Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 67/2013

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                           

Á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála þann 7. maí 2014 var tekið fyrir mál nr. 67/2013:

 

Kæra A

á ákvörðun

Íbúðalánasjóðs

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 25. nóvember 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 6. nóvember 2013, um synjun á umsókn kæranda um greiðsluerfiðleikaaðstoð.

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærandi sótti um greiðsluerfiðleikaaðstoð hjá Íbúðalánasjóði og óskaði eftir frystingu lána. Umsókn kæranda var synjað á þeim grundvelli að miðað við forsendur greiðsluerfiðleikamats, sem unnið var hjá Landsbankanum, var greiðslugeta ekki nægjanleg hvorki meðan úrræðum væri beitt né að úrræðum loknum.

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 28. nóvember 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir afstöðu Íbúðalánasjóðs til málsins, upplýsingum um meðferð þess hjá sjóðnum og öllum gögnum. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 11. desember 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 18. desember 2013, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 27. desember 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 28. janúar 2014, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst.

III. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að synjun Íbúðalánasjóðs verði dregin til baka og honum veittur eins árs frestur til að borga skuldir og gera ráðstafanir til að minnka greiðslubyrði svo hann ráði við að borga af húsnæðinu eftir að frysting renni út árið 2015. Kærandi kveðst vera í háskólanámi sem sé lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hann sé búinn að sækja um lán, síðustu verkefnum annarinnar sé að ljúka og ekkert ætti að koma í veg fyrir að hann fái lánin eins og aðrir. Þetta sé lykilatriði sem ekki komi fram í útreikningum Landsbankans. Námslán sem hann fái í janúar 2014 og júní 2014 séu greiðslur að fjárhæð 1.350.000 krónur sem bætist ofan á útreikninga um mánaðarlegar tekjur. Með þeim ætli kærandi að greiða upp lán í B, minna lán hjá Íbúðalánasjóði og bílalán samtals að fjárhæð 940.000 krónur. Með því að borga lánin upp í áföngum árið 2014 og selja bíl sinn aukist greiðslugeta hans um 92.000 krónur á mánuði fyrir árið 2015 ásamt því að árið 2015 eigi hann rétt á sömu námslánum sem styrki framfærslugrundvöll hans enn frekar og þar með séu komnir raunhæfir möguleikar á því að byrja að borga af lánunum á ný. Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Íbúðalánasjóðs ítrekar kærandi framangreind sjónarmið.

IV. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

Í greinargerð Íbúðalánasjóðs vegna málsins kemur fram að synjun sjóðsins byggi á greiðslumati Landsbankans, dags. 5. nóvember 2013, þar sem fram komi að greiðslubyrði kæranda eftir frestun rúmist ekki innan greiðslugetu hans og þar með hafi Íbúðalánasjóði borið að synja um frystingu, sbr. 4. og 5. gr. reglugerðar nr. 584/2001 um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs. Úrræði sjóðsins dugi ekki til að leysa vanda kæranda samkvæmt mati Landsbankans á aðstæðum kæranda en sjóðurinn hafi bent kæranda á að leita til umboðsmanns skuldara vegna greiðsluvandans.

V. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda. Í málinu er ágreiningur um hvort Íbúðalánasjóði hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um greiðsluerfiðleikaaðstoð.

Samkvæmt 2. mgr. 48. gr. laga um húsnæðismál er stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt að fresta greiðslum hjá einstökum lánþegum vegna almennra lána, viðbótarlána og lána sem sjóðurinn hefur yfirtekið í allt að þrjú ár og leggja þær greiðslur við höfuðstól skuldarinnar, þyki slík aðstoð líkleg til að koma í veg fyrir greiðsluvanda. Er þar gert að skilyrði að greiðsluvandi stafi af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu eða atvinnuleysis eða af öðrum ófyrirséðum atvikum. Samkvæmt 8. mgr. 48. gr. laganna setur ráðherra nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins að fengnum tillögum stjórnar Íbúðalánasjóðs.

Í 4. gr. reglugerðar um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, nr. 584/2001, er að finna skilyrði fyrir greiðsluerfiðleikaaðstoð. Þar segir í 1. tölul. 4. gr. að heimilt sé að veita greiðsluerfiðleikaaðstoð stafi greiðsluerfiðleikar af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu, atvinnuleysi eða af öðrum ófyrirséðum atvikum. Þá segir í 4. tölul. 1. mgr. að skilyrði greiðsluerfiðleikaaðstoðar sé að greiðslubyrði umsækjanda eftir skuldbreytingu og/eða frestun á greiðslum og/eða lengingu lánstíma rúmist innan greiðslugetu. Um er að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir úrræðinu sem sótt er um. Samkvæmt greiðsluerfiðleikamati, sem unnið var af Landsbankanum og liggur fyrir í málinu, yrði staða kæranda eftir lok greiðsluerfiðleikaaðstoðar neikvæð og greiðslubyrði hans myndi því ekki rúmast innan greiðslugetu.

Í greiðsluerfiðleikamati Landsbankanum frá 5. nóvember 2013 kemur fram að mánaðarleg útgjöld kæranda hafi verið 231.508 krónur. Fjárhagsleg staða kæranda við gerð matsins var þannig að mánaðarlegar tekjur hans námu 231.508 krónum, mánaðarleg útgjöld 171.382 krónum og greiðslugeta því 60.126 krónur. Mánaðarleg greiðslubyrði kæranda næmi 105.960 krónum og fjárþörf kæranda var því 45.834 krónur umfram raunverulega greiðslugetu. Í greiðslumatinu var enn fremur farið yfir áætlaða stöðu kæranda á meðan úrræðunum yrði beitt og var miðað við að mánaðarlegar tekjur hans væru 231.508 krónur, mánaðarleg útgjöld 171.382 krónur og greiðslugeta því 60.126 krónur. Mánaðarleg greiðslubyrði kæranda næmi 41.932 krónum og afgangur væri því 18.194 krónur. Við lok úrræða var gert ráð fyrir að mánaðarlegar tekjur kæranda yrðu 231.508 krónur, mánaðarleg útgjöld 171.382 krónur og greiðslugeta því 60.126 krónur. Mánaðarleg greiðslubyrði kæranda eftir lok úrræða næmi 111.166 krónum og fjárþörf því 51.040 krónur umfram raunverulega greiðslugetu. Því myndi greiðslubyrði kæranda eftir frestun á greiðslum ekki rúmast innan greiðslugetu. Kærandi hefur bent á að hann sé námsmaður og gerir athugasemd við að námslán séu ekki reiknuð honum til tekna í greiðsluerfiðleikamati Landsbankans. Í greiðsluerfiðleikamati Landsbankans frá 5. nóvember 2013 er lagt til grundvallar að mánaðartekjur kæranda séu vaxtabætur að fjárhæð 33.333 krónur, greiðslur frá Tryggingastofnun að fjárhæð 176.175 krónur og greiðslur frá Lánasjóði íslenskra námsmanna að fjárhæð 22.000 krónur. Kærandi hefur lagt fram lánsáætlun frá Lánasjóðnum, dags. 24. nóvember 2013, þar sem áætlað er að kærandi fái námslán að fjárhæð 765.900 krónur fyrir haustönn 2013 og 825.900 krónur fyrir vorönn 2014. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að ekki verði séð að tekið hafi verið tillit til framangreindrar áætlunar vegna láns frá Lánasjóði íslenskra námsmanna við mat á greiðsluerfiðleikum kæranda. Hin kærða ákvörðun verður því felld úr gildi og lagt fyrir Íbúðalánasjóð að taka mál kæranda til löglegrar meðferðar.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 6. nóvember 2013, um synjun á umsókn A um greiðsluerfiðleikaaðstoð, er felld úr gildi og lagt fyrir Íbúðalánasjóð að taka mál kæranda til löglegrar meðferðar.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir

Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta