Mál nr. 37/2014
Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík
Þriðjudaginn 16. september 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 37/2014:
Kæra A
á ákvörðun
Reykjavíkurborgar
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R:
A hefur með bréfi, dags. 21. júní 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Reykjavíkurborgar um greiðslu húsaleigubóta, dags. 12. júní 2014.
I. Málavextir og málsmeðferð
Með umsókn, dags. 23. maí 2014, sótti kærandi um húsaleigubætur hjá Reykjavíkurborg. Umsókn kæranda var samþykkt og með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 12. júní 2014, var kæranda tilkynnt að mánaðarleg fjárhæð húsaleigubóta næmi 11.548 krónum. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 21. júní 2014 og með bréfi, dags. 24. júní 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 4. júlí 2014. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. júlí 2014, var greinargerð sveitarfélagsins send kæranda til kynningar og honum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki.
II. Málsástæður kæranda
Af hálfu kæranda kemur fram að hann telji sig eiga rétt á hærri húsaleigubótum. Hann sé í vinnu sem bjóði ekki upp á mikla yfirvinnu en árið 2014 hafi byrjað vel hjá honum þar sem hann hafi fengið mikla yfirvinnu. Yfirvinnan sé óregluleg og því ekki hægt að áætla að allir mánuðir verði eins. Þjónustumiðstöðin hafi eingöngu reiknað húsaleigubæturnar út frá síðustu mánuðum ársins 2014 sem hafi verið mjög góðir hjá honum en einnig hafi hann fengið greitt orlof í maí 2014.
III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar
Í greinargerð sveitarfélagsins er vísað til þess að tekjur kæranda árið 2014 hafi verið 1.714.794 krónur fyrstu fimm mánuði ársins eða 342.958 krónur að meðaltali á mánuði. Því hafi þjónustumiðstöðin áætlað að tekjur kæranda fyrir árið 2014 yrðu 4.110.000 krónur. Húsaleigubætur kæranda hafi verið reiknaðar í samræmi við 3. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 118/2003, sbr. 9. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Reykjavíkurborg verði eðli málsins samkvæmt að styðjast við opinberar upplýsingar úr álagningar- og staðgreiðsluskrá þegar kannaðar séu tekjur og eignir viðkomandi umsækjanda. Ekki sé að finna í lögum eða reglugerð heimild til handa sveitarfélagi að leggja annað sjálfstætt mat á tekjur kæranda en það sem opinberar upplýsingar beri með sér.
IV. Niðurstaða
Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Í máli þessu er ágreiningur um fjárhæð húsaleigubóta til handa kæranda.
Í 1. mgr. 9. gr. laga um húsaleigubætur kemur fram að með tekjum í lögunum sé átt við allar tekjur skv. II. kafla laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Reikna skuli saman samanlagðar tekjur allra þeirra sem lögheimili eigi eða hafi skráð eða fast aðsetur í viðkomandi leiguhúsnæði. Í I. kafla reglugerðar um húsaleigubætur, nr. 118/2003, er kveðið á um fjárhæð og útreikning húsaleigubóta. Í 1. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar kemur fram að grunnfjárhæð húsaleigubóta sé 17.500 krónur á mánuði og til viðbótar komi 15% þess hluta leigufjárhæðar sem liggi á milli 20.000–50.000 króna. Þannig geta húsaleigubætur barnlausra numið að hámarki 22.000 krónum á mánuði. Í 3. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar kemur fram að húsaleigubætur skerðist óháð fjölskyldustærð í hverjum mánuði um 0,67% af árstekjum umfram 2,55 milljónir króna. Þannig lækka mánaðarlegar húsaleigubætur um 6.700 krónur fyrir hverja milljón umfram tekjuskerðingarmörkin.
Samkvæmt gögnum málsins voru húsaleigubætur kæranda réttilega reiknaðar út frá tekjum hans fyrstu fimm mánuði ársins 2014. Kærandi hefur vísað til þess að ekki sé víst að tekjur hans verði jafnháar það sem eftir er ársins vegna óreglulegrar yfirvinnu. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður ekki miðað við annað en raunverulegar tekjur kæranda við útreikning húsaleigubóta. Úrskurðarnefndin bendir á að verði breytingar á tekjum kæranda ber honum skv. 14. gr. laga um húsaleigubætur að tilkynna Reykjavíkurborg þegar í stað um þær breytingar, en samkvæmt ákvæðinu skal bótaþegi tilkynna viðkomandi sveitarfélagi um hverjar þær breytingar á högum sínum og heimilisaðstæðum og öðrum þeim atriðum sem áhrif geta haft á rétt til húsaleigubóta og á bótafjárhæð.
Að teknu tilliti til framangreindra skerðingarákvæða laga um húsaleigubætur og reglugerðar um húsaleigubætur liggur fyrir að útreikningur húsaleigubóta til handa kæranda hafi verið rétt framkvæmdur. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.
Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 12. júní 2014, um greiðslu húsaleigubóta til A er staðfest.
Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður
Arnar Kristinsson
Gunnar Eydal