Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 58/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 58/2020

Fimmtudaginn 14. maí 2020

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 31. janúar 2020, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 29. janúar 2020, á umsókn hans um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. janúar til 31. maí 2020.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 12. desember 2019, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. janúar til 31. maí 2020. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dagsettu sama dag, með þeim rökum að hún samræmdist ekki ákvæði 15. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi þann 29. janúar 2020 og staðfesti synjunina.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 31. janúar 2020. Með bréfi, dags. 4. febrúar 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir afriti af hinni kærðu ákvörðun. Sú beiðni var ítrekuð 17. febrúar 2020 og barst hin kærða ákvörðun daginn eftir. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. febrúar 2020, var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 27. mars 2020, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. apríl 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá aðstæðum sínum og sögu síðastliðinna ára og tekur fram að honum hafi verið synjað um námslán þar sem hann væri á vanskilaskrá. Kærandi gangi nú betur að læra en áður og hann sé að reyna að koma sér aftur út í lífið. Kærandi hafi séð fyrir sér að vera í námi vorið 2020, fara í vinnu um sumarið og hætta þá á framfærslu hjá Reykjavíkurborg. Síðan að halda áfram í skóla um haustið með vinnu en hann sjái ekki að hann geti haldið vinnu með skóla þar sem hann sé óvinnufær. Nú sjái kærandi fram á að þurfa að hætta í skóla til að vera á fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg. Hann óski því eftir að fá að vera á námsstyrk þar sem hann geti hvorki borgað leigu né framfært sjálfan sig. 

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að kærandi hafi byrjað aftur í námi í janúar 2020 eftir hlé en áður hafi hann lokið tveimur og hálfu ári á Xbraut við B. Kærandi hafi sótt um námsstyrk vorið 2020 en verið synjað þar sem nám hans væri lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

Reykjavíkurborg vísar til þess að í 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga sé kveðið á um að sveitarstjórn skuli setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar. Meðferð þeirrar umsóknar sem hér um ræði hafi farið samkvæmt reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg með áorðnum breytingum sem hafi tekið gildi þann 1. janúar 2011 og verið samþykktar í velferðarráði Reykjavíkurborgar þann 17. nóvember 2010 og í borgarráði 25. nóvember 2010. Í 1. gr. reglnanna segi að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geti séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, sbr. III. kafla reglna um fjárhagsaðstoð. Í 2. gr. reglnanna sé áréttað að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára, sbr. 19. gr. laga nr. 40/1991.

Reykjavíkurborg tekur fram að í lögum nr. 40/1991 sé ekki að finna ákvæði sem skyldi sveitarfélög til að framfæra einstaklinga sem leggi stund á lánshæft nám. Samkvæmt 12. gr. laganna skal sveitarfélag tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og sínum en aðstoð skuli vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Almennt sé gert ráð fyrir að einstaklingar sem leiti eftir fjárhagsaðstoð séu í atvinnuleit en leggi ekki stund á nám. Gera verði þá kröfu að einstaklingar hugi að framfærslu sinni og þeirra sem þeim beri lögum samkvæmt skylda til að framfæra. Fjárhagsaðstoð sé öryggisnet til þrautavara, þ.e. tímabundið úrræði og neyðarráðstöfun til þess að forða þeim einstaklingum og fjölskyldum frá örbirgð sem ekki eigi neinna annarra kosta völ til þess að eiga í sig og á.

Í 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg komi fram að heimilt sé að veita námsstyrki í eftirfarandi tilvikum. Aðstoðin miðist við fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt 11. gr. reglnanna ásamt almennum skólagjöldum, innritunarkostnaði og bókakostnaði:

a) til einstaklinga á aldrinum 18–24 ára, sem ekki hafa lokið grunnskóla eða framhaldsskóla og hafa átt við mikla félagslega erfiðleika að stríða.

b) til einstæðra foreldra á aldrinum 18–24 ára, sem ekki hafa lokið grunnskóla eða framhaldsskóla og haft hafa atvinnutekjur sem eru lægri en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar, sbr. 1. mgr. 11. gr. reglna þessara, undanfarna tólf mánuði. Skilyrði er að umsækjandi hafi átt í félagslegum erfiðleikum.

c) til einstaklinga á aldrinum 18-24 ára sem ekki hafa lokið framhaldsskóla og eiga eftir ólokið að hámarki tvær annir. Um sé að ræða einstakling sem ekki hefur tök á að vinna með skóla og fyrir liggur mat á því að ef ekki komi til aðstoðar sé ljóst að viðkomandi flosni upp úr námi.

d) til einstaklinga sem hafa verið atvinnulausir án bótaréttar eða þegið fjárhagsaðstoð í sex mánuði eða lengur og hafa ekki lokið grunnnámi sem gefur rétt á námsláni.

e) Heimilt er að veita tekjulágum foreldrum fjárstyrk vegna náms 16 og 17 ára barna þeirra. Hér er átt við tekjulága foreldra sem átt hafa í langvarandi félagslegum erfiðleikum.

Leggja þarf inn umsókn tveimur mánuðum áður en nám hefst nema hvað varðar c-lið.

Ljóst sé að aðstæður kæranda falli eigi að skilyrðum 18. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg. Kærandi falli ekki undir a., b. eða c. liði 18. gr. þar sem hann sé X ára gamall, en framangreindir stafliðir 18. gr. geri kröfu um að umsækjandi sé á aldrinum 18-24 ára. Kærandi sé á fjárhagsaðstoð og falli undir d. lið hvað það varðar. Aftur á móti hafi kærandi lokið grunnnámi sem gefi rétt á námsláni og uppfylli því ekki skilyrði d. liðar. Þá eigi e. liður ekki við í máli kæranda.

Í 15. gr. reglna um fjárhagsaðstoð sé skýrt kveðið á um það að þeir einstaklingar sem stundi nám sem sé lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna njóti ekki réttar til fjárhagsaðstoðar. Í máli þessu hafi verið litið til þess að kærandi hafi lokið tveimur og hálfu ári á Xbraut og hyggist nú klára nám sitt. Kærandi stundi því nám sem sé lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Ekki liggi fyrir staðfesting á því að kærandi sé á vanskilaskrá og því teljist hann uppfylla skilyrði Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir námslánum. Samkvæmt reglum Lánasjóðs íslenskra námsmanna geti námsmenn á vanskilaskrá átt rétt á námslánum ef þeir veiti tryggingu fyrir lánunum, svo sem í formi ábyrgðarmanns, en ekki liggi heldur fyrir staðfesting á því að kærandi hafi ekki ábyrgðarmann, ef þess gerist þörf. Það hafi verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs að skilyrði 18., sbr. 15. gr. reglna um fjárhagsaðstoð væru ekki uppfyllt. 

Samkvæmt framansögðu sé ljóst að ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð, sbr. 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, né öðrum ákvæðum laga nr. 40/1991, með síðari breytingum.

IV.  Niðurstaða

Kærð er synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. janúar til 31. maí 2020 með vísan til 15. gr. reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 1. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er kveðið á um inntak fjárhagsaðstoðar. Þar kemur fram í 1. mgr. að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Samkvæmt 15. gr. reglnanna njóta einstaklingar sem stunda nám sem er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna ekki réttar til fjárhagsaðstoðar. Aðrir námsmenn eiga ekki rétt til fjárhagsaðstoðar til framfærslu nema fullnægt sé skilyrðum 18. gr. um námsstyrki/lán vegna náms sem óumdeilt er að eiga ekki við í málinu. Eftir stendur þá mat á því hvort kærandi uppfyllir skilyrði 15. gr. reglnanna. Kærandi stundar lánshæft nám en hefur vísað til þess að hann sé á vanskilaskrá og því eigi hann ekki rétt á námslánum. Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur komið fram að ekki liggi fyrir staðfesting á því að kærandi sé á vanskilaskrá. Þá geti námsmenn á vanskilaskrá átt rétt á námslánum ef þeir veiti tryggingu fyrir lánunum, svo sem í formi ábyrgðarmanns, sbr. reglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Ekki liggi heldur fyrir staðfesting á því að kærandi hafi ekki ábyrgðarmann. 

Af gögnum málsins má ráða að Reykjavíkurborg kannaði ekki sérstaklega hvort kærandi ætti rétt á námslánum og gaf honum ekki kost á að leggja fram gögn hvað það varðar, svo sem staðfestingu á því að hann væri á vanskilaskrá. Hin kærða ákvörðun virðist einungis byggð á því að kærandi stundi lánshæft nám, án frekari skoðunar á aðstæðum hans. Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga hvílir sú skylda á stjórnvaldi að sjá til þess að eigin frumkvæði að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Markmið rannsóknarreglunnar er að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar. Með því að synja kæranda um fjárhagsaðstoð á grundvelli 15. gr. framangreindra reglna án þess að meta aðstæður hans sérstaklega og kanna hvort hann gæti framfært sjálfan sig er þeirri skyldu ekki fullnægt. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 29. janúar 2020, um synjun á umsókn A um námsstyrk fyrir tímabilið 1. janúar til 31. maí 2020 er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar sveitarfélagsins.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

                                                                                                                                                                                             Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta