Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 265/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 265/2023

Fimmtudaginn 17. ágúst 2023

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R 

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 25. maí 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 24. apríl 2023, um að synja umsókn hennar um húsnæðisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur þegið húsnæðisbætur frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun frá janúar 2021. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 4. apríl 2023, var kæranda tilkynnt að afgreiðsla umsóknar hennar hefði verið frestað vegna upplýsinga um eignastöðu. Með ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 24. apríl 2023, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar um húsnæðisbætur hefði verið synjað þar sem tekjur og/eða eignir allra heimilismanna skertu bætur að fullu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 25. maí 2023. Með bréfi, dags. 31. maí 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð barst 16. júní 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust frá kæranda 26. júní 2023 og voru þær kynntar Húsnæðis- og mannvirkjastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. júní 2023. Athugasemdir bárust frá stofnuninni 12. júlí 2023 sem kynntar voru kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. júlí 2023. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi lent í umferðarslysi í maí árið 2021 sem hafi valdið líkamstjóni. Líkamstjónið hafi svo verið metið af hálfu tryggingarfélags þannig að það myndi valda varanlegri skerðingu á getu til að afla vinnutekna í framtíðinni og af þeirri ástæðu hafi kærandi verið metin til varanlegrar örorku, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi tekið þá ákvörðun að hafna umsókn kæranda um húsnæðisbætur á grundvelli þess að eignarstaða skerði rétt til bóta að fullu. Ákvörðunin hafi verið byggð á nýjum útreikningum þar sem bætur vegna líkamstjónsins hafi verið teknar með í útreikninginn, eftir að eingreiðslan frá tryggingafélaginu hafi verið lögð inn á bankareikning kæranda. Bætur vegna líkamstjóns séu greiddar í einu lagi og þar af leiðandi sé eignarstaða þeirra sem eigi rétt á greiðslu bóta af þessum ástæðum hærri en ella. Ljóst sé að tjónþolar greiði ekki skatt af slysabótum af þeim ástæðum að sú upphæð sem greidd sé út sé grundvölluð á læknisfræðilegu mati sem meti þá skerðingu sem líkamstjónið kunni að valda á framtíðartekjuöflun, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993.

Samkvæmt svörum frá stofnuninni hvað synjunina varði sé ákvörðunin byggð á eignarstöðu kæranda í dag án tillits til þess að ástæða eignarstöðunnar sé skattfrjáls eingreiðsla tryggingafjár vegna líkamstjóns sem eigi að bæta upp það fjárhagslega tjón sem hún verði fyrir í framtíðinni vegna umferðarslyss. Hingað til hafi kærandi þegið húsnæðisbætur frá stofnuninni ásamt sérstökum húsnæðisbótum frá Garðabæ. Þar sem réttur kæranda til þess húsnæðisstuðnings sem hún hafi notið hingað til hafi verið synjað verði það til þess að hún þurfi að ganga á fjármuni eingreiðslu slysabótanna. Líkt og áður greini hafi þeir fjármunir verið til þess fallnir að koma í veg fyrir fjárhagslegt tjón í framtíðinni. Þessar aðstæður verði þá til þess að tilgangur greiðslunnar vegna varanlegrar örorku missi gildi sitt.

Með vísan til alls framangreinds sé þess farið á leit við nefndina að hún endurskoði synjun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og staðfesti rétt kæranda til húsnæðisbóta.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að í málinu sé deilt um það hvort Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sé heimilt að synja kæranda um húsnæðisbætur á grundvelli eignarstöðu sem einungis sé til komin vegna eingreiðslu slysabóta vegna líkamstjóns. Kærandi bendi á að hún hafi ekki sett fram neinar athugasemdir varðandi rétt stofnunarinnar til þess að endurskoða rétt til húsnæðisbóta almennt. Kærandi fari einungis fram á það að stofnuninni sé óheimilt að grundvalla umræddan endurreikning á eingreiðslu slysabóta sem kærandi hafi fengið vegna líkamstjóns. Um sé að ræða bætur fyrir varanlegt fjárhagslegt tjón, þ.e. það tap á atvinnutekjum sem kærandi verði fyrir eftir batahvörf vegna tjónsatburðar. Með þeim bótum sem um ræði sé leitast við að bæta tjón sem tjónþoli verði fyrir vegna varanlegrar skerðingar á getu til að afla vinnutekna vegna líkamstjóns, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 50/1993. Þá vilji kærandi koma því á framfæri að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi undir höndum gögn sem staðfesti það að um sé að ræða greiðslu vegna líkamstjóns.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vísi í greinargerð sinni til þess að kæranda hafi ítrekað verið send endurreikningsbréf og að á síðasta endurreikningsbréfi megi sjá að heildareignir sem stofnunin grundvalli útreikning sinn á hafi verið 400.970 kr. Þá vísi stofnunin til þess að það sé á ábyrgð umsækjanda að upplýsa stofnunina um allar þær breytingar sem verði á aðstæðum sem kunni að hafa áhrif á rétt til húsnæðisbóta, sbr. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 75/2016, sem kærandi hefði ekki gert. Kærandi árétti aftur að synjunin sé grundvölluð á eingreiðslu sem eigi að vera til þess fallin að bæta upp fyrir þá varanlegu skerðingu sem tjónþoli verði fyrir eftir batahvörf vegna tjónsatburðar. Ljóst sé af tölvupóstasamskiptum kæranda við stofnunina að kærandi hafi staðið í þeirri trú að greiðsla slysabótanna ætti ekki að hafa nein áhrif á rétt kæranda til húsnæðisbóta, enda missi skattfrjáls eingreiðsla bóta vegna líkamstjóns tilgang sinn ef rétturinn til fjárhagslegrar aðstoðar falli niður vegna hennar. Í þessu samhengi vilji kærandi einnig vísa í 3. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 þar sem fram komi að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sé heimilt að falla frá kröfu um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem hafi verið ofgreidd, að fullu eða að hluta, og afskrifa hana ef sérstakar aðstæður séu fyrir hendi sem mæli með því. Í því sambandi skuli einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna umsækjanda og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um rétt sinn til greiðslna. Með hliðsjón af framangreindu sé ljóst að kærandi hafi verið í góðri trú um rétt sinn til greiðslna, enda væri málið ekki til meðferðar hjá úrskurðarnefnd velferðarmála ef svo væri ekki.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vísi í greinargerð sinni í fleiri lagaákvæði er kveði á um áhrif eigna á grunnfjárhæðir húsnæðisbóta. Í því samhengi vilji kærandi enn og aftur árétta að kæran byggi ekki á því að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sé óheimilt að grundvalla rétt einstaklinga til húsnæðisbóta á eignarstöðu þeirra almennt. Kærandi fari fram á það að við sérstakar aðstæður, líkt og hér um ræði, sé stofnuninni óheimilt að byggja ákvörðun um synjun á eignarstöðu sem sé einungis til komin vegna eingreiðslu slysabóta sem eigi að vera til þess fallin að bæta upp það tekjutjón sem kærandi verði fyrir í framtíðinni vegna líkamstjóns. Líkt og áður greini hafi stofnunin fengið gögn frá kæranda sem sýni fram á að um sé að ræða eingreiðslu slysabóta sem sé grundvölluð á læknisfræðilegu mati. Þrátt fyrir að stofnuninni hafi borist framangreind gögn hafi niðurstaðan áfram verið byggð á skilgreiningu eigna samkvæmt 72. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Í 72. gr. laga nr. 90/2003 segi:

„Framtalsskyldar eignir eru allar fasteignir, lausafé og hvers konar önnur verðmæt eignarréttindi, með þeim takmörkunum sem um ræðir í 74. gr., og skiptir ekki máli hvort eignirnar gefa af sér arð eða ekki.“

Í því samhengi vilji kærandi vísa í 2. tölul. 1. mgr. 74. gr. laga nr. 90/2003 en þar segi:

„Til eignar, sbr. 72. gr., telst ekki: Réttur til eftirlauna, lífeyris, framfærslu eða annarra slíkra tímabilsgreiðslna sem bundinn er við einstaka menn.“

Með hliðsjón af framangreindum lagaákvæðum megi sjá að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi ekki skilgreint 72. gr. laga nr. 90/2003 með hliðsjón af 2. tölul. 1. mgr. 74. gr. laga nr. 90/2003 umrætt sinn. Eignarstaða kæranda sé til komin vegna einstaklingsbundinnar greiðslu sem sé ætluð til framfærslu í framtíðinni vegna líkamstjóns með tilliti til aðstæðna þar sem líkamstjónið hafi og muni hafa þær afleiðingar að kærandi verði fyrir tekjutapi vegna þess, sem hún hefði annars ekki orðið fyrir.

Þá vilji kærandi vekja athygli á því að stofnunin hafi, frá því að kæran hafi verið send nefndinni, krafið kæranda um endurgreiðslu vegna ofgreiddra húsnæðisbóta fyrir allt árið 2022. Kærandi hafi verið í samskiptum við stofnunina vegna þessa og sýnt fram á það að greiðslan hafi verið lögð inn í nóvember 2022. Kærandi hafi ekki verið meðvituð um það hvort kæmi til greiðslu bóta og þá hversu há sú greiðsla yrði fyrr en á þeim tíma er greiðslan hafi verið lögð inn á bankareikning hennar frá lögmannsstofunni sem hafi séð um mál kæranda. Þar sem kærandi hafi verið í góðri trú um það að umrædd greiðsla ætti ekki að hafa áhrif á rétt hennar til húsnæðisbóta krefjist hún þess að stofnunin falli frá kröfu sinni um endurgreiðslu að fullu á grundvelli 3. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 1200/2016. Ef úrskurðarnefndin fallist ekki á kröfur kæranda um að bætur vegna líkamstjónsins eigi ekki að hafa áhrif á rétt hennar til greiðslu húsnæðisbóta krefjist kærandi þess til vara að stofnunin byggi endurreikning sinn um endurgreiðslu ofgreiddra húsnæðisbóta fyrir árið 2022 að minnsta kosti frá þeim tíma er greiðslan hafi verið lögð inn á bankareikning kæranda.

Kærandi hafi þegið húsnæðisbætur frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sem og sérstakar húsnæðisbætur frá Garðabæ hingað til. Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hafi orðið til þess að kærandi hafi misst fjárhagsstuðning bæði frá stofnuninni og sveitarfélaginu. Kærandi sé einstæð móðir og tiltölulega nýflutt í íbúð þar sem leigan sé rúmlega 200.000 kr. á mánuði. Húsnæðisbæturnar hafi verið stór ástæða þess að kærandi geti búið á þeim stað sem hún búi, þó um sé að ræða lægri leigu en viðgangist almennt á leigumarkaði. Kærandi sé nemandi við Háskóla Íslands og fái námslán til framfærslu á meðan á skólagöngunni standi, þ.e. 300.000 kr. á mánuði. Kærandi geti ekki fallist á það að hún þurfi að ganga á þann pening sem hafi átt að vera til þess fallinn að koma í veg fyrir fjárhagslegt tekjutap í framtíðinni þar sem þær aðstæður verði þá til þess að kærandi sé verr stödd en ella. Kærandi missi þá bæði þann fjárhagsstuðning sem hún hafi verið að þiggja hingað til, sem og þann pening sem eigi að koma í veg fyrir tekjutap í framtíðinni vegna líkamstjónsins.

Kærandi krefjist þess að synjun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar verði felld úr gildi þar sem stofnunin hafi ekki lagt mat á raunverulegar aðstæður kæranda líkt og henni hafi borið að gera. Umrædd eingreiðsla slysabóta vegna líkamstjóns eigi þannig ekki að hafa áhrif á rétt kæranda til greiðslu húsnæðisbóta. Þá krefjist kærandi þess að stofnunin falli frá kröfu sinni um endurgreiðslu vegna ofgreiddra húsnæðisbóta fyrir árið 2022 á grundvelli 3. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 1200/2016. Til vara krefjist kærandi þess að framangreind krafa um endurgreiðslu vegna ofgreiddra húsnæðisbóta verði endurreiknuð frá þeim tíma er greiðslan hafi verið lögð inn á bankareikning kæranda, sbr. 3. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 1200/2016.

III.  Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kemur fram að kærandi hafi skilað inn umsókn um húsnæðisbætur þann 30. desember 2020 vegna leigu á húsnæðinu B. Umsókn kæranda hafi verið samþykkt þann 29. janúar 2021. Þann 4. apríl 2023 hafi kæranda verið sent bréf þar sem afgreiðslu umsóknar hafi verið frestað þar sem eignir hafi verið farnar að skerða bætur að fullu. Kærandi og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafi átt í tölvupóstsamskiptum í kjölfar frestunarbréfs þar sem kærandi hafi viljað athuga hvort um væri að ræða mistök af hálfu stofnunarinnar en hafi verið leiðbeint um að svo væri ekki. Kæranda hafi verið leiðbeint um að hægt væri að kæra ákvörðun stofnunarinnar til úrskurðarnefndar velferðarmála og að kærufrestur væri þrír mánuðir frá dagsetningu tilkynningar um ákvörðun. Umsókn um húsnæðisbætur hafi verið synjað vegna eignarstöðu þann 24. apríl 2023.

Í máli þessu sé deilt um synjun húsnæðisbóta vegna eignarstöðu. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur megi endurskoða rétt til húsnæðisbóta hvenær sem er og endurreikna fjárhæð þeirra þannig að húsnæðisbætur verði í samræmi við þær breytingar sem hafi orðið á aðstæðum umsækjanda eða annarra heimilismanna.

Í 2. mgr. 25. gr. laga um húsnæðisbætur komi skýrt fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur og eignir næstliðins almanaksárs samkvæmt 17. og 18. gr. laga um húsnæðisbætur liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli framkvæmdaraðili endurreikna fjárhæðir húsnæðisbóta vegna þess almanaksárs á grundvelli þeirra upplýsinga.

Kæranda hafi ítrekað verið send endurreikningsbréf og það nýjasta hafi verið sent þann 23. janúar 2023. Þar megi sjá að heildareignir sem hafi verið notaðar í útreikning hafi verið 400.970 kr. Í endurreikningsbréfum sé athygli vakin á því að það sé á ábyrgð umsækjanda að upplýsa stofnunina um allar þær breytingar sem verði á aðstæðum sem kunni að hafa áhrif á rétt til húsnæðisbóta, sbr. 3. mgr. 14. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur. Engar athugasemdir hafi borist frá kæranda í kjölfar endurreikningsbréfa.

Í 18. gr. laga um húsnæðisbætur, sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur sé fjallað um áhrif eigna á grunnfjárhæðir húsnæðisbóta. Í 1. mgr. komi fram að grunnfjárhæðir samkvæmt 2. mgr. 16. gr., eftir atvikum að teknu tilliti til lækkunar vegna tekna samkvæmt 17. gr., lækki sem nemi hlutfalli af samanlögðum eignum allra heimilismanna, 18 ára og eldri, sem fari umfram 8.000.000 kr. uns þær falli alveg niður við 60% af þeirri fjárhæð. Í 2. mgr. komi svo fram að miða skuli við eignir í lok þess almanaksárs þegar greiðslur húsnæðisbóta hafi staðið yfir. Í 3. mgr. komi fram að með eignum samkvæmt lögunum sé átt við allar eignir samkvæmt 72. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að frádregnum skuldum.

Samanlagðar eignir allra heimilismanna byrji að skerða bótarétt við 8.000.000 kr. og skerði að fullu við 12.800.000 kr. Það liggi fyrir að eignir kæranda í lok árs 2022 hafi verið langt umfram 12.800.000 kr. samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun krefjist þess að hin kærða ákvörðun stofnunarinnar í málinu verði staðfest.

Í athugasemdum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er áréttað að kæra sú sem sé til meðferðar hjá úrskurðarnefnd velferðarmála snúi að synjun stofnunarinnar á umsókn kæranda um húsnæðisbætur. Í athugasemdum kæranda sé farið fram á að við sérstakar aðstæður líkt og hér um ræði sé stofnuninni óheimilt að byggja ákvörðun sína um synjun húsnæðisbóta á eignarstöðu sem sé tilkomin vegna slysabóta. Kærandi byggi á því að stofnunin hafi ekki skilgreint 72. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 með hliðsjón af 2. tölul. 1. mgr. 74. gr. sömu laga og haldi því fram að eignir hennar sem séu tilkomnar vegna slysabóta teljist til framfærslu eða annarra slíkra tímabilsgreiðslna sem sé bundið við einstaka menn.

Eins og fram komi í 2. tölul. 1. mgr. 74. gr. séu tímabilsgreiðslur sem bundnar séu við einstaka menn greiðslur eins og eftirlaun, lífeyrir og framfærsla. Það sé afstaða Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að þær takmarkanir sem um ræði í 74. gr. eigi ekki við og því sé ekki hægt að veita undanþágu frá lögum varðandi eignarstöðu þrátt fyrir að um slysabætur sé að ræða.

Varðandi kröfu kæranda um að stofnunin falli frá kröfu sinni um endurgreiðslu vegna ofgreiddra húsnæðisbóta fyrir árið 2022, að fullu eða að hluta, þá sé gagnaöflun nú þegar hafin og málið verði skoðað. Í því sambandi sé einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna umsækjanda og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um rétt sinn til greiðslna, sbr. 3. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 1200/2006 um húsnæðisbætur.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 24. apríl 2023, um að synja umsókn kæranda um húsnæðisbætur.

Í 8. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur kemur fram að húsnæðisbætur séu mánaðarlegar greiðslur sem greiðast til umsækjanda, sbr. þó 4. mgr. 21. gr., og skuli ákvarðaðar og reiknaðar út miðað við grunnfjárhæðir sem miðast við fjölda heimilismanna, sbr. 3. tölul. 3. gr., að teknu tilliti til tekna, sbr. 17. gr., eigna, sbr. 18. gr., og greiðsluþátttöku í húsnæðiskostnaði, sbr. 19. gr. 

Í 18. gr. laga nr. 75/2016 segir að grunnfjárhæðir samkvæmt 2. mgr. 16. gr., eftir atvikum að teknu tilliti til lækkunar vegna tekna samkvæmt 17. gr., lækki sem nemi hlutfalli af samanlögðum eignum allra heimilismanna, 18 ára og eldri, sem fari umfram 6.500.000 kr., nú 8.000.000 kr., sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur, uns þær falli alveg niður við 60% hærri fjárhæð. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laganna skal miða við eignir í lok þess almanaksárs þegar greiðslur húsnæðisbóta stóðu yfir. Þó skuli fasteign eða búseturéttur samkvæmt lögum um húsnæðissamvinnufélög, sem geti orðið andlag réttar til vaxtabóta, ekki teljast til eigna samkvæmt 1. mgr. hafi fasteignin eða búseturétturinn ekki verið í eigu umsækjanda eða annarra heimilismanna meðan á greiðslum húsnæðisbóta hafi staðið á almanaksárinu. Þá kemur fram í 3. mgr. 18. gr. að með eignum í lögunum sé átt við allar eignir samkvæmt 72. gr. laga um tekjuskatt að frádregnum skuldum samkvæmt 1. mgr. 75. gr. sömu laga, sbr. þó 2. málsl. 2. mgr. Í 2. mgr. 72. gr. laga um tekjuskatt segir að framtalsskyldar eignir séu allar fasteignir, lausafé og hvers konar önnur verðmæt eignarréttindi, með þeim takmörkunum sem um ræði í 74. gr., og skipti ekki máli hvort eignirnar gefi af sér arð eða ekki. Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 74. gr. telst réttur til eftirlauna, lífeyris, framfærslu eða annarra slíkra tímabilsgreiðslna sem bundinn er við einstaka menn ekki til eignar í skilningi 72. gr. laganna.

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda synjað um áframhaldandi greiðslur húsnæðisbóta eftir að upplýsingar bárust frá Ríkisskattstjóra um eignastöðu hennar sem samkvæmt skattframtali ársins 2022 var yfir framangreindum eignamörkum. Á meðal eigna kæranda er um að ræða bankainnistæðu en hún fékk greiddar skaðabætur í nóvember það ár vegna slyss. Kærandi hefur vísað til þess að ekki sé um eign að ræða í skilningi 72. gr. laga um tekjuskatt þar sem um sé að ræða einstaklingsbundna greiðslu sem ætluð sé til framfærslu í framtíðinni til að mæta fyrirséðu tekjutapi.

Ljóst er að framangreind bankainnistæða kæranda er lausafé í skilningi 72. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, en ekki réttur til eftirlauna, lífeyris, framfærslu eða annarra slíkra tímabilsgreiðslna, og skal því samkvæmt 18. gr. laga nr. 75/2016 vera tekin með við mat á rétti hennar til greiðslu húsnæðisbóta. Þar sem eignir kæranda skerða húsnæðisbætur að fullu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Hvað varðar kröfu kæranda um að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun falli frá endurgreiðslukröfunni bendir úrskurðarnefndin á að kæranleg ákvörðun liggur ekki fyrir en svör stofnunarinnar benda til þess að sú krafa sé til meðferðar. Kærandi getur sent nýja kæru til nefndarinnar þegar ákvörðun stofnunarinnar um þá beiðni liggur fyrir, sé hún ekki sátt við niðurstöðuna.    

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 24. apríl 2023, um að synja umsókn A, um húsnæðisbætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta