Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 31/2012

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík
 


                       

Miðvikudaginn 22. ágúst 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 31/2012:

A

gegn

Íbúðalánasjóði

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 9. febrúar 2012, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs frá 10. nóvember 2011 vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærandi kærði endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni B, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.

Samkvæmt endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, dags. 10. nóvember 2011, var skráð fasteignamat á íbúð kæranda að B 16.200.000 kr. og 110% fasteignamat var 17.820.000 kr. Verðmat fasteignasala var 17.500.000 kr. og 110% verðmat nam því 19.250.000 kr. Áhvílandi veðlán voru 20.909.825 kr. Í endurútreikningnum kemur fram að kærandi eigi bankainnstæðu að fjárhæð 3.028.882 kr.

 

II. Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 14. febrúar 2012, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dags. 5. mars 2012. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 8. mars 2012, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 17. apríl 2012, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst.

 

III. Sjónarmið kæranda

Kærandi bendir á að bankainnstæða hennar hafi verið tímabundin eign sem hún hafi safnað fyrir til þess að stunda framhaldsnám erlendis og stundi hún nú námið. Eignin hafi því einungis verið til staðar í takmarkaðan tíma og hafi nú verið nýtt til skólagjalda og uppihalds og sé því ekki lengur fyrir hendi. Kærandi telur að skammtímaeign á ákveðnum tímapunkti, sem ekki sé lengur til staðar, geti ekki talist næg ástæða til að hafna niðurfellingu á langtímaskuldbindingu með vísan í lög nr. 44/1998 sem kveði á um að við mat á tekjum skuli undanskilja úttekt séreignarsparnaðar sem og aðrar óreglulegar tekjur, svo sem einstaka styrki eða sérstakar greiðslur sem geti ekki talist til reglulegra tekna.

 

IV. Sjónarmið kærða

Af hálfu Íbúðalánasjóðs kemur fram að sjóðurinn hafi litið svo á að þar sem veðrými hafi verið til staðar í aðfararhæfri eign kæranda samkvæmt áramótastöðu þá hafi borið að lækka niðurfærslu veðkröfu sem eigninni næmi, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011. Þá sé ekki lagt mat á það hvernig bankainneign kæranda sé til komin eða hvernig ætlunin sé að nýta hana.

 

V. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Kærandi mótmælir því að henni sé synjað um niðurfærslu á láni sínu hjá Íbúðalánasjóði vegna bankainnstæðu hennar þar sem um tímabundna eign hafi verið að ræða sem nú hafi verið nýtt til skólagjalda og uppihalds. Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 þar sem kærða er veitt heimild til þess að færa niður veðkröfur kemur meðal annars fram að lækkun sé háð því skilyrði að lántaki eða maki hans eigi ekki aðrar aðfararhæfar eignir með veðrými sem svari að hluta eða öllu leyti til fyrirhugaðrar niðurfærslu veðkröfur. Sama regla kemur fram í lið 2.2 í 2. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011. Með aðfararhæfum eignum er átt við allar eignir nema þær séu sérstaklega undanþegnar fjárnámi. Aðfararhæfar eignir eru til dæmis fasteignir, bifreiðir og bankainnstæður. Í málinu liggur fyrir að auk fasteignar sinnar hafi kærandi átt bankainnstæðu sem hafi numið hærri fjárhæð en væntaleg niðurfærsla áhvílandi lána. Kærandi hefur hins vegar byggt á því að um tímabundna eign hafi verið að ræða, sem hún hafi nú ráðstafað til greiðslu skólagjalda og uppihalds í tengslum við nám hennar erlendis. Í lögum nr. 29/2011 er eingöngu fjallað um við hvaða tímamark skuli miðað þegar staða áhvílandi veðkrafna er metin, en í 1. mgr. ákvæðisins er mælt fyrir um að staða veðkrafna skuli miðast við 1. janúar 2011. Nánar er fjallað um þetta í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum nr. 29/2011 þar sem tekið er fram að talið hafi verið nauðsynlegt að miða við ársbyrjun 2011 svo flýta mætti fyrir nauðsynlegri aðlögun veðkrafna að veðrými og greiðslugetu umsækjenda. Hins vegar er í lögunum ekki mælt fyrir um við hvaða tímamark skuli miða þegar verðmæti fasteignar er metið eða verðmæti aðfararhæfra eigna í eigu lántaka eða maka hans.

Í ljósi þeirra sjónarmiða sem fram koma í athugasemdum við ákvæðið að því er varðar stöðu veðkrafna og til að gætt sé samræmis milli þess tímamarks sem staða veðkrafna er miðuð við annars vegar og mats á verðmæti fasteignar hins vegar, hefur úrskurðarnefndin talið rétt miða við sama tímamark. Var meðal annars tekið fram í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum nr. 29/2011 að til þess að flýta fyrir afgreiðslu mála væri ekki gert ráð fyrir að eignastaða umsækjenda yrði skoðuð umfram það sem fram kæmi á skattframtali og yfirlýsing umsækjanda um eignir gæfi tilefni til. Í athugasemdunum virðist því hafa verið gert ráð fyrir að litið yrði til skattframtals við mat á verðmæti aðfararhæfra eigna enda þótt gert hafi verið ráð fyrir að skuldari gæti sýnt fram á að orðið hefði breyting á eignastöðu hans þegar kom að ársbyrjun 2011, en fram kemur að með umsókn hafi átt að fylgja yfirlýsing um eignastöðu hlutaðeigandi.

Kærða ber að gæta jafnræðis og samræmis í úrlausn þeirra umsókna sem honum berast. Þá ber Íbúðalánasjóði að fylgja fyrrgreindum reglum og þar er ekki að finna undanþágur. Þar kemur skýrt fram að ef veðrými er á aðfararhæfum eignum lækkar niðurfærsla veðskulda sem því nemur. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 og lið 2.2. í 2. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila verður því að staðfesta hina kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, varðandi synjun um niðurfærslu lána A, áhvílandi á íbúðinni að B, er staðfest.

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                   Gunnar Eydal

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta