Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 551/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 551/2020

Fimmtudaginn 21. janúar 2021

A

gegn

Vestmannaeyjabæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 23. október 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vestmannaeyjabæjar, dags. 13. október 2020, um að synja beiðni hans um stuðningsþjónustu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 6. október 2020, óskaði kærandi eftir stuðningsþjónustu frá Vestmannaeyjabæ. Beiðni kæranda var synjað með bréfi sveitarfélagsins, dags. 13. október 2020, á þeirri forsendu að kærandi væri búsettur á hjúkrunarheimili.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. október 2020. Með bréfi, dags. 3. nóvember 2020, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Vestmannaeyjabæjar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð 11. desember 2020. Greinargerð sveitarfélagsins barst samdægurs og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. desember 2020. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 21. desember 2020.   

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann sé öryrki og búsettur á hjúkrunarheimili. Vegna Covid-19 ástandsins sé hann innilokaður í sóttkví. Kærandi hafi enga möguleika á að sinna persónulegum erindum utan heimilis en það sé ekki í verkahring starfsfólks hjúkrunarheimilisins að sinna slíku. Kærandi hafi ekki heldur tök á að senda ættingja sína í sendiferðir og neyðist því til að taka leigubíl til sendiferða sem sé kostnaðarsamt. Hjúkrunarheimilið sé hans heimili og hann sé ekki fær um að sinna persónulegri umhirðu. Kærandi óski eftir því að úrskurðað verði að svar Vestmannaeyjabæjar standist ekki lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Fólk sé jafn illa sett hvar sem heimili þeirra sé.

Í athugasemdum kæranda er ítrekað að starfsfólki hjúkrunarheimilisins sé ekki skylt að sinna persónulegum þörfum hans utan stofnunarinnar. Það sé ljóst að í stofufangelsi vegna Covid-19 ástandsins sé kærandi ófær um að sinna persónulegum þörfum. Kærandi eigi lögheimili í Vestmannaeyjum og hann sé ófær um að rækja persónulega þjónustu. Því krefjist kærandi þess að Vestmannaeyjabæ verði gert skylt að veita þennan félagslega stuðning.

III. Sjónarmið Vestmannaeyjabæjar

Í greinargerð Vestmannaeyjabæjar kemur fram að kærandi sé innlagður í hjúkrunarrými á B og undir þjónustu og ábyrgð þeirrar stofnunar. Gengið sé að því sem vísu að kærandi fái alla þá þjónustu og stuðning sem honum beri á slíkri stofnun. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga sé sveitarfélagi ekki skylt að veita stuðningsþjónustu á stofnun, svo sem sjúkrahúsi og öldrunarstofnun. Ekkert samstarf sé um slíka þjónustu í dag.

IV. Niðurstaða

Kærð er synjun Vestmannaeyjabæjar á beiðni kæranda um stuðningsþjónustu. Beiðninni var synjað á þeirri forsendu að kærandi væri búsettur á hjúkrunarheimili.

Í VII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er fjallað um stuðningsþjónustu. Markmið stuðningsþjónustu er að aðstoða og hæfa notendur sem þurfa aðstæðna sinna vegna á stuðningi að halda við athafnir daglegs lífs og/eða til þess að rjúfa félagslega einangrun. Stuðningsþjónusta skal stefna að því að efla viðkomandi til sjálfsbjargar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsi, sbr. 25. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er sveitarfélagi skylt að sjá um stuðningsþjónustu til handa þeim sem búa á eigin heimilum og þurfa aðstoð vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda eða fötlunar. Stuðningsþjónustu skal veita svæðisbundið með þeim hætti sem best hentar á hverjum stað. Aðstoð skal veitt fjölskyldum barna sem metin eru í þörf fyrir stuðning. Aðstoð skal veitt innan og utan heimilis samkvæmt reglum sem sveitarfélagið setur.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. laganna er sveitarfélagi ekki skylt að veita stuðningsþjónustu á stofnunum, svo sem á sjúkrahúsi og öldrunarstofnun. Samvinna skal þó alltaf höfð við viðkomandi stofnun, sbr. 62. gr. laganna. Í athugasemdum við 26. gr. í frumvarpi til laga nr. 37/2018 um breytingu á lögum nr. 40/1991 kemur fram að ekki sé skylt að veita þjónustu á þjónustustofnunum en sveitarfélagi sé þó alltaf heimilt að gera slíkt, til dæmis að veita stuðningsþjónustu fyrir einstakling sem vistast á slíkri stofnun til að rjúfa félagslega einangrun og fara úr slíkri stofnun og sinna tómstundun. Slíkt yrði þó alltaf að gera í samvinnu við þjónustuveitanda þar sem viðkomandi býr eða vistast. Þá kemur fram í almennum athugasemdum um mat á áhrifum að með frumvarpinu sé tekið á gráu svæði sem hafi verið milli ríkis og sveitarfélaga með því að taka af skarið um að sveitarfélögum beri ekki skylda til þess að veita stuðningsþjónustu inni á öðrum stofnunum, svo sem hjúkrunarheimilum.

Í 3. mgr. 26. gr. laganna kemur fram að ráðherra skuli gefa út leiðbeiningar um framkvæmd stuðningsþjónustu, tímafjölda og mat á þörf fyrir þjónustu í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Þá segir að sveitarstjórn skuli setja nánari reglur um stuðningsþjónustu á grundvelli leiðbeininga ráðherra. Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur viðkomandi sveitarstjórnar. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Gildandi reglur Vestmannaeyjabæjar um framkvæmd stuðningsþjónustu eru reglur um félagslega heimaþjónustu. Í 3. gr. reglnanna kemur fram að rétt til félagslegrar heimaþjónustu eigi þeir einstaklingar sem búi í heimahúsum og geti ekki séð hjálparlaust um heimilishald og persónulega umhirðu vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda, barnsburðar, öldrunar eða fötlunar.

Líkt og áður greinir var beiðni kæranda um stuðningsþjónustu synjað með vísan til þess að hann væri búsettur á hjúkrunarheimili. Þar sem reglur Vestmannaeyjabæjar gera einungis ráð fyrir að þeir sem búsettir eru í heimahúsum eigi rétt á stuðningsþjónustu, þrátt fyrir að sveitarfélaginu sé heimilt að veita slíka þjónustu í samvinnu við þjónustuveitanda, og sú regla hefur stoð í 26. gr. laga nr. 40/1991, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta hina kærðu ákvörðun.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vestmannaeyjabæjar, dags. 13. október 2020, um að synja beiðni A, um stuðningsþjónustu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta