Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 26/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

                                                          

Miðvikudaginn 3. september 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 26/2014:

Kæra A

á ákvörðun

Hafnarfjarðarbæjar

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:

A hefur með kæru, dags. 30. apríl 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um synjun á umsókn hans um fjárhagsaðstoð.

I. Málavextir og málsmeðferð

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ með umsókn, dags. 22. nóvember 2013. Fyrir liggur að kærandi fékk greidda skerta fjárhagsaðstoð frá desember 2013 til maí 2014 en ekki liggur fyrir að kæranda hafi verið tilkynnt skriflega um þá afgreiðslu Hafnarfjarðarbæjar. Með tölvupósti þann 28. apríl 2014 óskaði kærandi eftir skýringum frá Hafnarfjarðarbæ á ástæðu þess að honum væri synjað um fulla fjárhagsaðstoð. Kæranda var greint frá því að þar sem hann væri í sambúð væru tekjur heimilisins reiknaðar saman og hann fengi greiddan mismuninn, sbr. 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Hafnarfjarðarbæ. 

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 30. apríl 2014. Með bréfi, dags. 5. maí 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Hafnarfjarðarbæjar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð Hafnarfjarðarbæjar barst með bréfi, dags. 13. júní 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 19. júní 2014, var bréf Hafnarfjarðarbæjar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda. Úrskurðarnefndin óskaði eftir frekari útskýringum og gögnum frá sveitarfélaginu með tölvupósti þann 8. júlí 2014 og bárust þau þann 24. júlí 2014.

II. Málsástæður kæranda

Kærandi hefur ekki komið neinum sjónarmiðum á framfæri í málinu.

III. Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar

Í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að kærandi hafi fengið fjárhagsaðstoð frá því í desember 2013 og fram í maí 2014. Hann hafi verið um tíma í endurhæfingu hjá Virk en hafi skráð sig hjá Vinnumálastofnun í apríl 2014 og hafi þá átt rétt á helmingi þeirrar fjárhæðar sem hann hafi fengið fram að því, þar sem Vinnumálastofnun greiddi bætur frá umsóknardegi. Greidd væri nokkurs konar neyðaraðstoð á meðan einstaklingar væru að bíða eftir greiðslu frá Vinnumálastofnun.

Kærandi hafi sent fyrirspurn í tölvupósti þann 28. apríl 2014 og óskað eftir skýringum á því hvers vegna hann fengi ekki óskerta fjárhagsaðstoð. Starfsmaður Fjölskylduþjónustunnar hafi greint kæranda frá því að þar sem hann væri í sambúð og sambýliskona hans fengi örorkubætur væru tekjur þeirra reiknaðar saman og hann fengi greiddan mismuninn, sbr. 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Hafnarfjarðarbæ. Kærandi hafi aldrei farið fram á breytingu á greiðslum til sín né gefið í skyn að hann væri ósáttur við þessa skýringu. Mál hans hafi ekki verið lagt fyrir afgreiðslufund Fjölskylduþjónustunnar, eins og gert sé í þeim tilvikum sem umsækjendur fari fram á endurskoðun á ákvörðun starfsmanna varðandi fjárhagsaðstoð, þar sem litið hafi verið svo á að hann hafi einungis verið að óska eftir skýringum. Málinu hafi því ekki verið skotið til fjölskylduráðs og hafi þar með aldrei fengið formlega afgreiðslu hjá Fjölskylduþjónustunni.

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ frá 1. janúar 2004, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Hafnarfjarðarbæ hafi verið heimilt að skerða fjárhagsaðstoð til kæranda.

Úrskurðarnefndin bendir á að ekki liggur fyrir að kæranda hafi verið tilkynnt skriflega um afgreiðslu Hafnarfjarðarbæjar á umsókn hans um fjárhagsaðstoð en samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi skerta fjárhagsaðstoð frá desember 2013 til maí 2014. Ákvörðun sveitarfélags um að samþykkja umsókn um fjárhagsaðstoð telst stjórnvaldsákvörðun og ber því að birta hana í samræmi við 1. málsl. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, en þar kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun skal hún tilkynnt aðila máls nema það sé augljóslega óþarft. Í 28. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ kemur fram að sé umsókn hafnað í heild eða að hluta skuli umsækjandi fá skriflegt svar þar sem ákvörðun er rökstudd með skýrum hætti með vísan til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og reglna sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð. Þá segir í 31. gr. reglnanna að þar sem starfsmenn fjölskylduráðs hafi umboð til að taka ákvörðun um fjárhagsaðstoð skuli þeir kynna umsækjanda niðurstöðu tryggilega og kynna honum um leið rétt hans til að fara fram á að fjölskylduráð fjalli um umsóknina. Ákvörðun fjölskylduráðs skuli kynnt umsækjanda tryggilega og um leið skuli honum kynntur réttur hans til málskots til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Úrskurðarnefndin leggur áherslu á að vitneskja málsaðila um efni stjórnvaldsákvörðunar er forsenda þess að hann hafi möguleika á því að taka afstöðu til hennar og haga ráðstöfunum sínum í samræmi við hana. Úrskurðarnefndin beinir þeim tilmælum til Hafnarfjarðarbæjar að gætt sé að framangreindum ákvæðum stjórnsýslulaga og reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ þegar teknar eru stjórnvaldsákvarðanir hjá sveitarfélaginu. Beinir úrskurðarnefndin því til Hafnarfjarðarbæjar að framkvæmd og ákvarðanataka í sambærilegum málum verði framvegis í samræmi við málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ og var umsókn kæranda samþykkt með þeim hætti að hann fékk greidda skerta fjárhagsaðstoð með vísan til 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. reglnanna tekur framfærslugrunnur mið af útgjöldum vegna daglegs heimilishalds og þegar kærandi sótti um fjárhagsaðstoð var grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings 135.000 krónur. Framfærslugrunnur hjóna og fólks í sambúð var 1,8 eða 243.000 krónur en fyrir liggur að kærandi var í sambúð á þeim tíma sem hann fékk greidda fjárhagsaðstoð. Í 12. gr. reglnanna kemur fram að allar tekjur umsækjanda og maka ef við á, í þeim mánuði sem sótt sé um og mánuðinn á undan, séu taldar með við mat á fjárþörf. Með tekjum sé átt við allar tekjur og greiðslur til umsækjanda og maka, þ.e. atvinnutekjur, greiðslur úr lífeyrissjóðum og sjúkrasjóðum stéttarfélaga, atvinnuleysisbætur, leigutekjur og allar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins nema greiðslur með börnum. Miða skuli við heildartekjur áður en tekjuskattur er dreginn frá.

Kærandi sótti um fjárhagsaðstoð með umsókn, dags. 22. nóvember 2013. Bar því að miða við tekjur kæranda og sambýliskonu hans í október og nóvember 2013. Samkvæmt upplýsingum frá Hafnarfjarðarbæ var kærandi tekjulaus á þessum tíma en tekjur sambýliskonu hans voru 181.759 krónur í október og nóvember 2013. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi átt rétt á fjárhagsaðstoð að fjárhæð 61.241 króna í desember 2013. Kærandi fékk greidda fjárhagsaðstoð að fjárhæð 52.032 krónur í desember 2013, 96.183 krónur í janúar 2014 og 58.763 krónur fyrir febrúar, mars og apríl 2014. Úrskurðarnefndin fær ekki séð að framangreindar fjárhæðir séu í samræmi við fyrirliggjandi tekjuupplýsingar og reglur sveitarfélagsins. Hin kærða ákvörðun verður því felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka málið til löglegrar meðferðar.

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar á umsókn A um fjárhagsaðstoð er felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka málið til löglegrar meðferðar.

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta