Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Félagsþjónusta og húsnæðismál

Mál nr. 433/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 433/2020

Fimmtudaginn 26. nóvember 2020

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 9. september 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 8. júlí 2020, um að synja umsókn hans um sérstakan húsnæðisstuðning.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 5. maí 2020, sótti kærandi um sérstakan húsnæðisstuðning frá Reykjavíkurborg. Umsókn kæranda var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 29. maí 2020, á þeirri forsendu að skilyrði 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning væri ekki uppfyllt. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi þann 8. júlí 2020 og staðfesti synjunina.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 9. september 2020. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. september 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst 6. október 2020 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. október 2020, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að staða hans sé mjög bágborin þar sem hann sé atvinnulaus og einungis með 240.000 kr. í mánaðartekjur. Kærandi sjái fyrir barni, greiði húsaleigu og tryggingar og eigi því ekkert eftir til að lifa af. Hann hafi lent í slæmu vinnuslysi fyrr á árinu og verið óvinnufær síðan þá. Kærandi skilji ekki hvernig sé hægt að ákvarða að hann hafi það ekki nógu slæmt. Kærandi hafi það svo slæmt að hann þurfi að leita á náðir kirkjunnar í hverjum mánuði til þess að eiga fyrir mat. Þá þurfi hann einnig að endurgreiða ofgreiddar barnabætur upp á rúmlega 250.000 kr. en hann viti hreinlega ekki hvað hann geti gert. Kærandi átti sig ekki á því hvernig staða hans geti orðið verri en hún sé. Kærandi óski því eftir að mál hans verði tekið til endurskoðunar og að honum verði ákvarðaður sérstakur húsnæðisstuðningur líkt og hann eigi rétt á samkvæmt reglum Reykjavíkurborgar.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er greint frá aðstæðum kæranda. Tekið er fram að í 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning sé að finna skilyrði fyrir því að umsókn um sérstakan húsnæðisstuðning verði samþykkt en öll skilyrði ákvæðisins þurfi að vera uppfyllt. Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. þurfi staða umsækjanda að vera metin að lágmarki til sex stiga, þar af að lágmarki til tveggja stiga vegna félagslegra aðstæðna, sbr. matsviðmið í fylgiskjali með reglunum. Samkvæmt matsviðmiðunum hafi umsókn kæranda verið metin til tveggja stiga, þar af ekkert stig vegna félagslegra aðstæðna. Fyrrgreind matsviðmið séu þríþætt, þ.e. staða umsækjanda, húsnæðisstaða og félagslegar aðstæður umsækjanda. Staða kæranda sé ekki metin til stiga þar sem kærandi sé á atvinnuleysisbótum og í atvinnuleit. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum séu tekjur kæranda 312.670 kr. og greiði hann 190.000 kr. í húsaleigu en fái 42.931 kr. í almennar húsaleigubætur. Húsnæðiskostnaður kæranda reiknist því 47% af tekjum heimilisins og því sé húsnæðisstaða hans metin til tveggja stiga. Félagslegar aðstæður kæranda hafi ekki verið metnar til stiga þar sem aðstæður væru taldar betri en getið sé um í matsviðmiðunum fyrir sérstakan húsnæðisstuðning.

Með hliðsjón af öllu framangreindu hafi það verið mat velferðarráðs Reykjavíkurborgar að staðfesta bæri synjun þjónustumiðstöðvar um sérstakan húsnæðisstuðning þar sem skilyrði 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning væru ekki uppfyllt. Ljóst sé að ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um sérstakan húsnæðisstuðning, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, né öðrum ákvæðum sömu laga. Því beri að staðfesta ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar í málinu.

IV.  Niðurstaða

Kærð er synjun Reykjavíkurborgar á umsókn kæranda um sérstakan húsnæðisstuðning. Umsókninni var synjað á þeirri forsendu að skilyrði 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning væri ekki uppfyllt.

Í IV. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er að finna almenn ákvæði um rétt til félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga. Þar segir í 12. gr. að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Aðstoð og þjónusta skal jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf, sbr. 2. mgr. 12. gr. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við húsnæðismál, sbr. 1. mgr. 2. gr. Samkvæmt 2. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 skulu sveitarfélög veita sérstakan húsnæðisstuðning í samræmi við nánari reglur sem sveitarstjórn setur.

Reykjavíkurborg hefur sett reglur um sérstakan húsnæðisstuðning í samræmi við 2. mgr. 45. gr. laga nr. 40/1991 til útfærslu á þeirri þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita samkvæmt 45. gr. laganna. Sérstakur húsnæðisstuðningur er fjárstuðningur til greiðslu á húsaleigu umfram húsnæðisbætur sem veittar eru á grundvelli laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur og ætlaður þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og félagslegra aðstæðna, sbr. 1. og 2. mgr. 1. gr. reglna Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning. Í 3. gr. reglnanna er kveðið á um skilyrði fyrir samþykki umsóknar og þarf umsækjandi að uppfylla öll skilyrði sem fram koma í 1.–6. tölul. 1. mgr. ákvæðisins. Þá þurfa skilyrðin að vera uppfyllt á meðan umsækjandi fær greiddan sérstakan húsnæðisstuðning.

Samkvæmt 4. tölul. þarf staða umsækjanda að vera metin til sex stiga, þar af að lágmarki til tveggja stiga hvað varðar félagslegar aðstæður, sbr. matsviðmið í fylgiskjali með reglunum.

Í fyrsta lið matsviðmiðsins er greint frá stigagjöf vegna stöðu umsækjanda; þar segir:

0 stig          Staða umsækjanda er önnur en getið er hér að neðan                                 

2 stig          Örorkulífeyrisþegi með 75% örorkumat                                                      

2 stig          Ellilífeyrisþegi                                                                                              

2 stig          Framfærsla hjá þjónustumiðstöð vegna langvarandi atvinnuleysis eða óvinnufærni

Í öðrum lið matsviðmiðsins er greint frá stigagjöf vegna húsnæðisstöðu umsækjanda; þar segir:

0 stig          Er með húsnæði. Húsnæðiskostnaður að teknu tilliti til húsnæðisbóta er minni en 20% af tekjum heimilisins                 

1 stig          Er með húsnæði. Húsnæðiskostnaður er íþyngjandi; húsnæðiskostnaður að teknu tilliti til húsnæðisbóta er meiri en 20% af tekjum heimilisins           

2 stig          Er með húsnæði. Húsnæðiskostnaður er verulega íþyngjandi; húsnæðiskostnaður að teknu tilliti til húsnæðisbóta er meiri en 30% af tekjum heimilisins                     

2 stig          Óöruggt húsnæði, þ.e. gistir hjá vinum og/eða ættingjum               

4 stig          Gistir í neyðarathvarfi eða á gistiheimili                              

4 stig          Heilsuspillandi húsnæði samkvæmt mati Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur eða húsnæði er sannanlega óíbúðarhæft af öðrum ástæðum og veruleg vandkvæði eru bundin við að finna nýtt húsnæði                     

Í þriðja lið matsviðmiðsins er greint frá stigagjöf vegna félagslegra aðstæðna umsækjanda; þar segir:

0 stig          Aðstæður umsækjanda eru betri en getið er hér að neðan

2 stig          Umsækjandi glímir við félagslegan vanda og hefur fengið umfangsmikinn stuðning þjónustumiðstöðvar, annan en fjárhagslegan, á undanförnum 12 mánuðum

4 stig          Málefni barns hefur verið í umfangsmikilli vinnslu þjónustumiðstöðva á undanförnum 24 mánuðum þar sem barnið hefur fengið bæði aðstoð á grundvelli skóla- og félagsþjónustu eða mál þess verið til meðferðar hjá Barnavernd Reykjavíkur á undanförnum 24 mánuðum.

4 stig          Umsækjandi glímir við fjölþættan vanda og hefur fengið umfangsmikinn stuðning þjónustumiðstöðvar, annan en fjárhagslegan, í að lágmarki 24 mánuði

4 stig          Umsækjandi glímir við alvarleg langvinn veikindi sem hafa veruleg áhrif á fjárhags- og húsnæðisstöðu samkvæmt faglegu mati félagsráðgjafa

Í gögnum málsins liggur fyrir mat á aðstæðum kæranda. Samkvæmt því var húsnæðisstaða kæranda metin til tveggja stiga þar sem húsnæðiskostnaður væri meiri en 30% af tekjum heimilisins. Kærandi var ekki metinn til stiga vegna stöðu sinnar né félagslegra aðstæðna. Kærandi uppfyllti því ekki skilyrði 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. reglnanna. Úrskurðarnefndin telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við stigagjöf vegna stöðu og húsnæðisstöðu kæranda, enda verður að telja ljóst að aðrir liðir matsviðmiðsins eigi ekki við um aðstæður hans. Hvað varðar félagslegar aðstæður kæranda er það mat úrskurðarnefndarinnar að gögn málsins bendi ekki til þess að aðrir liðir matsviðmiðsins eigi við um aðstæður hans. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta hinu kærðu ákvörðun.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 8. júlí 2020, um að synja umsókn A, um sérstakan húsnæðisstuðning, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta