Mál nr. 19/2012
Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík
Miðvikudaginn 27. júní 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 19/2012:
A
gegn
velferðarráði Reykjavíkurborgar
og kveðinn upp svohljóðandi
ÚRSKURÐUR :
Með bréfi B, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 20. janúar 2012, var skotið til úrskurðarnefndarinnar ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar í máli A. Ákvörðunin varðaði synjun velferðarráðs frá 18. október 2011 um að veita kæranda akstursþjónustu á grundvelli 1., 2. og 8. gr. reglna um akstursþjónustu eldri borgara.
I. Málavextir.
Fyrir hönd kæranda sótti sonur hennar, B, um akstursþjónustu eldri borgara fyrir hana með umsókn, dags. 18. ágúst 2011. Umsókninni var synjað með bréfi Þjónustumiðstöðvar C, dags. 15. september 2011. Synjuninni var áfrýjað til velferðarráðs Reykjavíkurborgar sem staðfesti synjun starfsmanna um akstursþjónustu eldri borgara. Ákvörðun velferðarráðs var skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 18. ágúst 2011.
Í umsókn um akstursþjónustu kemur fram að kærandi notar hjólastól og/eða göngugrind og að hún eigi erfitt með hreyfingu vegna öldrunar. Óskað var eftir fimm til tíu ferðum á mánuði í tólf mánuði.
Kærandi er fædd 8. október 1918 og er því 93 ára gömul. Hún dvelur á hjúkrunar- og dvalarheimilinu E. Sótt er um akstursþjónustu fyrir eldri borgara til þess að kærandi eigi möguleika á að komast leiðar sinnar, svo sem til jarðarfara og í veislur.
II. Málsástæður kæranda.
Í kæru sonar kæranda, B, dags. 20. janúar 2012, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er þess farið á leit að málið verði tekið fyrir hjá úrskurðarnefndinni meðal annars á þeim forsendum að kærandi hafi verið með slíka þjónustu áður, en hún hafi reyndar örsjaldan nýtt sér hana. Kærandi komist ekki ferða sinna nema í hjólastól. Svo virðist vera að þegar eldri borgarar dvelji á elliheimili renni lífeyrir þeirra þar með til stofnunarinnar, fyrir utan rúmlega 20.000 kr. sem kallist vasapeningar frá Tryggingastofnun. Vistmenn á slíkum heimilum hafi ekki möguleika á að sækja um slíka akstursþjónustu, heldur sé þeim bent á leigubílastöðvar sem sjái vissulega um akstur fyrir fólk bundið í hjólastóla. Vasapeningar mánaðarins hrökkvi þó skammt fyrir slíkri akstursþjónustu.
Þess er farið á leit að umsókn kæranda verði endurskoðuð og hún fái möguleika á að ferðast, svo sem til jarðarfara og í veislur. Verði umsóknin ekki samþykkt er óskað ábendinga um það hvernig kona á tíræðisaldri eigi að snúa sér í þessum málum.
III. Sjónarmið kærða.
Í greinargerð Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, dags. 15. febrúar 2012, er vísað til þess að í X. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, sé ákvæði er lúti að þjónustu við aldraða sem sveitarfélögum beri að veita. Framangreind löggjöf um félagsþjónustu sveitarfélaga tilgreini þá lágmarksþjónustu sem sveitarfélögum beri að veita en sveitarfélögum sé svo í sjálfsvald sett hvort þau veiti meiri þjónustu en lögin kveði á um. Akstursþjónusta aldraðra sé ekki lögboðin þjónusta ólíkt því sem gildi um ýmsa aðra þjónustu, svo sem fjárhagsaðstoð og félagslega heimaþjónustu, sbr. lög nr. 40/1991. Akstursþjónusta aldraðra sé þjónusta sem Reykjavíkurborg hafi ákveðið að veita og í því skyni hafi Reykjavíkurborg sett reglur um akstursþjónustu eldri borgara í Reykjavík.
Í 1. gr. reglna um akstursþjónustu eldri borgara, sem samþykktar voru í velferðarráði 19. október 2005 og í borgarráði 24. nóvember 2005, með síðari breytingum, komi fram að markmiðið með akstursþjónustu eldri borgara sé að gera eldri borgurum í Reykjavík kleift að búa lengur heima. Umrætt ákvæði sé í samræmi við 1. mgr. 38. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem fram komi að sveitarstjórn skuli stuðla að því að aldraðir geti búið við eðlilegt heimilislíf í umgengni við aðra svo lengi sem verða megi. Í 2. gr. reglna um akstursþjónustu eldri borgara komi síðan meðal annars fram að akstursþjónusta eldri borgara sé fyrir þá íbúa Reykjavíkur sem séu 67 ára eða eldri, búi sjálfstætt og séu ófærir um að nota almenningssamgöngur vegna langvarandi hreyfihömlunar og hafi ekki aðgang að eigin farartæki. Að öllu jöfnu sé um að ræða akstursþjónustu í læknisheimsóknir og skipulagða endurhæfingu og/eða félagsstarf sem sé til þess fallin að rjúfa félagslega einangrun.
Í erindi kærða er einnig vísað til þess að í 8. gr. reglna um akstursþjónustu eldri borgara komi einnig fram að reglurnar gildi ekki um akstursþjónustu fyrir aldraða sem séu á stofnunum, svo sem hjúkrunarheimilum, og þurfi að leita þjónustu utan stofnunarinnar, svo sem sérfræðilæknishjálpar, rannsókna og sjúkraþjálfunar, sbr. ákvæði 14. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999, þar sem fram komi að slíkum stofnunum beri að tryggja að þar sé veitt hjúkrunar- og læknisþjónusta auk endurhæfingar.
Velferðarráð telji ljóst að úr því reglurnar gildi ekki um þessi erindi, sem hljóti að teljast mjög brýn, gildi þær því síður um ferðir vistmanna í heimsóknir til ástvina, í jarðarfarir sem og til ýmissa einkaerinda. Þar sem kærandi dvelji á hjúkrunar- og dvalarheimili fyrir aldraða sé ljóst að hann teljist vera á stofnun í skilningi 8. gr. reglna um akstursþjónustu eldri borgara, sbr. og 14. gr. laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999.
Velferðarráð líti einnig svo á að þegar einstaklingur getur ekki lengur búið við eðlilegt heimilislíf, heldur þurfi að dvelja á heilbrigðisstofnun, þjóni það ekki lengur markmiði reglnanna að veita honum akstursþjónustu. Akstursþjónusta geri viðkomandi þá ekki kleift að búa við eðlilegt heimilislíf. Kærandi í máli þessu dvelji nú á hjúkrunar- og dvalarheimili fyrir aldraða og að mati velferðarráðs sé ekki unnt að líta svo á að dvöl á hjúkrunarheimili geti talist sjálfstætt heimilishald. Þá sé akstursþjónustu aldraðra ekki ætlað að aðstoða þá sem búi á hjúkrunarheimilum við að komast sinna erinda heldur sé tilgangur og markmið reglnanna að gera öldruðum kleift að búa lengur heima hjá sér. Með hliðsjón af þessum tilgangi reglnanna hafi velferðarráð Reykjavíkur ekki átt annars kost en að staðfesta synjun þjónustumiðstöðvar með hliðsjón af meginreglu stjórnsýslulaga um jafnræði.
IV. Niðurstaða.
Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum.
Í máli þessu er ágreiningur um það hvort velferðarráði Reykjavíkurborgar beri að sinna akstursþjónustu fyrir kæranda frá hjúkrunarheimili þar sem hún dvelur til þess að sinna ýmsum erindum sínum.
Kærandi er 93 ára gömul kona sem er að mestu bundin við hjólastól. Hún dvelur á E og óskar eftir akstursþjónustu fimm til tíu sinnum í mánuði í tólf mánuði til þess að sinna ýmsum einkaerindum sínum. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. reglna um akstursþjónustu eldri borgara í Reykjavík sem tóku gildi 1. janúar 2006, með síðari breytingum, er markmið með akstursþjónustu eldri borgara að gera eldri borgurum í Reykjavík kleift að búa lengur heima og skv. 1. mgr. 2. gr. reglnanna er akstursþjónusta eldri borgara fyrir þá íbúa Reykjavíkur sem eru 67 ára eða eldri og búa sjálfstætt. Í 8. gr. reglnanna segir jafnframt að reglurnar gildi ekki um akstursþjónustu fyrir aldraða sem eru á stofnunum, svo sem hjúkrunarheimilum, og þurfi að leita þjónustu utan stofnunarinnar, svo sem sérfræðilæknishjálpar, rannsókna- og sjúkraþjálfunar. Akstursþjónustu eldri borgara er samkvæmt framanskráðu ekki ætlað að aka þeim sem dvelja á sjúkrahúsum eins og kærandi gerir.
Eins og að framan hefur verið rakið er ekki að finna skyldu til að veita öldruðum akstursþjónustu í lögum nr. 40/1991, en slíka skyldu er jafnframt ekki að finna í lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999. Reglur kærða um akstursþjónustu aldraðra hafa verið settar, þótt ekki sé um lögboðna þjónustu að ræða, en komið hefur fram að markmið þeirra sé að gera eldri borgurum í Reykjavík kleift að búa lengur heima. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að þær reglur sem þar er að finna, m.a. um það að vistmönnun á dvalarheimilum aldraðra standi slík þjónusta ekki til boða, líkt og á við í tilviki kæranda, sé ekki ómálefnalegt eins og hér stendur á. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og rökstuðnings velferðarráðs Reykjavíkurborgar er hin kærða ákvörðun velferðarráðs staðfest.
Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir, formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkur frá 26. október 2011 í máli A er staðfest.
Ása Ólafsdóttir,
formaður
Gunnar Eydal Margrét Gunnlaugsdóttir