Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 629/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 629/2021

Fimmtudaginn 16. desember 2021

A

gegn

Seltjarnarnesbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 23. nóvember 2021, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála samskipti sín við Seltjarnarnesbæ vegna félagslegs leiguhúsnæðis.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 23. nóvember 2021 og greindi þar frá samskiptum sínum við Seltjarnarnesbæ í kjölfar úthlutunar félagslegs leiguhúsnæðis. Kærandi hafi kvartað undan kannabislykt í geymslu sem fylgdi húsnæðinu og óskað eftir að gjald fyrir geymsluna yrði ekki innheimt.   

II.  Niðurstaða

Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Í 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. laganna kemur fram að aðila máls hjá félagsþjónustu sveitarfélaga sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru samkvæmt lögunum til úrskurðarnefndar velferðarmála. Þannig er grundvöllur þess að úrskurðarnefndin geti tekið kæru til efnislegrar meðferðar að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þær ákvarðanir stjórnvalda sem ekki eru teknar í skjóli stjórnsýsluvalds, til dæmis þær sem eru einkaréttarlegs eðlis, teljast ekki stjórnvaldsákvarðanir.

Þegar stjórnvaldsákvörðun hefur verið tekin um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis á grundvelli laga nr. 40/1991 er gerður leigusamningur við umsækjanda, standi vilji til þess hjá viðkomandi. Þar er um að ræða leigusamning sem húsaleigulög nr. 36/1994 gilda um. Þær ákvarðanir sem lúta að leigusamningnum sjálfum, svo sem um greiðslu húsaleigu eða afslátt af henni, eru því að mati úrskurðarnefndarinnar ekki stjórnvaldsákvarðanir. Með vísan til þess er mál kæranda ekki tækt til efnismeðferðar og er kærunni því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta