Mál 45/2013
Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík
Miðvikudaginn 26. febrúar 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 45/2013:
Kæra A
á ákvörðun
Íbúðalánasjóðs
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R:
B, hefur f.h. B, hér eftir nefndur kærandi, með kæru, dags. 12. september 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, frá 21. júní 2013, vegna umsóknar um greiðsluerfiðleikaaðstoð hjá sjóðnum.
I. Helstu málsatvik og kæruefni
Kærandi sótti um greiðsluerfiðleikaaðstoð hjá Íbúðalánasjóði og óskaði eftir skilmálabreytingu til 20 ára og frystingu á eldri lánum í 12 mánuði vegna tekjulækkunar. Umsókn kæranda var synjað á þeim grundvelli að miðað við forsendur greiðsluerfiðleikamats, sem unnið var hjá Íslandsbanka, var greiðslugeta ekki nægjanleg hvorki meðan úrræðum væri beitt né að úrræðum loknum.
II. Málsmeðferð
Með bréfi, dags. 18. september 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir afstöðu Íbúðalánasjóðs til málsins, upplýsingum um meðferð þess hjá sjóðnum og öllum gögnum. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 4. október 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 10. október 2013, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 28. janúar 2014, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst. Starfsmaður úrskurðarnefndarinnar óskaði frekari gagna frá Íbúðalánasjóði með tölvupósti þann 12. febrúar 2014 og bárust gögnin með tölvupósti þann sama dag.
III. Sjónarmið kæranda
Kærandi kveðst hafa sótt um skilmálabreytingu á veðláni hjá Íbúðalánasjóði, þ.e. greiðslufrest til eins árs, en hafi verið synjað á þeim forsendum að ekki væri líklegt að hann gæti staðið við skuldbindingar sínar að greiðslufresti loknum. Kærandi andmælir þessu. Hann sé með bílalán á sínum herðum sem standi til að greiða upp með því svigrúmi sem skapist ef greiðslufrestur fáist samþykktur. Auk þess sé kærandi með skuldabréf frá Íslandsbanka þar sem eftirstöðvar séu aðeins 201.405 kr. sem einnig verði greitt upp. Þá hafi kærandi undanfarna mánuði verið að koma öðrum skuldum sínum í skil, svo sem fasteignagjöldum og eldri skuldum vegna Lánasjóðs íslenskra námsmanna sem nú séu komin í skil. Að lokum séu skuldir hans hjá Íslandsbanka ýmist komnar í skil eða á góðri leið með það. Kærandi telur ljóst að ef umsókn hans um greiðslufrest og skilmálabreytingu verði samþykkt muni hann geta staðið við sínar skuldbindingar við Íbúðalánasjóð.
IV. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs
Í athugasemdum Íbúðalánasjóðs vegna kærunnar kemur fram að skv. 5. gr. reglugerðar um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, nr. 584/2001, skuli fjármálastofnun fjalla um umsóknir um aðstoð vegna greiðsluvanda. Samkvæmt 4. tölul. 4. gr. reglugerðarinnar sé áskilið að greiðslubyrði umsækjanda eftir greiðsluvandaaðgerð rúmist innan greiðslugetu. Samkvæmt greiðsluerfiðleikamati Íslandsbanka sé ofangreindu skilyrði ekki fullnægt og hafi Íbúðalánasjóður synjað umsókn kæranda á þeim grundvelli. Ekki sé annað sýnilegt en að í greiðslumati hafi verið lagt mat á þau gjöld sem kærandi tilgreini.
V. Niðurstaða
Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda. Í málinu er ágreiningur um hvort Íbúðalánasjóði hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um greiðsluerfiðleikaaðstoð.
Úrskurðarnefndin tekur fram að með bréfi nefndarinnar, dags. 18. september 2013, var óskað gagna málsins frá Íbúðalánasjóði. Í gögnum sem bárust frá sjóðnum með bréfi, dags. 4, október 2013, var hins vegar ekki að finna umsókn kæranda um greiðsluerfiðleikaaðstoð. Úrskurðarnefndin bendir á að afar brýnt er að við meðferð kærumála liggi fyrir öll þau gögn og upplýsingar sem hin kærða ákvörðun byggir á. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Íbúðalánasjóðs að framangreint verði haft í huga við afhendingu gagna í tilefni af stjórnsýslukæru til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála.
Samkvæmt 2. mgr. 48. gr. laga um húsnæðismál er stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt að fresta greiðslum hjá einstökum lánþegum vegna almennra lána, viðbótarlána og lána sem sjóðurinn hefur yfirtekið í allt að þrjú ár og leggja þær greiðslur við höfuðstól skuldarinnar, þyki slík aðstoð líkleg til að koma í veg fyrir greiðsluvanda. Er þar gert að skilyrði að greiðsluvandi stafi af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu eða atvinnuleysis eða af öðrum ófyrirséðum atvikum. Samkvæmt 8. mgr. 48. gr. laganna setur ráðherra nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins að fengnum tillögum stjórnar Íbúðalánasjóðs.
Í 4. gr. reglugerðar um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, nr. 584/2001, er að finna skilyrði fyrir greiðsluerfiðleikaaðstoð. Þar segir í 1. tölul. 4. gr. að heimilt sé að veita greiðsluerfiðleikaaðstoð stafi greiðsluerfiðleikar af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu, atvinnuleysi eða af öðrum ófyrirséðum atvikum. Þá segir í 4. tölul. 1. mgr. að skilyrði greiðsluerfiðleikaaðstoðar sé að greiðslubyrði umsækjanda eftir skuldbreytingu og/eða frestun á greiðslum og/eða lengingu lánstíma rúmist innan greiðslugetu. Um er að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir úrræðinu sem sótt er um. Samkvæmt greiðsluerfiðleikamati, sem unnið var af Íslandsbanka og liggur fyrir í málinu, yrði staða kæranda eftir lok greiðsluerfiðleikaaðstoðar neikvæð og greiðslubyrði hans myndi því ekki rúmast innan greiðslugetu.
Í greiðsluerfiðleikamati Íslandsbanka frá 19. febrúar 2013 kemur fram að mánaðarleg útgjöld kæranda hafi verið 285.917 kr. Fjárhagsleg staða kæranda við gerð matsins var þannig að mánaðarlegar tekjur hans námu 495.725 kr., mánaðarleg útgjöld 285.917 kr. og greiðslugeta því 209.808 kr. Mánaðarleg greiðslubyrði kæranda næmi 328.704 kr. og fjárþörf kæranda var því 118.896 kr. umfram raunverulega greiðslugetu. Í greiðslumatinu var enn fremur farið yfir áætlaða stöðu kæranda á meðan úrræðunum yrði beitt og var miðað við að mánaðarlegar tekjur hans væru 495.725 kr., mánaðarleg útgjöld 285.917 kr. og greiðslugeta því 209.808 kr. Mánaðarleg greiðslubyrði kæranda næmi 219.643 kr. og fjárþörf því 9.835 kr. umfram raunverulega greiðslugetu. Við lok úrræða var gert ráð fyrir að mánaðarlegar tekjur kæranda yrðu 495.725 kr., mánaðarleg útgjöld 285.917 kr. og greiðslugeta því 209.808 kr. Mánaðarleg greiðslubyrði kæranda eftir lok úrræða næmi 327.689 kr. og fjárþörf því 117.881 kr. umfram raunverulega greiðslugetu. Því myndi greiðslubyrði kæranda eftir frestun á greiðslum ekki rúmast innan greiðslugetu. Úrskurðarnefndin telur ekki ástæðu til að bera brigður á greiðsluerfiðleikamat Íbúðalánasjóðs sem liggur fyrir í málinu. Þar sem greiðslubyrði kæranda eftir lok úrræða hefði ekki rúmast innan greiðslugetu hans, sbr. 4. tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001, átti kærandi því ekki rétt á greiðsluerfiðleikaaðstoð. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.
Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 21. júní 2013, um synjun á umsókn A, um greiðsluerfiðleikaaðstoð, er staðfest.
Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir
Gunnar Eydal