Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 24/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

Miðvikudaginn 3. september 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 24/2014:

Kæra A

á ákvörðun

Íbúðalánasjóðs

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A, hefur með bréfi, dags. 27. apríl 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 28. janúar 2014, um synjun á umsókn kæranda um greiðsluerfiðleikaaðstoð.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðsluerfiðleikaaðstoð hjá Íbúðalánasjóði og óskaði eftir frystingu láns. Umsókn kæranda var synjað á þeim grundvelli að miðað við forsendur greiðsluerfiðleikamats, sem unnið var hjá Íslandsbanka, var greiðslugeta ekki nægjanleg hvorki meðan úrræðum væri beitt né að úrræðum loknum.

Með bréfi, dags. 29. apríl 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir afstöðu Íbúðalánasjóðs til málsins, upplýsingum um meðferð þess hjá sjóðnum og frekari gögnum. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 14. maí 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 16. maí 2014, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 19. júní 2014, var óskað eftir frekari gögnum frá kæranda og bárust þau 2. júlí 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 29. júlí 2014, var óskað eftir frekari gögnum frá Íbúðalánasjóði og bárust þau þann 12. ágúst 2014.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að Íslandsbanki hafi farið rangt með gögn og veitt rangar upplýsingar við vinnslu á umsókn um greiðsluerfiðleikaaðstoð. Kærandi hafi ítrekað greint bankanum frá því að einungis hafi verið sótt um vegna láns nr. X hjá Íbúðalánasjóði en einu vanskilin væru vegna þess láns. Bankanum hafi einnig verið greint frá því að kærandi og eiginkona hans séu ekki skuldarar láns nr. X hjá Arion banka hf., það sé dóttir þeirra. Þá hafi lán nr. X verið greitt upp að fullu.

Kærandi greinir frá því að hann hafi óreglulegar tekjur þar sem hann sé í sjálfstæðum rekstri. Tekjur hans hafi verið of lágt áætlaðar með vísan til skattskila í mars 2014. Upplýsingar varðandi tryggingargjöld heimilissins séu ekki réttar þar sem tryggingar vegna vörubifreiðar kæranda sé frádráttarbær kostnaður í hans rekstri. Þá sé rekstur bifreiðar og kostnaður vegna ýmissa þátta verulega ofmetinn.

Kærandi óskar einnig eftir áliti úrskurðarnefndarinnar á því að hann hafi þurft að greiða 8.000 krónur fyrir greiðsluerfiðleikamat Íslandsbanka.

III. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

Í greinargerð Íbúðalánasjóðs vegna málsins er vísað til þess að samkvæmt 5. gr. reglugerðar um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, nr. 584/2001, geri fjármálastofnun tillögu til Íbúðalánasjóðs um úrlausn vandans. Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar sé meðal annars áskilið að greiðslubyrði eftir úrræði rúmist innan greiðslugetu umsækjanda. Samkvæmt greiðsluerfiðleikamati Íslandsbanka skorti verulega á að skilyrði 4. gr. reglugerðarinnar sé fullnægt. Íbúðalánasjóði hafi því borið að synja um greiðsluerfiðleikaaðstoð enda dugi úrræði sjóðsins ekki til að leysa vanda kæranda.

IV. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda. Í málinu er ágreiningur um hvort Íbúðalánasjóði hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um greiðsluerfiðleikaaðstoð. Þá óskar kærandi eftir áliti nefndarinnar á því að Íslandsbanki hafi neitað að gera greiðsluerfiðleikamat nema gegn greiðslu að fjárhæð 8.000 krónur. Verður fyrst vikið að umræddri greiðslu.

Í 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, kemur fram að málsaðili geti skotið ákvörðun Íbúðalánasjóðs, húsnæðisnefndar eða þeirrar nefndar á vegum sveitarfélags sem hafi verið falið verkefni húsnæðisnefndar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. lög nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda. Ákvæði 1. mgr. 42. gr. laga nr. 44/1998 var breytt með 2. gr. laga nr. 77/2001 en í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins segir að með ákvörðun Íbúðalánasjóðs eða húsnæðisnefnda sé átt við stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Til þess að úrskurðarnefndin geti tekið kæru til efnislegrar meðferðar þarf að liggja fyrir stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er einungis að ræða hafi stjórnvald tekið ákvörðun um rétt eða skyldu tiltekins aðila í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 2. mgr. 48. gr. laga um húsnæðismál er stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt að fresta greiðslum hjá einstökum lánþegum vegna almennra lána, viðbótarlána og lána sem sjóðurinn hefur yfirtekið í allt að þrjú ár og leggja þær greiðslur við höfuðstól skuldarinnar, þyki slík aðstoð líkleg til að koma í veg fyrir greiðsluvanda. Er þar gert að skilyrði að greiðsluvandi stafi af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu eða atvinnuleysis eða af öðrum ófyrirséðum atvikum. Samkvæmt 8. mgr. 48. gr. laganna setur ráðherra nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins að fengnum tillögum stjórnar Íbúðalánasjóðs.

Í 2. mgr. 5. gr. reglugerðar um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, nr. 584/2001, kemur fram að umsókn um aðstoð vegna greiðsluvanda skuli send fjármálastofnun sem fari yfir umsóknina og geri tillögu til Íbúðalánasjóðs um úrlausn vandans. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar tekur Íbúðalánasjóður ákvörðun um aðstoð vegna greiðsluvanda að fengnum tillögum fjármálastofnunar. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður ákvörðun Íbúðalánasjóðs að senda umsókn vegna greiðsluvanda til fjármálastofnana ekki talin stjórnvaldsákvörðun heldur er um að ræða ákvörðun stjórnvalds um meðferð stjórnsýslumáls. Þá verður ákvörðun fjármálastofnunar um innheimtu gjalds vegna framangreindrar vinnu ekki talin stjórnvaldsákvörðun, enda ekki um að ræða ákvörðun sem Íbúðalánasjóður tekur í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Að því virtu ber að vísa þeim þætti kærunnar er lýtur að innheimtu Íslandsbanka á greiðslu vegna umsóknar um greiðsluerfiðleikaaðstoð frá úrskurðarnefndinni.

Í 4. gr. reglugerðar nr. 584/2001 er að finna skilyrði fyrir greiðsluerfiðleikaaðstoð. Þar segir í 1. tölul. 4. gr. að heimilt sé að veita greiðsluerfiðleikaaðstoð stafi greiðsluerfiðleikar af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu, atvinnuleysi eða af öðrum ófyrirséðum atvikum. Þá segir í 4. tölul. 1. mgr. að skilyrði greiðsluerfiðleikaaðstoðar sé að greiðslubyrði umsækjanda eftir skuldbreytingu og/eða frestun á greiðslum og/eða lengingu lánstíma rúmist innan greiðslugetu. Um er að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir úrræðinu sem sótt er um. Samkvæmt greiðsluerfiðleikamati, sem unnið var af Íslandsbanka og liggur fyrir í málinu, yrði staða kæranda eftir lok greiðsluerfiðleikaaðstoðar neikvæð og greiðslubyrði hans myndi því ekki rúmast innan greiðslugetu.

Í greiðsluerfiðleikamati Íslandsbanka, dags. 21. janúar 2014, sem lá til grundvallar afgreiðslu Íbúðalánasjóðs var fjárhagsleg staða kæranda og eiginkonu hans við gerð matsins þannig að mánaðarlegar tekjur þeirra námu 367.951 krónu, mánaðarleg útgjöld 381.996 krónum og mánaðarleg greiðslubyrði næmi 282.147 krónum. Fjárþörf kæranda var því 296.192 krónur umfram raunverulega greiðslugetu. Í greiðslumatinu var enn fremur farið yfir áætlaða stöðu kæranda og eiginkonu hans á meðan úrræðunum yrði beitt og var miðað við að mánaðarlegar tekjur þeirra væru 367.951 króna, mánaðarleg útgjöld 381.996 krónur og mánaðarleg greiðslubyrði næmi 189.199 krónum. Fjárþörf kæranda væri því 203.244 krónur umfram raunverulega greiðslugetu. Við lok úrræða var gert ráð fyrir að mánaðarlegar tekjur þeirra yrðu 367.951 króna, mánaðarleg útgjöld 381.996 krónur og mánaðarleg greiðslubyrði kæranda eftir lok úrræða næmi 254.469 krónum. Fjárþörf kæranda væri því 268.514 krónur umfram raunverulega greiðslugetu. Því myndi greiðslubyrði kæranda eftir frestun á greiðslum ekki rúmast innan greiðslugetu.

Kærandi hefur gert athugasemdir við greiðsluerfiðleikamat Íslandsbanka og vísað til þess að bankinn hafi farið rangt með gögn við vinnslu greiðsluerfiðleikamatsins. Kærandi hefur sérstaklega vísað til þess að hann og eiginkona hans séu ekki skuldarar láns nr. X hjá Arion banka hf. og að ekki hafi verið settar inn réttar fjárhæðir varðandi tryggingar heimilisins. Í greiðsluerfiðleikamati Íslandsbanka er gert ráð fyrir mánaðarlegum greiðslum að fjárhæð 27.470 krónur vegna láns nr. X og tryggingariðgjöldum að fjárhæð 60.000 krónur á mánuði. Samkvæmt þeim gögnum sem kærandi hefur lagt fram við meðferð kærumálsins er ljóst að kærandi og eiginkona hans eru ekki skuldarar láns nr. X hjá Arion banka hf. og að fjárhæð tryggingariðgjalda er ekki í samræmi við raunveruleg útgjöld þeirra. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að greiðsluerfiðleikamat Íslandsbanka, dags. 21. janúar 2014, hafi ekki verið framkvæmt með réttum hætti en úr því verður ekki bætt á vettvangi úrskurðarnefndarinnar. Hin kærða ákvörðun verður því felld úr gildi og lagt fyrir Íbúðalánasjóð að taka erindi kæranda til meðferðar á ný.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 28. janúar 2014, um synjun á umsókn A um greiðsluerfiðleikaaðstoð, er felld úr gildi og lagt fyrir Íbúðalánasjóð að taka mál kæranda til löglegrar meðferðar.

Þeim þætti kærunnar er lýtur að innheimtu Íslandsbanka á greiðslu vegna umsóknar um greiðsluerfiðleikaaðstoð er vísað frá.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta