Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 89/2012.

 

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                              

 

Miðvikudaginn 28. ágúst 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 89/2012:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

Fljótsdalshéraðs

 

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hefur vegna ólögráða sonar B, hér eftir nefnd kærandi, með kæru, dags. 4. nóvember 2012, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs, dags. 20. september, á beiðni um húsaleigubætur. Synjunin byggðist á því að sonur kæranda hafi ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 4. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, þar sem nám hans hafi ekki verið utan þess sveitarfélags sem hann var með skráð lögheimili. Krafa kæranda byggir á því að synjunin eigi sér ekki beina stoð í lögum og sé brot á jafnræðisreglu stjórnarskrár.

 

 

I. Málavextir og málsmeðferð

 

Sonur kæranda stundar nám við Menntaskólann á Egilsstöðum og leigir herbergi á heimavist skólans. Hann er með lögheimili hjá foreldrum sínum að C sem er í 50 km fjarlægð frá Egilstöðum en er með skráð aðsetur á heimavist skólans, við D.

 

Kærandi leitaði til Fljótsdalshéraðs til þess að leggja fram umsókn um húsaleigubætur fyrir son sinn. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda var áhersla lögð á að sonur kæranda undirritaði umsóknina. Sonur kæranda sótti því um húsaleigubætur hjá Fljótsdalshéraði með umsókn, dags. 14. september 2012, en þá var hann 15 ára gamall. Umsókninni var synjað með bréfi félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs, dags. 20. september 2012, með þeim rökum að skv. 4. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997, þurfi nemar að hafa aðsetursskipti til að eiga rétt á húsaleigubótum. Aðsetursskipti væru hins vegar óheimil innan lögheimilissveitarfélags. Sonur kæranda áfrýjaði synjuninni til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 11. október 2012, sem framsendi áfrýjunina til félagsmálanefndar á grundvelli 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Félagsmálanefnd Fljótsdalshéraðs tók málið fyrir á fundi sínum þann 15. október 2012 og samþykkti svohljóðandi bókun:

 

[…]Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga um húsaleigubætur nr. 138/1997 er það meginregla til að eiga rétt á húsaleigubótum verði leigjandi að eiga lögheimili í leiguhúsnæði. Með 2. mgr. 4. gr. sömu laga er gerð undantekning frá þessari meginreglu í tilfelli nema. Í greininni kemur þó fram að þessi undanþága gildir aðeins ef nám er stundað utan þess sveitarfélags sem viðkomandi var með lögheimili í við upphaf náms.

 

Í máli þessu háttar svo til að umsækjandi er með lögheimili á Fljótsdalshéraði en ekki í hinu leigða húsnæði. Með vísan til þessa hafnar félagsmálanefnd erindinu með vísan til framangreindra ákvæða í 4. gr. laga um húsaleigubætur nr. 138/1997 með síðari breytingum. Ákvörðunin er kæranleg sbr. 16. gr. laga nr. 138/1997, til Úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðimála, Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík. Kærufrestur er 3 mánuðir.

 

Niðurstaða félagsmálanefndar Fljótsdalshéraðs var tilkynnt syni kæranda með bréfi, dags. 16. október 2012. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 4. nóvember 2012, í nafni sonar síns enda hafi sveitarfélagið gert kröfu um að hann legði fram umsóknina. Með bréfi, dags. 7. nóvember 2012, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Fljótsdalshéraðs vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun um húsaleigubætur. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Fljótsdalshéraðs barst með bréfi, dags. 20. nóvember 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 27. nóvember 2012, var bréf Fljótsdalshéraðs sent syni kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust.

 

 

II. Málsástæður kæranda

 

Kærandi telur synjun Fljótsdalshéraðs á umsókn sonar síns um húsaleigubætur vera brot á jafnræðisreglu stjórnarskrár. Á heimavist skólans deili sonur hennar herbergi með einstaklingi sem sé frá E og eigi einnig lögheimili í 50 km fjarlægð frá skólanum. Eigi hann rétt á húsaleigubótum en ekki sonur hennar. Kærandi kveður Fljótsdalshérað vera víðfeðmasta sveitarfélag landsins og þeir íbúar sem lengst eigi að sækja, búi í um það bil 100 km fjarlægð frá Egilsstöðum. Í sveitarfélaginu sé lítið um almenningssamgöngur í dreifbýli og því sé ekkert athugavert við það að dreifbýlisbörn í Fljótsdalshéraði búi á heimavist skólans. Jafnframt telur kærandi lög um húsaleigubætur ekki vera skýr þegar kemur að þeim nemendum sem stunda nám og búa á heimavist í sama sveitarfélagi og þeir eiga sjálfir lögheimili. Þessa hóps sé hvergi getið sérstaklega í lögunum. Þeir nemendur hafi almennt ekki hærri tekjur en aðrir nemendur, þurfi ekki endilega að búa nær skólanum en aðrir nemendur sem fái bætur og ekki sé hægt að rökstyðja það á nokkurn hátt að kostnaður þeirra sé minni. Hvað varðar kröfur um lögheimili í leiguíbúð þá sé ekki hægt að eiga lögheimili á heimavist. Í lögunum sé þess víða getið að einstaklingur sem dvelji tímabundið á heimavist eða nemendagörðum vegna náms þurfi ekki að breyta lögheimili sínu. Að mati kæranda geti greiðsla húsaleigubóta til nemenda sem stunda nám innan heimasveitarfélags vel rúmast innan laganna og ekki sé raunhæft að hafna greiðslu bótanna með vísan til þeirra.

 

 


 

III. Sjónarmið Fljótsdalshéraðs

 

Að mati sveitarfélagsins uppfyllir sonur kæranda ekki skilyrði 4. gr. laga um húsleigubætur. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna sé það meginregla að réttur til húsaleigubóta sé bundinn því skilyrði að leigjandi verði að eiga lögheimili í leiguhúsnæði. Með 2. mgr. 4. gr. laganna sé gerð undantekning frá þeirri meginreglu í tilfelli nema. Í greininni komi þó fram að sú undanþága eigi eingöngu við um þá sem stunda nám utan þess sveitarfélags sem viðkomandi var með lögheimili í við upphaf náms.

 

 

IV. Niðurstaða

 

Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði hafi borið að samþykkja umsókn sonar kæranda, dags. 14. september 2012, um húsaleigubætur.

 

Úrskurðarnefndin telur í upphafi rétt að gera athugasemd við að sveitarfélagið hafi lagt málið í þann farveg að sonur kæranda hafi staðið að umsókn um húsaleigubætur. Þegar umsóknin var lögð fram þann 14. september 2012 var sonur kæranda 15 ára gamall. Var því um að ræða ólögráða einstakling, sbr. 1. mgr. 1. gr. lögræðislaga, nr. 71/1997, sem ekki var bær til að fara með raunveruleg umráð réttinda, hæfi til að stofna rétt sér til handa eða ráðstafa réttindum sínum. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. barnalaga, nr. 76/2003, á barn rétt á forsjá foreldra sinna, annars eða beggja, uns það verður sjálfráða og eru þeir forsjárskyldir við það. Forsjá barns felur meðal annars í sér rétt og skyldu fyrir foreldri til að ráða persónulegum högum barns og ákveða búsetustað þess. Þá fer forsjárforeldri enn fremur með lögformlegt fyrirsvar barns, sbr. 5. mgr. 28. gr. barnalaga. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að sonur kæranda hafi ekki haft hæfi til að sækja um húsaleigubætur sér til handa án aðkomu forsjáraðila. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til sveitarfélagsins að hafa framangreind sjónarmið um aðild til hliðsjónar við afgreiðslu sambærilegra mála. Úrskurðarnefndin tekur þó fram að af gögnum málsins verður ráðið að sonur kæranda naut aðstoðar hennar við gerð umsóknarinnar, kærandi lagði fram kæru í málinu og ritaði greinargerð með henni, þrátt fyrir að sonur kæranda hafi ritað undir flest skjölin. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að framangreindur annmarki hafi ekki haft slík áhrif á meðferð málsins að hann leiði til ógildingar ákvörðunarinnar.

 

Fljótsdalshérað hafnaði umsókn sonar kæranda um húsaleigubætur þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði 4. gr. laga um húsaleigubætur. Kærandi telur synjun Fljótsdalshéraðs á umsókn um húsaleigubætur vera brot á jafnræðisreglu stjórnarskrár. Jafnframt telur kærandi lög um húsaleigubætur ekki vera skýr þegar kemur að þeim nemendum sem stunda nám og búa á heimavist í sama sveitarfélagi og þeir eiga sjálfir lögheimili.

 

Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga um húsaleigubætur skulu sveitarfélög greiða húsaleigubætur og annast félagsmálanefndir sveitarfélaga að jafnaði afgreiðslu umsókna. Í 4. gr. laganna er fjallað um rétt til húsaleigubóta. Þar segir í 1. mgr. að þeir leigjendur eigi rétt á húsaleigubótum sem leigja íbúðarhúsnæði til búsetu og eiga þar lögheimili. Í 2. mgr. er síðan kveðið á um undanþágu frá þeirri reglu en þar segir að dveljist maður hérlendis við nám utan þess sveitarfélags þar sem hann átti lögheimili er námið hófst og á þar skráð aðsetur geti viðkomandi átt rétt til húsaleigubóta þrátt fyrir skilyrði 1. mgr. um lögheimili í leiguíbúð. Umsókn um bætur skal send því sveitarfélagi þar sem námsmaður á lögheimili óháð aðsetri.

 

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um lögheimili, nr. 21/1990, er lögheimili manns sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar er dvöl í heimavistarskóla ekki ígildi fastrar búsetu.

 

Samkvæmt 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, skulu stjórnvöld við úrlausn mála gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Er stjórnvöldum óheimilt að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða byggðum á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum.

 

Sonur kæranda er með lögheimili að C, sem tilheyrir sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði og er í um 50 km fjarlægð frá Menntaskólanum á Egilsstöðum. Egilsstaðir tilheyra sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði sem varð til 1. nóvember 2004 við sameiningu Austur-Héraðs, Fellahrepps og Norður-Héraðs. Sonur kæranda býr á heimavist Menntaskólans á Egilstöðum en hefur ekki heimild til að flytja lögheimili sitt þangað, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga um lögheimili. Þar sem sonur kæranda á ekki lögheimili í því íbúðarhúsnæði sem hann leigir uppfyllir hann því ekki skilyrði 1. mgr. 4. gr. laga um húsaleigubætur. Þá dvelst sonur kæranda við nám innan þess sveitarfélags þar sem hann átti lögheimili er námið hófst og uppfyllir hann því ekki skilyrði 2. mgr. 4. gr. laga um húsaleigubætur.

 

Stjórnvöldum er almennt skylt að reisa ákvarðanir sínar og athafnir á lögum og jafnframt er þeim óheimilt að aðhafast nokkuð sem er andstætt lögum. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að synjun sveitarfélagsins hafi átt sér skýra stoð í lögum um húsaleigubætur.

 

Kærandi telur synjun sveitarfélagsins vera brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Samkvæmt 64. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga fjallar úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála um málsmeðferð skv. XVI. kafla laganna, rétt til aðstoðar skv. IV. kafla laganna og hvort samþykkt þjónusta og fjárhæð fjárhagsaðstoðar er í samræmi við reglur viðkomandi sveitarstjórnar. Úrskurðarnefndin hefur ekki vald til endurskoðunar á stjórnskipulegu gildi laga en samkvæmt stjórnskipunarvenju eru slíku valdi eftirlátið dómstólum.

 

Telji kærandi að meinbugir séu á lögum um húsaleigubætur, nr. 138/1997, getur hann beint erindi sínu til umboðsmanns Alþingis, sbr. 4. gr. laga um umboðsmann Alþingis, nr. 85/1997. Í 11. gr. þeirra laga segir að verði umboðsmaður þess var að meinbugir séu á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum skuli hann tilkynna það Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn.

 

Almennt ber sveitarfélögum að gæta jafnræðis og samræmis við ákvörðun um fjárhagsaðstoð. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að ekkert hafi komið fram um að mat Fljótsdalshéraðs á aðstæðum kæranda hafi verið ómálefnalegt eða andstætt þeim reglum sem um það gilda. Með vísan til þessa ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Fljótsdalshéraðs.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Fljótsdalshéraðs, dags. 20. september 2012, um synjun á umsókn A, vegna ólögráða sonar hennar B, um húsaleigubætur er staðfest.

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir,

 

formaður

 

 

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir                Gunnar Eydal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta