstoð sem uppbót á greiðslur Fæðingarorlofssjóðs að viðmiðunarmörkum fjárhagsaðstoðar frá Reykjavíkurborg. Þá hefur verið upplýst að kærandi á íbúð og bíl. Kærandi var í sjúkraliðanámi í C og átti stutt eftir til námsloka, en það nám er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna og hefði kærandi getað sótt um námslán. Hún kaus að skipta um námsbraut og ljúka stúdentsprófi sem er ekki lánshæft.
Eins og fram kom í svari kærða, hefur 18. gr. reglna Reykjavíkurborgar að geyma heimild til að veita styrk, en ekki skyldu. Að áliti úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála hefur ekki verið hnekkt því mati starfsmanna Reykjavíkurborgar að kærandi eigi við mikla félagslega erfiðleika að stríða og uppfylli því ekki a- og b-liði 18. gr. framangreindra reglna Reykjavíkurborgar. Þá er af hálfu úrskurðarnefndarinnar fallist á að ekki sé ómálefnalegt að telja að kærandi uppfylli ekki, eins og hér stendur á, skilyrði c-liðar reglnanna, enda verður ekki séð að kærandi hafi ekki tök á því að vinna með skóla eða að hún muni flosna upp úr námi komi ekki til námsstyrks. Aðrir liðir 18. gr. reglnanna koma ekki til skoðunar.
Hin kærða ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar er staðfest.
Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir, formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.
Úrskurðarorð
Ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 25. október 2011 í máli A er staðfest.
Ása Ólafsdóttir,
formaður
Margrét Gunnlaugsdóttir Gunnar Eydal