Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 5/2012

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

 

Miðvikudaginn 27. júní 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 5/2012:

 

A

gegn

félagsmálanefnd B

 

og kveðinn upp svohljóðandi 

 

ÚRSKURÐUR

Með kæru C, réttindagæslumanns fatlaðs fólks á D, fyrir hönd A, dags. 3. janúar 2012, var skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála úrskurði Félags- og skólaþjónustu B frá 4. október 2011. Með þeirri ákvörðun var synjað beiðni kæranda um að hún fái að nýta sér stuðning og meðferð E, sálfræðings og sérfræðings í málefnum fólks með F. Fram kemur í hinni kærðu ákvörðun að telja verði að Félags- og skólaþjónusta B geti mætt þörfum kæranda fyrir sálfræðiþjónustu. Kæranda standi til boða þjónusta sálfræðings stofnunarinnar, þjónusta ráðgjafa og þroskaþjálfa fólks með fatlanir ásamt og þjónusta annars starfsfólks.

Kærandi krefst þess að hún fái áfram að nýta sér þá sálfræðiþjónustu sem E hafi veitt áður en málefni fatlaðra hafi færst yfir til sveitarfélaga og hún sé með sama hætti hjá Félags- og skólaþjónustu B líkt og hafi verið fyrir yfirfærslu.

 

I. Málavextir.

Kærandi er með F vegna áverka sem hún fékk í bílslysi. Fram kemur að kærandi hafi verið í tengslum við F-teymi G frá 2006. Hún hafi tvisvar sinnum verið lögð þar inn, sótt fræðslufundi og verið í eftirfylgdarviðtölum.

E, sálfræðingur og sérfræðingur í F, veitti kæranda sértæka sálfræðiþjónustu þegar hún starfaði að málefnum fatlaðra á D. Þegar málaflokkurinn var færður til sveitarfélaga féll þjónustan niður, en kæranda hafi verið boðin sálfræðiþjónusta annars sálfræðings sem starfi á vegum B.

 

II. Málsástæður kæranda.

Kærandi sóttist eftir því að njóta þjónustu E eins og var áður hjá svæðisskrifstofunni, en fram kemur í kæru til úrskurðarnefndarinnar að þeirri beiðni hafi verið hafnað. Félags- og skólaþjónusta B hafi bent á að nýta ætti þjónustu sálfræðings sem starfi hjá þeim sem ráðinn hafi verið þegar málaflokkurinn færðist yfir til sveitarfélaga, ásamt öðrum starfsmönnum sem sinntu málaflokknum, þar sem sú þjónusta ætti að þjóna þeim þörfum sem óskað væri eftir. Þeir aðilar sem komi að F-teymi kæranda og hún sjálf telji að sú þjónusta sé hins vegar ekki fullnægjandi fyrir þarfir hennar og fjölskyldu hennar.

Sérfræðiþjónustan sem E hafi veitt, hafi bætt líf kæranda töluvert í mjög jákvæða átt. Telji sérfræðingar sem talað hafi verið við að sú þjónusta hafi gefið kærandi meiri færni og getu í daglegu lífi. Sé það mat H læknis að kærandi þyrfti áframhaldandi þjónustu frá E vegna sértækrar þekkingar hennar á F þar sem það hefði skilað bestum árangri í bættu lífi kæranda eftir slysið.

Kærandi vísar til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í þessu sambandi þar sem mikilvægt sé að einstaklingar fái þá þjónustu sem besti sinni þörfum þeirra og styðji þá til eðlilegs lífs og fullrar þátttöku í samfélaginu og til aga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, þar sem fjallað sé um almenna þjónustu og stoðþjónustu í III. og IV. kafla laganna.

Í bréfi J félagsráðgjafa, dags. 21. júní 2011, kemur fram að meðferð, stuðningur, fræðsla og ráðgjöf við fólk með F eigi að beinast jöfnum höndum að einstaklingnum sjálfum og hans nánasta nærumhverfi. Það sé mikilvægt að sá sem veiti meðferð og fræðslu hafi sérþekkingu og skilning á orsökum og afleiðingum F. Greining-, og frum- og framhaldsendurhæfing þurfi að eiga sér stað í sérhæfðu teymi sem síðan fræði og aðstoði við að byggja upp þjónustu og stuðning í nærumhverfi einstaklingsins. E sálfræðingur sé með sérþekkingu og reynslu í að aðstoða fólk með F. Hún hafi gert alla fræðslu og yfirfærslu á stuðningi og ráðgjöf til nærumhverfis kæranda auðveldari og árangursríkari. Í erindinu er lýst faglegu og skipulögðu samstarfi F-teymis við kæranda og tekið fram að sérþekking hennar á vanda fólks með F hafi haft jákvæð áhrif á líf og líðan kæranda. Hún höndli betur verkefni lífsins og í seinni tíð hafi hún þurft minni aðstoð frá sveitarfélaginu. Hún sé ekki lengur með heimilishjálp og stuðningsfjölskyldu fyrir dóttur sína. Innsæi hennar hafi aukist sem og færni í að leita stuðnings þegar á móti blási. Reglulegur og faglegur stuðningur E hafi þar skipt sköpum.

Kærandi gagnrýnir einnig meðferð málsins þar sem hún hafi ekki hlotið faglega umfjöllun í félagsmálanefnd sveitarfélagsins heldur hafi umsóknin verið lögð fyrir stjórn Félags- og skólaþjónustu B sem ekki fari með þess konar mál samkvæmt lögum um félagsþjónustu og megi því leiða líkur að því að mat á umsókninni sé ekki byggt á réttri greiningu umsóknaraðila fyrir umrædda þjónustu. Þá er einnig á því byggt að lykilatriði sé að horft sé til hagsmuna og þarfa kæranda og að ekki megi taka ákvarðanir um líf einstaklinga án samráðs við þá, og eingöngu út frá fjárhagslegum sjónarmiðum.

  

III. Málsástæður kærða.

Af hálfu Félags- og skólaþjónustu B er gerð grein fyrir því að fólki með fötlun á þjónustusvæði stofnunarinnar hafi síðla árs 2010 verið kynntar þær breytingar sem yrðu með yfirtöku sveitarfélagsins á málefnum fatlaðra frá svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra. Gerð hafi verið grein fyrir því að ráðinn hefði verið í heilt stöðugildi þroskaþjálfi og ráðgjafi í málefnum faltaðs fólks, auk þess sem stöðugildi sálfræðings í Félagsþjónustu félags- og skólaþjónustu B yrði aukið úr 50% starfi upp í 100% við áramótin 2010–2011. Þessar ráðstafanir hafi verið gerðar til að stofnunin gæti yfirtekið verkefni málaflokks fatlaðra.

Kærði gerir grein fyrir því að vegna mannabreytinga á haustdögum 2010 hafi E sálfræðingur verið fengin til þess að þjónusta kæranda áfram tímabundið þar til nýr sálfræðingur hæfi störf og var þar um að ræða janúar og febrúar 2011. Hafi sálfræðingurinn fallist á þetta. Í lok þessa tímabils hafi hún sett nýjan sálfræðing inn í málefni kæranda, en kærandi hafi haft vitneskju um það. Eftir áramótin 2010–2011 hafi komið fram hjá kæranda að hún vildi ekki flytja sig til annars sálfræðings heldur njóta þjónustu E áfram. Fram kemur í greinargerð kærða að sálfræðingur Félags- og skólaþjónustu B, K, hafi talið sig þess umkominn að veita kæranda sálfræðiþjónustu, auk þess sem hann væri reiðubúinn að taka þátt í samstarfsteymi G um málefni kæranda.

Varðandi meðferð málsins kemur fram af hálfu kærða að farið hafi verið með málið inn á fund stjórnar Félags- og skólaþjónustu B vegna þess að fjármál stofnunarinnar heyri undir stjórnina. Af hálfu kæranda hafi verið óskað eftir því að stofnunin réði E sálfræðing í viðbótarstarf við þau störf sem fyrir væru. Til slíkra ráðstafana sé og hafi ekki verið heimild í fjárhagslegri stjórnun Félags- og skólaþjónustu B enda ekki talin þörf á því. Ekki hafi verið veittar persónulegar upplýsingar um kæranda á vettvangi stjórnarinnar. Málið hafi hins vegar verið kynnt á fundum félagsmálanefndar.

  

IV. Niðurstaða.

Málskotsheimild kæranda er reist á 5. gr. a laga um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum, en í 1. mgr. greinarinnar kemur fram að fötluðum einstaklingi sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir um þjónustu sem teknar eru á grundvelli laganna til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort félagsmálanefnd B beri að veita kæranda þjónustu E sálfræðings í stað sálfræðings og annarra sérfræðinga sem starfa fyrir nefndina.

Fjallað er um réttindi fatlaðra í lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum. Markmið laganna er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Er tekið fram að við framkvæmd þeirra skuli tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá skulu stjórnvöld tryggja heildarsamtökum fatlaðs fólks og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni fatlaðs fólks. Í 4. gr. laganna kemur fram að sveitarfélög beri ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar, sem og kostnaði vegna hennar samkvæmt lögum þessum nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum. Þá hafa sveitarfélögin með höndum innra eftirlit með framkvæmd þjónustunnar, þar á meðal með framkvæmd samninga sem sveitarfélögin gera við rekstrar- eða þjónustuaðila um framkvæmd þjónustunnar.

Lög nr. 59/1992 veita sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita fötluðu fólki í samræmi við fyrrgreind markmið laganna og þær kröfur sem gerðar eru til aðgengis fatlaðra einstaklinga að þeirri þjónustu. Lögin gera ráð fyrir því að sveitarstjórnir setji sér reglur um framkvæmd aðstoðar við fatlað fólk í samræmi við reglur sveitarstjórnar. Gera lög nr. 59/1992 þannig ráð fyrir því að sveitarfélög hafi ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað hvers konar þjónustu þau veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir undir eftirliti ráðherra. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti. Samkvæmt 55. gr. laga um málefni fatlaðs fólks er sveitarstjórnum heimilt að setja reglur um þjónustu samkvæmt lögunum á grundvell þeirra og leiðbeinandi reglna ráðherra. B hefur ekki sett sér slíkar reglur.

Samkvæmt 5. gr. laga um málefni fatlaðs fólks á einstaklingur rétt á þjónustu þar sem hann kýs að búa. Sveitarfélag þar sem fatlaður einstaklingur á lögheimili tekur ákvarðanir um þjónustu við hann samkvæmt lögunum nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum. Félags- og skólaþjónusta B hefur boðið kæranda þjónustu tiltekins sálfræðings sem starfar hjá stofnuninni. Kærandi óskar að halda þeim sálfræðingi sem veitti henni þjónustu fyrir yfirfærslu málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Félags- og skólaþjónusta B bendir á að stofnunin hafi á að skipa nauðsynlegum sérfræðingum til að sinna þörfum kæranda og að ekki séu til fjármunir til þess að kosta annan sálfræðing.

Hin kærða ákvörðun sýnist á því byggð að til þess að sinna sálfræðiþjónustu við kæranda hafi verið ráðinn sálfræðingur sem eigi að geta veitt þá nauðsynlegu þjónustu sem kærandi hafi þörf fyrir. Fyrir liggur að kæranda hafi verið tilkynnt um breytta þjónustu við yfirfærslu málaflokksins í aðdraganda þess að málefni fatlaðs fólks fluttist yfir til sveitarfélaga, um áramótin 2010–2011. Hins vegar nýtur engra gagna við um þá tilkynningu í málinu, en þetta má ráða af svari Félags- og skólaþjónustu B. Hin kærða ákvörðun lýtur að því að kærandi fái notið áfram þjónustu tiltekins sálfræðings, með sérþekkingu á því sviði sem um teflir, og var hún send Félags- og skólaþjónustu B til meðferðar. Hefur því erindi verið hafnað þar sem ekki hafi verið talið að hægt væri að mæta sértækum vanda kæranda, en kæranda stæði til boða þjónusta sálfræðings stofnunarinnar, þjónusta ráðgjafa og þroskaþjálfa fólks með fatlanir ásamt þjónustu annars starfsfólks.

Kærandi hefur sóst eftir sértækri sálfræðiþjónustu en fengið þau svör að henni standi einungis til boða sálfræðiþjónusta sálfræðings sem ráðinn hefur verið til starfa fyrir kærða. Hefur kærandi, og réttargæslumaður á hennar vegum, vísað til ákvæðis 8. gr. laga um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992, þar sem fram kemur að veita skuli fötluðu fólki þjónustu sem miði að því að gera því kleift að lifa og starfa í eðlilegu samfélagi við aðra, og skuli veita þá þjónustu á hverju svæði með þeim hætti sem best hentar á hverjum stað. Þá kemur fram í ákvæðinu að hún eigi að miðast við þarfir fatlaðs fólks og þar meðal þarfa fatlaðs fólks fyrir sálfræðiþjónustu, ráðgjöf, félagslegan stuðning og félagslegt samneyti.

Svo sem greinir að framan hefur kærði ekki sett sér sérstakar reglur um þá þjónustu sem veitt er á grundvelli laga nr. 59/1992. Hann ber þó ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum hennar, sem og kostnaði vegna hennar, eins og fram kemur í 1. mgr. 4. gr. laganna. Meðal þess sem líta verður til við ákvörðun um veitingu þjónustu við fatlað fólk er þörf þess fyrir slíka þjónustu. Í 1. mgr. 5. gr. laganna kemur fram að fatlaður einstaklingur eigi rétt til að njóta þjónustu þar sem hann býr og komi fram umsókn um slíka þjónustu skal skv. 3. mgr. 5. gr. laganna meta þá umsókn af teymi fagfólks, sem meti heildstætt þörf fatlaðs einstaklings fyrir þjónustuna og jafnframt hvernig koma megi til móts við óskir hans. Slíkt mat hefur ekki farið fram á umsókn kæranda, en að áliti úrskurðarnefndarinnar hefði átt að beina umsókn kæranda í slíkt ferli eftir að hún barst kærða. Málið hefur ekki verið rannsakað nægilega og ekki verður bætt úr þessum annmarka fyrir úrskurðarnefndinni. Auk þess er ekki svo að sjá að félagsmálanefnd B hafi fjallað um mál þetta. Er málinu því vísað aftur til kæranda og lagt fyrir hann að taka erindi kærða fyrir og að taka ákvörðun í máli kæranda að nýju.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.


Úrskurðarorð

 

Ákvörðun félagsmálanefndar B frá 5. október 2011 í máli A er felld úr gildi og málinu vísað heim til nýrrar meðferðar að nýju.

  

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                                          Gunnar Eydal

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta