Mál nr. 89/2021 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 89/2021
Fimmtudaginn 27. maí 2021
A
gegn
Reykjavíkurborg
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 9. febrúar 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 21. desember 2020, á umsókn hennar um styrk að fjárhæð 210.000 kr. vegna meðferðarkostnaðar.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsókn, dags. 14. desember 2020, sótti kærandi um styrk hjá Reykjavíkurborg að fjárhæð 210.000 kr. vegna meðferðarkostnaðar. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 18. desember 2020. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi þann 21. desember 2020 og staðfesti synjunina.
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 9. febrúar 2021. Með bréfi, dags. 19. febrúar 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 10. mars 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. mars 2021. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi óskar eftir því að ákvörðun Reykjavíkurborgar verði endurskoðuð. Kærandi sé í meðferð í B eftir að hafa verið heimilislaus og ef hún fái ekki þennan styrk þurfi hún að koma aftur til Íslands. Þetta sé í fyrsta skipti sem að kæranda hafi tekist að vera í meðferð eftir margar tilraunir á Íslandi og hún hafi því miður engan sem geti aðstoðað með að greiða fyrir meðferðina.
III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar
Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að kærandi hafi langa sögu um félagslega erfiðleika og hafi alist upp hjá einstæðri móður sem hafi glímt við fátækt og félagslega erfiðleika. Kærandi sé með greiningu um einhverfu, ADHD, kvíða og væga þroskahömlun. Frá 18 ára aldri hafi kærandi verið í mikilli neyslu fíkniefna, stundað afbrot og hafi verið heimilislaus um tíma. Það hafi verið mikil vinnsla með málefni kæranda hjá félagsráðgjafa á þjónustumiðstöð ásamt því að hún hafi fengið mikinn stuðning í gegnum Frú Ragnheiði og VoR-teymið. Kærandi hafi farið í meðferð til B þann 18. desember 2020.
Þann 14. desember 2020 hafi kærandi sótt um fjárhagsaðstoð til framfærslu á meðan á meðferð í B stæði, eða frá 1. desember 2020 til 31. maí 2021. Það hafi verið samþykkt, eftir framvindu meðferðar, samkvæmt hæsta einstaklingskvarða fjárhagsaðstoðar. Sá þáttur umsóknar kæranda sé ekki til umfjöllunar í þessu máli. Á sama tíma hafi kærandi einnig sótt um styrk að fjárhæð 210.000 kr. til greiðslu meðferðarkostnaðar, eða því sem nemi mismun á fjárhagsaðstoð (hæsta einstaklingskvarða) og meðferðargjöldum í þrjá mánuði.
Í a-lið 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg komi fram að heimilt sé að veita sérstaka aðstoð í málum þar sem verið sé að veita markvissan stuðning. Aðstoðin miði að því að viðhalda árangri sem hafi náðst með stuðningsvinnu. Skilyrði sé að umsækjandi eigi í miklum félagslegum erfiðleikum. Kærandi hafi óskað eftir styrk til greiðslu meðferðarkostnaðar en kostnaður vegna vímuefnameðferða falli ekki að a-lið 27. gr. þar sem um heilbrigðiskostnað sé að ræða. Aðstoð vegna heilbrigðiskostnaðar sé ekki hluti af félagsþjónustu sveitarfélaga heldur á ábyrgð ríkisins, sbr. lög um sjúkratryggingar nr. 112/2008. Sjúkratryggingar Íslands hafi sett sér verklagsreglur varðandi áfengis- og fíkniefnameðferð á stofnunum erlendis. Kostnaður vegna vímuefnameðferða falli því ekki að reglum Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Í vissum tilfellum sé einstaklingum, sem séu í meðferð erlendis, veitt undanþága frá reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg á þann hátt að fallið sé frá kröfum um virka atvinnuleit hér á landi eða þátttöku í virkniúrræðum hér á landi fyrir sjúkraskrifaða einstaklinga og fjárhagsaðstoð veitt meðan á meðferð erlendis standi. Slíkt hafi verið gert í máli kæranda með samþykkt á áfrýjunarfundi þann 21. desember 2020.
Af framangreindum ástæðum hafi velferðarráð talið að ekki kæmi til álita að veita umbeðinn styrk og því staðfest synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar. Samkvæmt framansögðu sé ljóst að ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð, sbr. 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, né öðrum ákvæðum laganna.
IV. Niðurstaða
Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjavíkurborg hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um styrk að fjárhæð 210.000 kr. vegna meðferðarkostnaðar.
Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.
Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.
Fyrir liggur að kærandi sótti um fjárhagsaðstoð til framfærslu á meðan á meðferð í B stæði, eða frá 1. desember 2020 til 31. maí 2021, og fékk hana samþykkta á grundvelli 10. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg samkvæmt hæsta einstaklingskvarða fjárhagsaðstoðar. Ágreiningur málsins snýr að viðbótarumsókn að fjárhæð 210.000 kr. vegna meðferðarkostnaðar. Í 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er kveðið á um sérstaka aðstoð vegna stuðningsvinnu og/eða annarra sérstakra aðstæðna. Samkvæmt a-lið 27. gr. er heimilt að veita sérstaka aðstoð í málum þar sem verið er að veita markvissan stuðning. Aðstoðin miðar að því að viðhalda árangri sem náðst hefur með stuðningsvinnu. Skilyrði er að umsækjandi eigi í miklum félagslegum erfiðleikum.
Umsókn kæranda var synjað á grundvelli þess að kostnaður vegna vímuefnameðferða falli ekki að a-lið 27. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð þar sem um heilbrigðiskostnað sé að ræða.
Greiðsla kostnaðar vegna heilbrigðisþjónustu er almennt ekki hluti af félagsþjónustu sveitarfélaga. Um þátttöku hins opinbera í kostnaðinum og takmarkanir á henni fer eftir lögum um sjúklingatryggingar nr. 112/2008, auk reglugerða og gjaldskráa settra á grundvelli laganna. Kostnaður vegna áfengis- og fíkniefnameðferða fellur því ekki undir reglur Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Að því virtu er hin kærða ákvörðun staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 21. desember 2020, um synjun á umsókn A, um styrk vegna meðferðarkostnaðar að fjárhæð 210.000 kr. á grundvelli a-liðar 27. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir